Kröpp og hraðfara lægð

hirlam_jetstream_2011092800_24_1112049.gifÞær sækja nú á okkur haustlægðirnar hver á fætur annarri.  Víðáttumikil hæð er búinn að hreiðra um sig yfir vestan- og norðanverðu meginlandi Evrópu.  Þegar það gerist verður skotvindurinn í háloftunum meira SV eða jafnvel  S-stæður og liggur hér við land.  Spákort HIRLAM af vef Veðurstofunnar og gildir í kvöld kl. 00, fimmtudag, 29. sept. sýnir þessa stöðu ágætlega. 

Hin almenna staða veðurkerfanna á stórum kvarða hefur í för með sér að á okkar fjörur berast fjöldi lægða af ýmsum stærðum og gerðum.  Kalda loftið í vestri, staðsetning þess og hreyfing til suðurs í veg fyrir mun hlýrra og rakara loftið ræður mestu um dýpt og umfang lægðanna.  Því er spáð að hæðin stóra hörfi heldur til vesturs út á Atlantshafi fljótlega eftir helgi.  Við það breytist veðurlagið hjá okkur.  En fram að því verður mikið að gerast hér í veðrinu, stormasamt og snögg umskipti. 

Lægð dagsins, miðvikudag 28. sept.:  

hirlam_urkoma_2011092806_18.gifKröpp lægð mun strauja vestanvert landið í kvöld og nótt. Henni er spáð því að dýpka nokkuð á ferð sinni yfir landið.  Fyrst A- og NA-átt, ekki svo hvöss og rigning um nær allt land um og upp úr miðjum deginum.  Talsverð rigning austanlands og síðan á Vestfjörðum og þar í grennd.  Gengur þó hratt yfir. 

En það er ekki síður SV-stormurinn í kjölfar lægðarinnar sem rétt að að gefa gaum.  Ef reiknaðar spár ganga eftir er hætt við að foráttuhvasst verði um tíma á Norðurlandi frá því um miðnætti og fram undir morgunn.  Einkum í Húnaþingi, Skagafirði og Eyjafirði vestanverðum.  Þær geta verið varasamar lægðirnar af þessari tegundinni, sérstaklega þegar snýst til  SV- eða V-áttar í kjölsogi þeirra.  Hér getur að líta nýjasta spákort (HIRLAM, af vef VÍ).  Það hefur reiknitíma kl. 06 í morgun og gildir á miðnætti rétt eins og skotvindakortið. Þá er lægðinni spáð 977 hPa við Skaga. Hún er greinilega kröpp og stutt á milli þrýstilína, sérstaklega sunnan hennar.

Fullt tilefni er að fylgjast með framvindu mála og ég kem til með að greina nýjustu spákort hér aftur síðdegis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigrún Björgvinsdóttir

Hvers konar vindur er skotvindur eiginlega?

Sigrún

Sigrún Björgvinsdóttir, 28.9.2011 kl. 09:43

2 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Um skotvindinn hef ég fjallað nokkrum sinnum áður Sigrún.  Sá vindur er háloftavindur með kjarna í um 8-9 km hæð.  Hann hlýkkjast gjarnan umhverfis jörðina á norðuhveli, ekki þó jafngreinilegur alls staðar. Undir skotvindinum er gjarnan talsvert að gerast í veðrinu.  M.a. þess vegna höfum við áhuga á honum.

ESv

Einar Sveinbjörnsson, 28.9.2011 kl. 10:17

3 Smámynd: Sigrún Björgvinsdóttir

Þakka kærlega Einar.

Sigr.

Sigrún Björgvinsdóttir, 28.9.2011 kl. 11:46

4 identicon

Skotvindur ? Þetta hef ég aldrei heyrt. Einar hvað er það sem kallast í veðurlýsingum ,, Annesjum,,? Súld á annesjum,og þessháttar.

Númi (IP-tala skráð) 28.9.2011 kl. 13:30

5 identicon

Númi, veittu því athygli sem Einar kemur inn á þarna að skotvindar (e. jet-stream) eru háloftavindar. Vindhraðinn getur orðið gríðarmikill, en þarna er loft orðið það mikið þynnra, að áhrifin eru talsvert frábrugðin því sem er í vindakerfi niður við jörð. Annes=útnes, þ.e. ystu nes svo sem eins og útverðir Vestfjarðakjálkans, Skagi hér norðanlands, Sauðanes og Siglunes þar austan við o.s.frv.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 28.9.2011 kl. 21:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband