Landið úr lofti 9. desember 2011

9.des 2011.jpgLandið er snævi þakið á þessari áhugaverðu tunglmynd frá því í gær kl. 12:58 og Ingibjörg Jónsdótir á Jarðvísindastofnun HÍ sendi mér.

Þarna er eitt og annað áhugavert. 

Fyrir það fyrsta sér í nýmyndaðan ís um 42 sjómílur norðvestur af landinu.  Yfirborðslög sjávar hafa vitanlega orðið fyrir mikilli kælingu í frostinu að undanförnu.  Fullsaltur sjór frýs þó ekki heldur sekkur og blandast dýpri lögum við kælingu. Hins vegar þegar seltan er komin niður undir 2,5% eru aðrir eðliseiginleikar til staðar og ís getur myndast (ef sjór er mjög lagskiptur getur yfirborðið frosið við hærri seltu).  Þessi nýís er ekki þykkur og annar en hinn eiginlegi hafís.  Hins vegar er fróðlegt nú í framhaldinu að fylgjast með hvernig ferski sjórinn vestur undir "miðlínu" hefur brugðist við í kuldakaflanum.

Fyrir norðan land eru él yfir sjónum og ná þau lítt eða ekki inn á land.  Þessi él voru þeirrar náttúru að myndast í mjög óstöðugu lofti þar sérlega kalt var í um 1.000 til 1.500 metra hæð í gær.  Talsvert snjóaði frá þeim við Eyjafjörð og austur með norðurströndinni.  Allur sá raki var tilkominn við uppgufun úr sjónum hér skammt fyrir norðan. Yfirborð sjávar tapar varma einkum með því móti, þ.e. með uppgufun.

Í þriðja lagi sjáum við að landið er snævi þakið meira og minna allt, síður kannski á Skeiðarársandi. En það er líka eina landsvæðið.  Stóru vötnin þrjú eru ekki enn lögð þrátt fyrir frostið.  Þetta eru: Þingvallavatn, Þórisvatn og Lagarfljót.  Hálslón er komið á ís.  Þessir miklu vatnabolir eru lengi að tapa varma sínum, en það hlýttur að styttast í að þau leggi. Síðast þó Þingvallavatn ef af líkum lætur. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jamm. 

Nú er frost á Fróni.

P.s.  Hvar er lónið við Kárahnjúka????

Voru ekki einhverjir "vitringar" sem kalla sig umhverfisverndarsinnar búnir að segja að búið væri að drekkja öllu hálendinu?

Björn H. Hauksson (IP-tala skráð) 10.12.2011 kl. 12:18

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Tók einmitt eftir þessu, með vötnin þrátt fyrir hið mikla frost að undanförnu. Mývatn hefur þó lagt, enda langmesta frostið þar,

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.12.2011 kl. 12:33

3 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Er ekki ský á því svæði?

Höskuldur Búi Jónsson, 10.12.2011 kl. 15:50

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Jú, það gæti verið skýringin

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.12.2011 kl. 16:03

5 identicon

Skemmtileg mynd og gaman að skoða hana. Mér sýnist nú reyndar Kleifarvatn og Skorradalsvatn, auk Jökulsárlóns og Hóps vera ólögð. Þá virðist líka grilla í Hestvatn.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 10.12.2011 kl. 18:57

6 identicon

Úr hve mikilli hæð er þessi mynd tekin Einar?

Carl Jóhann Lilliendahl (IP-tala skráð) 11.12.2011 kl. 11:42

7 identicon

Takk fyrir þessa frábæru mynd og fyrir að vekja athygli á fegurð lands og náttúru.

Þú segir á einum stað: „Hálslón er komið á ís“. Á þetta ekki að vera öfugt: Ís er kominn á Hálslón?

B.kv.

Örn B

Örn B Jónsson (IP-tala skráð) 11.12.2011 kl. 14:09

8 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Carl Jóhann, það tók mig örfáar sekúndur að komast að því að þessi mynd er tekin úr gervitungli í 705km hæð.

Slíkur er máttur internetsins.

Guðmundur Ásgeirsson, 11.12.2011 kl. 14:14

9 identicon

Já, eins og síðuhaldari segir er Hálslón ísilagt.

En finnst fólki ekki vötn vera falleg?

Ætli einhver vildi að Þingvallavatn yrði þurrkað upp og landið undir því endurheimt?

Þingvallavatn er mun stærra en Hálslón við Kárahnjúka og ég er viss um það að með tímanum muni fólki finnast Hálslón og svæðið þar í kringt vera fallegt vatnasvæði líkt og Þingvallavatn sem varð til fyrir um 7.500 árum síðan.

Björn H. Hauksson (IP-tala skráð) 11.12.2011 kl. 17:40

10 identicon

Flott mynd !!

En varðandi annað sem ekki tengist þessari mynd beint þá langaði mig að benda á þær miklu hitasveiflur sem hafa urðu á veðurstöðinni á Sauðárkróksflugvelli en kl. 12 á hádegi í gær var rúmlega - 20 en kl. 10 í morgun var komin rúmlega 5 stiga hiti, væri gaman að heyra skýringar á því hvers vegna þetta gerist.

Óli Ingi (IP-tala skráð) 11.12.2011 kl. 17:54

11 identicon

Sæll..

Skemmtileg mynd, en ég var að velta fyrir mér einu. Nú er verið að ræða um að meðalhiti í heiminum fari hækkandi um 2-3 gráður. Gætiru sagt mér hvaða þjóð í dag er með 2-3 gráðu meiri meðalhita en við. Væri þá hægt að segja að þannig loftslag kæmi til Ísland, ef af verður ?

Stefán Arnar (IP-tala skráð) 13.12.2011 kl. 00:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 8
  • Sl. sólarhring: 14
  • Sl. viku: 74
  • Frá upphafi: 1786253

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 67
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband