22.12.2011
Aðfangadagslægðin
Við erum að kvöldi 22. desember stödd í syrpu þriggja lægða sem kenna má við vetrarsólhvörf. Þessi syrpa er dálítið sérstök fyrir þær sakir að lægðirnar dýpka ört hér við land og ná ekki fullum vexti fyrr en þær eru komnar norðaustur í höf.
Þær skjóstast sérlega hratt yfir og því nær vindur sér ekki upp, nema þá í skamma stund í senn. Algengar er að lægðir sem koma hver á færur annarri séu orðnar dýpri og farnar að hægja á sér hér við land. Þá verður stormasamara. Slíka eftirminnilega keðju óveðra fengum við t.a.m. um miðjan desember 2007 með nokkru tjóni á landinu.
Lægðin er nú 999 hPa skammt undan Nýfundnalandi heldur sakleysisleg að sjá. Við höfum hana á korti (1) HIRLAM kl. 21 í kvöld af vef VÍ.
Tunga af hlýju lofti teygir sig úr suðri í áttina að lægðarmiðjunni. Í norðvestri bíður mun kaldara loft átekta. Dýpkunarferlið hefst þegar hlýja loftið úr suðri nær að keyra vel í veg fyrir það kalda. Bylgjudalur í skotvindinum upp í um 8 km hæð hjálpar til við það. Hann smá sjá á næsta korti.
Bylgjudalur í vestanvindi háloftanna í 300 hPa þrýstifletinum berst yfir lægðarsvæðið seint í nótt, en kortið (2) gildir kl. 06. Rétt austan við dalinn kemst kraftur á uppstreymi heita loftsins sem um leið nær að flæða yfir það kaldara. Loftrýstingsfall verður í miðju sem dregur við það enn frekar kalt loft úr norðvestri inn undir það hlýja sem við það rís og svo koll af kolli. En háloftavindurinn er svo hvass að hin vaxandi lægð hreyfist hratt í áttina til okkar.
Næsta spákort (3) gildir kl. 06 á aðfangadag. Þá er lægðinni spáð við Reykjanes um 960 hPa og enn í foráttuvexti. Eins og sjá má fylgir henni mikil úrkoma, rigning eða slydda á láglendi, mest um sunnanvert landið. Vindur er oftast hvass umhverfis lægðir af þessari tegundinni einkum sunnan og austan miðjunnar á undan skilunum (úrkomusvæðinu).
Síðasta spákortið (4) gildir kl. 18 á aðfangadagskvöld. Þá verður lægðarmiðjan komin norðaustur fyrir land um 946 hPa. Hefur sem sagt dýpkað um 14 hPa á leið sinni frá um morguninn yfir landið. Meginskilin komin yfir, en þau afturbeygðu í kjölsoginu herja á norðaustanvert landið gangi þessi spá eftir. Jafngott að lægðin verði enn á þessum tíma á ákveðinni ferð frá landinu. Boðar sjaldnast neitt gott að hafa svo djúpa lægð á hringsóli við Langanes.
En vissara er að fylgjast vel með gangi máli og ferill þessarar skeinuhættu miðju má ekki hnikast mikið, þannig að veður verði með talsvert öðrum hætti en þessir úrtreikningar sýna. Þó virðast stærstu drættir þessarar þróunar að verða nokkuð áreiðanlegir.
(Öll kortin hér eru úr líkani HIRLAM, reiknuð kl. 18, 22. des. og fengin af vef Veðurstofunnar)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 9
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 59
- Frá upphafi: 1788777
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 55
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 7
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Takk fyrir að setja þetta upp, Einar. Þetta er mjög fræðandi dæmi. Þarna á háloftakortinu má sjá nokkuð sem kalla má tvöfaldan skotvinda útstreymi "double jet driven divergence".
Fyrir þá sem eru ekki veðurfræðingar vil ég útskýra það pínulítið. Til þess að lægðir geti dýpkað, það er að þrýstingur við sjávarmál lækkar þarf að létta á fargi loftsins ufir lægðinni. Ef loftið fyrir ofan lægðina leitar í burtu "divergence" (kannski vill einhver góður maður segja mér hvað "divergence" er á íslensku, kansski útstreymi?), þá lækkar þrýstingur við yfirborðið vegna þess að loftfargið minnkar.
Skotvindur hefur inn og útgang, "entrance and exit". Við inganginn hraðar loftið á sér en hægir á sér við útganginn. Við hlýja inganginn, "equatorward entrance" er útstreymi í háloftunum og þrýstingur lækkar því við yfirborðið. Sömu sögu er að segja um kalda útganginn, "poleward exit". Þar er einnig útstreymi í háloftunum og þrýstingur lækkar við yfirborð.
Á 300hPa kortinu eru tveir skotvindar. Svæðið þar sem kaldi útgangur eins skotvindsins (sem liggur yfir Kanada) og hlýji ingangur hins (sem liggur rétt sunnan Grænlands) liggja saman er kjörland fyrir öra dýpkun lægða. Þess vegna kemur ekki á óvart hvað þessi ætlar að dýpka mikið og búist er við stormi á öllum miðum og djúpum...
Ég læt þetta nægja, en þeim sem vilja öðlast meir skilning á þessu vil ég benda á að googla "poleward equatorward jet entrance, exit divergence" og "ageostrophic theory"
Til dæmis: http://tinyurl.com/bq6wczv
Gleðileg Jól.
Hörður Þórðarson, 23.12.2011 kl. 10:26
hvað verður þetta lengi að ganga yfir hér fyrir Austan
Einar Bragi Bragason., 23.12.2011 kl. 13:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.