Ekki meira fannfergi í Reykjavík í rúman áratug

snjomokstur_1.jpgÞessi kafli með samfelldum snjó suðvestanlands er þegar orðinn allóvenjulegur. Það tók upp á aðfangadag (þá voru reyndar talsverð svellalög). Annars hefur jörð verið talin snævi þakin frá 25. nóvember. 

Segja má með nokkurri vissu að ekki hafi verið svo snjóþungt í Höfuðborginni í rúman áratug, en veturinn 1999-2000 þótti snjór með meira móti.  Þá var alhvítt 6.febrúar til 17. mars og snjódýptin var þá mest 28 sm (27. febrúar). Í desember þann vetur var snjór yfir lengst af nema í um vikutíma um jólin. 

Nú er hins vegar mun meiri snjór en var þá og leita þarf aftur til ársins 1984 til að finna álíka snjóþungan desember og nú.  Samanburður í þessum efnum er ekki auðveldur og ég kynni til sögunnar síðar í dag nokkurskonar snjóvísitölu sem tekur bæði mið af fjölda alhvítra daga og mældri snjódýpt.

Segja má að undanfarna vetur hafa verið óvenju snjólétta á þessum slóðum.  Hins vegar hafa komið stuttir kaflar einkum fyrir norðan og austan með nokkru fannfergi og í því efni skemmst að minnast ófærðar samfara því sem snjó kyngdi niður á Akureyri um þetta leiti vetrar fyrir tveimur árum (snjódýpt 76 sm, 29. des 2009). Vestur á fjörðum hefur hins vegar vart komið snjór sem nokkru nemur í fleiri ár. 

Suðvestanlands er óhæt að fullyrða að eldri ökumenn eru komnir úr allri æfingu við akstur í þeirri ófærð sem nú er.  Yngri ökumenn þekkja aðstæðurnar illa eða alls ekki.  Eftir hagfellda vetrartíð suðvestanlands  í allmörg ár eru líka fleiri ökutæki vanbúin til að komast í gegn um þæfinginn heldur en var hér fyrir 20 til 30 árum þegar fjórhjóladrifsbíll þótti sjálfsagður fyrir búsetu í Árbænum eða í Breiðholti sem þá voru efstu byggðir Höfuðborgarsvæðisins. Þetta var gullaldartími Lödu Sport jeppanna og fjórhlóladrifinna Subaru-jálkanna árunum upp úr 1980.   

(myndin er fengin af ruv.is)

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er ekki rétt Einar ! Eldri ökumenn kunna enn að aka í snjó og ófærð. Þetta er eins og að hjóla, hafir þú einu sinni lært að hjóla, þá gleymist það aldrei. Ég mótmæli þessari fullyrðingu fyrir hönd okkar eldri og  reyndari  ökumanna.

steinar gunnarsson (IP-tala skráð) 29.12.2011 kl. 11:52

2 identicon

Mótmæli því líka að fjórhjóladrifinn bíll hafi verið nauðsynlegur til búsetu í Breiðholtinu fyrir 20 - 30 árum.  Þá komumst við hjónin allra okkar ferða ´þaðan vestur í bæ og til baka daglega á Fiat 128 - framhjóladrifnum að vísu. En við kunnum þá og kunnum enn að aka í vetrarfærð :)  - En annars kærar þakkir fyrir góða og skemmtilega vefsíðu.

Sigrún (IP-tala skráð) 29.12.2011 kl. 13:15

3 identicon

Sæli nú. Reyndar hefur snjódýpt í veðurstofureit ekki orðið minni en 7 cm í des og í morgun það mesta til þessa nær 33 cm. alltaf hefur verið alhvítt. það má kenna reynsluleysi athugunarmanna um að skráning er aðeins á reiki. Hvergi hefur tekið snjó af grasflötum en nokkra daga urðu stéttar og brautir auðar.

Of mælt er að tala um æfingarleysi ökumanna á höfuðborgarsvæðinu. Ekki er hægt að týna niður kunnáttu sem aldrei var fyrir hendi. Það var jafn mikill viðburður fyrir 30 árum og nú að mæta ökumanni hér á götum sem kunni eitthvað fyrir sé í snjóakstri.

Til árs og friðar.

elvar (IP-tala skráð) 29.12.2011 kl. 13:23

4 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Líkast til var það nokkrum árum fyrr sem Volkswagen Bjalla þótti besti fjölskyldubíllinn í snjónum og átti þátt í miklum vinsældum þeirrar tegundar.

Elvar segir að það hafi verið alhvítt að morgni aðfangadags.  Ef Elvar hér að ofan er sá sami og þekkir vel til mælareitsins á Veðurstofunni væri ágætt að fá það staðfest hver skráninging hafi verið og þá einnig ef villa hefur slæðst í skeytið.

ESv

Einar Sveinbjörnsson, 29.12.2011 kl. 13:42

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hlakka til að sjá snjóvísitöluna. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 29.12.2011 kl. 16:27

6 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

Ég festi hrísgrjónavagninn í morgun, í Breiðholtinu. Í fyrsta sinn síðan veturinn 2004-2005. Þá reyndar uppi í Borgarfirði.

Brjánn Guðjónsson, 29.12.2011 kl. 17:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.5.): 10
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 65
  • Frá upphafi: 1786798

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 63
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband