Leysingin væg - ekki asahláka

screen_shot_2012-01-06_at_8_13_44_am.pngSkilin með úrkomu sem gengu yfir suðvestanvert landið í nótt ollu talsverðri ófærð í efri byggðum á Höfuðborgarsvæðinu eins og það er kallað.  Talsverð hríð var því laust fyrir kl. 11 í gærkvöldi fram undir kl. 04 að það hlánaði og fór í slyddu og rigningu þær u.þ.b. eina til tvær klukkustundir áður en veðraskilin fóru hjá.  Þetta má sjá á meðfylgjandi línuriti sjálfvirku stöðvarinnar í Reykjavík (við Veðurstofunnna).  Efra ritið sýnir hita (neðri línan - daggarmark).  Við sjáum að hitinn er rétt um frostmark frá því í gærkvöldi og þar til upp úr kl. 04 að það tekur að hlýna nægjanlega til að fá bleytu í úrkomuna.  Neðra ritið sýnir uppsafnaða úrkomu.  Sjá má að upp úr kl. 05 stytti upp. (Myndin er af vef VÍ)

Meginhluti úrkomunnar féll því sem snjókoma, en minnihluti sem slydda eða rigning. Blotinn telst því vægur, en ég heyri í fréttum RÚV að nú sá komin asahláka. Fleiri sá eg að voru að tala um veðrið á þessum nótum í gær.  Ég hef áður bent á og fjallað um varasemi þess að gengisfella lýsandi hugtök sem mikilvægt er að geta  gripið til þegar á þarf að halda.

Dæmi:  Hitabylgja, ofsaveður, hörkugaddur, stórhríð, steypiregn og asahláka.  

Í stuttu máli má segja að asahláka sé ákveðið leysingarveður þar sem saman fer talsverð  rigning í hita a.m.k. 4°C, saman með hvassviðri ofan í snjó sem fyrir er. Í nótt féll meginhluti úrkomunnar sem nýr snjór og hláka með rigningu sem orð var á gerandi kom aðeins rétt í lokin.  

Það er síðan annað mál að við megum ekki við neinu vatni sem heitið getur eftir þessa tíð.  Klakinn sem fyrir drekkur ekki í sig vætunna eins og nýrri snjór gerir og er ekki  ummyndaður eða harðpakkaður.  Vatnið rennur á klakanum, sem aftur stíflar niðurföll og aðra vatnsfarvegi.

Síðan þarf ekki nema mjög vægan blota til að framkalla flughálku á vegum.  Væga leysingin er í því tilliti bara verri, af því að asahláka væri líklegri til að leysa burtu klakabrynjuna sem víða hefur safnast á vegi landsins.   

Næsta lægð sem væntanleg er á sunnudag gæti hins vegar borið með sér heldur meiri hlýindi og stærri hluta úrkomunnar sem rigningu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Ég verð einnig oft hugsi yfir orðinu snjóstormur - sem virðist oft vera bein þýðing úr ensku snow storm (hríð eða bylur). Ég er farinn að heyra það ansi oft hjá ungu fólki - ætli það orð sé að festast í vitund manna hér á landi og eigum við að sætta okkur við það?

Svo vil ég minna fjölmiðlamenn (ef þeir lesa þetta) að það er mikill munur á annars vegar hvirfilbyl/skýstrók (tornado) og hins vegar fellibyl (hurricane/typhoon/tropical cyclone).  

Höskuldur Búi Jónsson, 6.1.2012 kl. 11:16

2 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Rétt Höskuldur !

Snjóstormur er bein þýðing úr ensku og ekki til hér. Sést helst í fréttamiðlum þegar þýddar eru fréttir af vetrarveðri, sérstaklega vestanhafs.  Stórhríð nær þessu ágætlega, líka bylur eða þá snjóbylur.  Snowstorm er þar fyrir utan sérstakt veðurfyrirbæri og fylgir vetrarveðráttu á víðáttumiklum meginlöndum. Það er t.a.m. nánast óþekkt á Bretlandseyjum og uppruni merkingarinnar því ekki þaðan þykist ég vita. 

Þá er í seinni tíð farið að nota samsetninguna stormél yfir útsynningsveðráttu þegar vindur nær stormstyrk (um 20-21 m/s í éljunum).

ESv

Einar Sveinbjörnsson, 6.1.2012 kl. 11:40

3 identicon

Tek undir með félaga Höskuldi Búa Strandamanni. Fjölmiðlar eiga hér nokkurn hlut, en amerikaniseringin á öllum hlutum líka. Af því Einar nefnir stormél, þá dettur mér í hug að ég hef orðið var við það að yngra fólk sérstaklega er búið að skipta um kyn á élinu. Nú er nokkuð um að talað sé um élar! Þ.e.a.s. orðið komið í kvenkyn í stað hvorugkyns. Ég gef mér að fólk sé að horfa til vélanna og telji að þessi tvö orð eigi að meðhöndlast eins. Sama hefur þegar gerst með snjóföl. Þegar ég var ungur var held ég eingöngu talað um föl í hvorugkyni, en nú þekkist varla annað en tala um fölina, þ.e. í kvenkyni. Þar var það mölin, sem var viðmiðið skilst mér. Samkvæmt málfróðum vísindamönnum er þetta þróun málsins.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 6.1.2012 kl. 13:22

4 identicon

Var að uppgötva bloggið þitt. Þetta er alvörublogg. Verð hér reglulega. Þakkir.

Magnús (IP-tala skráð) 6.1.2012 kl. 14:02

5 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég hnaut líka um þessa asahlákufrétt. Hún er úti um allt. En það er því miður engin asahláka. Hins vegar er þegar búið að gengisfalla ýmis lýsandi veðurhugtök. Það er fyrst og fremst sök fjölmiðla. Og ég er ekki bjartsýnn með að þessari þróun verði snúið við. Þetta er ekki málfræðilegt fyrst og fremst heldur gera fjölmiðlar sér ekki grein fyrir eðli þeirra veðurhugtaka sem þeir eru að nota. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 6.1.2012 kl. 15:54

6 Smámynd: Magnús Óskar Ingvarsson

Élar er fyrirbæri sem ég haf aldrei heyrt talað um. En það er annað orð sem hefur tilhneigingu til að skipta um kyn í munni margra. Þar sem ég ólst upp var veðurfyrirbærið skúr alltaf í kvenkyni. Nú heyrir maður oft í veðurspám þetta orð haft í karlkyni. En í mínu máli er þá verið að tala um einhverja byggingu, sem er smærri en hús. T.d. bílskúr, verkfæraskúr.

Magnús Óskar Ingvarsson, 6.1.2012 kl. 19:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 1788783

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband