11.7.2012
Enn sól - hlýjast í Hrútafirði
Að loknum mörgum dýrðar veðurdögum á ferðalagi um landið er mál að linni og tími til kominn að uppfæra veðurbloggið.
Æði margt frásagnarvert hefur á daga okkar landsmann drifið síðustu tvær vikurnar, allt sólskinið, úrkomuleysið o.s.frv.
Enn einn sólardagurinn á landinu í dag 11. júlí eins og MODIS myndin frá kl. 13 sýnir mæta vel. Það mótar líka vel fyfir hafísnum sem verið hefur að færast nær undan Vestfjörðum.
Hlýjast í dag var í Ásgarði í Dölum 20,3°C og álíka hlýtt eða 19,9 á Reykjum í Hrútafirði. Einhverntímann hefði það þótt saga til næsta bæjar að hvað hlýjast um mitt sumar væri við Hrútafjörðinn (Ásgarður er nú einu sinni staðsettur rétt handan Hrútafjarðar)*. En þetta er kannski dæmigert fyrir hið sérkennilega ástand sem nú er í veðrinu.
Miðja háþýstisvæðis var svo að segja yfir miðju landinu í dag. Þegar þannig háttar til er niðurstreymi lofts hið efra loftið stöðugt og bólstraský í mótun vegna uppstreymis rekast upp undir niðurstreymissvæðið og þau koðna því niður. Því fannst mér nokkuð sérkennilegt að heyra stöðugt klifað á því í veðurspám frá Veðurstofunni í dag að líkur væru á síðdegisskúrum suðvestanlands. Lítið var hins vegar um ský utan klósiga eða slæða af hæstu skýjum. Þó kann að hafa gert skúr innst í botni Hvalfjarðar, en þar mátti sjá greinilegan bólstur og mögulega úrkomu á veðurratsjánni.
Þessi hæð yfir landinu er nokkuð óvenjuleg að því leyti að hún á rót sína í háþrýstingi yfir Grænlandi. Þar er aldrei þessu vant ekki kalt, heldur sérlega hlýtt í lofti, eiginlega óvenjulega hlýtt þar sem í 1.500 metra hæða er víða 5 til 8°C. Hitastigullinn í þeirri hæð er öfugur, þ.e. sá hiti er fyrir norðan og norðvestan Íslands, en til suðurs kólnar niður fyrir 0°C í þessari hæð skammt suður af Íslandi. Þetta sést ágætlega á greiningarkorti 850 hPa flatarins frá GFS sem fengið er af Wetterzentrale. Sólin bakar líka strendur Grænlands og nú síðdegis var hitinn mældur 21°C á flugvellinum í Syðri Straumsfirði á V-Grænlandi (67°N).
*Svo ekki sé hallað réttu máli verður oft á tíðum hvað hlýjast á landinu við hinn svala Hrútafjörð og Húnaflóa að haustinu í SA-átt með úrhelli suðaustan- og austanlands.
Flokkur: Veðuratburðir hér og nú | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 8
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 58
- Frá upphafi: 1788776
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 54
- Gestir í dag: 8
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það einkar athyglisvert að sólin fer alltaf í frí um helgar.
Undanfarna laugardag og sunnudaga hefur sólin svo til horfið og rigningin komið í staðinn.
Örn Jónasson (IP-tala skráð) 12.7.2012 kl. 00:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.