14.7.2012
Veðrabrigði í komandi viku ?
Ýmislegt virðist benda til þess að straumhvörf í veðrinu gætu verið í vændum upp úr miðri næstu viku. Frá því í endanðan maí hefur tíðarfarið einkennst af lítilli úrkomu, háum loftþrýstingi sem afleiðingu af hæðarsveigju í háloftastraumnum fyrir vestan landið og yfir Grænlandi. Straumurinn hefur oft á tíðum einkennst af fyrirstöðuhæð einmitt yfir Grænlandi en með þeim berst hlýtt loft langt úr suðri eða jafnvel suðvestri án þess að endilega fylgi með úrkoma að ráði. Þannig hafa borist af því fréttir síðustu daga að ægileg leysing hafi verið ofan af Grænlandsjökli og í SUMMIT búðunum í rúmlega 3.000 metra hæð hafi hitinn komist í 2°C sem þykir með hálfgerðum ólíkindum svo hátt uppi. Sjá nánar hér.
Reyndar vilja sumir halda því fram að þessi óvenjulega veðrátta hafi hafist snemma í apríl, en þá strax varð úrkoma greinilega undir meðallagi og loftþrýstingur jafnframt í hærra lagi eftir að fyrstu þrír mánuði ársins höfðu einkennst af mikilli úrkomu, snjó til fjalla og sélega lágum meðalloftþrýstingi þar sem SV-rosar voru áberandi.
En hvað um það mestu skiptir hvað segja má um næstu daga. Stóru spálíkönin gera nú bæði ráð fyrir því að hæðarsveigjan í háloftastraumnum koðni niður. Bandaríska líkanið gerir ráð fyrir því á miðvikudag eða fimmtudag í komandi viku, en spá ECMWF frá Reading einum til tveimur dögum síðar. Sú frá Washington hefur síðustu daga verið ákveðnari í straumhvörfum háloftanna en sú evrópska, sem engu að síður er nú farin að fylgja hinni í humátt.
Ef þetta gengur eftir fer loftþrýstingur lækkandi, loft berst frekar úr suðri og suðvestri yfir landið. Lægðir gerast jafnframt nærgöngulli og það sem mestu skiptir að um vestanvert landið fer að rigna. Ef sú bandaríska reynist sannspá má gera ráð fyrir vætu strax á fimmtudag og flesta daga í einhverjum mæli með lægðum úr suðvestri upp frá því.
Rétt er þó að taka fram af fenginni reynslu, að ansi oft hefur maður séð breytingar í reiknuðum spám á 6. til 8. degi og þær ganga eftir, en tregðan er svo mikil að fyrri staða nær yfirhöndinni á nýjan leik fljótlega í kjölfarið.
Spákortin hér að neðan eru fengin úr keyrslu GFS frá kl. 18 á laugardag. Það til vinstri gildir aðfararnótt mánudags, en til hægri aðfararnótt föstudags. Þau sýna hæð 500 hPa flatarins eða í um 5,5 km hæð ásamt þykktinni sem eru lituðu fletirnir. Þykktin er góð vísbending um loftmassahitann. Ísland er á miðri mynd og ekki þarf að horfa lengi á til að sjá að á milli þessara veðurkorta er himinn og haf hvað okkur varðar (og reyndar mest allt Grænland einnig). Förum úr hæðarsveigju í lægðabeygju.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 9
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 59
- Frá upphafi: 1788777
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 55
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 7
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.