Kollsteypa fyrirsjáanleg í veðrinu

Nokkuð stórt og ákveðið að tala um kollsteypu í veðrinu á miðju sumri, en ég held að fullt tilefni sé til þess að grípa til slíkra orða eftir blíðuna að undanförnu.

Höfum hugfast að undanfarnar vikur er veður búið að vera sérlega hæglátt og stöðugt.  Sérlega lítil úrkoma eins og við vitum mæta vel og hlýtt í seinni tíð þó næturfrost hafi verið að hrella suma framan af. Þessu hefur valdið nokkuð viðvarandi hæðarsvæði eins og ég hef marg oft getið um áður og hefur hún haft viðveru lengst af fyrir vestan land eða við Grænlandi.  Kalt loft hefur borist til suðurs fyrir austan land og yfir Bretlandseyjar og N-Evrópu á sama tíma og í veg fyrir það grunnar lægðir með raka af Atlantshafinu.  Þar því verið bæði óvenju úrkomusamt, en líka fremur kalt fyrir sumarið.

ecm0125_millikort_mslp_10uv_850t_6urk_2012071812_084.jpgEn nú gera spár ráð fyrir að þessi staða umturnist og í stað nokkuð stöðugs háþrýstings hér við land (sem reyndar hefur farið lækkandi frá síðustu helgi), dýpki lægð frá Nýfundnalandi og Kanada yfir Atlantshafinu og stefnir hún nokkurn veginn á landið um helgina.  Ekki nóg með það að um lægð sé að ræða heldur er henni spáð með einni þeirri mestu dýpt sem sést hefur í júlí hér við norðanvert Atlantshafið eða um 965 hPa suðvestur af landinu snemma á sunnudag Trausti Jónsson spurði  sjálfan sig á dögunum hvort eitthvað gæti verið að marka þennan "skarkala" í spánum, en síðan þá hafa útreikningarnir bara verið að styrkja sig í sessi. 

Til að setja þetta í samhengi er lægsti mældi loftþrýstingur í júlí á Íslandi 974 hPa og það var árið 1901. Við verðum að hafa í huga að djúpra lægða er síst að vænta í júlí og um mitt sumarið er loftþrýstingur hvað stöðugastur frá einum degi til annars.  Það breytist hins vegar í ágústlok eða septemberbyrjun með komu haustlægðanna.  Þessi sem nú er í vændum líkist einna helst slíkri án þess þó að vera haustlægð í eðli sínu.  Hún verður þó til fyrir samspil háloftakulda við NA-Kanada og hlýs lofts yfir Atlantshafinu.  Miðju lægðarinnar er þó ekki spáð beint yfir landið heldur hér sunnan við.  Góðar líkur eru á því að einhverjar veðurstöðvar sunnanlands komi til með að mæla undir 980 hPa seint á sunnudag og fram á mánudag, jafnvel niður undir 975 hPa.

En hvað þýðir þetta fyrir veðrið hjá okkur ?  Jú skil lægðarinnar munu ganga yfir með SA-strekkingi og jafnvel hvössum vindi (vindhraðinn með þessu er enn sem komið er nokkuð óráðinn).  Þau mun vera á ferðinni seint á laugardag og fram á sunnudag og með þeim rignir um land allt, minniháttar þó norðaustantil.  Úrkomumagnið gæti víða orðið 20-25 mm víða frá laugardagskvöldi og fram á mánudagsmorgunn.  Dágóð gusa það ofan í skraufþurran svörðinn og ekki mun veita af, sums staðar vitanlega meira og annars staðar minna eins og gengur.  20 mm eru svo sem engin ósköp þannig lagað séð í úrkomu, en fyrir tjaldbúa og aðra þá sem hyggja á útiveru jafngildir magnið eins og hellt væri hægt og rólega úr 20 mjólkurfernum á hvern fermetra lands. 

Eins og oft er með dýpri lægðir á ferð austur eða norðaustur með landinu snýst að lokum til NA- og N-. vinda. Með þeim er reiknað með eftir helgina, á mánudag og þriðjudag.  Gæti orðið nokkuð vindasamt um tíma, en vitanlega enn of snemmt að fullyrða nokkuð um það enn.  Hins vegar kólnar og gerir kalsa um norðanvert landið ef svo fer sem horfir.  Það telst til láns hins vegar að ekki er mikið um kalt loft norðurundan, en sjórinn er vitanlega kaldur lengra í burtu og hafís til staðar sem mótar lofthitann djúpt í norðri og norðvestri.  Farið gæti svo að það snjóaði í fjöll norðan- og austantil og einkum þá hærri fjöll og þá vætanlega á þriðjudag.

Við sjáum hvað setur og fylgst verður náið með framvindu mála næstu daga.

Kortið sem hér fylgir er spákort ECMWF og gildir kl. 00 á sunnudag og fengið af Brunni VÍ.  Reiknað kl. 12 á miðvikudag.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Og svo verður Kötlugos!

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.7.2012 kl. 00:57

2 Smámynd: Sigurpáll Ingibergsson

Man eftir leyfunum af fellibylnum Bertu 21. júlí 2008 en þá ringdi heil ósköp og rok nokkra daga á eftir. Man þetta vel, enda í sumarfríi. Slær þess restum afi Bertu út?

Sigurpáll Ingibergsson, 19.7.2012 kl. 11:28

3 identicon

Andsk....og ég sem er á leið austur í frí! En jæja...hef bara nóg að lesa með mér ;)

Guðný Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 19.7.2012 kl. 12:22

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Í kjölfar Bertu kom svo reyndar einvher mesta hitabylgja sem komið hefur með methita i Reykjavík.

Sigurður Þór Guðjónsson, 19.7.2012 kl. 16:38

5 identicon

Dæmigert svartsýnis framsóknar raus.

Krímer (IP-tala skráð) 19.7.2012 kl. 23:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 48
  • Frá upphafi: 1790122

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 45
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband