Lítil úrkoma hefur leitt til ofþornunar jarðvegs í sumar

Fróðlegt væri að reyna að leggja mat á það hversu jarðvegur hefur náð að þorna nú í sumar í þurrkatíðinni með þeirri afleiðingu að lággróður og ræktaðar nytjajurtir eru sums staðar við það að skrælna þar sem ekki hefur verið hægt að koma við vökvun.

Fyrst skal samt hafa í huga að fyrstu þrjá mánuði ársins var úrkoma mjög mikil og ætla má að á flestum stöðum hafi jarðvegur verið vatnsríkur og jafnvel vatnsmettaður þegar gróður fór að taka við sér. Til einföldunar ætlum við að það hafi verið um miðjan maí.

Á grónu landi og annars staðar þar sem jarðvegur er það sem er kallað vatnsheldinn hefur hann af miklum raka að miðla eftir leysingar vorsins til upp- og útgufunar plantna, jafnvel þó lítið sem ekkert rigni framan af sumri.

Morgunblaðið/Kristján Jónsson.jpgUppgufun vatns er lítil framan af vori, en eykst mjög með hækkandi sól og sérstaklega eftir að vöxtur hleypur í gróður. Greint er á milli beinnar uppgufunar (e.evaporation) og útgufunar sem á sér stað um plöntur (e.transpiration). Gnóttargufun (e.potential evapotranspiration) er samanlögð upp- og útgufun út frá þeirri forsendu að nægjanlegt vatn sé ætíð til staðar í jarðvegi. Raunuppgufun (actual evapotranspiration) er síðan breytileg allt eftir rakanum í jarðvegi hverju sinni. Markús Á Einarsson mat gnóttargufun í Reykjavík á sínum tíma út frá reiknaðri sólgeislun og veðurgögnum frá árunum 1958-1967[1]. Yfir vetrarmánuðina eða frá október fram í apríl er reiknuð gnóttargufun í Reykjavík innan við 0,5 mm á dag. Í júní og júlí þegar sól er hæst á lofti og gróður í vexti er gnóttargufunin reiknuð vera um 3,1 mm á dag, en 2,3 mm í ágúst. Um hásumarið má því ætla að raungufun geti samsvarað um 80-90 mm mánaðarúrkomu sé þurrkur ekki hamlandi. Raunuppgufunin hins vegar hefur einnig verið metin á landgræðslusvæðum yfir sumartímann fyrir eitt tiltekið sumar  fyrir rúmlega 20 árum (1991)[2]. Reyndist raunuppgufun vera um 1 mm þá daga sem engin úrkoma var, en raungufun fór nær 3 mm á úrkomudögum. Sú niðurstaða kemur heim og saman við reikninga Markúsar Á. Einarssonar um gnóttargufun.

Frá 15 maí – 17. júlí hefur úrkoma mælst 33,6 mm í Reykjavík og 17,9 mm á Akureyri.  Um 180 mm hefði hins vegar þurft til þess að viðhalda vatnsraka í jarðvegi miðað við grunnstöðu 15. maí.  Auðvitað er það svo að jarðvegurinn miðlar heilmiklum raka eftir veturinn og af þó nokkru að taka.  Sums staðar háttar líka þannig til að miðlar leysingarvatni frá bráðnandi snjó á fjöllum fram eftir öllu sumri.   Á Vestfjörðum og Mið-Norðurlandi held ég t.a.m. að nokkuð mikill snjóalög í vetur  hafi bjargða jarðvegi einhvers staðar frá mesta þurrknum.

Vorið og sumarbyrjunin (maí og júní) er þurrasti árstíminn um land allt. Uppsöfnuð úrkoma sumarmánaðanna júní, júlí og ágúst er yfirleitt um 20% heildarúrkomu ársins. Sumarúrkoma er meiri hlutfallslega þar sem skúraleiðingar eru algengar að sumri. Dæmi um slíka staði er Norðurhálendið og Suðurland, sérstaklega við hálendisbrúnina. Þáttur síðdegisskúra er yfirleitt minni við sjávarsíðuna en inn til landsins. Það er þó ekki einhlítt.

Ætla má að mánaðarúrkoma að sumarlagi megi ekki vera minni en um 30 mm til að viðhalda raka í yfirborði jarðvegs þegar enginn flutningur vatns annars staðar frá á sér stað. Þrefalt það magn eða um 90 mm úrkoma á mánuði virðist hins vegar alltaf nægja til að mæta gnóttargufuninni. Hér verður að hafa í huga að jarðvegsgerðir eru margar og mismundandi og vatnsheldni ólík allt frá mýra til mela.

Úrkomutölur víða að frá landinu benda til þess að frá miðjum maí hafi vantað á bilinu 40-80 mm úrkomu til að viðhalda þokkalegum jarðvegsraka. Sums staðar enn meira, sérstaklega á Vesturlandi og vestantil á Norðurlandi.  Á Kirkjubæjarklaustri er samanlögð úrkoma hins vegar 206 mm þennan tíma og þar ætti ástandið því að vera með ágætum.  Reyndar hefur sú úrkoma að mestu komið í þremur skammvinnum og hálfgerðum dembum.

Tiltölulega hörð skán myndast efst eftir þurrkinn og þegar fer loks að rigna skiftir miklu að ekki komi mikið magn fyrsta kastið því þá er hætt við að vatnið renni eftir eftirborðinu og út í næst læk eða á í stað þess að seytla niður í jarðveginn. Höfum það í huga nú fyrir helgina.

 

(Þessi samantekt er að verulegu leyti byggð á óútgefinni greinargerð minni, Rannveigar Guicharnaud og Berglind Orradóttur frá 2010 fyrir Landsnet, þar sem fjallað er um jarðvegsflokka, og úrkomuþurrðir út frá hentugleika við lagningu jarðstrengja.)

 


[1] Markús Á. Einarsson, 1972. Evaporation and potential evapotranspiration in Iceland. Veðurstofa Íslands, Reykjavík, 27 bls.

[2] Jón Guðmundsson, Hlynur Óskarsson og Ólafur Arnalds, 2006. Er vatn takmarkandi þáttur í landgræðslu? Ráðstefnurit Fræðaþings Landbúnaðarins, 358-361.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Enn af rafgirðingarhælum hér á Skeiðum, um áramót síðustu nefndi ég við þig að auðvelt hefði verið að stinga þeim niður vegna þíðu í jarðvegi undir snjónum, nú er óvanalega erfitt að taka þá upp úr túnsverðinum. Jafnvel þó grös séu í góðu standi (slægja mjög góð) þá man ég ekki túnsvörðinn svona harðann sem nú ;-)

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 17.7.2012 kl. 15:53

2 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Skeiðatúnin eru flest þar sem stutt er niður á gamla Þjórsárhraunið.  Úrkom hripar því greiðlega niður í grunnvatnið og jarðvegurinn er því þunnur ofan á eins konar gatasigti. Svörðurinn hlýtur því að þorna fljótt í tíð sem þessari og verður jafnframt harður eins og Bjarni Gunnlaugur hefur sannreynt.

ESv

Einar Sveinbjörnsson, 17.7.2012 kl. 18:12

3 identicon

Er það ekki  þurrkurinn frekar en litla úrkoman sem veldur?

GB (IP-tala skráð) 18.7.2012 kl. 10:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband