20 ár í dag frá fyrstu veðurstöð Vegagerðarinnar

noname.gifMeðfylgjandi línurit fyrir vindhraða og hita 15. júlí ofan af Hellisheiði er ekki ekki fengið úr mælingum dagsins heldur er um að ræða fyrstu veðurmælingar frá sjálfvirkri stöð Vegagerðarinnar.  Hún var gangsett á Hellisheiði að morgni 15. júlí 1992 Síðan þá eru mælar Vegagerðarinnar einnar orðnir rétt rúmlega 100 talsins.

Þetta var þó ekki fyrsta sjálfvirka veðurstöðin hér á landi, því tveimur árum fyrr var komið fyrir sjálfvirkum veðurmæli Veðurstofunnar uppi á Þverfjalli á milli Skutulsfjarðar og Súgandafjarðar.  Þær mælingar voru og eru enn gerðar í tilgangi vöktunar með ofanflóðum.  Nokkur ár liðu þó þar til Veðurstofan hóf sjálfvirknivæðingu síns mælakerfis fyrir alvöru, en stöðvar á vegum Veðurstofunnar telja nokkra tugi og eru vafalítið komnar yfir eitt hundrað ef þær stöðvar sem mæla úrkomu eingöngu eru taldar með.

Þá eru ótaldar mælingar annarra aðila sem gerðar eru með stöðluðum aðferðum s.s. Landsvirkjunar, Siglingastofnunar, ýmissa hafna, bæjarfélaga, Landsnets, verkfræðistofunnar VISTA of vafalítið fleiri.  Landsvirkjun reið á vaðið ári eftir Vegagerðinni með stöðvunum við Búrfell  og í Sandbúðum á Sprengisandsleið. Báðar hafa þær strax frá upphafi skilað mikilsverðum upplýsingum við vöktun veðurs og skráningu veðurfars.

Á þessum tímamótum í sögu veðurmælinga hérlendis er ekki úr vegi að skoða möguleikana á því að fá allar stöðvarnar birtar á einu og sama kortinu á vefnum.  Í það minnsta allar þær sem reknar eru af opinberum eða hálfopinberum aðilum.  Veðurstofan er í lykilstöðu til að safna uppýsingunum saman til birtingar, burt séð frá því hver mælir eða er eigandi viðkomandi stöðvar.  Eins væri Veðurstofunni í lófa lagið að gefa út leiðbeiningar eða staðal hvernig skuli mælt og með hvaða hætti gögnum skuli safnað til þess að þau geti talist notkunar- og birtingarhæf.    Þessari áskorun er hér með komið á framfæri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Gaman væri að sjá þetta allt á einu korti. Svo ætti Veðurstofan að gera öll kort sín frá upphafi aðgengileg á netinu eins fljótt og hægt er.

Sigurður Þór Guðjónsson, 16.7.2012 kl. 01:19

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka þér fyrir áminninguna Einar. Fyrsta sjálfvirka stöðin sem Veðurstofan tók reglulega við gögnum frá var sett upp í Þúfuveri af Landsvirkjun í septemer 1987, um tveimur mánuðum síðar fóru gögn frá henni að berast reglulega til Veðurstöðvarinnar. Fyrsta sjálfvirka stöðin sem Veðurstofan setti upp þannig að gögn bárust beint og sjálfvirkt inn í athugunarskrárnar var á Kambanesi. Reglulegar sendingar byrjuðu þaðan 7. febrúar 1992. Nú er Veðurstofan í sambandi við 156 sjálfvirkar stöðvar (á þær reyndar ekki allar sjálf) auk þess sem gögn berast reglulega til hennar frá 79 stöðvum Vegagerðarinnar, hvar skyldu hinar 20 vera? Hefðbundnar mannaðar stöðvar eru nú 28 og úrkomustöðvar um 60. Veðurstofan fær því nú daglegar upplýsingar frá um 320 veðurstöðvum.

Trausti Jónsson, 16.7.2012 kl. 12:05

3 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Vegagerðarstöðvarnar eru fleiri en 79. Hræddur er ég um að margar þær nýjustu berist ekki enn til Veðurstofunnar.  Nefna má Grindarvíkurveg, stöð á Suðurstrandarvegi sem kennd er við Festarfjall, Stórholt í Helgafellssveit o.fl.  Þessar nýju stöðvar eru ekki einu sinni á korti Vegagerðarinnar, heldur á lista yfir sjálfvirkar veðurstöðvar.  Svo eru enn aðrar s.s. Kolás í Borgarfirði sem hvergi er að finna einhverra hluta vegna.   Til viðbótar þessum hefðbundnu eru einnig stöðvar hjá Vegagerðinni um 35-40 talsins sem mæla eingöngu hita og raka í vegsniði niður á 120 sm dýpi.  Þetta er svokallaðir hitastafir en mælingar þeirra eru nýttar til ákvörðunar á þungatakmörkunum þegar ís í burðarlögum tekur að leysa. Vissulega ekki veðurstöðvar í hefðbundnum skilningi. 

ESv

Einar Sveinbjörnsson, 16.7.2012 kl. 14:32

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Grindavíkurvegur, Stórholt, Festarfjall og Selvogur koma allar inn í gagnagrunn Veðurstofunnar ásamt fleiri nýlegum stöðvum, en Kolás sést hvergi.

Trausti Jónsson, 16.7.2012 kl. 15:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.4.): 6
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 62
  • Frá upphafi: 1786641

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband