Við fórum mun betur út úr kuldakastinu í gær, annan dag jóla en spár höfðu gefið til kynna fyrir jólin. Kaldasta loftið náði aldri til landsins, en engu að síður setur þessi kaldi kjarni hér skammt norður undan allt úr skorðum. Fyrir það fyrsta gróf sig niður lægðardrag hér skammt vestur undan eins og oft vill gerast þegar djúpur heimskautakuldi berst án mikils asa yfir mun hlýrri sjó. Afleiðingin var mikil snjódrífa á vestustu annesjum, einkum þó á Vestfjörum í nótt og í morgun.
En heimskautaloftið kemur líka til að næra föngulega lægð sem ber með sér mjög suðlægt loft hér upp á Atlantshafið. Á greiningu Bresku Veðurstofunnar frá kl. 06 í morgun bendir rauða örin á lægðina sem um ræðir. Tölvuspám ber vægast sagt mjög illa saman um þróunina að öðru leyti en því að aðstæður til dýpkunar eru sérlega góðar og dýpt lægðarinnar gæti orðið um og innan við 940 hPa á laugardagsmorguninn. Annað sem reikningum ber þó sæmilega saman um er að suðaustan- og austanlands mun gera ágætan blota og veður þar mun ekki verða svo vont þrátt fyrir dýpt lægðarinnar. Til staðar verður mikil NA-vindröst á skilum heimskautaloftsins. Spurningin er sú hvernig hún kemur til með að spila með lægðinni. Þar er óvissan hvað mest enn sem komið er og eins hvar lægðarmiðjan tekur sér "bólfestu" við landið ef svo má segja. Með bólfestu er átt þann stað þar sem hún staldrar við í a.m.k. nokkrar klukkustundir þegar dýptin verður mest og hún er farin að vinda í kring um sig háloftavindunum.
Ein útgáfan reiknar með N aftakaveðri um norðvestan og vestanvert landið og mikilli ofankomu. Meðfylgjandi spákort á hádegi á laugardag(HIRLAM, 271206+54t, af Brunni VÍ) sýnir stöðu mála í 850 hPa fletinum eða í tæplega 1.000 metra hæð. Samkvæmt því verður veðurhæð í kjarna rastarinnar um 40 m/s (í þeirri hæð). Hitastigull er mjög mikill austur yfir landið eða um 18 stig frá Bolungarvík austur á Langanes. Það er gríðarmikill bratti og í raun orsök vindsins. Lægðarmiðjan sést þarna ekki en á yfirborðskorti fyrir sömu spá og sama tíma væri hún við Langanes við rauða hringinn um 935 hPa.
Önnur útgáfa gerir ráð fyrir því að einkum og mest snjói fyrir miðju Norðurlandi og slydda verði norðaustantil, en veður þá ekki fullt eins slæmt t.d. á Vestfjörðum.
Auðvitað verður fylgst grannt með en allar líkur eru á því að komandi lægð verði sú dýpsta hér við land á árinu. Lægsti loftþrýstingur hingað til er 947 hPa á Dalatanga þann 6. mars. Nær öruggt er að hann verður lægri og líkast til talsvert lægri komandi laugardag.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.9.): 3
- Sl. sólarhring: 17
- Sl. viku: 58
- Frá upphafi: 1788087
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 55
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.