Einstakt illviðri á Vestfjörðum

Nokkuð hefur verið fjallað í dag um sjóslysin í Ísafjarðardjúpi fyrir 40 árum.   Bendi ég sérstaklega á ágætt yfirlit Sigðurðar Þórs Guðjónssonar þar sem hann rekur aðdragandi þessa veðurs sem hafði svo hörmulegar afleiðingar.   Litlu er við frá sögn Sigurðar Þórs að bæta, en spyrja má hvernig í ósköpunum það gat gerst sjórinn undir Grænuhlíðinni í Djúpinu sem oftast veitir haldbært skjól í hvössustu NA-veðrunum varð að þvílíkum ólgupotti þar sem ísingin hlóðst á skip og báta ?

c_documents_and_settings_fri_geir_my_documents_my_pictures_4_feb_68_426746Lægðin sjálf sem óveðrinu olli var ekkert sérlega djúp og skar sig þannig lagað ekkert sérlega úr mörgum öðrum álíka. (sjá að auki veðurkort hjá Sigurði Þór).  Reyndar var ferill hennar nokkuð sérstakur og hvernig lægðarmiðjan boraði sér yfir landið og tók lykkjuna síðan aftur til suðurs. En þessi feril er að miklu leyti  afleiðing þess sem útskýrt er hér að neðan.

Það sem jók á ham illviðrisins var aftur á móti, ískalt heimskautaloft yfir miklum hafísbreiðum norður og vesturundan sem lægðin dró til sín yfir Vestfirði.   Þetta þarfnast frekari skýringa.

NA-áttin sem er svo tíð á veturna á  milli Vestfjarða og Grænlands er að mestu knúin áfram af hitamun.  Eftir því sem kaldara er Grænlandsmegin á ísbreiðunni og hlýrra yfir hafsvæðunum norðaustur af Íslandi, þeim mun hvassari verður NA-áttin og kjarni vindstrengsins liggur gjarnan nokkuð frá ísjaðrinum, gjarnan á fengsælustu þorskmiðunum, á Hala og Víkurál.  Þarna  í janúar og febrúar 1968 voru miklar hafísbreiður norðurundan.  Ísinn var með mesta móti og þó svo að hann hefði ekki orðið landfastur fyrr en í mars.  Kort úr bókinni Hafísinn sem kom út á vegum AB árið 1969 sýnir vel  hvað ísbreiðan var  mikil. (að ofan er meðalloftþrýsingur hvers mánaðar, sem skiptir ekki máli hér.)

Þarna var lofthitinn lengst af -20 til -30 °C á stóru svæði sem alla jafna er opið haf og lofthiti mun hærri.   Öflug Grænlandshæð er fylgifiskur ísástands eins og þarna var.

Hafísinn, bls 112 úr grein Helga BjörnssonarÞegar lægðin tók að myndast vegna hlýrra lofts sem leitaði norður á bóginn hér á Íslandsslóðum mættust stálin stinn.  Hún hafði þau áhrif að beina kalda loftinu út af ísbreiðunni.  Við sjáum á handgerða kortinu sem ég held að sé tekið úr tímaritinu Veðrið sem Félag íslenskra veðurfræðinga gaf út um árabil að +2°C er suðaustanlands (0°C á Raufarhöfn) en á sama tíma -11°C á Galtarvita.  Lægðin sem beinir mildara lofti norður á bóginn í veg fyrir kalda heimskautaloftið eykur þannig á hitamuninn.  Grænlandshæðin eflist á sama tíma og loftþrýstingur fellur um suðaustanvert Ísland.  Afleiðingin er ógurlegur NA-strengur þarna miðja vegu.

Þetta eru svo sem engin ný sannindi, en þegar ísjaðarinn liggur út í Grænlandssundi nær strengurinn sjaldnast inn á Vestfirði.  Því var ekki að heilda að þessu sinni vegna þess hvað ísinn var nálægur og "Hala-ástand" veðursins færðist inn á Ísafjarðardjúp.

Veðurhæðin yfirsteig þann skjólþröskuld sem Grænahlíðin veitir og í stað vars steyptist loftið niður, sjórinn varð fyrir vikið löðrandi og vegna þess hve frostið var mikið hlóðst hættileg ísingin á sjóför með miklum ákafa.

Í dag væri fróðlegt að fá Reiknistofu í Veðurfræði til að endurkeyra þetta veður í þeirra öfluga fínriðna reiknlíkani  með það m.a. að markmiði að finna þröskuldsgildi vindsins við "Hótel Grænuhlíð" í NA-átt.   


mbl.is Minningarathöfn í Hull um sjóslys fyrir 40 árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Handgerða kortið er úr Morgunblaðiðinu 6. 2. 1968, bls. 5.

Sigurður Þór Guðjónsson, 5.2.2008 kl. 12:47

2 identicon

Já það væri fróðlegt að sjá þennan þröskuld. 

Valur (IP-tala skráð) 6.2.2008 kl. 15:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.10.): 2
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 42
  • Frá upphafi: 1788477

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband