29. október 1936 gekk flóðalda yfir Seltjarnarnesið eins og Morgunblaðið segir frá þessum atburðum. Víða flæddi í kringum hús en skemmdir urðu ekki teljandi. Í Sandgerði braut sjávargangur tvö hús. Þá varð ákaflega flóðhátt a Eyrarbakka og Stokkseyri, en ekkert tjón og á Akranesi var talað um stórflóð og feikna brim "sem olli ekki tjóni svo vitað sje" eins og það er orðað.
Síðdegis þennan dag var háflóð, en samkvæmt Almanaki Háskólans árið 1936 ekki stærstur straumur fyrr en tveimur til þremur dögum síðar (fullt tungl var að morgni þ. 30 .okt). Samafara krappri lægð sem fór til ANA fyrir vestan land með suðvestan stormi gerði mikið brim sem líkast til hefur náð hámarki nærri síðdegisflóðinu þennan dag. Veðurkortið hér að neðan er fengið úr bandarísku veðurkortasafni sem hægt er að nálgast hjá hinu þýska Wetterkarten. Gildistími kortsins er c.a. um miðjan dag. Kortið sýnir lægð (T á þýsku) um og undir 975 hPa úti fyrir Vestfjörðum og má nærri geta um veðurhæð og brim með þetta þéttar þrýstilínur, sérstakleg ef mið er af því tekið að daginn áður var lægðin við Hvarf og þá heldur dýpri. Alþekkt eru tengslin á milli lágs loftþrýsings og sjávarhæðar. Hætta á sjávargangi skapast þó fyrst þegar lægðin fer saman við stórstraum og ölduhæð er jafnframt mikil og stefna lægðar og öldunnar sú sama.
Þó þessi veðurkort séu ekki alltaf nákvæm segja þau sína sögu. Ég hefði t.d. hæglega getað skoðað Íslandskort frá þessum degi eða þá kannað loftþrýstingsmælingar. Hvoru tveggja má fyrirhafnarlítið finna í skjalasafni Veðurstofunnar.
Þetta var mesta sjávarflóð sem komið hafði um suðvestanvert landið um margra ára skeið. Þó Bátsendflóðið 1799 sé mesta sjávarflóð sögunnar hafa þau minni komið oft síðan, en endurkomutími flóða er þó það langur að þau koma fólki oftast í opna skjöldu. Það átti samt ekki við þetta árið, því tveimur dögum seinna eða 31. okt. gerði VSV ofsaveður með hafróti og gekk þá sjór upp á Strandgötuna í Hafnarfirði og slösuðust 9 skólapiltar þegar brak af þaki fiskverkunarhúss fauk á þá. (missagt er í bók Trausta Jónssonar, Veður á Íslandi í 100 ár að þeir hafi farist.) Og aftur 19. nóv. sama ár varð mikið tjón suðvestanlands í sunnanfárviðri samfara sjávargangi.
Sjaldan er ein báran stök...
Flokkur: Lengri greinar úr ýmsum áttum | 29.10.2006 (breytt 14.9.2009 kl. 15:25) | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.7.): 0
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 34
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 30
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ekki má gleyma flóðaveðrinu 1990 þar sem Eyrabakki og Stokkseyri urðu hvað verst úti en áhrifa gætti um allt suðvesturland.
Skemmtilegar upplýsingar alltaf hér á síðunni.
Steinþór Traustason (IP-tala skráð) 30.10.2006 kl. 07:26
Sæll Steinþór !
Nokkurra flóða er ógetið eins og þú veist mætavel. Það væri akkur í annál yfir sjávarflóða á Íslandi ekki satt ?
Einar Sveinbjörnsson, 30.10.2006 kl. 10:17