3.6.2008
Keppni um fyrsta slátt
Jóhann Jensson bóndi á Fit undir Vestur-Eyjafjöllum langaði að slá snemma þetta árið enda sprettan með ágætum. Ekkert varð þó úr slætti þar nú í byrjun júní, því farið var að rigna og spáð þurrkleysi næstu daga sunnanlands. Í staðinn þjófstörtuðu Eyfirskir bændur sem urðu fyrstir til eins og svo oft áður.
Jóhann sagði í tölvupósti til mín: "Hitt er síðan annað að ég get aldrei skilið af hverju þeir í Eyjafirðinum
geta byrjað að slá svona snemma. Nú hefði ég haldið að hér undir Eyjafjöllum myndi vora talsvert fyrr.
En skýringin getur náttúrulega verið sú að þeir fá nú oft skratti heita daga seinni part maí."
Þarna hittir Jóhann vitanlega naglann á höfuðið. Í Eyjafirði (og víðar á Norðurlandi) sumrar oft mjög skart og vænn hiti, þetta 18 til 20°C gerir gjarnan samfara þurri S-átt. Þá er ekki að sökum að spyrja. grasið þýtur upp. Þetta háa hitastig geta Eyfellingar aðeins látið sig dreyma um á þessum árstíma. Þó er fyrr í maí tún orðin vel græn á meðan enn er snjór yfir norðan heiða. Það hjálpar líka upp á sakirnar að svörðurinn er enn vel rakur eftir vorleysinguna í Eyjafirði í lok maí, en alla jafna er það vætuleysið sem hamlar grassprettu almennt séð norðanlands, frekar en kuldatíð þó hún geti vissulega líka verið hvimleið fyrir sprettuna.
Í þessari keppni um fyrsta slátt vinna Eyfirðingar oft á snerpunni, en þeir eiga ekki roð í Eyfellinga þegar norðantíð er ríkjandi.
Hvað sem öðru líður held ég nú samt að engir hafi verið fyrr út með garðsláttuvélina en hótelhaldararnir á Hótel Höfn, það vilja þeir allavega halda fram. Hornafjörður og Nes eru líka einar af þessum vorgóðu sveitum landsins.
Óðinn Eymundsson segir með myndinni sem hann sendi mér: "Fjölnir á Hala heimtaði að ég sendi þér mynd af fyrsta slættinum hjá mér á Hótel Höfn sem var þann 7 maí.
Ég hafði reyndar dregið þennan slátt í tvær vikur.
Þess má geta að þessi blettur fer alltaf mjög snemma af stað, og hefur mig stundum langað til að draga fram vélina í janúar þegar vel hefur viðrað. En það hefði bara verið fyrir myndavélina því að Kári lætur yfirleitt ekki standa á sér á þessum tíma árs."
Flokkur: Veðurfar á Íslandi | Breytt 26.8.2009 kl. 14:19 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 50
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sveitin norðan og austan Hafnar heitir og hefur alltaf heitið NES, en alls ekki Nesjar. Olíufélagið ESSO lét einhverntíma prenta auglýsingar með þessu ónefni og hlutu nokkuð bágt fyrir. Síðan hefur þessi misskilningur víða komist á prent. Þetta ætti ég að vita, enda búsettur þar.
Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 3.6.2008 kl. 22:07
Ég gét huggað minn fyrrum sveitunga Jóhann frá Teigi, að hér austur á landi er enn verið að koma áburði á túnin. Hér hefst sláttur ekki fyrr en eftir miðjan júní enda ekki langt síðan snjóa leysti.
Þórhildur Daðadóttir, 4.6.2008 kl. 11:14
Fyrirsláttarspenna er nokkuð gott orð, ekki heyrt það fyrr!
Ég segi nú eins og Þórhildur, við vorum að klára að bera á en það breytir ekki neinu þar sem ekki hefur rignt svo nokkru nemi innst í Fljótshlíð síðan einhverntíman í vetur... Ekkert sprettur, hvorki tún né úthagi. Við höfum grínast með það stundum að þann daginn sé norðlenskt veður hjá okkur, þegar hitastigið er líkara því sem er á Akureyri. Á móti kemur að það rignir ekki heldur í sunnan átt hjá okkur.
Óska öllum bændum nær og fjær góðrar sprettu og heyskapartíðar.
Anna Runólfsdóttir, 4.6.2008 kl. 14:14
Bóndinn á Hvassafelli undir Eyjafjöllum tók saman hey um síðustu helgi, veit ekki hvort það toppar aðra landshluta!!
Elín (IP-tala skráð) 4.6.2008 kl. 15:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.