19.9.2008
Í kjölfar Ike-lægðarinnar MODIS (1)
Illviðrið sem hér gekk yfir á þriðjudagskvöld (17. sept) og fram eftir miðvikudegi tók á sig ýmsar myndir og eitt og annað til frásagnar.
Sem betur fór hlutust engin slys af og eignartjón var ekki mikið. Leifar fellibylsins Ike báru með sér rakt loft af hitabeltisuppruna. Þó svo að mikið hafi rignt almennt séð á landinu fór svo eins og gjarnan verður í sunnanátt að Vatnajökull veitir var fyrir úrkomunni á öræfunum norðan hans. Þar sem Jökulsá á Fjöllum kemur undar Dyngjujökli flæmist hún um víðáttumikla aura áður en kvíslarnar koma saman í einum farvegi suður af Upptyppingum. Jökulleirinn í aurum á milli kvíslanna er fínn og afar fokgjarn og þekkja menn vel til sandfoks á þessum slóðum í strekkings sunnan- og suðvestanátt.
Veðurhæð var óskaplega mikil á þessum slóðum að morgni 17. september. Nálægar mælingar í Sandbúðum á Sprengisandi gáfu til kynna 30-40 m/s vindhraða til jafnaðar. Þar rigndi hins vegar og jörð því blaut. Á myndinni sem hér fylgir (MODIS-Terra, kl.13:30. Upplausn 250 m) má hins vegar sjá hvernig vindurinn rífur upp aur og sand norðan Dyngjufjalla á nokkuð breiðum kafla og hvernig strókurinn berst vel afmarkaður til norð-norð-austurs. Nærri vesturjaðri hans eru Grímsstaðir á Fjöllum. Í veðurathugun þar á hádegi var sandmökkurinn svo dimmur að skyggnið var ekki álitið vera nema rúmlega 1.000 m. Á meðan á þessu gekk var sérlega hlýtt í lofti og fór hitinn í 20°C á Raufarhöfn en eins og sjá má fóru menn þar heldur ekki varhluta af sandbylnum.
Austar á myndinni sést Hálslón vel sem er fullt um þessar mundir og vatnsborð því í hæstu stöðu. Einnig þar var sunnanstormur um morguninn skv. mælingum á veðurstöðinni við Kárahnjúka.
Flokkur: Lengri greinar úr ýmsum áttum | Breytt 26.8.2009 kl. 14:03 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 51
- Frá upphafi: 1788789
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Einar og takk fyrir skemmtilega síðu!
Hvenær var viðtalið við þig á RÚV um haustlægðirnar? Ég missti af því og langar svo að heyra það. Var það ekki örugglega á Rás 2?
Kv. Arna
Arna Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 20.9.2008 kl. 23:47
Sæl Arna !
Hér er tengill á þátt Magnúsar R. Einarsson á Rás 1 sl. föstudag.
http://dagskra.ruv.is/streaming/ras1/?file=4416651
ESv
Einar Sveinbjörnsson, 21.9.2008 kl. 10:30
Sæll Einar,
Finnst þér ekki vanta sjálfvirka stöð á svæðið milli Sandbúða og Upptyppinga? Dálítið stór eyða í netinu á þessum slóðum.
Vignir (IP-tala skráð) 21.9.2008 kl. 23:35
Sæll,
takk fyrir þetta! Var búin að gera mikla leit að þessu :)
Kv. Arna
Arna Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 22.9.2008 kl. 01:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.