19.11.2008
Bylgjubrot við Öræfajökul
Hér er fjallað um ókyrrð í flugi og tengsl við mikla og allt að því ótrúlega hitastigshækkun í skamman tíma við Kvísker í Öræfasveit
Í gær fregnaðist af ætlunarvél Flugfélagsins Ernis á leið til Hafnar í Hornafirði sem lendi í mikill ókyrrð sem varði í óvenjulangan tíma. Þetta sagði í frétt í Morgunblaðinu:
"Hörður Guðmundsson sagði að engar viðvaranir í lofti hafi verið gefnar út fyrir þetta svæði fyrr en eftir að flugvélin lenti í ókyrrðinni. Hann hafði eftir flugstjóranum að mikil ókyrrð hafi verið sunnan jökla. Flugmennirnir, sem báðir eru langreyndir, sögðu Herði að þeir hefðu aldrei lent í viðlíka ókyrrð á þessari flugleið."
Sunnan jökla er þarna meint með jaðri Vatnajökuls, frá Öræfajökli austur á Höfn. Í gær var snörp NV-átt á þessum slóðum og alþekktir eru strengirnir sem standa af jöklinum og niður í byggðina. Vélin lendir þarna að öllum líkindum í bylgjubroti fjallabylgna sem Vatnajökull skapar í þeim skilyrðum sem voru, þ.e. hlýtt loft og lítill hitafallandi með hæð. Myndin sem fylgir hér með gefur nasasjón af því fyrirbæri sem um ræðir.
Þegar vindur er hvass í lofti af norðvestri eða vestnorðvestri gerir staðbundin óveður við rætur Vatnajökuls þar sem hviður geta orðið miklar. Kvísker er einn þekktasti staðurinn og þar er einmitt vindmælir sem Vegagerðin rekur við þjóðveginn. Ofsinn í veðrinu er á þjóðveginum bundinn við aðeins um 200 m kafla og er því ákaflega staðbundið. Starfsfélagi minn Hálfdán Ágústsson vann nýverið athugun sem gaman er eð segja frá að kostuð var m.a. af hinum merka Kvískerjasjóði. (Staðbundin óveður við Kvísker í Öræfum, Útgáfufélagið Slemba, 2008). Þar segir Hálfdán m.a. "Undanfarin ár hefur verið töluverð aukning á rannsóknum á staðbundnum óveðrum á Íslandi..... Allar eiga þær sammerkt að þær hafa leitt í ljós að staðbundin óveður hlémegin fjalla tengjast þyngdarbylgjum sem myndast í í loftstraumnum ofan fjalla. Vindur verður mestur undir niðurstreyminu í þyngdarbylgjunni og hviðurnar virðast öflugastar þegar bylgjan ofrís og brotnar."
Miðað við áætlun flugvélarinnar var hún á slóðum Öræfajökuls upp úr kl.16:30 Aðeins fyrr eða um kl. 15 jókst veðurhæðin til mikill muna á Kvískerjum. Eins og meðfylgjandi vindrit sýnir að þá fór veðurhæðin snögglega í rúmlega 30 m/s og mesta hviða í 40 m/s. Vindur í fjallahæð gat gefið til kynna þetta ástand, en eins og honum var spáð mátti tæplega búast við miklu hviðuástandi þarna, ef og þá aðeins með vægara móti. Enda var veðrið á þessum slóðum nokkuð rólegt þar til skyndilega hvessir án sýnilegs tilefnis. Mjög líklega hefur átt sér stað bylgjubrot og loft þvingast niður úr talsverðri hæð alveg niður til yfirborðs.
Ekki er síður athyglisvert að fylgjast með hitastiginu, því að um leið og þetta gerist rýkur hitinn úr 6°C upp í 18°C á svo að segja örfáum mínútum ! (sjá neðra línuritið). Þessi ótrúlegu umskipti eru með þeim hætti að útilokað er annað en að loft hafi tekið að streyma niður úr talsverðri hæð, mögulega 2000 til 3000 metrum. Um leið og það sígur hlýnar það um sem nemur 0,9 til 1,0 °C á hverja 100 metra. Mjög mikið þarf til svo loftpakka úr þessari hæð sé "dúndrað" beinustu leið til jarðar og bylgjubrot vísast sökudólgurinn.
Sé litið á hitasnið í háloftaathugun á Keflavíkurflugvelli á hádegi (ekki sýnt) má sjá þekkt einkenni fyrir hlýjan loftmassa, þ.e. lítill og jafnvel engin hitafallandi með hæð í lægstu 2.000 m lofthjúps. Í um 1.800 metra hæð mældist hitinn 4,2°C yfir Keflavíkurflugvelli. Í sjálfu sér ekki hár hiti, en í þessari hæð í lofthjúpnun og á okkar köldu slóðum þykir þetta frekar hátt gildi hitans. Segir okkur í raun að fyrir einhverjum dögum síðan var þetta sama loft við sjávarmál um 20-25°C langt suður Í Atlantshafi. Það berst síðan hægt og rólega upp í þessa hæð og eins og eðlisfræðin segir til um kólnar það í umhverfi lægri loftþrýstings. Sem aftur gerir það að verkum að það getur hlýnað verði það fyrir niðurstreymi. Staðreyndin er hins vegar sú að upphaflega hlýtt loft liggur gjarnan líkt og láréttur mjög stöðugur fleygur, oft í 1 til 3 km hæð og er þá frekar á áfram hægri uppleið heldur en niður á við. Til þess að slíkt gerist þarf að verða einhver röskun og fjöll sem skaga upp í stöðuga fleyginn verða helst valdur að því að raska rónni þarna uppi og þá með þyngdarbylgjum eða öðru nafni fjallabylgjum.
Bylgjubrotin frá Vatnajökli og Öræfajökli hafa greinilega orðið fleiri en þetta sem kemur fram á Kvískerjum sbr. ókyrrðina í fluginu. Og eins og gefur að skilja eru þessi veðurskilyrði mjög varasöm þegar flogið er.
Vona að þessi stutta samantekt hér hafi varpað einhverju ljósi á þetta tilvik sem er hið athyglisverðasta og fróðlegt væri að skoða það frekar, jafnvel að eftir því verði hermt í líkani Reiknistofu í Veðurfræði líkt og Hálfdán gerði við ekki ósvipað vestanóveður á Kvískerjum í janúar 2007.
Flokkur: Lengri greinar úr ýmsum áttum | Breytt 26.8.2009 kl. 13:52 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 51
- Frá upphafi: 1788789
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Góður og gagnlegur fróðleikur, áreiðanlega ekki síst fyrir flugmenn. Í námsefni flugmanna er reyndar fjallað um þessar fjallabylgjur, enda meðal margra, slæmra óvina flugmannsins, en ekki á jafn skiljanlegan hátt og hér hjá Einari. Ég hef velt fyrir mér hvort norðan strengirnir í Staðarsveitinni á Snæfellsnesi séu sama eðlis og þessi Öræfajökulsveður, bæði við Kvísker og eins í kringum Sandfell. Gaman væri að fá umfjöllun um vindstrengina á Snæfellsnesinu, bæði sunnan fjalls og norðan?
kv.
Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 09:16
Fróðlegt að fá tæknilega skýringu á þessu tilviki. Þessi snarpa og mikla vind- og hitabreyting er mjög sláandi, og er væntanlega afar sjaldgæf.
Yfirleitt má sjá tættar skýjaslæður þar sem svona ókyrrð er, en kollegar mínir hafa verið svo óheppnir að rakainnihald loftmassans hefur snarminnkað samliða vind- og hitabreytingunni (sjá bil milli hita og daggarmarks í hitaritinu). Það voru því engar skýjamyndanir til staðar til að vara þá við ókyrrðinni.
Takk fyrir fróðlega grein.
Hálfdán Ingólfsson (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 12:27
Kvískerjaveður eru alþekkt hér um slóðir í vestan og norðvestan átt. Þá er gjarnan hvasst á Hala, ekki þó stórveður, en hlýtt, oft tveggja stafa tölur þó um hávetur sé. Við þekkjum þessi veður og fórum einmitt í tölvuna síðdegis þennan dag til að kanna vindstyrkinn við Kvísker. Það brást ekki, hviður upp í 40 metra. Þessi veður eru alls ekki fátíð en það sem var sérstakt þarna var hversu snögglega hvessti. Þess má geta að þennan dag fór hiti upp í 13 gráður síðdegis á Hala, en á Steinasandi rétt austan við Steinafjallið var hins vegar aðeins 5 stiga hiti á sama tíma. Ekki mikið þó að mikil ókyrrð hafi verið í lofti þar sem svo miklar hitasveiflur hafa verið í loftstreyminu
Þakk fyrir mjög merkilega grein og gott að vita að verið er að vinna að rannskóknum á svona staðbundnum veðurfyrirbrigðum.
Þorbjörg Arnórsdóttir Hala Suðursveit (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 16:12
Stysta leið frá Reykjavík til Hornafjarðarflugallar er 320 km löng og liggur norðan Öræfajökuls. Ef farið er sunnan jökulsins lengist leiðin um 20 km. Í langflestum tilfellum sem ég hef ætlað að stytta mér leið, einkum fyrr á árum þegar ég hafði ekki öðlast seinni reynslu, með því að fara stystu leiðina hefur stytting flugtímans ekki orðið nein vegna þeirrar óhagstæðu hreyfingar lofts sem er þarna í norðanátt.
Í ofanálag verður að lækka flugið svo ört þegar áfangastaður nálgast að vegna ókyrrðar og misvindis verður töf á síðasta kaflanum vegna þess að ekki má fljúga of neðarlega.
Við norðvesturhorn Vatnajökuls þurfa flugmenn að glíma við svipað fyrirbrigði í sunnanáttum þegar flogið er milli Austurlands og Reykjavíkur.
Þar gera Kverkfjöll og þó einkum Bárðarbunga mikilli ókyrrð og sviptivindum í lofti og eyðileggja flugferla sem sýnast vera hagstæðir á korti.
Skástu óg fljótförnustu flugleiðirnar við suðausturhluta Vatnajökuls og norðvesturhluta hans liggja oft ótrúlega langt frá stystu leiðinni.
Og ekki þarf að spyrja að því að hæstu fjallarisar Íslands valda mestri ókyrrð og vandræðunum.
Það er ekki aðeins Öræfajökull sem er orsakavaldur heldur Vatnajökull sem heild með hæð sinni og umfangi.
Ómar Ragnarsson, 20.11.2008 kl. 20:37
Maður er bara kominn með skrifræpu! En í framhaldi af því sem Ómar skaut hér inn, þá má prjóna við það að víða valda landfræðilegar aðstæður einhverjum svona veðurfyrirbrigðum, sem ég ætla ekki að halda fram að ég skilji! En t.d. hér í Skagafirði, þar sem ég bý nú (er af Snæfellsnesi) er rotor clouds eða skýjagöndlar, eins og mig minnir að Páll Bergþórsson kalli fyrirbrigðið, ekki beinlínis sjaldgæfir og þá sérstaklega í vestlægum áttum. Flugmenn hafa ætíð vara á sér varðandi þetta, en þetta getur oft orðið erfitt í aðflugi hér að Alexandersvelli. Í Eyjafirði er þetta veðurafbrigði að sjálfsögðu líka þekkt, en vegna þess hve Eyjafjörður er þrengri fjalla milli en Skagafjörður, segja flugmenn mér að þetta sé talsvert ólíkt viðfangs. Ómar gæti kannski sagt okkur meira um þetta.
Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 20:59
Það er mjög fróðlegt og gott að fá þessar skýringar og umræðu um þetta tiltekna veðurfyrbrigði. Til viðbótar því sem fram er komið tjáðu flugmenn vélarinnar mér að stakur vindskafinn skýjakúfur í mikilli hæð hafi verið að sjá yfir Hvannadalshnjúk. Hafi mátt áætla að þetta staka vindskafna ský hafi verið í allt að 20 þúsund feta hæð sem um 10.þúsund fetum hærra en ferill vélarinnar.
Þessi lýsing er hér sett fram til að styðja frekar við sem áður hefur verið sagt af leikum og lærðum vísindanönnum á þessu sviði.
Hordur Gudmundsson (IP-tala skráð) 20.11.2008 kl. 22:34
Þakka ykkur sem komuð hér með meiri og fyllri upplýsingar en ég hafði. Vitneskja úr mörgum áttum býr að endingu til ómetanlega þekkingu ekki satt ?
ESv
Einar Sveinbjörnsson, 22.11.2008 kl. 10:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.