15.1.2009
Veturinn 1979 (I)
Ég hef fengið áskoranir um að fjalla um veturinn 1979 sem sumir líta til sem síðasta alvöru vetrar sem komið hefur hér á landi í seinni tíð. Aðrir eru haldnir þeirri trú að veturnir þau ár sem enda á 9 séu harðari og leiðinlegri en aðrir vetur og benda máli sínu til stuðnings á 1969 (frosta- og hafísvetur), 1979 (frosta- og hafísvetur), 1989 (snjóavetur) og að 1999 (snjóþungt og kalt, einkum fyrir norðan. Sá síðasti er reyndar heldur langsóttur í þessum samanburði. Vitanlega er svo hnýtt aftan við að veturinn 2009 hljóti að verða kaldur og harður.
Lítum þá nánar á veturinn 1979 og höldum okkur að sinni við janúar (og desember 1978). Tek síðar fyrir frostið í mars og hafískomuna þá og hið mjög svo kalda vor í kjölfarið.
Janúar 1979 reyndist vera kaldasti janúar á landinu allt frá 1918. Á landsvísu var hitinn um 3,7°C undir meðallagi og kaldast að tiltölu (frávik frá meðaltali) um miðbik Austurlands og á Suðurlandi. Í Reykjavík var meðalhitinn -4,1°C en til samanburðar -7,3°C í janúar 1918. Árið 1920 og 1950 var allt að því jafn kalt í Reykjavík í janúar og þarna 1979 og einnig síðar eða 1984.
Í Reykjahlíð við Mývatn var meðalhitinn -8,6°C þennan umtalað mánuð 1979 og hvergi kaldara í byggð þar sem mælingar voru gerðar.
Mánuðurinn var ekki allur jafnkaldur og meira að segja gerði ágætan blota á landinu þ. 17. til 18. janúar. Síðustu vikur mánaðarins var N-átt ríkjandi og bars ískalt heimskautaloft þá yfir landið. Fram að því hafði veðrátta verið breytileg, köld N-átt í bland við hlýrra loft úr suðri. Segja má að það hafi komið þrjú nokkuð vel aðskilin kuldaköst sem orð er á gerandi í mánuðinum. Hið fyrsta var dagana 3. og 4. Næsta náði síðan hámarki 10. til 12. janúar. Þá daga lá frostið í 15 til 19 stigum á Akureyri. Að lokum voru það tveir síðustu dagar mánaðarins, en þeir þóttu á landsvísu vera þeir köldustu. Þá fór frostið í 24,6°C á Hveravöllum og þykir kannski ekki mikið í því veðurlagi sem þarna var.
Þó snjór hafi verið yfir víðast lengst af mánaðarins, þótti janúar 1979 engu að síður ekki sérlega snjóþungur, enda mældist úrkoma undir meðallagi á landinu, var reyndar í rúmu meðallagi norðaustanlands.
Vart varð við mikinn og þéttan hafís djúpt undan landi eða 70-80 sjómílur norður af Horni. Ísinn nálgaðist land þegar leið á janúar og undir lok mánaðarins og framan af febrúar var hrafl norður af Grímsey og á siglingarleið undan Sléttu. Ísinn hörfaði síðan um tíma.
Um miðjan mánuðinn gerði snöggt NV-veður með mannskaða þegar tveir rækjubátar frá Húsavík fórust og með þeim fjórir menn. Af þeim þriðja varð mannbjörg.
Vilji menn setja tíðina í janúar 1979 í samhengi við liðinn desembermánuð 1978, að þá þótti tíðarfarið með eindæmum hagstætt, milt lengst af og hægviðrasamt. Þó var suðvestanlands einn veðuratburður í desember 1978 sem komst klárlega í veður-sögubækurnar og ætla ég nú að láta lesendum eftir að hrista dálítið upp í veðurminni sínu og geta í eyðurnar með athugasemd.
(helsta heimild: Veðráttan 1979, janúarhefti og ársyfirlit)
Myndin sýnir lagnaðarís í Reykjavíkurhöfn veturinn 1979 og er úr safni Ólafs K. Magnússonar á Morgunblaðinu.Flokkur: Lengri greinar úr ýmsum áttum | Breytt 26.8.2009 kl. 13:42 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 50
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þennan vetur bjó ég í Junkaragerði við Hafnir á Reykjanesi og lenti heldur betur í hrakningum daginn fyrir gamlársdag á leið heim frá Reykjavík.
Sigurður Þór Guðjónsson, 15.1.2009 kl. 00:43
Áhugavert. Þá hef ég ekki upplifað "alvöru" vetur.
Er téður ´99 vetur kaldasti vetur á tímabilinu´79-´09 eða er sérstaklega minnst á hann vegna snjóþunga?
Gæti einhver veðurgrúskarinn annars reynt að skilgreina fyrir mig á hvaða tíma miður vetur er (þ.e. þegar vetur á að standa sem hæst)? Er hægt að skilgreina það vísindalega?
Ari (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 01:42
Já, þetta með ártölin sem enda á "9" er nú ansi algengt, bendi til viðbótar við það sem síðuhaldari getur um, veturna 1949 og 1959. Árið 1959 var reyndar kalt fram eftir öllu vori og fram á sumar. Minnisstætt er áhlaup af norðri 16. - 17. júní það ár. En svo er það 1939, sem var í minni þeirra sem það muna einmuna gott, held að skýrslur staðfesti það.
Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 07:34
Samkvæmt Almanaki Háskólans er miður vetur Bóndadagurinn þegar Þorri byrjar sem er 23. janúar í ár.
Ég hef það eftir mér eldri mönnum að veturinn 1976 hafi verið gríðarlega snjóþungur fyrir norðan og tala jafnvel um hann sem harðari en veturinn 1979.
Ljónsmakkinn (IP-tala skráð) 15.1.2009 kl. 10:31
Ég er Vestfirðingur og man lausleg eftir vetrinum 1979, ekkert sérlega fyrir hörkur en eftir köldu vorinu þegar úthaginn var ekki farin að taka við sér fyrr en eftir 17 júní. En ég tel síðasta vetur sem hefur komið hér á Vestfjörðum vera 1994-1995. Snjóavetur 1982-1989, eru líka alveg í minningunni, en hvort þetta voru bara nokkrar vikur í senn er fennt yfir.
það var snjólítið um jól 1982 en á jóladag gerði gríðalegt fannfergi og snjór hélst rosalegur allt fram til asahláku geri á bóndadag og mannskaði varð í krapaflóði sem féll á Patreksfirði.
Halla Signý Kristjánsdóttir, 15.1.2009 kl. 13:00
Fín um ræða. Undirritaður sem hef búið allan minn aldur í V.Húnavatnssýslu er þetta þannig í minningunni. Faðir minn hélt reyndar dagbækur um veður og snjóalög frá 1916- 1970.ég er ekki með þær við höndina núna En svona er þetta í minningunni.
1949 Kingdi niður snjó upp úr áramótum aðallega SV.átt mjög snjóþungur fram á vor norðan stórhríð á sumardaginn fyrsta ,tók smá saman upp hríðar garg á hvítasunnu .Hlýnaði með um 20.st.hita 16.júní mjög gott sumar.
1959. Þann vetur var ég í skóla á Hvanneyri, ég held frekar kaldur voraði vel um 20.maí ,síðan gerði norðan hríð aðfara nótt 17.júni. Fenti þá fé á Bakka sem ég mynnist ekki í annan tíma , hlýnaði mjög vel á eftir sláttur hófst í lok júní sem þótti frekar snemmt.
1969. Man ekki eftir vetrinum sérstaklega, en sumarið var með eindæmum óþurrkasamt til að hey náðust ekki.
1979 Vetur frekar harður, vorið var afar kalt enginn gróður fram eftir öllu gerði alhvítt 24-25.júní kuldar allt sumarið byrjaði að slá í lok Júli mjög léleg grasspretta. Hlýnaði ekki fyrr en um 20.sept.að afloknu óhemju úrfelli með skriðuföllum þeim einu sem ég man eftir . Veturinn 1979-1980 kom ekkert fé beitt allan veturinn.
Veturnar 1989-1999 man ég ekki eftir sérstaklega man eftir norðan stórhríðum sem stóðu í 3.-5.daga á þessu tíma bili.
Síðasti alvöru veturinn var hinns vegar 1995 .Þá byrjaði um miðjan janúar með NV stór hríð mesta snjókoma sem ég hef séð koma á einni nóttu var að mig mynnir aðfara nótt 16.jan. allt landslag horfið bara bungur. Meira og minna hríðarveður til loka apríl þá hlýnaði jörð mjög lengi að koma undan snjó. Girti kafla af túngirðingunni á snjó fram til júní loka. Lang mesti snjóvetur sem ég man eftir. Miklir öðruleikar með allar samgöngur frá miðjum janúar fram til loka apríl.
Ragnar Gunnlaugsson, 15.1.2009 kl. 17:35
Þennan vetur man ég vel. Var tvítug og var með barni. Ákvað að nota tímann á meðan ég var barnshafandi til þess að taka bílpróf og gerði það í janúar. Ekki man ég dginn þann, en það var allt ófært og arfaslæmt veður. Ökukennari varstaddur í Skeiðavogi og þurfti ég að fara þangað snemma morguns til að taka prófið. Skilaboðin prófdómara voru þessi: Ég bý í Breiðholti, kemst ekki frá húsi vegna snjóalaga og konan mín starfaí Þjóðleikhúsi og ef þú kemur henni þangað - nærðu prófinu.Allt sem hét að bakka, leggja í stæði o.s.frv. var vitanlega ekki hægt.
Þá man ég líka eftir þeim mánuði miðjum - á afmæli þá og var með veislu og gestir komust við illan leik heim til sín það kvöld vegna veðurs en það var 13. jan. 79.
Ég man samt eftir sólríkum tíma, en má vera að það hafi fylgt heiðríkjunni norðan-blástur.
En dettur helst í hug þrumur og eldingar þegar rætt er um des. 1978 því sá mánuður var prýðilega hlýr?
Alma Jenny Guðmundsdóttir, 16.1.2009 kl. 00:26
Veðurminni mitt er ekki gott, og ég get ekki lagt orð í belg um kulda og mikil snjóalögþáu ár sem enduðu á 9. Hins vegar man ég eftir vetrinum 74-75. Þá vor geyileg snjóalög á Héraði. Þetta byrjaði með hörðum austanbyl á annan í jólum 78. eftir áramót setti niður mikla snjóa og í kringum 20 jan var sótsvartur bylur í þrjá sólahringa án þess nokkuð slotaði. Þá var orðið slétt af öllum giljum og girðinar allar á kafi. Mátti gæta sín að gaga ekki eða aka á símalínur. Þessi snjór hélst fram yfir páska. Var þá orðinn svo harður að aka mátti öllum bílum beint af augum og upp á fjöll. Þennan vetur sliguðusr þök á fjárhúsum á nokkrum bæjum á Héraði. Er Veðurstoran með mælingar á snjódýpt og ef svo er hvað er þá metið.
Sigrún Björgvinsdóttir, 16.1.2009 kl. 22:40
Veðuratburður í desember 1978 suðvestanlands? Ef ég man rétt, þá byrjaði að snjóa að kveldi 30. des og snjóaði látlaust alla nóttina og fram á morgun þann 31. Það var hægviðri um nóttina og ég man ekki eftir meiri jafnföllnum snjó en þennan gamlársdagsmorgun. En þetta getur vel verið rangt - veðurminni mitt er jafnlélegt hinu.
Sigurður Grímsson (IP-tala skráð) 17.1.2009 kl. 23:50
Man eftir sumrinu 1979, var svo sem ekkert mjög slæmur vetur, en það kom ís inná Eyjafjörð 19 feb. svo var vorið og sumarið ógeðslegt, snjóaði í fjöll í kringum Dalvík einhverntíman í hverri viku allt sumarið. Það var verið að kvikmynda Land og syni í Svarfaðardal og veðrið var akkurat paslet fyrir það svið!
albert (IP-tala skráð) 18.1.2009 kl. 22:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.