23.2.2009
Skógareldar, agnamengun og loftslag
Sjónir manna beinast nú eðlilega að áhrifum skógareldanna í Ástralíu á loftslag almennt, en einkum þó á suðurhveli jarðar. Ótengd eldunum var haldin mikil ráðstefna veðurfræðinga í Melbourne í Ástralíu fyrr í þessum mánuði þar sem fjallað var um áhrif aukinnar agnamengunar í andrúmslofti á loftslag Eyjaálfu. Í marshefti Nature Geoscience er að auki fjallað um aukna tíðni skógarelda í Indonesíu og hvernig mistur af þeirra völdum og agnamengun geti haft áhrif á loftslag.
Í Melbourne var því haldið á lofti að aukin agnamegnun vegna iðnaðar, skógarelda eða annars sem beinlínis má rekja til mannlegra athafna mætti ekki setja undir sama hatt og loftslagsbreytingar vegna aukinna gróðurhúsáhrifa. Agnamegnunin er annað og meira og hún getur haft skjótari og meiri afleiðingar í för með sér, allt vegna þess að varmi frá sólu nýtist ekki yfirborði jarðar eins og hann gerði væri loftið hreint og tært. Sólarljós dreifist þegar það hafnar á smágerðum ögnum í lofthjúpnum og berst því síður til jarðar. Mistur af mannavöldum getur hæglega haft áhrif á upphitun yfirborðslaga sjávar, þar með á þrýstikerfin og vinda og aftur á hafstrauma. Í þessu sambandi má nefna að sandmistur frá Afríku sem berst út á Atlantshafið að sumri er talið hafa verulega þýðingu fyrir myndun fellibylja síðar sama sumar.
Mestar eru áhyggjur manna af því að ef agnamengunin raskar viðkvæmu kerfi hafstrauma Suðurhafa hafi það fljótt áhrif á dreifingu úrkomunnar.
Í grein Robert Field er sjónum manna beint að annars vegar Borneo þar sem gróðureldar voru tiltölulega fátíðir alveg fram undir 1980 og hins vegar Súmötru þar sem eldar á öllu tagi hafa verið nokkuð algengir frá upphafi þess tíma sem var skoðaður þ.e. 1960. Báðar eyjarnar eru við miðbaug og í regnskógabeltinu. Á Borneo var landbúnaður frumstæðari lengur en á Súmötru, en á endanum fór fólki að fjöga hratt, landnýting breyttist og meiri áhersla lögð á skógarnýtingu og háþróaðan landbúnað. Samanburður á milli stóru eyjanna tveggja Borneo og Súmötru leiðir það í ljós að með breyttri landnotkun og auknu þéttbýli er eins og skógareldarnir verði tíðari. Í rannsókninni er m.a. stuðst við athuganir á skyggni á flugvöllum, en þær gefa mikivæga vísbendingu um mistur í lofti af völdum reykjarkófs.
Robert Field dregur einnig fram áhrif aukinnar agnamengunnar af völdum gróður og skógarelda í þessum heimshluta á hafsstraumanna og viðkvæmt samspil þeirra og úrkomu þarna við miðbaug á milli Ástralíu og Malasískagans. Inn í þessa mynd spilar einnig ENSO (El Nino) og Indian Ocean Dipol (sjá umfjöllun hér) og að sjálfsögðu ártíðabundnir monsúnvindar. Hafstraumarnir eru nefnilega lykillinn að loftslagi á stórum hluta jarðarkringlunnar.
Viðfangsefni þessi eru mjög áhugaverð. Agnamengun dregur klárlega úr eða hægir á loftslagshlýnun af völdum auknum gróðurhúsaáhrifum, en hún er hins vegar líkleg til að geta raskað veðurfari a.m.k. um tíma á svæðum jarðar sem eru þéttbýl og mjög háð úrkomu fyrir ræktun og matvælaframleiðslu.
Flokkur: Utan úr heimi | Breytt 26.8.2009 kl. 13:33 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 50
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll, hefur þú eitthvað skoðað þetta? Menn eru alls ekki sammála um áhrif mannsins á loftslag jarðar.
kv. Karl
http://epw.senate.gov/public/index.cfm?FuseAction=Minority.Blogs&ContentRecord_id=2674e64f-802a-23ad-490b-bd9faf4dcdb7
Karl Jóhann (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 10:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.