14.5.2009
Sandmökkur af landi
Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri er að velta vöngum yfir mistrinu í loftinu suðvestanlands nú þeirri SA-átt sem verið hefur síðustu daga. Nefnir hann sérstaklega sandana austur af Þorlákshöfn til sögunnar og Landeyjarsand austar, en vindurinn rífur upp fínefni þetta snemma vors áður en gróður nær að binda betur. Svo virðist sem úrhellið á mánudag hafi lítið haft að segja. Yfirborði er fljótt að þorna og fínkornóttur sandurinn og leirinn fýkur af stað.
Síðasta föstudag (8.maí) var hér þó nokkuð hvöss N-átt og hret með snjókomu norðanlands eins og mörgum er enn í fersku minni. Af hinum víðfeðma Mýrdalssandi lagði þá mikinn sand- og moldarmökk út á haf. Á veðurstöð Vegagerðarinnar á Mýrdalssandi var lengst af þennan morgun NNV-átt um 15 m/s. Þórir N. Kjartansson í Vík náði athyglisverðri ljósmynd þar sem sandstrókurinn sést mjög greinilega og hvernig hann leggur til hafs. Myndin er tekin frá Vík og ber í Hjörleifshöfðann.
Um svipað leyti átti Aqua-tungl MODIS leið hér yfir í mikilli hæð og smellti af mynd kl. 14:10 af landinu og nánasta umhverfi. Lítið sást til landsins, en Reykjanesið gægist undan skýjabreiðunni og vel mótar fyrir Snæfellsnesi og Vestfjarðakjálkanum í gegn um bylgjuskýin. En sandmökkurinn ofan af Mýrdalssandi sést mjög vel og virðist hann ná um og yfir 200 kílómetra suður á Atlantshaf. (Einhver glöggur má gjarnan slá á vegalengdina með meiri nákvæmni !).
Tuglmyndir hafa svo sem sýnt eitthvað þessu líkt áður og það að fast efni skuli koma fram á ljósmyndum og sjást þannig með berum augum gerir veðurfræðingum kleyft að greina straummynstur sem annars væru ósýnileg. Haraldur Ólafsson fjallaði um athyglisvert sandrok í N-átt í Náttúrufræðingnum fyrir nokkrum árum (Haraldur Ólafsson : Sandfoksveðrið 5. október 2004. Náttúrufræðingurinn, 2004, 3-4). Það kemur manni ævinlega nokkuð á óvart hvað blöndun er í raun lítil í þetta stífum vindi og hvað kjarninn í mekkinum heldur sér langt frá upptökum. Greining á þessum fyrirbærum sem innihalda fínefni sem svífur um í loftinu gagnast mjög við skilning á dreifingu ósýnilegrar mengunar s.s. eins og frá uppsprettu umferðar eða brennisteinsvetnis frá gufuholu svo dæmi séu tekin.
Flokkur: Lengri greinar úr ýmsum áttum | Breytt 26.8.2009 kl. 13:21 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 7
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 55
- Frá upphafi: 1788788
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 51
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Flottar myndir og fróðlegur pistill, vona að sé í lagi að tengja við facebooksíðuna mína, heimildin birtist að sjálfsögðu.
Solveig (IP-tala skráð) 14.5.2009 kl. 19:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.