Loftþrýstingur með hærra móti

090602_1200Síðasta sólarhringinn hefur loftvog staði frekar hátt miðað við árstíma, einkum suðvestanlands.  Miðað við árstíma segi ég og skrifa vegna þess að 1035 hPa þykir ekkert tiltökumál seint á haustin, yfir vetrartímann og fram á vorið.  Þá stendur loftvogin hátt í tengslum vð kalt (og þungt) loft í lægstu lögum og jafnframt talsverða fyrirferð eða hlýindi ofantil í veðrahvolfinu.  Á sumrin er ekki köldu lofti til að dreifa í lægstu lögum og þá stendur loftvog sérlega hátt aðeins þegar suðlægar hæðir heimsækja okkur með heittempruðu lofti upp í 10-13 km hæð.  Sá galli er hins vegar oft á gjöf Njarðar að í neðstu nokkur hundruð metrunum er lofmassinn nokkuð aðlagaður sjávarhitanum, flákaskýjabreiða myndast og hlýindin eru þarna uppi.  Þannig hefur þetta verið í dag á landinu, nema inn til landsins víða um austanvert landið þar sem hefur verið sumarblíða.

Háþrýstimet/Sigurður Þór GuðjónssonMeðfylgjandi tafla er fengin frá Sigurði Þór Guðjónssyni úr færslu með Íslandsmetunum í veðrinu. Flest þessara háþrýstimeta eru orðin gömul og í mínum huga þarf nokkuð til að hnekkja þeim.  Hæsti loftþrýstingur sem hér hefur mælst í júní gerði í tenglum við  hitabylgjuna sem skóp hitamet landsins, 30,5°C, 22.júní 1939.  Frá 1949 hefur þrýstingurinn orðið mestur 1036,3 hPa, en það gerðist 14. júní suðvestanlands.  Í Þrjú önnur skipti hefur loftvoginn náð að skríða upp fyrir 1035 hPa þröskuldinn, en þar var 27.-28.júní 1960, 10. júní 1971 og 1.-2. júní 1997.

Litlu mátti muna að þrýstingurinn næði þessu marki í morgun á Keflavíkurflugvelli, en mér sýnist í fljótu bragði að herslumuninn hafi upp á vantað.

Mikill háþrýstingur að sumri er oft fyrirboði óvenjulegra daga í veðrinu, ýmist kaldra eða hlýrra.  Það tengist því að hefðbundinn straumur háloftavindanna er úr skorðum genginn.  Hinn hái loftþrýstingur 1959, 1971 og 1997 endaði í öllum tilvikum með talsverðum norðanhretum, þremur til fjórum dögum seinna.  Sum þeirra urðu raunar fræg af endemum. 1939 og aftur 1960 leiddi hinn hái þrýstingur hins vegar til góðviðriskafla í kjölfarið. Þessir hlutir ráðast nokk af hreyfingum hæðarinnar.  Fari hún til vesturs eftir að hafi komið hér við, er óhjákvæmilegt að skrúfað verður í botn frá kalda krananum. Það virðist hins vegar ekki ætla að verða raunin nú þó svo að býsna tvísýnt sé um það enn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég sé í veðurbókinni minni að loftvog hefur farið hæst seinni hluta maí í fyrra þ. 24. í 1027 hPa. Svo hefur hann komist í 1029 hPa þ. 12. júní kl. 21:00 Reyndar var loftþrystingur fremur hár hér allan júnímánuð í fyrra, oftast vel yfir 1010 hPa.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 2.6.2009 kl. 21:20

2 identicon

Hvað þarf þá til að hlýrra loft nái að koma að jörðu úr hæðinni, lægri sjávarhita? Meiri hitamismun til að toga hlýja loftið niður? (hreyfingin er væntanlega drifin af hitamismun eins og við þekkjum með lægðir?)

 (ég veit ekki mikið um veðurfræði, er bara að skjóta á þetta útfrá bloggfærslunni sem ég veit ekki hvort ég skil eða ekki  )

Arnar (IP-tala skráð) 2.6.2009 kl. 22:54

3 identicon

Langar reyndar að spyrja líka: Er vitavonlaust að nota þessa síðu til að spá f. um hita þar sem þetta sýnir hita eflaust kílómetra upp í loftið (eða hvað)

http://www.wetterzentrale.de/pics/avnpanel1.html

Arnar (IP-tala skráð) 2.6.2009 kl. 23:03

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta veðurlag í dag í Reykjavík er hreinlega viðbjóðslegt. Góð spurning hjá Arnari. Hvað er hægt að gjöra til að ná hlýja loftinu til jarðar? Ákalla þann sem á hæstum situr tróninum?

Sigurður Þór Guðjónsson, 2.6.2009 kl. 23:36

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Hlýja loftið vill vera uppi enda er það léttara en það kalda. Við þyrftum því helst að losna við kalda loftið hefði ég haldið. Nema hr. Sveinbjörnsson hafi eitthvað annað ráð.

Emil Hannes Valgeirsson, 2.6.2009 kl. 23:56

6 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Úrræði hins ráðagóða Sveinbjörnssonar er beðið með mikilli eftirvæntingu. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 3.6.2009 kl. 00:00

7 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Sé aðstreymi hlýja loftsins úr suðri, suðvestri eða jafnvel vestri er fátt til ráða fyrir þá sem eru staðsettir við Faxaflóann.  Þá er loftið búið að leika um hafið og hitahvarf sem kemur í veg fyrir lóðrétta blöndun í um 1000-1500 metra hæð, nærri mörkum hins svokallaða jaðarlags veðrahvolfsins.  Til að rjúfa stöðugleikann þarf annað tveggja að eiga sér stað. Loftið berst yfir hærri fjöll,  þyngdarbylgjur myndast sem ná að hræra upp oftast hlémegin.  Oft er niðurstreymið að ofan það kröftugt að rof kemst í skýjabreiðuna. Þá nær sólin í gegn, vermir upp landið og skapar dálítið uppstreymi og þar með aukna blöndun.  Við sávarsíðuna hefur hafræna loftið þó oftast yfirhöndina, en stundum þarf ekki að fara lengra en austur á Þingvöll til að sólin nái yfirhöndinni.

ESv 

Einar Sveinbjörnsson, 3.6.2009 kl. 08:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 3
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 81
  • Frá upphafi: 1786736

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 73
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband