Hár loftþrýstingur - samanburður við júní 1971

fjolskylda_Litluhlíð_Barðastönd_1971Það sem liðið er af júnímánuði hefur loftvogin verið  há ef mið er tekið af árstímanum.  Þessa fyrstu 10 daga er meðalloftvægið eitthvað nærri 1024 hPa á landinu.  Vitanlega er skammt liðið, en samkvæmt veðurspánum má gera ráð fyrir að ástandið verði með svipuðu móti fram yfir helgi hið skemmsta og þá er mánuðurinn hálfnaður.

Þessari tíð fylgir þurrviðri, ekki endilega sólskin og að loftið er í svalara lagi, en ekki beinlínis þó kalt.  Fremur vætusamt var á landinu í maí og síðasta rigningin sem eitthvað kvað að var á hvítasunnudag, þ. 30 maí.  Síðan þá hefur verið ansi þurrt á landinu.  Á mörgum mælistöðvanna hefur þó rignt eitthvað lítilsháttar. 

1971-06-17_12Veðurlag með áberandi háum loftþrýstingi var hér síðast í júní  árið 1971. Þá var meðalloftvægi í Reykjavík 1018,5 hPa.  Þann mánuð stóð loftvog mjög hátt fram eftir mánuðinum.  Fyrirstöðuhæð var þá skammt suðvesturundan. Eftir miðjan mánuðinn lækkaði loftvog nokkuð, en stóð samt áfram frekar hátt og tíðin einkenndist af áttleysu líkt og nú.  Alveg undir lokin gerði síðan kuldahret með ákveðinni N- og NA-átt (þá lægri loftvog).  Í Veðráttunni segir að tíðarfarið hafi verið fremur óhagstætt gróðri, víða með afbrigðum þurrviðarsamt og kalt með köflum um norðanvert landið.  Hiti á landinu var heldur undir meðallagi (1931-1960), en úrkoma ekki nema um þriðjungur meðallags á landsvísu.  Í Reykjavík hafði aldrei mælst minni úrkoma í júní eða aðeins 2,1 mm.  Svipaða sögu var að segja víða á Vesturlandi og Vestfjörðum.  Þetta var í lok hafísáranna og  hafís var nokkur úti fyrir meðal annars á togslóð Vestfjarðamiða skv. tilkynningum frá skipum.  

Tíðin lagaðist í júlí og sá mánuður árið 1971 þótti afar hagstætt og heyskapur gekk með ágætum vel um mest allt land.  

Þess má geta að í Reykjavík hefur úrkoma mælst tæplega 7 mm það sem af er mánuðinum. 

Ljósmyndin:  Myndin sýnir heimilisfólk á bænum Litluhlíð á Barðaströnd sumarið 1971.  Ekki veit ég hvort smellt hafi verið af í júní eða síðar um sumarið, en á Barðaströnd kom vart dropi úr lofti í júní eins og víðar við Breiðafjörðinn. Myndin er fengin af netinu (í óleyfi, vona að mér verði fyrirgefið). Sjá nánar um Litluhlíð hér.  

Veðurkortið:  17. júní 1971.  Loftvogin stóð í rúmum 1020 hPa á landinu. Engin sérstök vindátt og víða hafgola.  Þurrt í veðri.  Þetta kort gæti hæglega gilt fyrir daginn í dag, 11. júní 2009.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll

Það var frost á Fljótsdalhéraði í nótt.  Heldur þú að þær verði fleiri frostnæturnar næstu daga

katrín ásgrímsdóttir (IP-tala skráð) 11.6.2009 kl. 10:54

2 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Þykir það ósennilegt Katrín, í það minnsta ekki á meðan verður skýjað.  Í nótt náði að birta rækilega og því fór sem fór.

ESv 

Einar Sveinbjörnsson, 11.6.2009 kl. 11:19

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þetta er satt að segja fremur leiðinleg sumartíð, þetta kalda hægviðri þegar hiti berst stundum í bökkum að ná 10 stigum í Reykjavík í alskýjaðri vestanmollu.

Sigurður Þór Guðjónsson, 11.6.2009 kl. 11:55

4 Smámynd: Njörður Helgason

Jæja Einar. Hvernig spáir þú að veðrið verði í Hafnarfirðinum þann 21. júní?

Njörður Helgason, 11.6.2009 kl. 22:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 63
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 50
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband