Eitt af því sem gaf eftir í veðurhamnum sl. föstudag, 9. október var hluti klæðningar á fjölbýlishúsinu Hrafnhólar 6-8 í Breiðholti. Sjá mátti á myndum m.a. í fréttum sjónvarps hvernig álklæðning var að fjúka ofarlega í þröngu sundi á milli tveggja hárra blokka. Þetta þrönga sund vakti athygli mína og fór ég á stúfana til að gæta nánar að staðháttum.
Íbúðablokkirnar við Hrafnhóla og Kríuhóla standa mjög þétt saman og á milli þeirra er örgrannt sund á þremur eða fjórum stöðum. Þau tengja bílastæðin framan við húsin við sameiginlegan bakgarð með öðrum fjölbýlishúsum í Hólahverfinu. Eins og sjá má eru hærri blokkirnar 8 hæða eða tæplega 25 metrar á hæð.
Þrenging um húsasund
Við frekari skoðun á vindskilyrðum þarna eftir hádegi á föstudag mátti ætla að vindáttin hefði verið nálægt því há-austan. Hafi svo verið blæs sterkur vindurinn þvert á húsalengjuna. Við það þrengir loftið sér af miklum krafti á milli húsanna. Þessi áhrif eru þekkt, loftið leitar sér léttustu leiðar treður sér svo að segja á milli húsanna og af þeim mun meiri krafti eftir því sem sundið er þrengra. Á einfölduðu teikningunni að neðan er sýnt að yfirþrýstingur myndast framan við húsin þegar vindurinn stendur þvert á. Að sama skapi myndast undirþrýstingur hlémegin. Leitast er við að jafna þennan mun, m.a. með loftstreymi yfir byggingarnar, en vitanlega einnig um sundið úr því að það er þarna til staðar. Reynt hefur verið að reikna vindmögnun í tilviki sem þessu. Í þeirri tilraun sem hér er gerð að umtalsefni og vísað til* eykst vindmögnunin eftir því sem sundið er þrengt. Þegar það er 10 metrar má gera ráð fyrir að vindur í sundinu verði tvisvar sinnum grunnvindurinn í lofti ! Þá er gert ráð fyrir að sundið sé 10 m. Reyndar er ætlað að byggingarnar séu 50 metrar á hæð (en ekki 25 eins og hér).
Bilið á milli Hrafnhóla 6-8 og Kríuhóla 2 er hins vegar ekki nema um 3 metrar þar sem það er þrengst.
Upplýsingar um vind á svæðinu
Fróðlegt er að skoða tiltæka vindmælu í nágrenninu kl. 15 eða um það leyti sem veðurhamurinn var í hámarki. Gallinn er sá að engin vindmælar eru í nánasta nágrenni og reyndar ekki í efri byggðum Reykjavíkur eða Kópavogs. Lítt tjóar að líta til vindmælisins á Veðurstofunni (Bústaðavegur). Hann er ævinlega vonlaus í hvassri A-átt og þar voru ekki nema 14 m/s. Á Reykjavíkurflugvelli er mælir sem nær þessum vindi betur. Hann stendur lágt og er auk þess ansi langt frá Efra -Breiðholti í loftlínu. Tilraunamælirinn á Hólmsheiði (vegna flugvallapælinga þar) er skástur. Hann er í um 130 metra hæð, eða ívið hærri en efsti hluti Breiðholts. Hólmsheiðarmælirinn er í um 5,5 km í beinni loftlínu í ASA fra Hólahverfinu. Þarna var veðurhæðin 24-26 m/s meira og minna frá kl. 14 til 17 og vindáttin 90°-100° (A-átt). Ætla má að veðurhæðin þarna við háu blokkirnar austantil í Hólahverfinu hafi verið síst minni, ekki minni en 23-24 m/s. Við Víkurveg í Grafarvogi í um 40 metra hæð voru 24 m/s kl. 15 (stöðin er ekki á kortinu).
Líklegur vindur í sundinu sl. föstudag
Styrkur vindsins eykst til muna eftir því sem hærra er farið frá jörðu. Vindmælingarnar sem hér um ræðir eru gerðar í 10 metra hæð. Í 20 metra hæð er vindur í lofti þetta 10-15% meiri. Ef við gefum okkur að vindur í sundinu geti orðið tvöfaldur grunnvindurinn má ætla að ofantil, þar sem álklæðningin flettist geti vindurinn hafa verið um 50 m/s. Þá erum við að tala um sogið sem fengið er úr meðalvindinum en ekki mögulegan og líklegan heldur meiri augnabliksvind.
Frekari vangaveltur
Samskonar sund er sunnan við Kríuhóla 2 á milli nr. 4 Það er reyndar örlítið breiðara eða um 4 til 5 metrar. Þar hélt húsaklæðningin. Hugsanlega er þar annar frágangur eða sú staðreynd að sundið er örlítið breiðara sem hjálpar upp á sakirnar. Einu tók ég eftir og það var að þar sem fokskemmdirnar urðu barst vindurinn eftir nokkuð breiðu Norðurfellinu (sjá mynd um sundið þar sem sér niður eftir götunni) í beinni línu við bilið á milli blokkanna, en í hinu sundinu brotnar vindurinn ef til vill frekar betur á leið sinni yfir lága byggð raðhús þar sem trjágróður er nokkuð blómlegur.
Í spjalli mínu við formann húsfélagsins í Hrafnhólum, sagði hann að blokkin hefði verið klædd árið 1999. Fokskemmdir urðu bæði í fyrra og veturinn þar áður, einmitt í hvassri A-átt líkt og nú. Ekki þarf sérstaklega að óttast SA-áttina við þetta hús, en hún er vissulega tíðari þegar hvasst er. Há-austan er verst, enda stendur þá vindurinn þvert á húsalengjuna.
Hönnun út frá vindskilyrðum
Hlutar Efra-Breiðholts verða að segjast réttilega illa hannaðir m.t.t. sviptivinda. Fólk úti við er oft hætta búin í verstu veðrum. Þegar vindstyrkur er annars vegar munar um hæðaraukninguna í landinu og eins þekkta hröðun efst á ávölum ásum og holtum. Eins eru byggingarnar sumar allt of háar, nokkrar 8 hæða blokkir og jafnvel hærri. Þær skapa mikla sviptivinda og þarf ekki hvassan vind til. Þessi þröngu sund verða síðan til þess að kóróna þetta sköpunarverk skipulagshönnuða hverfisins frá því um 1970. Neðra-Breiðholtið, þ.e. Bakkarnir er andstæða Fella- og Hólahverfa. U-laga blokkirnar eru ekki í línulegri afstöðu. Þær brjóta upp vindinn og skapa frekar skjól. En landslagið hjálpar líka til, hið eiginlega Breiðholt skýlir þar sem það er hæst (Fella- og Hólahverfi) í austri og suðaustri.
En vonandi lærum við af reynslunni þó hún sé okkur stundum dýrkeypt. Byggðin Selásnum er t.d. miklu mun betur heppnuð í þessu tilliti og eins í Norðlingaholti, þó svo að þar megi sjá nokkur vindmagnandi sund á milli fjölbýlishúsa.
* Skyssan er fengin með umræddri tilraun úr;
B.Blocken and J.Carmeliet. Pedestrian Wind Environment around Buildings: Literature Review and Practical Examples. Journal og Thermal Envelope and Building Science 2004; 28; 107.
Flokkur: Lengri greinar úr ýmsum áttum | Breytt s.d. kl. 01:06 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 50
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.