Frost er nú um land allt. Meira að segja á Stórhöfða þar sem ekki hefur fryst fyrr en nú þetta haustið eins og Sigurður Þór bendir hér á. Má eiginlega segja að nokkurt vetrarríki sé á landinu sem eru talsverð viðbrigði eftir hagstætt haust. Fullveldisdaginn í fyrra (2008) var reyndar svipað upp á teningnum, í það minnsta var frost um land allt þá rétt eins og nú. Nú er það loftmassinn sjálfur sem er kaldur, en frostið ekki rakið til hitahvarfa við jörð eins og stundum er. Á hálendinu er víða þetta 12 til 14 stiga frost.
Einn kaldasti fullveldisdagurinn í seinni tíð var árið 1966. 1. des það ár markaði upphafið að köldum og umhleypingasömum desembermánuði, þar sem snjóþyngsli spilltu samgöngum víða um land. Eins og sést á meðfylgjandi veðurkorti frá þessum degi var hitinn -8°C á hádegi á Stórhöfða og þykir bara allnokkuð á þeim stað. 16 stig frost var á Hveravöllum.
Rétt eins og nú snjóaði talsvert í aðdraganda þessa kuldakasts sem varði frá 30. nóvember til 3. desember. Stórhríð var sögð vera norðanlands 27. og 28. nóvember og daginn eftir snjóaði talsvert sunnan- og suðvestanland. Ljósmyndin hér er úr Morgunblaðinu 1. des. 1966. Hún er nokkuð skemmtileg og sýnir stórt moksturstæki vera að hreinsa snjóinn framan við Alþingishúsið. Þarna eru líka nokkrir menn með handskóflur að baksa við mikinn vegg á Austurvelli, og hann er horfinn fyrir löngu og a.m.k. fyrir mitt minni. Í fréttinni með myndinni er Borgarverkfræðingur að skýra hve seinlegt það sé að hreinsa göturnar, en jafnframt kynnir hann til sögunnar nýja gerð af salti sem sé til reynslu og valdi minni ryðskemmdum á bílum en hið hefðbundna. Fram kemur að þetta salt sé eingöngu verið að reyna á Flókagötunni !
Annars staðar í blaðinu er sagt frá mikilli ófærð á Suðurlandi og seinlega gengi að hreinsa aðalleiðir og margir útvegir væru tepptir. Skemmtilegt orð, útvegir, lýsandi fyrir fáfarnari vegi út frá helstu leiðum.
Eins og svo oft á þessum árum þegar kuldaköst gerði, fylgdu fregnir í kjölfarið af heitavatnsskorti. Þarna í byrjun desember var engin undantekning frá þeirri reglu. Saman fór strekkingsvindur og nokkurt frost. Hús borgarbúa voru því blússkynt. Fréttir af heitavatnsskorti þessa ára einkenndust iðulega af því að leitað var sökudólga. Jóhannes Zoega hitaveitustjóri sem þá var, fékk yfir sig margan reiðilesturinn þar sem honum var allt að því kennt um N-áttina og kuldann. Þessari hættu af heitavatnsskorti samfara kuldaköstum var ekki fyllilega bægt frá fyrr en með tilkomu Nesjavallavirkjunar árið 1990.
Flokkur: Lengri greinar úr ýmsum áttum | Breytt s.d. kl. 09:28 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 7
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 55
- Frá upphafi: 1788788
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 51
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það var í Surtsey sem ekki hefur frosið í allt haust, var loks búin að nótera -0,2 stig rétt fyrir hádegið í dag. Á Stórhöfpa var frostið 2,0° strax 4. október en í nóvember öllum kom þar ekki frost.
Sigurður Þór Guðjónsson, 1.12.2009 kl. 12:25
Rétt skal vera rétt Sigurður ! Hljóp og hratt yfir textann hjá hjá þér.
ESv
Einar Sveinbjörnsson, 1.12.2009 kl. 16:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.