11.12.2009
Af vetrarblotum
Vetrarhlýindi sem við erum nú að horfa upp á eru nær árviss einhverntímann vetrarins, þ.e. á tímabilinu frá desember til mars.
Lægðir beina þá til okkar lofti með uppruna langt suður í Atlantshafi. Oft er jafnframt háþrýstingur fyrir austan eða suðaustan land sem er afar hjálplegur fyrir tilflutning þessa hlýja loftmassa langt norður eftir. Stundum geta skarpir vetrarblotar varað í tvo til þrjá daga eða jafnvel enn lengur þegar hver lægðabylgjan af annarri berst úr suðri yfir vestan land, án þess að svalara loft komi við sögu á milli. Algengara er þó að hiti rjúki upp í skamma stund, jafnvel dagpart, á meðan mestu hlýindin fara hjá.
Fyrir nokkru reyndi ég á ráðstefnu hjá Vegagerðinni að skilgreina skarpan vetrarblota á landsvísu. Í mínum huga þarf milda loftið að komast alla leið norður yfir miðhálendið. Ekki er nóg að það hlýni sunnan- og vestantil. Ryðja þarf í burtu öllu köldu lofti sem getur verið þaulsetið oft á tíðum austantil á Norðurlandi. Það kemur fyrir í vægari blotum að milda loftið fljóti ofan á hinu kaldara í lægstu lögum og lítið hlýni því á þeim slóðum.
Ég skilgreindi skarpan eða alvöru vetrarblota einfaldlega þannig: Ef hámarkshitinn á Akureyri nær 10°C telst sá dagur hafa verið hlákudagur af þessari tegund. Svo var einfaldlega talið og meðfylgjandi mynd sýnir þær niðurstöður síðustu áratuga, nema að síðasta vetur vantar þarna inn. Sjá má að breytileikinn er talsverður, en algengast er að skarpir vetrarblotar eru tveir til fjórir á vetri. Árin fyrir 1949 var farið í sjálfar athugunarbækurnar frá Akureyri og vera má að tilvikin séu vantalin. Frá 1949 var stuðst við gagntöflu Veðurstofunnar og þar er allt vandlega yfirfarið, þó vissulega leynist alltaf villur innan um.
Veturnir fyrst eftir aldamótin skera sig nokkuð úr, sérstaklega veturinn 2004-2005 með 24 daga þar sem hámarkshitinn á Akureyri nær 10°C. Þessi vetur var um margt óvenjulegur. Nánast samfelldan og óvenjulegan hlýindakafla gerði í lok janúar og byrjun febrúar og síðan var mars sérlega hlýr í ofanálag. Þessi vetur er einn sá snjóléttasti sem vitað er um á Akureyri. Blotar af þessari tegund, þegar þeir var í einhvern tíma, leysa hratt upp snjóalög í fjöllum og þarf þá ekki rigningu til. Hinn mildi vetur 1963-1964 skorar þarna líka hátt. Sá er annar snjóleysisvetur sem ýmsir eldri skíðamenn norðanlands minnast enn og þá með miklum hryllingi.
Nú eru sem sagt líkur á að næstu dagar, þ.e. fram á mánudag, geti komist í þennan flokk og teljast þá sem vetrarblotadagar. Síður að það verði nægjanlega stíf S-átt á sunnudag, en hina þrjá er líkur verulegar á að hitinn nái 10°C á Akureyri.
Í janúar 2008 fjallaði ég aðeins um merkinu hugtaksins asahláka.
Flokkur: Veðurfar á Íslandi | Breytt s.d. kl. 09:24 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 14
- Sl. viku: 49
- Frá upphafi: 1788782
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.