13.12.2009
Innlán á jöklum
Jöklar eru þar sem þeir eru vegna þess að þar snjóar meira heldur en sem nemur leysingu að sumarlagi. Sú staðreynd er okkur vel kunn. Stundum eru sýndar myndir að sumarlagi þar sem vatn fossar niður af Grænlandsjökli eða heili ísstykkin falla í sjó fram. Oftar en ekki er okkur talin trú um að þetta sé til marks um hlýnun jarðar og aukna ísbráðnun. Á sumrin er tekið út af bankareikningi jökulsins og hann rýrnar lítið eitt. Aldrei eru hins vegar sýndar myndir af því þegar lagt er inn á þessi "jöklabréf", sem sé þegar snjóar í verulegum mæli. Þá eru reyndar fáir til frásagnar, í það minnsta á Grænland enda vetur með sínum illviðrum þarna uppi í um 3.000 metra hæð.
Nú háttar einmitt svo til á suðaustur-Grænlandi að það snjóar feikimikið þessa dagana. Milt og mjög rakt loftið berst að ströndum A-Grænlands. Þar á sér stað þvinguð lyfting þess í kröftugri SA-átt. Þar með fellur mikil snjókoma á jökulinn. Athyglisvert að að sjá í raun hvað aðstreymi og mildu og röku lofti að haust- og vetrarlagi á einmitt stóran þátt í ákomu Grænlandsjökli. Í það minnsta á suðurhluta hans. Eftir því sem hlýrra er og meira um S-áttir að vetrinum, því meira snjóar á jöklinum !
Spákortið hér sem fengið er á Brunni VÍ sýnir spá kl. 06 í fyrramálið (mánudag 14. des). Úrkoman er á suðaustur Grænlandi er mjög áköf um 20 mm á 3 klst á stóru svæði og reyndar reiknast mér til að sé þessi spá sæmilega nákvæm muni úrkoman nema um 200-300 mm yfir tvo til þrjá sólarhringa á þessum slóðum. Það munar um minna fyrir afkomu jökulsins. Um þessi innlán eða ákomu að vetrinum er hins vegar sjaldan fjallað. Ekki heldur nú þegar loftslagsráðstefna Sþ. erhaldin í Danaveldi sem Grænland er vissulega hluti af. En allt er þetta vissulega gangur árstíðarsveiflunnar og lítið um hana að segja þegar kemur að sjálf langtímaveðurfarinu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.9.): 3
- Sl. sólarhring: 17
- Sl. viku: 58
- Frá upphafi: 1788087
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 55
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta þýðir einfaldlega að jöklar geta verið að hækka þótt flatarmál þeirra dragist saman.
Valdimar Samúelsson, 14.12.2009 kl. 08:18
Mikið er gaman að sjá að til eru íslenskir vísindamenn sem ekki hafa "tekið trúna" í þessum loftslagsmálum og geta haldið uppi vitrænni umræðu um málið og miðlað óbrengluðum staðreyndum til almennings. Hafðu þökk fyrir.
Gunnar Geirsson (IP-tala skráð) 14.12.2009 kl. 20:18
Ég kem einminn inn á þetta atriði í greininni "Að flýta ísöldinni", sem nú er inni á bloggsíðu minni (vey.blog.is). Mælingar sýna nefnilega ótvírætt að hábunga Grænlandsjökuls er að hækka, þótt kvarnist úr jöðrunum og snælínan sé að hækka. Svipað virðist vera að gerast á Suðurskautslandinu. Þegar hitastig hækkar eykst uppgufun úr höfunum, auk þess að hlýtt loft tekur til sín meiri raka. Jörðin mundi því öll verða rakari og grónari ef aftur hlýnaði í veðri, en það er ómótmælanleg staðreynd að Sahara og aðrar eyðimerkur voru grasi grónar fyrir árþúsundum, þegar veður var hlýrra. Eins og þú bendir á er það snjókoma, miklu frekar en hitastig sem mestu ræður um myndun jökla. Það er ein aðalástæða þess að stærstu jöklar á Íslandi eru á Suðausturlandi, þar sem úrkoma (snjókoma) er mest.
Vilhjálmur Eyþórsson, 14.12.2009 kl. 21:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.