Þórsmörk -upplýsingar til vegfarenda um vatnavexti í ám

torsmork

Fyrir nokkrum árum voru gerðar veðurathuganir í Þórsmörk að sumarlagi.  Öllu heldur í Básum (sem að sögn staðkunnugra eru ekki Þórsmörk á Goðalandi) og reyndi skálavörður að lesa af mælum af bestu getu á milli annað við að þjónusta ferðalanga. 

Þessar veðurathuganir leiddu í ljós að við ákveðin skilyrði getur rignt feikimikið í Mörkinni.  Einkum í sunnanátt þegar rakt loftið af Atlantshafi kembir yfir Eyjafjallajökul.  Áður var álitið að Eyjafjöllin skýldu Þorsmörk (og Goðalandi) fyrir regni, en mælingarnar leiddu annað í ljós.  Eins virðist úrkoma geta orðið mikil í ákveðinni tegund SV- og V-áttar þegar lítið rignir annars staðar.  

Árnar þarna innfrá, einkum Krossá og Steinholtsá bólgna mjög þegar mikið rignir.  Vitanlega eru þessar ár jökulvötn og leysing á hlýjum dögum hefur líka mikil áhrif á vatnsmagn þeirra.  Nú gerðist það í dag enn og aftur að hurð skall nærri hælum sökum vankunnáttu og skorti á upplýsingum.  Þýsku hjónin sem festu jeppa sinn í Steinholtsánni höfðu líkast til lítinn grun um það að vatnsmagnið væri meira en venjulega.  

Einhverjir hrista nú hausinn og tala jafnvel um gáleysi og annað í þá veru. En staðreyndin er sú að hálendisvegir eru morandi af ferðalöngum á litlum jeppum að sumarlagi og jafnvel þó margir hafi einhverjar upplýsingar og fari varlega eru þó alltaf nokkrir sem æða út i óvissuna í góðri trú.   

Sjálfvirkur úrkomumælir t.d. við skálann í Básum af sömu gerð og eru á þéttbýlisstöðum þar sem hætta er talin á ofanflóðum, kæmi að verulega miklu gagni.  Þar sem ekki er hlaupið að því að mæla rennsli ár eins og Krossár, sem flæmist um að hætti jökulvatna, mundu upplýsingar um úrkomumagn gagnast vel sem fyrirboði vatnavaxta.

Þjóðverjar í SteinholtsáÉg þykist vita að mikið er búið að rigna í Mörkinni undanfarna daga, sbr. veðurspá sem ég gerði að umtalsefni á dögunum.  Enginn er þó mælirinn til að staðfesta slíkar tilgátur, en vatnavextirnir í Krossá og Steinholtsá benda ótvírætt til þess.  Úrkomumælir sem sendir upplýsingar á klst. fresti til Veðurstofunnar kostar vel innan við 1 millj.kr með uppsetningu og rekstur hans 200-300 þús kr. á ári. 

Burt séð frá því hvernig menn hagnýta slíkar upplýsingar til þess að koma í veg fyrir óvita- og glannaskap við jökulárnar fæ ég ekki betur séð en ódýrari og einfaldari forvörn sé vart möguleg.   


Athugasemdir

1 identicon

Í svona tilfellum eins og gerðist um helgina hef ég enga trú á að svona mælir hefði haft neitt að segja sökum vankunnáttu ökumannsins þýska. Ef fólk hefur ekki vit á að leita sér upplýsinga þá getum við lítið gert fyrir það. Samkvæmt mínum upplýsingum var ekki meira í ánni á "réttum stað" en svo að björgunarsveitabílarnir vættu ekki stigbrettin. Það sem þessi elskulegi ferðamaður gerði voru algeng mistök, hann valdi að fara yfir vaðið þar sem það var mjóst, hefur líklega ætlað að verða fljótur yfir....

Kv. BÓ

Barbara Ósk (IP-tala skráð) 7.9.2007 kl. 15:28

2 Smámynd: Sigurður G. Tómasson

Þótt ég sé sammála Barböru, held ég að mælir af þessu tæi mundi gagnast mörgum Íslendingum vel. Þess vegna ætti að setja hann upp.

Sigurður G. Tómasson, 8.9.2007 kl. 21:18

3 Smámynd: Anna Runólfsdóttir

Það mætti spyrja hvaða Fljótshlíðing sem er að oft er úrkoma í Þórsmörk en hvergi annars staðar. En það er líka oft sól í Þórsmörk þegar það rignir í Fljótshlíð...

Anna Runólfsdóttir, 11.9.2007 kl. 10:21

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.8.): 8
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 64
  • Frá upphafi: 1791091

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 54
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband