Er ætlast til þess að maður trúi þessu ?

ölkelduháls27sept

Samkvæmt upplýsingasíðu Veðurstofunnar virðist sem mæld úrkoma síðasta sólarhringinn hafi verið heilir 220 mm á Ölkelduhálsi í Henglinum.  Úrkomusólarhringurinn hér er eins og ævinlega frá kl. 09 að morgni þar til kl. 09 morguninn eftir.  Ferillinn fyrir uppsöfnun úrkomunnar á Ölkelduhálsi sýnir að það byrjaði að rigna einmitt nálægt því kl. 09 í gærmorgun og úrkomuákefðin hélst stöðug alveg þangað til snemma í morgun að það stytti upp að mestu.  Þessi ákefð samsvarar 10-11 mm á klst

Séu þessar tölur réttar er um að ræða eitt af fimm til átta hæstu gildum sólarhringsúrkomu sem hér hafa mælst nokkru sinni.  Metið er frá Kvískerjum, en 10. janúar 2002 mældust þar 293,3 mm.  Í nágrenninu þ.e. í Hellisskarði þar sem Orkuveita Reykjavíkur kostar sams konar mæli komu "ekki nema" 118 mm síðasta sólarhringinn.

Fleiri tölur eru athyglisverðar, en þannig mældust tæplega 170 mm í Grundarfirði sem gæti hæglega verið met fyrir þá stöð.  Ég hef ekki við höndina hæstu fyrr gildi á þessari sjálfvirku úrkomustöð, en í það minnsta er þetta afar nærri meti þó svo að ég gæti best trúað að aldrei í um 10 ára sögu úrkomumælinga í Grundarfirði hafi mælst viðlíka sólarhringsúrkoma.

Þá komu 97 mm í Ólafsvík og 128 mm í mælinn í Bláfjöllum á meðan Reykjavíkurmælirinn var aðeins með 10 mm.  Þessi munur sýnir glöggt úrkomuskuggann sem Reykjanesfjallgarðurinn og Hengillinn varpar á innanverðan Faxflóann og þar með höfuðborgarsvæðið.  


Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Vignir Einarsson

Sæll.

Þetta eru fróðlegt nafni.  Það mikil breyting á veðurfarinu hér á landi undanfarin ár.

Einar Vignir Einarsson, 27.9.2007 kl. 11:26

2 identicon

Ég var á ferðinni á hellisheiði í gærkveldi og hef aldrei lent í annari eins rigningu.

Finnur Sveinbjörnsson (IP-tala skráð) 27.9.2007 kl. 11:30

3 Smámynd: Magnús Þór Jónsson

Sæll Einar.

Magnús Þór heiti ég og er skólastjóri í Snæfellsbæ.  Mig langar aðeins að nota þennan link hér og aðeins ræða við þig um veðuraðstæður hér norðan Snæfellsnesfjallgarðsins og þær veðurupplýsingar sem hér berast.

Ég er nýliði hér, flutti í júlí í fyrra og hef undrað mig mjög á veðrakerfunum á Nesinu.  Er vanur roki, bjó lengi á Sauðanesvita, víðfrægum en indælum rokrassi.

Sunnanáttir hér hljóta að vera sérstakar.  Ég bý á Hellissandi, vinn mest í Ólafsvík og konan mín í Grundarfirði.  Á þessari leið keyrir maður inn og út úr veðrakerfum, frá vindi og úða til aftakaveðurs í roki og úrkomu.  Þar sem við hér í Snæfellsbæ keyrum börnum á grunnskólaaldri á víxl undir Ennið milli Hellissands og Ólafsvíkur og flytjum framhaldsskólakrakkana okkar til Grundarfjarðar finnst okkur upplýsingar um veður hér stundum sérstakar.  Veðurstöðin opinbera er á Gufuskálum.  Í suðaustanátt má gleyma því sem viðmiði, þá er verið að reyna að plotta út veðurathugun sjálfvirka í Ólafsvíkurhöfn, því veðurmælirinn í Ólafsvík stendur í skjóli að stórum hluta fyrir sunnanáttunum.  Þar stóð lengi í gær t.d. 9 metrar á sekúndu sem var fáránlegt.

Við hér erum að reyna að komast í samband við Vegagerðina um sjálfvirkar stöðvar undir Enninu og á leiðinni milli Ólafsvíkur og Grundarfjarðar, t.d. rétt vestan við Búlandshöfðann, við Mávahlíð.  Þetta eru verstu rokstaðirnir í sunnanáttunum og því mikilvægt að þær upplýsingar liggi fyrir.  Í dag er verið að leita uppi höfnina og Kolgrafarfjarðarbrú sem oft eru líkar, en alls ekki alltaf.

Svo þegar maður lítur á yfirlitskortið í dag frá Veðurstofunni kemur upp 15 m/s á Stykkishólmi sem eina veðurstöðin hér.  Það er víðáttufjarri raunveruleikanum, stöðugur vindur á Kolgrafarfjarðarbrú er nú 24 m/s og í hviðunum nú mest 37 m/s.  Ef við skoðum Fróðárheiðina er stöðugt 24 m/s og hviður mest 33.

Í gær lenti ég í því í 120 mm sólarhringnum að VERÐA að taka bensín í Ólafsvík.  Þá hitti ég franska ferðamenn á Yaris sem höfðu kíkt á forsíðu vedur.is og veðrið á mbl.is eftir ábendingum og voru náhvít af hræðslu og undrun, höfðu keyrt Vatnaleið og ætluðu hringinn í kringum nesið, en enduðu í gistingu hér í nótt og eru enn (reyndar ágætt fyrir Ingu á hótelinu).

Mín spurning er því hvort við eigum að fara að breyta eitthvað yfirlitsmyndum og spám.  Man eftir því þegar ég var í Kanada að vetri fyrir um 10 árum, þá komu upp frosttölur MEÐ vindkælingu og vindhraði í hviðum.  Þegar ég spurði út af hverju það væri, þá sögðu menn það að afar óábyrgt væri að tala um hitastig án vindkælingar og stöðugan vind, því þá gæti hættan verið sú að fólk æddi út í tóma vitleysu.

Lengi ætlað að ræða þessi mál við Veðurstofufólk, en í látum dagsins í dag og gær, með tilheyrandi hræðslu forráðamanna og barna fannst mér kominn tími til.

Kveðja að vestan.

Magnús Þór Jónsson, 27.9.2007 kl. 12:52

4 identicon

Daginn, ég tek heilhugar undir þetta hjá ofanrituðum. Hef verið dálítið þarna á nesinu og þarna er ótrúlegur munur á veðri á mjög litlu svæði. Einnig mikið um ferðamenn sem hafa eflaust margir hvítnað eins og þau frönsku.

Þorleifur Magnús (IP-tala skráð) 27.9.2007 kl. 13:34

5 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Ég bý í Árbænum í efri byggðum Reykjavíkur, og get vel trúað þessum mælingum. Í gærkvöldi var ekki rigning þar, heldur bókstaflega fossaði vatn af himnum ofan niður á svalirnar og bílastæðið hjá mér. Ég er ekki að grínast, á köflum hætti maður að greina einstaka regndropa út um gluggann og sá bara stöðugan vatnsflaum sem frussaðist niður úr skýjakófinu.

Svakalegt, en nokkuð sjónarspil.

Guðmundur Ásgeirsson, 27.9.2007 kl. 14:23

6 identicon

Atarna var fróðlegur pistill - eins og reyndar allt sem Einar Sv. lætur frá sér fara. Aldeilis ljómandi gott séríslenskt fyrirbrigði að eiga svona aðgang að landsins færustu vísindamönnum. - En varðandi veðurfarið norðan á Nesinu verða seint sagðar þær tröllasögur af því að maður trúi ekki. Mig langar hinsvegar til að leggja honum Magnúsi Þór lið varðandi uppsetningu á sjálfvirkum veðurstöðvum á þeim stöðum sem hann bendir á. Einhvernveginn finnst manni, að Almannavarnir eða aðrir skyldir aðilar eigi að koma að því að setja upp slíka mæla á viðsjárverðum stöðum við fjölfarna vegi, eins og þarna er um að ræða, ekki síst m.t.t. þess sem Magnús Þór bendir á að þarna er daglega verið að ferja það dýrmætasta sem við eigum, börn og unglinga. Mig minnir að einhver slík sjónarmið hafi verið uppi þegar svona stöð var sett upp við Sandfell í Öræfum, en þar er þekktur staður fyrir staðbundin afbrigði í vindafari. Af því að margir lesa daglega bloggsíðu Einars Sv.  þá finnst mér það réttlæta að maður komi þessum sjónarmiðum á framfæri, þótt það sé í raun ekkert sem Einar hefur stjórn á og auðvitað bölvuð frekja af manni að misnota þessa síðu með þessum hætti. En tilgangur helgar meðalið!

gamall ólsari (IP-tala skráð) 27.9.2007 kl. 20:57

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 8
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 58
  • Frá upphafi: 1788776

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 54
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband