Keflavíkurflugvöllur hefur heldur betur verið í sviðsljósinu í dag eftir að vél Icelandair reyndi í tvígang lendingu í hvössum hliðarvindi í gærkvöldi, en varð að lokum frá að hverfa.
Um þetta leyti stóð vindur af suðaustri og var á bilinu 17-19 m/s en talsvert meiri í hviðum hviður eins og gengur. Hafa ber í huga að vindur við flugvöllinn er jafnari en ella er hér á landi þar sem nokkur vegalengd er i næstu fjöll. Þess ber þó að geta að ég hef ekki upplýsingar um nákvæman vind úr flugvallarathugun á þeirri stundu er vélin var að reyna lendingu. Á vellinum eru tvær brautir í notkun, svokölluð N/S braut eða 02/20 og hin, 11/29 sem er A/V braut. Báðar eru þær ríflega 3000 metra langar og uppfylla öll alþjóðleg viðmið.
Þegar stormur er af suðaustri stendur sá vindur um 45°á báðar brautir og hún er því krítísk og getur orsakað of sterkan hliðarvind í lendingu, sérstaklega ef vindáttin er að rása mikið til. Yfirleitt er þó SA-vindurinn nokkuð stöðugur í vindáttinni. Vel má ver að sú hafi ekki verið raunin í gærkvöldi.
Eins og margir vita er þriðja brautin til staðar á Keflavíkurflugvelli, eða SV/NA braut en hún er ekki í notkun í dag. Bandaríski herinn aflagði hana fyrir nokkrum árum i sparnaðarskyni. Myndin hér að ofan er fengin úr safni Mats Wibe Lund (mats.is). Myndin er frá 1993 og þá var styttri SV/NA brautin í fullri notkun. (Hún er mjórri og sýnist dekkri á myndinni en hinar tvær.)
Félag íslenskra atvinnuflugmanna blés til fundar í fyrir rúmu ári síðan um öryggismál Keflavíkurflugvallar. Þar sagði Jóhannes Bjarni Guðmundsson, þá varaformaður FÍA í samtali við Morgunblaðið:
"Í erindi sínu sagði Jóhannes nokkur atriði brenna á flugmönnum. Í fyrsta lagi mætti nefna það baráttumál til margra ára að opna á ný norðaustursuðvestur-flugbrautina á Keflavíkurflugvelli. Þörfin fyrir þessa flugbraut væri til staðar, t.d. fælist í því aukið öryggi, þar sem brautin væri opin mætti fækka þeim dögum þar sem verið væri að lenda í allt að hámarkshliðarvindi, jafnvel í hálku og skertum bremsuskilyrðum.
"Nærtækt dæmi um gildi þessarar flugbrautar fengum við í haust þegar suðvestan-hvassviðri olli því að fjölmargar flugvélar urðu frá að hverfa. Þá stóð vindur næstum beint á braut 07/25 [norðaustursuðvestur-brautina]. Vél í neyð hefði orðið að eiga við allt of mikinn hliðarvind á öðrum brautum," sagði Jóhannes.
Í samtali við Morgunblaðið ítrekaði hann þessa skoðun og sagði að ekki væri á það bætandi fyrir flugvél í neyð að þurfa að fara lengri veg til lendingar, t.d. til Skotlands, eða lenda í óþarflega miklum hliðarvindi." (Morgunblaðið 15. des 2006)
Í sömu frétt kom fram að áætlaður kostnaður við það að koma brautinni í stand m.a. aðflugsbúnaði, raflögnum og öðru væri um 200 til 250 milljónir og fellur vitanlega nú alfarið á ríkissjóð eftir brotthvarf hersins.
Þess ber að geta að SV/NA brautin hefði ekki komið að neinu gagni í gærkvöldi því vindur nærri 90°á þá braut. Hins vegar hljóta menn að huga að öryggi vallarins og gera hann sem bestan úr garði til að fækka þeim tilvikum að vélar verði að snúa frá, til Egilsstaða eða jafnvel Skotlands. Athyglisvert væri að sjá tölfræði þess efnis eftir árum í hve mörg skipti flugvöllurinn gagnast ekki í lendingum vegna veðuraðstæðna og þá einkum vegna vinds. Ýmsir aðrir þættir veðurs geta líkað valdið röskun s.s. þoka, snjókoma eða önnur úrkoma sem dregur úr bremsuskilyrðum. En ég er nokkuð viss um að óhagstæður vindur eigi stærstan þátt.
Mig rekur oftar minni til þess að vélum er snúið frá í hvassri SV átt, en í SA. Þó var SA-átt þegar nokkrar vélar Icelandair að vestan náðu ekki að lenda áður en vindur rauk upp að morgni 30. des sl. Hvassri SV-átt fylgir langoftast éljagangur með tilheyrandi misvindi og almennum gauragangi í loftinu næst landi.
Fyrir okkur hér á hinu veðurhrjáða Íslandi hlýtur að vera mikið keppikefli að gera helsta millilandaflugvöll okkar sem bestan úr garði og því tek ég undir með Jóhannesi Bjarna að opnun SV/NA brautarinnar að nýju er fyrst og fremst öryggismál. Meginflugbrautunum tveimur var hins vegar ekki snúið alveg rétt m.t.t. hinnar leiðinlegu SA-áttar þegar völlurinn var lagður af Bandaríska setuliðinu í lok stríðsins.
Viðbót/leiðrétting: Að morgni þ. 30 náðu allar vélar að lenda sem komu að vestan. Það stóð tæpt, því skömmu seinnajóks vindur það mikið að ekki þótti hyggilegt að hreyfa við þeim vélum sem stóðu ferðbúnar á flughlaðinu. Röskun flugs var því af þeim völdum.
Flokkur: Lengri greinar úr ýmsum áttum | 4.1.2008 (breytt 26.8.2009 kl. 21:27) | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.12.): 1
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 47
- Frá upphafi: 1788999
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 43
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Kanar voru ansi góðir við okkur að byggja svona fínar stórar flugbrautir. Það er eins gott að hafa varaflugvöll þegar vindar eru með ólæti.
Ólafur Þórðarson, 5.1.2008 kl. 05:49
góður pistill hjá þér og mjög fræðandi.
Óskar Þorkelsson, 5.1.2008 kl. 10:24
Góð samantekt hjá Einari.
Það er miklu meira atriði að opna SV / NA brautina í Keflavík, en að lengja á Akureyri. Sú aðgerð er eingöngu til komin af póliískum þrýstingi í Ejafirði. Það vita allir sem smá vit hafa á flugmálum, að það er sama hve löng flugbrautin á Akureyri verður, það eru alltaf nærliggjandi fjöll sem takamarka flug inn á þann flugvöll og hafa úrslita áhrif á það verkefni.
Möller lætur það hins vegar sem vind um eyru þjóta, enda verður hann að hafa bakland sitt í Ejafirði á rólegu nótunum fyrir næstu kosningar og skítt með það þó þjóðin blæði fyrir rangar ákvarðanir úr ráðuneyti hans.
Benedikt V. Warén, 5.1.2008 kl. 12:27
Ég man að Jóhannes heitinn Snorrason vildi alltaf að varaflugvöllur yrði á Sauðárkróki, þar er gott aðflug, jafnvel enn betra en á Egilsstöðum, veðurfarslegur munur nægilegur, og síðast en ekki síst tiltölulega auðvelt að flytja farþega landveg til höfuðborgarinnar hvað vegalengd snertir. Aðflug að Akureyrarvelli er alltaf leiðinlegt ef einhver vindur er í lofti, nánast af hvaða átt sem er. Ósköp er maður hræddur um að fólkið sem missti stjórn á sér í vélinni frá Kanarí í fyrradag væri ekki rólegt í aðflugi að Akureyri í SV-átt á Fokker
Nöldrarinn (IP-tala skráð) 5.1.2008 kl. 13:17
Gunnar Helgi Eysteinsson, 5.1.2008 kl. 14:15
Heill og sæll!
Auðvitað á að taka gömlu 7-25 brautina (SV-NA) í notkun á ný. Þegar menn þóttust ætla að spara með því að fækka um eina braut þurfti víst að ljúga einhverju. Tekin var samanlögð lengd allra þriggja brauta og skipt heildarkostnaði á milli þeirra hlutfallslega eftir lengd. Suðvesturbrautin var þannig u.þ.b. einn fjórði af heildinni.
Augljóslega var þetta vitleysa. Brautin var í góðu lagi, þegar hún var aflögð. Vissulega lítið notuð. Snjó þurfti ekki að fjarlægja eins og af norður-suður, svo og austur-vestur brautunum. Ekki þurfti að halda við aðflugsljósum og öðrum búnaði vegna blindlendinga. Ekki var miklu eytt til malbikunar. Kostnaðurinn var því sáralítill. Þeir sem þóttust vera að gera eitthvað að gagni voru bara að þykjast.
Annars rakst ég á þessa síðu þína. er ég var að leita að upplýsingum um vind í desember síðastliðnum á Keflavíkurflugvelli. Ég fékk þetta frá þér um Reykjavíkurflugvöll, þ.e. sjálfvirkar athuganir á 10 mínútna fresti. Sett hefi ég þetta upp í EXCEL forriti og reiknað samanlagðan tíma hliðarvinds umfram 10, 13, 20 og 26 hnúta. Mig langar til þess að vita, hver hliðarvindur á Keflavíkurflugvelli var samkvæmt tölvuskráðum gildum, er hin frægu aðflug voru reynd. Get ég fengið þessi skráðu gögn? Getur þú hjálpað mér?
Kveðja!
Sveinn Guðmundsson, verkfr.
sg@vakis
Sveinn Guðmundsson, verkfr. (IP-tala skráð) 7.1.2008 kl. 13:48
Á þessum tíma var 17-19 m/s og vindur stóð 45° á brautirnar.
Hliðarvindurinn miðað við 19 m/s = (sin45x19) = 13,4 m/s (25 Hnútar)
Magnús Pétursson (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 21:05
....Þetta er meðað við stöðugan vind, getum ýmindað okkur hvernig þetta hefur verið í hviðunum, eflaust um 30-35 hnútar í hliðarvind.
Magnús Pétursson (IP-tala skráð) 8.1.2008 kl. 21:09
Ég tek það með fyrirvara þegar Icelandair flugmenn geta ekki lent vegna veðurs og lokaðra flugbrauta. Sérstaklega ef maður horfir svo á flugmenn annara flugfélaga lenda án vandræða á sama tíma.
sigkja (IP-tala skráð) 12.1.2008 kl. 15:56