Ekkert hefur verið hægt að lenda á Hólmsheiðarflugvelli síðustu daga...

Þessa dagana hefur veðráttan verið með þeim einkennum að ef innanlandsflugvöllur hefði verið kominn á Hólmsheiði hefði hann meira og minna verið lokaður vegna veðurs síðustu þrjá til fjóra dagana.

Fyrirhugað flugvallarstæði er í um 130 metra hæð yfir sjávarmáli og áhrif þeirrar hæðar miðað við Reykjavíkurflugvöll koma fram af fullum þunga á dögum þegar hitinn er rétt ofan frostmarks í Reykjavík. Einmitt þannig hefur veðráttan verið að undanförnu. Í gærmorgun gengu til að mynda skil yfir með slyddu í Reykjavík og +2 °C á sama tíma var hitinn lægri á Hólmsheiði eða 0°C og þar snjókoma með mun verra skyggni svo ekki sé talað um bremsuskilyrðin.  Í gærkvöldi og nótt gerði síðan mikinn  krapasnjó í höfuðborginni og áfram reyndar í dag.  Ofan af Mosfellsheiði upp úr Mosfellsdal frétti ég hins vegar að talsverðu fannfergi og Vegagerðin hafði vart undan að moka og hreinsa snjó af Suðurlandsveginum ofan byggðarinnar. Svipað ástand væntanlega á flugvellinum á Hólmsheiði væri hann kominn til skjalanna.

En það er ekki aðeins þetta með hitastigið og þann litla mun sem gerir slyddu að snjókomu heldur einnig rakastigið.  Þeim mun nær 100% raka sem loftið er,  þeim mun líklegra er að rakamóðan dragi úr skyggni.  Í 95-98% minnkar ekki endilega lárétt skyggni, en svo hátt rakastig er aftur á móti ávísun á mjög lág ský yfir flugvellinum.

Við sjáum vel með því að bera saman rakastigslínuritin tvö hér að neðan af vef Veðurstofunnar hve nálægt 100% rakinn er á Hólmsheiðinni lengst af síðustu fjóra daga eða svo.  Miðgildi rakans á Reykjavíkurflugvelli (neðra línuritið) er rétt innan við 90%.  Þennan skýra mun má að öllu leyti skrifa á reikning þess hæðarmismunar sem er á  veðurmælunum í þeim veðurskilyrðum sem ríkt hafa síðustu fjóra daga eða svo.

Hólmsheiði, veðurathuganir

Reykjavíkurflugvöllur, veðurathuganir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nei, innanlandsflugvöllur á Hólmsheiði er bæði vond og óskynsamleg hugmynd út frá veðurfarssjónarmiðunum einum saman hvað svo sem menn segja um önnur álitamál af samfélags- og skipulagstoga. 


Athugasemdir

1 Smámynd: Hallur Magnússon

Undirstrikar þá staðeynd að Löngusker er lausnin!

Meira á : Löngusker langbesti kosturinn! 

Hallur Magnússon, 7.3.2008 kl. 23:52

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Lömgusker yrði syndsamleg umhverfisspjöll. Það er flugvöllur á sínum stað og skásta lausnin að hafa hann bara á sínum stað áfram. Á Lönguserjum yrðu auk þess seltutvandamál. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 8.3.2008 kl. 00:00

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Góð og fróðleg grein. Það er ekki hægt að fá betra flugvallarstæði en þar sem hann er núna. Ef flugvöllurinn yrði fluttur er varla um annað en Keflavík að ræða.

Mér finnst í hæsta máta furulegt af hafa flugmenn ekki með í ráðum. 

Sigurður Þórðarson, 8.3.2008 kl. 01:47

4 identicon

Þetta  eru  þarfar hugleiðingar,Einar. Hafðu þökk fyrir. Það er eins og þeir  sem tala um Hólmsheiðarflugvöll geri sér enga  grein fyrir því að þar er allt annað veðurfar en  í Vatnsmýri. Þeir sem tala um flugvöll á miðjum Skerjafirðinum eru enn fjær  veruleikanum. Sú hugmynd er út úr kú.  Hvað mundu margir dagar  tapast vegna  særoks og  seltu ?  Það er í raun fáránlegt að  það skuli vera  til umræðu að eyðileggja mikilvægt samgöngumannvirki eins og  Reykjavíkurflugvöll, mannvirki sem þjónar  öllu landinu og  er eitt af því sem  gerir  Reykjavík að höfuðborg landsins. Best er að hafa flugvöllinn þar sem hann er, kannski í eitthvað breyttri  mynd, eða þá  nota  Keflavíkurflugvöll. Það mundi hinsvegar þýða að innanlandsflug leggðist að mestu af.

Hólmsheiðarmenn og  Lönguskerjatalsmenn virðast ekki bera mikla  virðingu  fyrir  peningum skattborgaranna.

Eiður Guðnason (IP-tala skráð) 8.3.2008 kl. 10:14

5 Smámynd: Haukur Nikulásson

Hér gengur Einar bara aðeins of langt. Veðurfarið hefur verið með þeim hætti í Vatnsmýrinni líka að flug hefur legið niðri. Það er vitað mál að flug er varasamt þegar slæm eru veður og maður fær á tilfinninguna að sumir sé með flug eins og hálfvitarnir sem fóru á lokuðu Hellisheiðina þegar ófærðin var sem mest.

Vilji menn ræða náttúruna þá mega þessir sömu hugleiða að Básendaflóð myndi gera Vatnsmýrarflugvöllinn ónothæfan með öllu. Það sem skondnast við slíka mögulega uppákomu er að þá myndi flugvöllur á  Hólmsheiði hugsanlega bjarga málunum.

Þeir sem vilja flugvöllinn burt geta alveg viðurkennt að það komi einstaka dagar sem gera Vatnsmýrina nothæfa á meðan Hólmsheiðin myndi hugsanlega lokast. Það er bara hluti af heildarmyndinni. Við sem viljum flugvöllinn burt viljum horfa á kostina við færsluna 362 daga ársins en ekki þá þá 3 daga á ári sem ókostirnir geta sýnt sig með vondu veðri.

Eins og með önnur mál er heimilt að vera ósammála. Það sem er einum mikils virði hefur lítið gildi annars staðar. 

Haukur Nikulásson, 8.3.2008 kl. 10:45

6 identicon

Þú segir Haukur að flug á Reykjavíkurflugvelli hafi legið niðri undanfarna daga, hvernig stendur þá á þessum straum af flugvélum sem ég hef séð þar undanfarna daga að lenda og taka á loft.

Gestur (IP-tala skráð) 8.3.2008 kl. 11:29

7 identicon

Sælir herramenn.  Þar sem Sigurður Þórðarson minnist á að það sé skrýtið að hafa ekki flugmenn með í ráðum þá vil ég benda á grein sem ég fékk birta í MBL 3. mars sl. sem heitir Ekki Hólmsheiði eða Löngusker.  Ég tel mig færa þar fullnægjandi rök fyrir því hvers vegna þær hugmyndir ganga ekki upp, amk. frá sjónarhóli flugmanns.  Það er í alvörunni stórskrýtið en um leið dæmigert hvers vegna ALLIR fagmenn sem að málinu koma eru ekki hafðir með í ráðum, því miður.  Pólitíkin er stundum algjör tík.   Bestu kveðjur.

Matthías Arngrímsson (IP-tala skráð) 8.3.2008 kl. 12:01

8 identicon

Þarna las ég athugasemdina þína ekki nógu vel og var aðeins of fljótur á mér, biðst afsökunar.

Gestur (IP-tala skráð) 8.3.2008 kl. 12:02

9 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég veit ekki betur en að það hafi allir fengið að vera með í ráðum. Líka flugmenn því við fengum öll að kjósa um þetta má á sínum tíma. Flugmenn, sem aðrir, verða að hlýta niðurstöðum kosninga því við höfum bara ekki betri leið til að útkljá slík mál.

Mikið yrði ég glaður ef ég gæti sleppt því að hlýta niðurstöðum þeirra kosninga sem mér líkar ekki niðurstaðan á. Því er bara ekki til að dreifa enn sem komið er.

Haukur Nikulásson, 8.3.2008 kl. 12:58

10 identicon

Þetta eru forvitnilegar og þarfar upplýsingar sem þú setur fram hér Einar.  Hafðu þökk fyrir það.  Mér hefur aldrei hugnast flugvöllur uppi á heiðinni, fyrst og fremst vegna veðurfars.  Ég vænti þess að þeir sem hafa sem mest hvatt til þess að flugvöllurinn fari upp á Hólmsheiði endurskoði afstöðu sína.

Brynjar (IP-tala skráð) 8.3.2008 kl. 13:02

11 Smámynd: Haukur Nikulásson

"Hólmsheiðarmenn og  Lönguskerjatalsmenn virðast ekki bera mikla  virðingu  fyrir  peningum skattborgaranna."  -  Eiður Guðnason

Er þetta þetta athugasemd frá þeim sama sem þiggur margföld eftirlaun frá okkur skattborgunum sem opinber starfsmaður, ráðherra, þingmaður og sendiherra? 

Haukur Nikulásson, 8.3.2008 kl. 13:06

12 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Ég held að þetta með rakastigið og skýjahæð sem Einar bendir á sé mjög afdrifaríkur þáttur varðandi staðsetningu flugvallar á Hólmsheiði og geri flugvöll þar nánast ómögulegan. Það er ekki viturlegt að byggja flugvöll fyrir stórfé, sem er síðan lokaður dögum saman vegna lítillar skýjahæðar. Lönguskerin eru líka glapræði fyrir minn smekk.

Emil Hannes Valgeirsson, 8.3.2008 kl. 13:12

13 identicon

Haukur, lestu nú endilega þessa grein hans Matthíasar því flugmenn hreinlega hlæja að svona málflutningi eins og þínum sem byggist á fáfræði og því hvet ég þig til þess að fræðast.

Þó svo að menn myndu líta framhjá því að lágmarkshæð myndi hækka við það að flytja völlinn upp á heiði að þá vil ég endilega biðja menn um að átta sig á landslaginu í kringum Hólmsheiðina. Það eru ekkert nema fjöll sem myndi þýða enn hærra lágmark og meiri ókyrrð. Mun meiri ókyrrð. Þá vil ég minna fólk á hversu ókyrrðarhræddir Íslendingar virðast vera eins og sannaðist í Keflavík þegar flugvél hætti tvisvar við og lenti svo á Egilsstöðum. Svoleiðis atvikum  myndi fjölga stórlega.

Ég vona bara að fólk fari að taka mark á þeim sem hafa vit á flugi í staðinn fyrir að auglýsa fáfræði sína með stórkostlega röngum alhæfingum.

Þess má geta að ég er atvinnuflugmaður.

Ingvar (IP-tala skráð) 8.3.2008 kl. 16:02

14 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Allt flug til Keflavíkur, takk.

 Gef ansi hreint lítið fyrir röksemdina:  Allt of dýrt að setja á stofn einteinung milli Reykjavíkur og Reykjanesbæjar á meðan jarðgöngum fyrir margmilljarða er saltað út um land (og ég er EKKI á móti jarðgöngum úti um land)

Endurnýti hér athugasemd sem ég kom með hjá öðrum bloggara fyrir nokkrum vikum:

Eina afsökunin fyrir flugvelli í Vatnsmýri sem ég tek mögulega gilda, er nálægð við sjúkrahús. En er ekki verið að byggja hátæknisjúkrahús. Er ekki hægt að byggja það í samhengi við flugvöll? Fyrir sunnan Hafnarfjörð? Er það ekki álíka sentral og okkar elskulega miðborg.  Hvernig væri að hugsa málin örlítið í samhengi.

Egilsstaðabúinn bróðir minn bíður eftir vondaveðursflugi í Garðabæ hjá mömmu og pabba; hann er sirka 10 mínútum lengur til Keflavíkur en á Reykjavíkurflugvöll. Þeir sem eru í Hafnarfirði, Árbæ, Grafarvogi, ofl. eru lengur. Talsvert oftar hægt að fljúga á Keflavík en Reykjavík, þannig að sú röksemd bara heldur ekki.

Mér finnst afskaplega þægilegt að hafa flugvöllinn 5 mínútur frá mér. Já og spítalann. En ég er alveg til í að fórna því fyrir að hafa ekki rellurnar fljúgandi yfir Austurbæjarskóla með börnin mín inni. Núna. og (2 mín seinna): núna, og (aftur 2-3 mín seinna): Og núna! Mér þykir líka mjög þægilegt að hafa spítalann í göngufæri, eftir aðgerðina mína fyrir 3-4 árum gat ég labbað í skoðun. Líka vel til í að fórna því. Líka til þess að það þurfi ekki að halda áfram að byggja fyrir ofan snjólínu eins og stefnan hefur verið ansi hreint lengi.

Áætlunarvélarnar eru hættar að fara hér yfir, það eru bara tvær brautir sem eru í notkun þar. Norður-suður brautin, aðalbrautin, sem liggur yfir alla stjórnsýslu landsins. Bendið mér á aðflug sem liggur yfir þinghús lands og ráðhús höfuðborgar. Austur-vesturbrautin er miklu minna notuð - en samt mun hættuminni. Brautin sem liggur hér yfir er varabraut en greinilega notuð fyrir rellur samt, fyrir utan að þær virðast fljúga að vild hér yfir, sbr þessa fyrir örfáum árum, sem var nærri farin utan í Hallgrímskirkju.

Ég vil skoða út í æsar að byggja einteinung (mögulega yfirbyggðan) til Sunny Kef. Var skoðað og slegið út af kortinu fyrir nokkrum árum, hefur ekki byggðamynstur breyst ansi mikið síðan þá? Hve margir búa í Vogum eða Reykjanesbæ og vinna í Reykjavík, sem myndu nota sér slíkt, og voru ekki í samhenginu þegar þetta var skoðað síðast?  Hefur ekki eldsneytisverð hækkað helling síðan, líka?

Gef lítið fyrir þægindavandamál utanbæjarbúa, að þurfa að keyra (nú eða taka hraðlest, vonandi) í hálftíma eða svo til að geta sinnt erindum.  Það fólk sem býr til dæmis efst í Grafarvogi og í nýju hverfunum hálfa leið til Bláfjalla þurfa að gera svipað á hverjum einasta degi á leið til vinnu. 

Siðast en ekki síst: Hefur 300 þúsund manna þjóð virkilega efni á því að reka tvo flugvelli í fimmtíu kílómetra fjarlægð hvorn frá öðrum, núna þegar Kaninn er steinhættur að borga fyrir Kef? Eða eigum við bara að flytja allt draslið hingað í Vatnsmýrina? Ekki hefur nú ástandið á hinum holufyllta Reykjavíkurflugvelli bent til þess hingað til.

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 8.3.2008 kl. 16:35

15 identicon

Ágæta Hildigunnur. Austur-vestur brautin er aðal brautin í Reykjavík. Það veit ég vegna þess að ég nota hana mun meira en aðrar brautir þegar ég flýg og líka vegna þess að það stendur í AIP sem er rit gefið út af flugmálastjórn og breytingar uppfærðar nokkrum sinnum á ári.

Reykjavík og Keflavík sinna mikilvægu varahlutverki fyrir hvorn annan. Næsti stóri flugvöllur fyrir utan þá tvo er Akureyri og síðan Egilsstaðir. Ef Reykjavíkurflugvelli yrði lokað og aðstæður yrðu þannig að Akureyri og Egilstaðir lokist t.d. vegna veðurs er næsti flugvöllur fyrir millilandaflug Glasgow.

Ingvar (IP-tala skráð) 8.3.2008 kl. 16:55

16 identicon

Ég tel að Hildigunnur hafi lög að mæla.

Það er langbest að flytja flugstarfsemina til Keflavíkur. Ekki bara er landsvæðið í Vatnsmýrinni mjög verðmætt heldur sparast mikill peningur við það að reka bara einn flugvöll í stað tveggja í 50km radíus frá hver öðrum.

Hluta af þessum pening er hægt að veita í að bæta samgöngur á milli Rvk og
Keflavíkur. Einnig væri hægt að veita þessum pening í að bæta aðstöðu á sjúkrahúsinu
í Keflavík.

Afhverju er aldrei minnst á það hversu hagkvæmt og þægilegt það yrði fyrir sveitavarginn
að hafa innanlands- og millilandaflug á sama velli? Landsbyggðarmenn gætu tékkað sig inn á sínum dreifbýlisflugvelli og flogið beint á Leifsstöð og þaðan útí heim.

Ormurinn

ps. Hversu oft gerist það að allir flugvellirnir á Keflavík, Akureyri og Egilsstöðum eru
lokaðir á sama tíma vegna veðurs??
Hefur það yfirhöfuð gerst? Og ef svo er, væri ekki einhver fyrirvari á því þannig að vélar
sem væru á áætlun til Íslands færu bara ekki í loftið fyrr en aðstæður batna?? 

Ormur (IP-tala skráð) 8.3.2008 kl. 17:39

17 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ég er sammála Hildigunni og Ormi. Sjálfsagt mál að hafa flugvöllinn í Keflavík. Það er mikið svæði í Vatnsmýrinni sem hægt væri að nýta betur fyrir borgarbúa. Það er ekki langt til Keflavíkur. Þegar ég bjó í Keflavík á yngri árum, þá skellti maður sér í bíó í Reykjavík eins og það væri innanbæjarferð. Það skal þó tekið fram að Reykjavíkurbúum (eins og ég er í dag) finnst mun lengra til Keflavíkur en Keflvíkingum finnst til Reykjavíkur.

Úti í hinum stóra heimi þykir ekkert tiltökumál að keyra 1 klst. á flugvöllinn. Takið t.d. Kaupmannahafnarflugvöll, ef þú býrð aðeins norðan við miðbæinn þá getur það tekið klukkutíma að fara á flugvöllinn á bíl, hins vegar styttri tíma með lest. Fyrir utan það eins og Ormur segir þá er fólk utan af landi oft á leið í flug til útlanda, það gæti þá verið upplagt að geta flogið beint út í heim úr Leifstöð.  

Sveinn Atli Gunnarsson, 8.3.2008 kl. 18:01

18 Smámynd: Hallur Magnússon

Haukur!

Mér finnst þetta ósmekkleg athugasemd gagnvart Eiði Guðnasyni. Þó ég sé ekki alltaf sammála Eiði í pólitík, þá hefur Eiður hefur alla tíð unnið vel að þeim verkefnum sem honum hefur verið falið! Þú getur ekki ráðist að Eiði þótt hann muni sæki lögboðin rétt sinn til eftirlauna fyrir þau störf sem hann hefur innt af hendi af kostgæfni fyrir íslensku þjóðina.

Ég hitti Eið síðast á flugvellinum í Vágum í Færeyjum. Hann er vanur því að missa af flugi vegna óhagkvæmra aðstæðna.

Vill væntanlega halda í Vatnsmýrina sem flugvöll sem allra lengst - vegna þess að aðstæður þar eru góðar fyrir flugvöll!  En staðsetningin er bara allt of dýrkeypt fyrir alla!  Þess vegna þarf að færa flugvöllin - og þá eru Löngusker eini góði raunhæfi möguleikinn á höfuðborgarsvæðinu!

Eiður málar galla þeirrar staðsetningar allt, allt og svörtum litum!

Löngusker er besti kosturinn fyrir völlinn!

Hallur Magnússon, 8.3.2008 kl. 19:27

19 identicon

Ég vill þakka Einari áhugaverða og fræðandi lesningu.

Fyrir okkur flugmenn er veðrið  ásamt legu flugvallar afar mikilvægur þáttur í starfi okkar. Það má ljóst vera að ef flugvöllur verður gerður á Hólmsheiði verða margir daga á ári hverju sem hann verður ónothæfur vegna veðurs en núvernadi flugvöllur nothæfur við þær aðstæður. Það má ljóst vera að ef "flytja" á innanlandsflug til Keflavíkur mun flugdögum einnig fækka vegna ákvæða um varaflugvöll. Nokkuð sem almenningur veltir ekki fyrir sér en við flugmenn þurfum að reikna með fyrir hvert og eitt einasta flug sem við fljúgum. Á sama tíma mun flugtími til flestra staða innanlands aukast um uþb 5 mín. Sama á við um akstur flugvéla milli flugbrautar og flugstöðvar. Þetta gerir það að verkum að flugferðin verður 10 mín. lengri en í dag. Flugvélin er 20 mín lengur í hverri ferð. Þetta fer út í verðlagið og bætist við ferðatíma til og frá Keflavík.Það er gott að fólk hafi skoðun og tjái sig, en látið okkur fagfólk um ákvarðanir byggðar á rannsóknum og þekkingu okkar sem hana höfum.

Baldvin Birgisson (IP-tala skráð) 8.3.2008 kl. 20:14

20 identicon

Tek undir með félaga Baldvini.

Svo vil ég endileag svara honum Ormi um hvort það hafi gerst að bæði Ak og Egs séu lokaðir á sama tíma. Ég get ekki sagt hundrað prósent já en það hlýtur að vera vegna þess að flugvélar hafa stundum þurft að lenda í Glasgow vegna skilyrða hér á landi. Svo er annað, flugvellirnir á Egs og Ak eru litlir og ráða ekki við margar flugvélar af þessari stærðargráðu. Ef við setjum upp skemmtilegt dæmi sem gæti alveg litið dagsins ljós þar sem Akureyri er lokaður vegna veðurs og þá þarf ekki margar 757-ur til þess að flugvöllurinn yfirfyllist. Það er ekki beint stórt stæðið á Egs.

Svo bætist kannski við Fokker í innanlandsflugi og þá er orðið aldeilis þéttsetið. Lokað fyrir lendingar í Keflavík, engin Reykjavíkurflugvöllur (því það er búið að rífa hann og byggja flott hús og aðra tjörn), Akureyri lokaður og Egilsstaðir yfirfullur af þotum. Þá er eftir Ísafjörður og V-eyjar fyrir Fokkerinn.

Leifstöð er nú þegar orðin eða að verða of lítil og býður ekki upp á að blanda saman innanlands- og millilandarfarþegum að því er ég best veit. Farþegar í innanlandsflugi þyrftu þá í besta falli að fara í gegnum vopnaleit og þess háttar skemmtun þar sem enginn vökvi yrði leyfilegur o.s.frv. Það gæti þó vel verið að mér skjátlist með Leifstöð en þetta er eitthvað sem mig endilega minnir.

Ingvar (IP-tala skráð) 8.3.2008 kl. 20:45

21 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ingvar, ég biðst afsökunar á því að fáfræði minni eru fá takmörk sett. Ég ætla ekki að tjá mig um það hversu margfróður þú atvinnuflugmaðurinn hljótir að vera með svona málflutning að vopni. Það gengur ekki öll tilveran út á það að fljúga, þótt það sé atvinnuflugmönnum hugleikið. Flugvöllurinn var kosinn burtu í lýðræðislegum kosningum og þú verður bara að sætta þig við það eins og aðrir.

Svo ég reyni að komast á málefnalegri grunn sýnist mér að framtíðin muni bjóða upp á betri og öruggari VTOL flugvélar (lóðrétt flugtak og lending) sem myndi gera svona stórt flugvallarstæði óþarft. Þar með yrði þessu flugvallarþrasi eytt og allir fengju sitt sem er að sjálfsögðu snjallasta lausnin.

Hallur, ef Eiður Guðnason bæri í alvöru virðingu fyrir fé skattborgara myndi hann ekki þiggja margföld eftirlaun þó svo að Alþingi hafi sett vægast sagt illa ígrunduð eftirlaunalög. Til þess á hann sjálfur að hafa næga réttlætiskennd og dómgreind miðað við staðhæfinguna hér að ofan. Auk þess kallar Eiður á svona athugasemdir þar sem hann sakar okkur ómaklega um vanvirðingu við fé skattborgara. Menn eiga ekki að kasta grjóti úr glerhúsi, það gerði hann.

Haukur Nikulásson, 8.3.2008 kl. 21:01

22 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Predikarinnleyfir sér að setja inn grein Matthíasar sem nefnd hefur verið hér á þessu bloggi.

Mánudaginn 3. mars, 2008 - Aðsent efni Ekki Löngusker eða HólmsheiðiEftir Matthías ArngrímssonMatthías ArngrímssonMatthías Arngrímsson   [ Smelltu til að sjá stærri mynd ]
Eftir Matthías Arngrímsson: "Auðvitað viljum við öll tryggja sem mest flugöryggi. Því miður er það mat undirritaðs að það sé ekki tryggt með flugvelli á Hólmsheiði og að slíkur völlur jafngildi því að stíga 50 ár aftur í tímann."

Niðurstaða samkeppni um skipulag Vatnsmýrarinnar nú á dögunum kallar á frekari umræðu um Reykjavíkurflugvöll, flugvöll allra landsmanna sem ýmsir vilja leggja niður. Ýmsar fullyrðingar í þessari umræðu hafa einkennst af vanþekkingu á flugmálum og er það miður þar sem óábyrgar yfirlýsingar hafa brenglað staðreyndir í málinu. Það er von mín með eftirfarandi grein að málsaðilar fræðist og skilji betur sjónarmið okkar sem vinnum við flugið og eigum þá ósk heitasta að sjá það vaxa og dafna landsmönnum öllum til góðs.

HólmsheiðiStuðningur við grasrótina í fluginu er mikilvægur svo hægt sé að þjálfa næstu kynslóðir atvinnuflugmanna. Veðurfar á Hólmsheiði myndi draga verulega mikið úr fjölda flugdaga fyrir flugnema sem vilja læra á Íslandi og þeirra flugkennara sem hafa lifibrauð sitt af flugkennslu.

Það er reyndar með ólíkindum að Hólmsheiði, eða reyndar hvaða heiði sem er í nágrenni Reykjavíkur, skuli vera talin álitlegur kostur.

Við búum á Íslandi og okkar misjafna veðurfar hefur mikil áhrif á flugrekstur í landinu. Flugmenn og flugrekendur vita að því hærra sem flugvöllur er frá sjávarmáli því verra er að stunda flugrekstur þaðan. Ef grannt er skoðað má sjá að langflestir flugvellir eru á láglendi ef þess er nokkur kostur. Hólmsheiði er í um 405 feta hæð, eða 135 metra hæð eða 360 fetum, 120 metrum hærri en Reykjavíkurflugvöllur. Til að setja þetta í betra samhengi er munurinn hæð einnar Hallgrímskirkju og 45 metrar til viðbótar sem er töluvert. Lesendum finnst þetta kannski ekki mikið en þeir sem reka flugvélar frá Reykjavíkurflugvelli geta sagt frá því að oft er hægt að taka á loft og lenda í Reykjavík en algjörlega ófært í sjónflugi í austurátt vegna lágra skýja yfir hækkandi landslagi.

Flugvélar afkasta einnig mun verr í þynnra lofti uppi á heiðum en þéttara lofti niður við sjávarmál. Þumalputtaregla varðandi lækkandi hitastig með hæð er sú að hiti falli um 2°C fyrir hver 1000 fet. Það þýðir að hitamunur milli flugvallar í Reykjavík og á Hólmsheiði væri því um 1°C. Ein gráða á Celsíus getur skipt miklu máli í flugi að vetrarlagi á Íslandi. Skafrenningur á heiðum er sömuleiðis ekki vænlegur til að auka bremsuskilyrði á flugbrautum. Við hvert flugtak er farið í nákvæmar töflur til að finna út hvað flugvélin getur gert við ríkjandi aðstæður. Vindar, hitastig, loftþrýstingur, bremsuskilyrði, hindranir við aðflug og brottflug eins og t.d. fjöll og fjallgarðar hafa ráðandi áhrif á afköst flugvélanna svo fyllsta öryggis sé gætt. Á Hólmsheiði er ókyrrð af fjöllum töluverð í ákveðnum vindáttum. Þessi sömu fjöll gera það illframkvæmanlegt að koma fyrir blindlendingarkerfi að vellinum úr næstum öllum áttum. Esjan, Hengillinn, Vífilfellið og Bláfjöllin hamla því. Athugið að við þessa útreikninga er í öryggisskyni alltaf gert ráð fyrir því að annar hreyfillinn á tveggja hreyfla vél bili á þó nokkrum hraða í flugtaki og þannig verði öruggt að taka á loft og fljúga vélinni með einungis einn hreyfil virkan.

Ég fullyrði að allir þeir neikvæðu þættir sem tínast til við Hólmsheiði munu gera flugrekendum erfiðara fyrir og arðhleðsla vélanna minnka töluvert, þ.e.a.s. getan til að bera meira miðað við aðstæður á vellinum og umhverfis hann. Í stuttu máli mun það þýða verri afkomu og hærri fargjöld og líklegt má teljast að flugrekendur fari frekar til Keflavíkur eða hætti rekstri. Auðvitað viljum við öll tryggja sem mest flugöryggi. Því miður er það mat undirritaðs að það sé ekki tryggt með flugvelli á Hólmsheiði og að slíkur völlur jafngildi því að stíga 50 ár aftur í tímann.

LönguskerMiðað við þær teikningar sem hingað til hafa verið sýndar þá eru svæðin samsíða brautunum sýnd allt of mjó til að verjast megi ágangi sjávar og seltu á fullnægjandi hátt. Til að setja þetta í betra samhengi þá bjó ég í íbúð stutt frá Eiðistorgi og skv. Borgarvefsjá eru 85 metrar frá fjörunni að gluggunum á þeirri hlið og þeir eru salthúðaðir allt árið. En það er kannski ekki það merkilegasta heldur sú staðreynd að ég bjó á þriðju hæð! Það sem mestu máli skiptir fyrir flugvélarnar fyrir utan almennt veðurfar á Lönguskerjum er að hafa brautirnar auðar og hreinar eins og kostur er svo bremsuskilyrði séu eins og best verður á kosið.

Þessi einföldu atriði má nota til að færa rök fyrir því að svæðin báðum megin flugbrauta og reyndar allt athafnasvæðið þurfa að vera mjög breið. Slík uppfylling myndi kosta gífurlegar upphæðir og nokkur ár í framkvæmd ef stórar sem smáar farþegaflugvélar, kennslu- og einkaflugvélar, þyrlur og önnur flygildi á vellinum eiga ekki að verða fyrir skemmdum. Ekki gleyma þeirri staðreynd að af þeim 152 flugvélum (árið 2005) sem eru á Reykjavíkurflugvelli þá eru vélar innanlandsflugfélaganna innan við 20 og 152 flugvélar þurfa mikið rými. Það er mikilvægt að hafa þær vélar á sama stað vegna hagkvæmni í rekstri flugvallarins.

Það yrði mjög erfitt og kostnaðarsamt að halda flugbrautunum hreinum þegar komið er niður fyrir frostmark því þrátt fyrir saltið myndi særokið leggjast yfir líkt og íshella og það myndi hækka allan kostnað við rekstur vallarins og flugvéla fram úr hófi og mengun vegna afísingarefna aukast töluvert. Höfum við ekki öll séð myndir af fiskiskipum í klakabrynju? Eins og flugrekendur vita líka þá myndi mögulegum flugtímum fækka hressilega og allt hækka; rekstrarkostnaður, viðhaldskostnaður og fargjöld. Það má líka rökræða það hvort hagsmunir flugöryggis séu hafðir að leiðarljósi þar sem mjög strangar kröfur eru gerðar um afköst flugvéla, bæði við flugtak og lendingu og bremsuskilyrði eru þar mjög mikilvægur þáttur.

Löngusker eru ekki besti staðurinn fyrir flugrekstur nema tugir milljarða komi til svo uppfyllingin verði nægilega stór til að verjast ágangi sjávar og seltu og að öllum flugvélum verði tryggt öruggt húsnæði. Því miður, og eðlilega kannski, skilja margir ef til vill ekki nógu vel hversu viðkvæmar flugvélar eru fyrir salti sem er mjög tærandi. Takið líka eftir því að flestar teikningar af flugvelli á Lönguskerjum sýna ekki rétt þann fjölda flugskýla og bygginga og það landflæmi sem til þarf. Er það gert viljandi til að láta líta út fyrir að þessi framkvæmd sé „létt verk og löðurmannlegt“ eða af hreinni vanþekkingu? Þá hef ég ekki nefnt bílaumferðina, bílastæði og tengingu við völlinn. Hvernig á að leysa það og hvað kostar það til viðbótar?

Afköst flugvéla og varaflugvellirVeður er skoðað sérstaklega fyrir brottför til að athuga hvort ekki sé örugglega fært á áfangastað og einnig yfir á varaflugvöll ef veður hamlar kannski lendingu á upphaflegum áfangastað. En athugið að flugvélar og arðhleðsla þeirra eru eins og áður sagði takmarkaðar af ýmsum utanaðkomandi þáttum sem eru breytilegir eftir flugvöllum og veðri. Ef Hólmsheiði verður ófær á leið okkar frá Egilsstöðum og Keflavíkurflugvöllur ófær sömuleiðis vandast málið allverulega. Ef enginn völlur kæmi í stað Reykjavíkurflugvallar og Keflavíkurflugvöllur yrði eini völlurinn á SV-horninu þyrftu flugvélar í innanlandsflugi að bera töluvert aukaeldsneyti til að komast á varaflugvöll sem kæmi niður á arðhleðslu þeirra. Vegna veðuraðstæðna og landslags er það alveg borðleggjandi að nýtingarhlutfall flugvallar á Hólmsheiði yrði töluvert verra en nýtingarhlutfall Reykjavíkurflugvallar er nú.

Einhverjir kunna að spyrja sig hvers vegna umræddri vél er þá ekki snúið til baka til Egilsstaða. Það væri ef til vill hægt en vegna reglna um lágmarksskilyrði til blindaðflugs og skyggnis til lendingar þá getur verið skynsamlegt að gera ráð fyrir því að upphafsflugvöllur sé ekki tiltækur sem varaflugvöllur og það kemur fyrir að veðurskilyrði duga til flugtaks en ekki til lendingar.

Gefum okkur að Reykjavíkurflugvöllur, Löngusker eða Hólmsheiði séu ekki til staðar og Keflavíkurflugvöllur valinn sem áfangastaður. Akstur þaðan er a.m.k. 45 mínútur með rútu til BSÍ í Reykjavík. Ef hann reynist ófær gætum við þurft að nota Færeyjar eða Glasgow í Skotlandi sem varavöll ef veður hamlar lendingu annars staðar á landinu. Af þessu má sjá að með því að búa til flugvöll sem er að einhverju leyti verri en núverandi flugvöllur í Reykjavík eða fækka flugvöllum á SV-horninu mun það gera flugrekendum verulega erfitt fyrir og leggja á þá óbærilegan kostnað sem hlýtur að velta sjálfkrafa út í fargjöldin. Þessar tölur eru svo enn ýktari í millilandafluginu.

Alvarlegust af öllu eru þó slæm áhrif á sjúkraflugið við þessar aðstæður, t.d. ef slasaður borgarfulltrúi er um borð eins og gerðist fyrir nokkrum vikum. Sá borgarfulltrúi sem styður brotthvarf Reykjavíkurflugvallar hefur ekki þurft að komast til Reykjavíkur í sjúkraflugi og vona ég að enginn þeirra þurfi á því að halda. Hátæknisjúkrahús eru þó líka til í Glasgow þó það taki u.þ.b. 3 klst. að fljúga þangað. Þann 24. des. sl. var augljóst að árið 2007 yrði enn eitt metárið í þessum efnum, en þá voru sjúkraflugin orðin 481 talsins með 521 sjúkling. Sífelld aukning sjúkraflugs ýtir enn frekar undir mikilvægi veru Reykjavíkurflugvallar þar sem hann er.

Mikilvægi Reykjavíkurflugvallar fyrir millilandaflugið er sömuleiðis ótvírætt og við höfum mýmörg dæmi um það þegar vélar hafa orðið að lenda í Reykjavík vegna slæmra veðurskilyrða í Keflavík. Við búum á eyju sem hefur einungis fjóra flugvelli sem nýtast okkur sem flugvellir í millilandaflugi á stærri þotum. Hver einasti flugvöllur skiptir máli fyrir flugöryggið. Ef Reykjavíkurflugvöllur yrði lagður niður hlyti það að verða krafa að byggja upp t.d. Sauðárkrók eða Bakkaflugvöll sem mögulega varaflugvelli.

Hvaða krafa er gerð til flugvalla höfuðborga?Hver sem niðurstaðan verður á endanum þá hlýtur það að vera lágmarkskrafa höfuðborgarinnar og íbúa hennar, landsmanna allra, sjúkraflugs, Landhelgisgæslu, almannavarna, farþega, flugrekenda, flugmanna og flugnema að nýtingarhlutfall flugvallar höfuðborgarinnar verði alls ekki minna en nú er. Hvernig ætla borgaryfirvöld að tryggja það samhliða því að gæta þess að flugöryggi minnki ekki? Miðað við síðustu fréttir af skipulagsmálum borgarinnar eru málin farin að líta þannig út að annaðhvort fái völlurinn að vera þar sem hann er, ef til vill í breyttri mynd til að liðka fyrir, eða að hann verður eyðilagður án þess að nokkuð komi í staðinn. Það má ekki gerast. Ef hann verður eyðilagður þá verður ekki snúið til baka. Hvaða höfuðborg hefur ekki flugvöll?

Höfundur er atvinnuflugmaður, flugkennari og einka/sportflugmaður.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 8.3.2008 kl. 23:40

23 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sjá einnig :

Sunnudaginn 10. febrúar, 2008 - Aðsent efni Skýjahæð yfir Hólmsheiði

Páll Bergþórsson skrifar um hugsanleg flugvallarstæðiPáll BergþórssonPáll Bergþórsson

Páll Bergþórsson skrifar um hugsanleg flugvallarstæði: "Þegar lágmarksskýjahæð til lendingar í Vatnsmýri er 65 metrar, leynist Hólmsheiði í þokunni 55 metrum ofar neðra borði skýjanna."

"SAGT er að menn þurfi að bíða í nokkur ár eftir því að veðurathuganir á Hólmsheiði skeri úr því hvort æskilegt sé að hafa þar flugvöll Reykvíkinga.

Eitt er það þó sem nú þegar er hægt að fullyrða með nokkurri vissu. Þó að það sé ekki algilt er skýjahæð oftast álíka hátt fyrir ofan sjávarmál á Hólmsheiði og í Vatnsmýri þar sem flugvöllurinn hefur verið í hálfan sjöunda áratug. Sem sagt jafnhátt yfir sjó, en ekki jafn hátt yfir þessum tveimur stöðum. Hólmsheiði er 120 metrum hærra yfir sjávarmáli en Vatnsmýrin. Flestar flugvélar á leiðum innanlands geta komið inn til lendingar í Reykjavík þegar skýjahæð er þar um það bil 65 metrar (200 fet). Þá telst Vatnsmýrarflugvöllur opinn. En á sama tíma leynist Hólmsheiði 55 metrum ofar neðra borði skýjanna. Hún er sem sagt á kafi í þoku. Til þess að þar yrði þá hægt að lenda mætti hugsa sér að flugmaður reyndi að sveima neðan skýja úti á Faxaflóa þar til neðra borð skýjanna hækkaði um 120 metra. Það gæti reynt á þolinmæðina, jafnvel í sólarhringa, og það mundi reyndar enginn reyna.

Þegar Reykvíkingar og aðrir landsmenn verða næst spurðir í skoðanakönnun hvort flugvöllurinn eigi að vera á Hólmsheiði eða í Vatnsmýri þyrftu menn að velta þessu fyrir sér áður en þeir svara.

Höfundur er veðurfræðingur og rithöfundur."

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 8.3.2008 kl. 23:41

24 identicon

Haukur þér er að sjálfsögðu fyrirgefið ef þú vilt hlusta á málflutning þeirra sem hafa best vit á þessum málum.

Þessi kosning sem þú vitnar í var nú varla á málefnalegum grundvelli. Reykjavíkurflugvöllur er ekki einkamál Reykvíkinga og sú vitneskja sem hinn almenni borgari þarf til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun var einfaldlega ekki til staðar. Það er ekki hægt að finna flugvellinum annað svæði og þá á ekki að þurfa að ræða þetta.

Flugvöllurinn í dag þjónar gríðarlega mikilvægu hlutverki fyrir sjúkra- og björgunarflug. Bæði aðasjúkrahúsin eru einungs örstutt frá flugvellinum þar sem hann er í dag og það skiptir máli í slíkum flugum.

Ég vil svo að lokum benda áhugasömum á fréttabréf íslenskra atvinnuflugmanna frá því í febrúar bls. 11 þar sem flugmaður í sjúkraflugi skrifar.

http://www.fia.is/media/frettabref/2008/08feb.pdf

Ingvar (IP-tala skráð) 8.3.2008 kl. 23:53

25 Smámynd: Valur Stefánsson

Haukur.   Þessi fræga kosning sem þú mynnist á var ekki marktæk þar sem borgarstjórn undir stjórn Ingibjargar Sólrúna setti inn í kosninguna að hún væri bindandi ef 3/4 hluta eða meira tækju þátt í kosningunni eða um 60.000 manns en þar sem einungis 30.219 greiddu atkvæði þá var kosningin ekki bindandi og getur þú þar með ekki notað það sem afsökun.

Hildugunnur.  Ef innanlandsflugið flyst til Keflavíkur þá á ekki að gera annað en að byggja nýja Hátækni sjúkrahúsið þar líka, flytja svo obbann af stjórnsýslunni þangað þannig að liðið sem vill búa í höfuðborginni ef höfuðborg skyldi kalla þyrfti að sækja alla læknis og stjórnsýslu þjónustu suður til Keflavíkur. 

Þessi hlægilega verðlaunatillaga sem var til sýnis í Listasafninu fyrir nokkrum dögum var hreint út sagt hlægileg.  Þarna er byggingasvæðið aðeins 40% og þá segi ég "Hvar er auður Vatnsmýrarinnar" sem Örn arkitekt og fleiri hafa talað svo mikið um.   Reykjavíkurborg á að jarða þessar tillögur og byggja upp glæsilegan flugvöll sem væri höfuðborginni til sóma.

Einar Sveinbjörnsson hafðu þakkir fyrir góða grein og einnig á Matthías Arngrímsson þakkir fyrir frábæra grein þar sem hann staðfestir svart á hvítu að flugvöllurinn á að vera í Vatnsmýrinni og hvergi annarsstaðar.

Njótið vel.

vs 

Valur Stefánsson, 9.3.2008 kl. 00:49

26 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ingvar, mér satt að segja leiðist þetta yfirlæti í þér. Hún hjálpar ekki málstað þínum á nokkurn hátt, heldur þveröfugt. Ég get sætt mig við að þú hafir aðra skoðun á þessu en ég, en þú hefur ekki þann þroska að leyfa mér slíkt hið sama án þess að kalla það fáfræði, vankunnáttu og heimsku.

Ingvar, það er ekkert sem heitir að "best vita" í þessu máli því hér er um álitamál að ræða og þú getur bara haldið þig á málefnalegum nótum í þessari umræðu ef þú ætlar ekki að drepa hana. 

Hörðustu flugáhugamenn hérna virðast álíta að flug hafi bara forgang fram yfir allt annað líf í höfuðborginni. Það er bara rangt. Það að drekkja hér umræðunni með langlokugreinum úr öðrum miðlum er hreint út sagt bæði leiðinlegt og dónalegt og til þess fallið að kaffæra umræðuna í magni en engum gæðum.

Valur, kosningar eru kosningar og slæleg þátttaka þýðir bara að þeir sem ekki mæta er slétt sama um úrslitin. Hinir ráða þá úrslitum hvort sem öðrum líkar betur eða verr. Einfaldur meirihluti á að ráða. Það er ekki sæmandi að neyða meirihluta fólks til að kjósa um hluti sem það hefur ekki skoðun eða álit á. Sumir hafa bara ekki sterkar skoðanir á þessum málum og eiga þess vegna þann rétt að sleppa því að kjósa.

Ég myndi skilja þetta með flugvöllinn ef meirihluti borgarbúa þyrfti að fljúga á hverjum degi úr og í vinnu eða eitthvað í líkingu við það. Því er bara ekki til að dreifa og þess vegna þarf að meta hvort notagildi og verðmæti svæðisins sé betur nýtt í annað sem ég og margir aðrir erum sannfærðir um.

Það þarf að lagfæra margar tímaskekkjur í íslensku þjóðlífi. Færsla Reykjavíkurflugvallar (þó ekki til Keflavíkur) er ein þeirra og löngu tímabær.

Haukur Nikulásson, 9.3.2008 kl. 10:04

27 identicon

Haukur minn þú mátt alveg slaka á. Ég setti lítinn blikkkall fyrir aftan fyrstu setninguna mína hérna fyrir ofan sem þýðir að það beri ekki að taka það alvarlega sem á undan fór.

Svo er enginn að tala um að flug hafi forgang en það er alveg skelfilegt að þurfa að standa undir svona aðför að atvinnu sinni. Fólk tjáir sig um hluti sem það hefur hreinlega ekki vit á því þetta er ekki bara spurning um sjónarmið þegar fólk fullyrðir tóma steypu. Það er ekki raunsær kostur að færa flugvöllinn á Hólmsheiði. Það þarf ekkert að þræta um það því það er ekki spurning um sjónarmið heldur staðreyndir.

Svo er það með sjúkraflugið. Á fólk sem slasast eða veikist á landsbyggðinni ekki rétt á sem bestu mögulegu þjónustu til þess að komast undir læknishendur? Einnig finnst mér undarlegt að þú nennir ekki að lesa greinar um efnið sem þú ert að þræta um því greinarnar eru of langar. Það segir mér nú bara að þú hreinilega hafir ekki áhuga á því að fræðast um sjónarmið þeirra sem eru þér ósammála og það er ekki málefnalegt.

Af hverju að vitna í þessar kosningar sem voru hér fyrir löngu síðan? Fyrir það fyrsta er Reykjavíkurflugvöllur, flugvöllur höfuðborgar Íslands, ekki einkamál Reykvíkinga. Ríkið á landið sem flugvöllurinn er á og þessi kosning er alveg dæmigert fyrir Samfylkingarmenn. Slá ryki í augun á fólki og segja það sem það heldur að fólk vilji heyra. Ef þessir sem stóðu fyrir kosningunni á sínum tíma sögðu að hún væri ekki marktæk nema með ákveðnu þátttökunarhlutfalli að þá er hún varla marktæk nema að þetta lágmark náist sem það gerði ekki. Það hefði nú bara verið mun gáfulegra að vera með skoðunarkönnun á vegum Gallup frekar en splæsa í kosningar. Með það að leiðarljósi að þetta lágmark náðist ekki í kosningunni þinni að þá er ekki hægt að tala um þetta sem neitt annað en skoðunarkönnun. Úrelt skoðunarkönnun.

Svo að lokum. Ég persónulega væri alveg til í að sjá flugvöllinn annars staðar ef það væri möguleiki en ég bara fullyrði að Hólmsheiði er ekki boðleg.

Ingvar (IP-tala skráð) 9.3.2008 kl. 17:24

28 identicon

FLUGVÖLLIN Á GELDINGARNES.

Ari (IP-tala skráð) 9.3.2008 kl. 18:52

29 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ingvar, ég náði því að þú værir að hluta til að grínast, en þú hélst áfram með yfirlætið í miðju gríninu.

Það er enginn að gera aðför að atvinnu þinni eins og þú orðar það. Og þrátt fyrir ábendingar heldurðu áfram að halda því fram að fólk "hafi ekki vit" og "fullyrði tóma steypu". Þú heldur áfram að niðurlægja andmælendur þína og þú getur ekki ætlast til að þér sé sýnd virðing í umræðunni með slíku áframhaldi. Þú átt mjög erfitt með að setja þig í spor annarra í þessu máli.

Það hefur enginn haldið því fram að flugvöllur á Hólmsheiði verði jafn góður og Vatnsmýrarflugvöllur, ég held að það sé ekki um það neinn sérstakur ágreiningur. Það er aðallega verið að halda því fram að Vatnsmýrin sem er miðja miðborgar höfuðborgarinnar sé bara einfaldlega of verðmæt til að leggja undir flugvöll. Þér má vera óhætt að skilja þau rök þó þú sért ósammála.

Flugvöllurinn er mál Reykvíkinga hvort sem landsbyggðarfólki líkar betur eða verr. Og gildir einu hvort hér sé um höfuðborgina að ræða eða ekki. Það er ekkert í lögum eða reglum sem leggur Reykvíkingum þær skyldur að landsbyggðarfólk ráði því hvar við holum niður stoppistöðvum fyrir leigubíla, rútur eða flugvélar. Hafir þú upplýsingar um þessar skyldur máttu upplýsa okkur um það. Ríkið stjórnar ekki skipulagi Reykjavikur heldur Reykjavíkurborg. Ég held ég fari líka rétt með að ríkið eigi bara þriðjung landsins sem þú eignar þeim að fullu í flugvallarstæðinu.

Sjúkraflug er ekki nægileg réttlæting fyrir því að halda flugvellinum þarna. Það er of veigalítill þáttur í þessu máli. Ekki reyna að beita þeim rökum að mér sé illa við slasað og veikt fólk utan af landi. Það er bara ekki öllu til fórnað. Fyrr mætti byrja á biðlistum sjúkrahúsanna þar sem dauðveikt fólk deyr drottni sínum vegna minni háttar fjárskorts í samanburði við verðmætin sem fást úr Vatnsmýrinni.

Ég er búinn að svara þessu með kosningarnar. Það má alveg eins færa rök fyrir því að 99% skuli mæta og 99% samþykkja eins og þessi þvættingur með 75% mætingu. Ef efnt er til kosninga ræður einfaldur meirihluti þeirra sem mæta og kjósa. Allt annað er ekki boðlegt í lýðræðisþjóðfélagi. Það býður nefnilega heim þeirri hættu að valdhafar hverju sinni ákveði upp á sitt eindæmi hvaða kosningum skuli hlíta og hverjum ekki. Það er ekki nothæft lýðræði eins og þú hlýtur að samþykkja. Ég efast raunar ekkert um að það verði kosið aftur um þetta mál, þó svo að ég telji kjörnir fulltrúar Reykjavíkurborgar eigi bara að ákveða þetta mál eins og önnur sem viðkoma rekstri sveitarfélagsins. Jafnvel þú getur samþykkt að ekki sé hleypandi öllum vitleysingum bæjarins í að kjósa um ólíklegustu mál sem þeir hafa ekkert vit á ??!!

Hólmsheiðin er alveg boðleg. Hún er jafnvel betur boðleg sem flugvallarstæði heldur en sumir stórhættulegir flugvellir víða úti á landi. Það hefur reyndar alveg gleymst í umræðunni að þegar mögulegur flugvöllur á Hólmsheiði væri lokaður er mjög líklegt að flestir aðrir flugvellir á landinu lokist á sama tíma. Þessu sleppið þið flugmennirnir að ræða og sömuleiðis möguleikann á að nota VTOL flugvélar, sem þurfa litlar sem engar flugbrautir. Það hentar bara ekki málflutningi sumra.

Haukur Nikulásson, 9.3.2008 kl. 22:38

30 identicon

Ég skil ekki hvernig þú Haukur og fleiri (þeim fer þó fækkandi sem betur fer) getið haldið því fram að Hólmsheiði sé boðlegur kostur þegar veðurfræðingar (sjá grein höfundar efst á síðu) og flugmenn leggja fram rök fyrir því að svo sé ekki. Ég nenni varla að renna aftur í gegnum rökin en þar voru atriði eins og fjöll í grennd, hæð yfir sjó, ókyrrð, aðflugsvandamál. Staðreynd, ekki skoðun.

Hvaða rök og sannanir hefur þú fyrir því að allir aðrir flugvellir á landinu lokist þegar Hólmsheiði lokast? Lastu ekki grein höfundar hérna að ofan? Glampandi sól í Reykjavík og þoka á Hólmsheiði. VTOL vélar þekki ég nú ekki mikið en ég stórefa að það séu tæki sem nokkurn tíma geti talist arðsöm í flugrekstri sökum kostnaðar. VTOL er að því ég best veit einungis notað í hernaði og í tilraunastarfsemi. Þú mátt alveg leiðrétta mig ef þú getur en ef ekki er þetta enn annað dæmi um þegar ryki er slegið í augu fólks með undarlegum málflutningi flugvallarandstæðinga.

Kosningarnar voru settar fram með ákveðnum skilyrðum af þeim sem héldu hana til þess að hún yrði bindandi. Þeim takmörkunum var ekki náð. Það er staðreynd en ekki skoðun.

Sjúkraflug er ekki næg ástæða? Ef Hólmsheiðarflugvöllur verður að veruleika minnkar stórlega möguleiki slasaðra á því að fá þá aðstoð sem þeir þurfa ef þeir þurfa á annað borð að vera fluttir til Reykjavíkur. Þetta er einfaldlega staðreynd í ljósi þeirra aðstæðna sem eru á Hólmsheiði. Fjöll í grennd, hæð yfir sjó o.fl. sem nefnt hefur verið áður. Það er staðreynd en ekki skoðun. Mér finnst það ótrúlega grimmt að tala um gróða á kostnað öryggi íbúa landsins. Um leið og fyrsti einstaklingur deyr eða slasast varanlega vegna nýrrar staðsetningar flugvallar á Hólmsheiði þá mun þér kannski líða vel í nýju rándýru íbúðinni þinni í 102 við hliðina á nýrri tjörn en það eru ansi margir aðrir sem þjást og því mun ég aldrei skilja þau rök að Vatnsmýri sé of verðmætt land til þess að þar geti verið flugvöllur. Það er ansi verðmæt starfsemi sem þarna er núna. 100 manns vinna þarna og verðmætin sem felast í nálægð við sjúkrahúsin er ómetanleg.

Það má vera að ríkið eigi bara þriðjung í flugvallarstæðinu. Það hljómar kunnuglega. Mín skoðun er sú að Reykjavíkurflugvöllur sé alls ekki einkamál Reykvíkinga. Reykjavík er höfuðborg Íslands og með bestu sjúkrahúsin. Þessu tvennu fylgja skuldbindingar. Ég er ekki nógu fróður í stjórnsýlulögum til þess að geta fullyrt eitt eða neitt í þessum málum.

Fólk er að tjá sig um hluti sem það hefur ekki vit á þegar það fullyrðir hina ýmsustu vitleysu um flug og flugvélar. Það er bara staðreynd og ég þarf ekkert að skreyta það neitt. Atvinnuflugnámi má líkja við háskólanám. Færi ég að rökræða við sálfræðing um hans sérsvið? Eða við viðskiptafræðing um hvernig á að halda bókhald? Af hverju er ekki hægt að taka sérfræðingana um þessi mál trúanlega og þeirra rök?

Aðförin að Reykjavíkurflugvelli er aðför að minni atvinnu. Ef eðlileg framþróun flugvallarins fengi að njóta sín væri ekki flugskýlisvandamál á flugvellinum, það væri ekki verið að byggja háskóla í staðinn fyrir flugskýli. Háskólinn getur farið á Hólmsheiðina mín vegna. Meira friður þar en við hliðina á gæslunni. Það væri heldur ekki bannað að byggja húsnæði undir starfsemi á flugvellinum ef þessi aðför væri ekki til staðar og því segi ég enn og aftur að þetta er aðför að minni vinnu, mínu atvinnuöryggi, lífshamingju minni og minnar fjölskyldu svona ef ég nota sömu röksemdir og tónlistarmenn notuðu í málflutningi sínum til stuðnings Nasa nú á dögunum.

Ingvar (IP-tala skráð) 10.3.2008 kl. 02:12

31 identicon

Langar svo að bæta því við að VTOL vélar þurfa líka að virða sömu aðflugs- og flugtakslágmörk og venjulegar flugvélar og þyrlur. Lágmark er lágmark og þar er ekki gerður greinarmunur á þyrlu eða flugvél.

Ingvar (IP-tala skráð) 10.3.2008 kl. 07:23

32 Smámynd: Hildigunnur Rúnarsdóttir

Valur, sjúkrahúsið skil ég en engan veginn þessa þvælu um stjórnsýsluna. Er flugvöllur 5 mínútum frá stjórnsýslu í London? Kaupmannahöfn? Osló? hvar?

Hildigunnur Rúnarsdóttir, 10.3.2008 kl. 22:33

33 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég held að ég leyfi þessu máli nokkurn veginn að lognast út hér Ingvar. Ég skil að þér þyki starf þitt merkilegt og mikilvægt. Ég grínast ekki með það.

Það að 100 manns starfi á þessu svæði þykja mér mun minni afnot en ég hugði og raunar smáskítur í samanburði við að 15-20.000 manns gætu búið þarna og starfað með öllu því sem því sem slíku mannlífi tilheyrir.

Mér finnst það ekki sæmandi hjá þér að sulla því upp eins og dramadrottning að ég horfi yfir nýju tjörnina úr nýju íbúðinni á svæði 102 með sérstakri vellíðan á meðan fólk drepist vegna þess að flugvöllurinn fái ekki að standa þar sem hann er vegna sjúkraflugs. Hvers konar spuni er þetta eiginlega? Ég tel mig merkilegri persónu en svo að ég hafi vellíðan af því að horfa upp á þjáningar annarra, heldurðu að ég sé eitthvert skrímsli?

Mér sýnist hvort eð er allt stefna í að þyrlur verði meira og minna notaðar við sjúkraflug og þar með eru þessi rök bara dauð með öllu.

Hvað sem líður málflutningi og óskhyggju landsbyggðarfólks þá ráða Reykvíkingar staðsetningu flugvallarins, það þarf ekki að ræða frekar yfirgang íbúa annarra sveitarfélaga með það atriði. Reykvíkingar eru fullmeðvitaðir um skyldur sínar sem höfuðborg og það er hrein móðgun að ætla okkur eitthvað annað en að taka vel og vandlega á móti bæði gestum sem sjúkum. Reykvíkingar leyfa sér ekki ámóta frekju um stoppistöðvar úti á landi, ef þær eru til staðar erum við bara þakklátir fyrir það.

Ég vil að lokum taka fram að flugmenn og veðurfræðingar færa ágæt rök fyrir að  halda flugvellinum áfram í Vatnsmýri út frá sínum forsendum. Hér er fyrst og fremst gerður ágreiningur um hvernig nota beri gríðarlega verðmætt landssvæði og við teljum mörg að ávinningurinn af þessu landsvæði vegi mikið þyngra en ókostirnir við flutning vallarins. Það er búið að sýna fram á að ávinningurinn af flutningnum er langt á annað hundrað milljarða. Slík eru verðmætin í Vatnsmýrinni ef völlurinn er fluttur og við getum gert MIKIÐ fyrir slíka peninga þjóðinni ALLRI til heilla. Það er því meira en heimska og fáfræði sem ræður málflutningi okkar Ingvar.

Haukur Nikulásson, 10.3.2008 kl. 23:24

34 identicon

Auðvitað tel ég þig ekkert skrímsli en þetta er bara það sem blasir við ef flugvöllurinn fer á Hólmsheiði. Það yrði sjaldnar hægt að lenda á Hólmsheiði en nú er gert og því færra landsbyggðarfólk sem kemst undir þær læknishendur sem það þarf með sorglegum afleyðingum.

Það að þér sýnist þyrlur vera meira notaðar í sjúkraflug þýðir ekki að það sé rétt. Sjúkraflugið hefur aldrei verið eins umfangsmikið og það er í dag. Mýflug er orðið heilmikið batterý í dag í kringum sjúkraflugið sitt, félag sem áður lifði bara á sumrin í útsýnisflugi því hvert metið er slegið á fætur öðru. Sjúkraflugi verður aldrei sinnt af þyrlum eingöngu vegna þess að þær eru hægfleygari, viðkvæmari fyrir ísingu, fljúga lægra og lúta nákvmlega sömu takmörkunum hvað varðar skyggni til lendingar. 200 feta lágmark er lágmark bæði fyrir þyrlur og flugvélar. Svo hérna er enn annað dæmið þar sem þú telur þig vita eitthvað sem þú auljóslega gerir ekki. Ég vil ekki vera dónalegur en þannig er það bara því miður.

Landsvæðið er mjög verðmætt í þeirri mynd sem það er nú og ávinningurinn er gríðarlegur. Ég gef lítið fyrir þessa útreikninga sem byggðir eru á skekktum forsendum þeirra sem vilja flugvöllinn í burtu og sjóða því saman einhverjar tölur sem henta þeirra málstað.

Það gleymist oft í þessari umræðu að Vatnsmýrin er nú þegar stór vinnustaður. Umfangsmikill og veltir mörgum milljörðum. Fyrst að Hólmsheiðin er svona frábær, af hverju er ekki byggt þar? Eða á Álftanesi og göng á milli? Mín vegna mætti flugvöllurinn fara þangað ef það yrði möguleiki svona að lítið athuguðu máli.

Svo að lokum vil ég benda á að ég hef aldrei kallað neinn heimskann hérna. Fáfræði um eitthvað er allt annað og er alls ekki neikvætt og hef ég aldrei meint það á niðrandi hátt. Þegar fólk er fáfrótt um eitthvað er því mjög hollt að fræðast og það er einmitt það sem ég er að gera með því að pikka inn hérna aftur og aftur, fræða fólk um staðreyndir sem það þekkir ekki. Kannski er þekkingarskortur fallegra orð. Hvernig getur það annars verið frekja að fara fram á bestan mögulega aðgang að læknisþjónstu?

Ingvar (IP-tala skráð) 11.3.2008 kl. 04:04

35 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ingvar, Þetta er orðið eins og að vera síðustu gestirnir í veislunni og gestgjafinn löngu  farinn að sofa á meðan við þrefum.

Þú ert farinn að alhæfa of mikið um sjúkraflugið Ingvar. Þyrlurnar eru mikið notaðar og verða meira notaðar vegna þess að þeim fjölgar. Ég hef nefnilega grun um að þú sért að rugla saman sjúkraflugi á bráðatilvikum (og slysum) og almennu sjúkraflugi þar sem sjúklingar þurfa að liggja meðan á flugi stendur en er í sjálfu sér ekki bráðatilvik. Í bráðatilvikum verður maður var við að þyrlurnar eru meira notaðar.

Þú hélst því áður fram að þú vildir ekki rökræða við sálfræðinga eða viðskiptafræðinga um þeirra sérsvið. Á þeirri forsendu eigi ég ekki að ræða verðmæti Vatnsmýrarinnar undir annað? Come on, þetta er nú bara barnaleg staðhæfing. Ef ég færi eftir þessu myndi maður aldrei ræða neitt og taka það bara trúanlegt af biskupi Íslands Biblían sé heilagur sannleikur og að Guð og Jesú séu til (sem ég trúi ekki btw) og að það hafi verið gáfulegt af þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra að styðja innrásina í Írak.

Það að þú afskrifir sem vitleysu að Vatnsmýrin sé á annað hundraða milljarða virði þrátt fyrir allan kostnað við að flytja flugvöllinn annað, gerir fullt af viðskiptafræðingum, hagfræðingum, verkfræðingum og arkitektum kjaftstopp... og mig líka. Þannig ertu búinn að sýna mér fram á að ekkert skipti máli í þessu nema flug. Svo einfalda sýn á málin máttu hafa en ég get ekki rökrætt þetta mál frekar og við getum sæst á að vera ósammála.

Ef ég færi eftir því sem þú nefnir um sérfræði Ingvar, myndi ég ekki gera neitt því ég er sjálfmenntaður á mörgum sviðum, starfað við tölvutækni og fyrirtækjarekstur alla mína starfsævi og ætti skv. ofansögðu ekki einu sinni að hafa leyfi til að spila próflaus auminginn á gítar, hvað þá að syngja með!

Ég held að við séum báðir nær um hugarfarið á bak við deilurnar í þessu máli. Fyrirgefðu mér að ég skuli hvessa mig, það er ekki illa meint og þakka þér fyrir spjallið.

Haukur Nikulásson, 11.3.2008 kl. 09:38

36 identicon

Já við erum klárlega síðustu mennirnir til að yfirgefa samkvæmið

Þyrlur eru einungis notaðar í björgunarflugi og því sjúkraflugi þar sem ekki er hægt að nota flugvélar. Ég ætla að nefna eitt dæmi. Það var maður sem slasaðist rétt hjá Grenivík ef ég man rétt og staðan var þannig að ekki var hægt að flytja manninn með góðu með sjúkrabíl til Akureyrar og því var kallað á þyrlu. Þyrlan mætir á staðinn, hífir manninn upp og flytur á flugvöllinn á Akureyri. Þar er hann fluttur, stórslasaður, í flugvél Mýflugs sem flaug með hann til Reykjavíkur þrátt fyrir að þyrlan væri á sömu leið. Af hverju? Jú vegna þess að flugvélin er mikið fljótari og betri kostur. Þyrlunum er svo í raun ekkert að fjölga. Eitthvað þurfti að gera þegar herinn fór með sínar þyrlur því þeir höfðu verið back-up fyrir gæsluna. Ætli fjöldi björgunarþyrlna hafi ekki staðið í stað eða nálægt því. Í bráðatilfellum eru flugvélar notaðar svo lengi sem það er hægt vegna ástæðan sem ég hef nefnt áður eins og ferðatími, viðkvæmni fyrir ísingu og þeirri staðreynd að flugvélar gæta flogið mikið hærra en þyrlur.

Ástæðan fyrir því að ég gef lítið fyrir þessa útreikninga er, eins og áður hefur komið fram, sú skoðun mín að ég tel að þessar forsendur séu engan veginn réttar. Hver hefur svo leyfi til þess að leggja verð á mannslíf eða auknar þjáningar fólks? En ég er alveg til í að klára þessa umræður hér enda fer ég í fyrramálið út í tvo daga og nenni ekki að hanga á netinu að rökræða  og við því sammála um að vera ósammála. Ég vona samt að þú hafir fræðst meira um flug og flugvélar á þessum tíma. Það er jú ekkert að ástæðulausu sem flugmenn og allflestir (ef ekki allir)veðurfræðingar eru sammála um Hólmsheiði.

Ingvar (IP-tala skráð) 11.3.2008 kl. 15:07

37 identicon

Ég hugsa að það sé óhætt að fullirða að það hafi mun fleirri atinnu af vellinum en þessir 100 sem talað er um hér að ofan.  Ég vill einnig benda á að ég sem Reykvíkingur nota flugvöllinn mjög mikið sem samgönguæð út á land og get ekki hugsað mér ef innanlandsflugið yrði fært til Keflavíkur.  Það að oftar sé hægt að fljúga á Keflavík frekar en Reykjavík er rangt.  Reykjavík er einfaldlega veðursælla svæði en Keflavík, það er staðreynd.  Fyrir mér er Vatnsmýrin meira virði sem flugvöllur frekar en íbúðarbyggð.  Flugvöllurinn býr til þá borgarýmind sem borgin hefur haft síðustu 50-70 ár og mér finnst hún alls ekki slæm.  Ef völlurinn færi myndi Öskjuhlíðin, Nauthólsvík, Fossvogurinn og svæðið þar í kring missa þann sjarma sem það hefur núna, það að geta svona hálfpartinn komist út úr borginni á góðviðrissumarkvöldi er ómetanlegt,  það eru lífsgæði að mínu mati.  Þetta svæði yrði ekki samt ef að völlurinn einangraði það ekki svona frá borginni.  Það að Reykjavík verði ekki alvöru borg fyrr en völlurinn fari er bara þröngsýni að mínu mati.  Auðvitað skil ég að fólk geti orðið þreytt á háfaða sem fylgir vellinum, en það eru líka einu rökin sem mér finnst eitthvað  marktæk en þau mál væri hægt að leysa með einherskonar málamiðlunum.   Síðan vill ég benda fólki á að það eru ekki einungis flugmenn sem vilja völlinn áfram, þetta er ekki bara rökræða milli flugmanna og flugvallar andstæðinga.  Við meigum ekki gleyma því að það eru ekki bara flugmenn og landsbyggðarfólk sem notar völlinn.  Við Reykvíkingar notum hann líka.

Daníel (IP-tala skráð) 11.3.2008 kl. 19:58

38 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Mikið er ég sammála Daníel. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 11.3.2008 kl. 21:00

39 identicon

Mæli eindregið með því að ALLIR sem ætli sér að vera með skoðun á þessu máli lesi þetta...  Ég reyni að koma flestöllu rökum um völlinn í þetta svar mitt... 

Haukur og fleiri þurfa að læra að það sé möguleiki á að breyta um skoðun.  Því miður finnst sumu fólki stundum það of erfitt að bakka frá fyrri skoðunum...

 En að Hólmsheiðinni og Kef...  Það er til sambærilegt mál úti í löndum og það sambærilega mál heitir Gardenmoen...    Þar vék völlur fyrir að ég held  íbúðabyggð eða "whatever" og Gardenmoen var byggður í staðinn lengra frá (alveg eins og hólmsheiði og kef).

Þeir settu lest á milli borgarinnar og vallarins og eins og Hitlair á flugnet orðaði þetta  "Norðmenn byggðu lestarkerfi Gardenmoen-Osló. Þessi lest stendur nú 10 árum seinna ekki undir eigin kostnaði, er styrkt af ríkissjóð sem einnig hefur afskrifað yfir 700 milljón kr skuld vegna þessarar framkvæmdar. Þar að leiðandi held ég að RKV-KEF lest myndi ekki borga sig."

 Fleiri ábendingar frá honum...  " *Álag á Reykjanesbraut mun stóraukast og slysatíðni einnig."

"Verð á innanlandsflugi hækkar og mun líklega leggjast af í núverandi mynd."

"Aðflug úr vestri inná brautir á Hólmsheiði myndi liggja yfir Breiðholt og Árbæ eða Grafarvog/Grafarholt= útilokað að það yrði samþykkt.
Í dag er aðflug úr vestri yfir Faxaflóa og mynni Skerjafjarðar inná Reykjarvíkurflugvöll."

_______________________________

Tekið af Visi.is. Skrifað af Sigmundi Erni Rúnarssyni.
Sjá http://visir.is/article/20080215/SKODANIR01/80215031

Reykjavík án flugvallar

Þá hefur hún loksins birst okkur; myndin af Reykjavík án flugvallar. Sumsé Vatnsmýrin öll með húsum og götum og torgum og vatni - og einum farlama flugturni til skrauts.

Reykjavík án flugvallar.

Og ég sem hélt að nýr meirihluti í borgarstjórn hefði einmitt orðið til vegna viljans um að flugvöllurinn yrði áfram í miðri borginni. Óskaplega sem borgarpólitíkin er einnota!

Líklega er það önnur saga - enda Ólafur F. Magnússon borgarstjóri nokkuð kindarlegur í svörum þegar talið barst í gær að verðlaunatillögu Skotanna um nýja byggð í Vatnbsmýri. Hann vissi eiginlega ekki hvort hann átti að vera glaður eða hryggur.

Ég hef raunar aldrei skilið hugmyndina um Reykjavík án flugvallar. Svo fremi að menn vilji skilgreina Reykjavík sem höfuðborg - og miðstöð stjórnsýslu, mennta og heilbrigðisþjónustu. Ég hef aldrei getað fylgt röksemdarfærslunni eftir alla leið ...

Reykjavík án flugvallar er ekki höfuðborg að mínu viti. Það væri svona svipað og Kaupmannahöfn án Hovedbanegarden.

Engum Dana dettur í hug að tala um sína höfuðborg án aðallestarstöðvar í miðborginni. Og raunar er alþjóðaflugvöllurinn í grenndinni.

Reykjavíkurflugvöllur fer ekki á næstu árum. Hann verður væntanlega lagaður að enn frekari byggð í kringum hann - og umfang hans minnkað en hann fer hvorki til Keflavíkur eða upp á Hólmsheiði.

Auðvitað geta stöku stjórnmálamenn og þröngsýnar miðbæjarrottur látið sig dreyma. Og eiga að gera það. Og það er býsna borubratt og bjarmafullt að draga upp nýjar myndir af borginni sinni.

En höfuðborg er ekki einkamál Reykvíkinga.

Það er stórt orð, höfuðborg.

Og því fylgja skyldur.

Óumflýjanlegar.

Eitt meginhlutverk höfuðborgar er að allir landsmenn komist þangað hratt og auðveldlega - af því borgin þjónar landinu. Hún beinlínis skuldar landinu greiða og hraðvirka þjónustu af því einfaldlega að þar er alla miðstýringuna að hafa, sem er, vel að merkja, stærsta byggðaaðgerð Íslandssögunnar.

Það hefur tekið borgarstjórn upp undir aldarfjórðung að tala um Sundabraut, sem vissulega er mikil samgöngubót fyrir alla landsmenn. Enn sér ekki fyrir lagningu hennar. Umræðan um Reykjavíkurflugvöll er og verður tafsamari, af því hún er tæknilega flóknari, pólitískt viðkvæmari og snýst um grundvallarhlutverk höfuðborgar.

Sjálfumgleði draumastjórnmálanna og sjálfskipaðs gáfuliðs fær hér engu breytt.

Mönnum hefur ekki enn tekist að benda á annan kost en Vatnsmýrina fyrir öruggan og hagkvæman flugvöll í Reykjavík.

Það er raunveruleikinn. Nýja líkanið er aðeins sýndarveruleiki.

Reykjavíkurflugvöllur er ekki að fara.

Ég verð dauður áður en Reykjavíkurflugvöllur fer.

Og mér er spáð langlífi ...

-SER.

__________________________

Svo er alltaf talað um að þétta miðbæinn,  ætla þeir að gera það með því að byggja í Vatnsmýrinni?  Bara eitt vandamál....                    ..... Hringbrautin en alltí lagi.....   ...lengsta göngubrú lansdsins reddar málunum....

__________________________

Held að þetta sé komið gott, þið kannski tókuð eftir því að nánast engin atriði eru þarna sem styðja að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýrinni...    ...éghef ekki séð nein atriði í allri þessari umræðu sem snúast um eitthvað annað en menn sem fá dollara-glampa í augun af því að líta á Vatnsmýrina!!!      

Góðar stundir...  

Flugáhugamaður  

Benedikt Finnbogi Þórðarson (IP-tala skráð) 11.3.2008 kl. 22:14

40 Smámynd: Haukur Nikulásson

Skipulag Reykjavíkur er mál Reykvíkinga, sama hvað hver segir. Það eru engin lög um það að Reykvíkingum beri sérstaklega að skipuleggja borgina út frá þeirri staðreynd að vera höfuðborg. Án slíkra laga verðum við ekki skikkaðir í þennan huglæga leik um að fólk af landsbyggðinni segi okkur fyrir verkum um staðsetningu flugvallar frekar en annarra stoppistöðva fyrir önnur samgöngutæki.

Og skiptir þá engu hvað "sendiherra Akureyrar" í Reykjavík sendir okkur "sjálfumglöðum draumastjórnmálamönnum og sjálfskipuðu gáfuliði" tóninn um það efni. Yfirlætið í svona skilaboðum frá Sigmundi Erni segja meira um hans eigin sjálfumgleði en okkar hinna. Það að fullyrða að "eitt meginhlutverka höfuðborgarinnar sé að allir landsmenn komist þangað hratt og örugglega" er ótrúlega vanhugsað besserwisserbull. Önnur ummæli hans eru í sama stíl og skrif næturbloggarans Össurar þar sem menn eru óvissir um drykkjarföng næturinnar. Ég mæli með að menn lesi svona skrif sín áður en þeir birta þau opinberlega.

 Reykjavíkurflugvöllur fer ekki, því er ég sammála en hann mun flytja úr Vatnsmýrinni fyrr en síðar. Ekki til Keflavíkur, en innan borgarmarkanna.

Reykjavík ber fyrst að þjóna sínum eigin íbúum ef velja þarf á milli hagsmuna og/eða  forgangsraða. Það er löngu liðin tíð að fólk komi til Reykjavíkur til að njóta einhverrar þjónustu "höfuðborgarinnar" sem slíkrar. Fólk kemur hingað aðallega til að versla í stærsta verslunarplássinu og fá meira vöruúrval. Það kemur ekki til að heimsækja Geir Haarde eða Ingibjörgu Sólrúnu. Aðgang að opinberum stofnunum hafa allir landsmenn í gegnum síma , fax og internet rétt eins og höfuðborgarbúar sjálfir.

Gestir verða láta sér lynda að vera gestir líkt og Reykvíkingar annars staðar. Og ég ítreka að ég viti ekki um neinn sem ekki vill taka vel á móti gestum, reynið ekki að saka okkur um annað þó við viljum sum færa flugvöllinn, það er rökleysa, kjaftháttur og dónaskapur.

Höfuðborgin mun sinna sínum skyldum varðandi mótttöku flugfarþega eins og áður, krafan um að fá að nota verðmætasta land borgarinnar til þess verður áfram þrætuepli. Flugvöllurinn verður þó fljótlega færður af skynsemis- og hagkvæmnisáæstæðum, hvort sem Sigmundi og flugáhugamönnum líkar það betur eða verr. Flugvallarmálið er bara auðleysanlegt tæknilegt úrlausnarefni. Við höfum öll séð stærri vandamál en að leysa þennan ágreining.

Haukur Nikulásson, 12.3.2008 kl. 00:02

41 identicon

Ég verð bara að segja að ég er í sjokki að lesa þetta blogg. Það er greinilegt að þröngsýni ákveðinna manna sem vilja flugvöllinn burt er ótrúleg. Atvinnuflugmenn og veðurfræðingar fullyrða að Hólmsheiði er ekki raunhæfur kostur!!!

Nokkrar staðreyndir: það voru ca. 480 sjúkraflug á síðasta ári með 520 sjúklinga. Það kemur aldrei í fréttirnar að sjúkraflugvél hafi lent á Reykjavíkurflugvelli með sjúkling frá Fáskrúðsfirði, Kópaskeri, Vopnafirði, Patreksfirði, eða take your pick, sem fékk hjartaáfall.

Farþegar í innanlandsflugi síðasta ár var uþb. 500þúsund farþegar. Ég fullyrði það að innanlandsflug leggst af ef það verður flutt til Keflavíkur, það er öruggt. Þá verða flugmenn, flugumferðarstjórar, slökkviliðsmenn, flugkennarar, flugvirkjar, og fleiri atvinnulausir!!!!

Að lokum vil ég sýna Hauki hvað góður og öruggur frakostur VTOL vélar eru í raun. Sjáðu hér: http://youtube.com/watch?v=iXVvqnH_MbI

Addi (IP-tala skráð) 12.3.2008 kl. 00:34

42 Smámynd: Haukur Nikulásson

Addi, það er óþarfi að falsa umræðuna hér með slysi úr tilraunaflugi V22-Osprey frá árinu 1991. Flugvélar verða ekki til fullskapaðar frekar en önnur farartæki. Þessar vélar eru komnar vel í gagnið og eru í heilbrigðri tæknilegri þróun. Þrátt fyrir þetta slys, sem varð vegna rangrar víringar sem orsakaði VRS þá er skv. Wikipedia er búist við að 458 svona vélar verði komnar i gagnið fljótlega hjá bandaríkjaher og fleiri hugleiða kaup á þeim.

Svona málflutningur er ekki marktækur frekar en að sýna þér og öðrum myndir af öðrum flugslysum með venjulegar flugvélar þar sem þær fljúga meira að segja á íbúðarhús í miðborgun. Slíkt hefur hent sig og það geta fleiri viðhaft bullrök til að réttlæta þá flutning vallarins af þeim sökum. Meira að segja Alþingishúsið er í aðflugslínu á N/S flugbrautina.

Það er líka að bera í bakkafullan lækinn að ætla að 520 sjúklingar utan af landi stjórni því hvernig mið högum okkar flugvallarmálum. Þessi tala nær ekki einu sinni upp í biðlista Reykvíkinga sjálfra.

Ég er ekki meðmæltur því að flytja völlinn til Keflavíkur svo þið getið hætt að hamra á því hér síendurtekið eins og öðru sem er margbúið að svara vegna þess að menn nenna ekki að lesa.

Það er ásættanlegt að flugvellir loki vegna veðurs og þeir halda áfram að gera það. Við búum á Íslandi. Það að sjá ekkert nema flug í Vatnsmýri er bara skoðun sem ég get virt en hún réttlætir ekki að svæðið verði ekki notað í eðlilegu samræmi við verðmæti þess og staðsetningu eins og ég hef margbent á.

Haukur Nikulásson, 12.3.2008 kl. 08:36

43 identicon

Vá...!

Haukur, ertu að tala um hávaða??

Það var gerð mæling á hávaða á flugvellinum fyrir ekki svo löngu síðan!

 Það sem kom í ljós var að tækið náði ekki hávaða frá flugvæelum vegna umferðarhávaða frá Hringbrautinni!!!

Og umferð sem á eftir að versna ef íbúðabyggð kemur í vatnsmýrina er margfalt verri og stöðugur hávaði frekar en hávaði í 7 sek sem dofnar síðan út...

Fólk á eftir að átta sig á því hvað því þótti vænt um völlinn ef hann fer....                      ....þetta er eins og með hljóðfærið bassa í sumum lögum...              ....þú heyrir ekki í honum en þeegar hann r farinn þá heyrirðu að bassann vantar!

Benedikt Finnbogi Þórðarson (IP-tala skráð) 12.3.2008 kl. 10:36

44 identicon

Vááá, hvað hann Haukur er kominn í þrot með rökinn sín.  "BANDARÍKJAHER er kominn með 458 svona vélar í gagnið fljótlega" Og hvað með það?? ég er ekki að fatta hvernig að þessar þyrlu-flugvélar komu inni í umræðuna.

Hvernig stendur líka á því að þessi maður Haukur geti fullyrt að allt sjúkraflug eigi bara að nota þyrlur og að það sé framtíðin? Honum hefur verið svarað af mönnum sem að vita BETUR enn hafa ekki bara skoðunn á því, heldur VITA betur

 Maður spyr sig, Hvaða hagnað hefur hann persónulega af því að flugvöllurinn fari?? er hann arkitekt sem fær gósentíð að hanna ný hverfi og hús í "102"???

 Og hver seigir til um það að eithvað land sé verðmætara heldur enn annað? afhverju er Vatnsmýrinn verðmætari heldur enn hólmsheiðinn?? Og Central reykjvavík er núna einhverstaðar við klettháls frekar enn miðbæinn.

Og mikið rosalega yrði ég fúll ef að ég væri nýbúin að kaupa mér hús í Norðlingaholti og svo 5árum seinna fengi ég aðflugið beint yfir kollin á mér, því að einhverjir treflar vildu fá nýja tjörn í Vatnsmýrina 

Ásgeir Ólafsson (IP-tala skráð) 12.3.2008 kl. 11:44

45 identicon

Það getur verið þreytandi að lesa greinar eftir menn sem hafa EKKERT vit á flugi, veðurfræði eða neinu sem því við kemur. Svoleiðis skrif dæma sig sjálf, sér í lagi þegar menn halda áfram að hræra í slíkum graut, viðurkenna ekki fáfræði sína og fullkomna svo verkið með því að virða ekki skoðanir annarra og hlusta ekki á álit sérfræðinga. Hvernig er þá hægt að taka mark á því sem á eftir fylgir? Ekki mögulegt. 

Reykjavíkurflugvöllur verður áfram í Vatnsmýrinni, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr.

Veðurfarslega, þá er Hólmsheiði ekki raunhæfur kostur, það veit hver maður sem þar hefur flogið og ekki síst sérfræðingur eins og Einar Sveinbjörnsson. Haraldur Ólafsson veðurfræðingur, sem unnið hefur mikið að rannsóknum á staðbundnum veðurspám, hefur bent á slíkt hið sama. Þetta má færa sönnur á með líkindareikningi, þar sem upplýsingar úr veðurstöðvum í kring um Hólmsheiði eru notaðar. 

Þetta flugvallarmál er og verður aldrei einkamál Reykvíkinga, þetta er líka landsbyggðarmál, þetta snýst um skjótan aðgang að hátæknisjúkrahúsum og þetta er ekki hvað síst öryggismál fyrir flugfarþega á Íslandi.

Það má vel vera að það fari vel að hafa andatjörn og bistrobari, í bland við skrúðgarða og húsbyggingar í Vatsmýrinni, en það er bara því miður ekki raunhæft m.v. þá kosti sem eru í stöðunni, því miður. En ef af verður, verði höfuðborgarbúum þá að góðu að sitja fastir í umferðarteppum daginn út og inn. Menn eru að hafa áhyggjur af byggð úti í Örfirisey, þ.e.a.s. út af því að vegakerfi Reykjavíkurborgar ber ekki fleiri bíla á háannatímum en er nú þegar. Hvernig horfir þá við ef byggt verður í Vatnsmýrinni?  

Ég vil að lokum hrósa Einar Sveinbjörnssyni fyrir einkar skemmtilega og fróðlega síðu um veður- og náttúrufræði.

Sigurður (IP-tala skráð) 12.3.2008 kl. 12:03

46 identicon

Haukur

Þegar að veðurfræðingar og starfandi atvinnuflugmenn fullyrða að Hólmsheiði sé ekki álitlegur kostur vegna veðurfars og öryggissjónarmiða þá getur þú ekki svarað þeim fullyrðingum með því að segja að það sé ásættanlegt að flugvellir séu lokaðir vegna veðurs. Kosturinn við flugvöllinn í Vatnsmýrinni er sá að hann er næstum því aldrei lokaður. 

Hvað V-22 varðar þá tel ég að þótt öllum atriðum sem varðar öryggi hennar sem hafa háð vélinni í hönnuarferlinu verði ráðið bót á þá held ég að verðmiðinn 60-70 milljónir dollara, sama og eitt stk 737-700 sé ekki raunhæfur kostur fyrir íslensk flugfélög í innanlandsflugi.

Addi (IP-tala skráð) 12.3.2008 kl. 12:39

47 identicon

Ég vil bara bæta tvennu við mitt síðasta innlegg.

Ef að flugmenn álíta að flugvöllur á Hólmsheiði sé ekki öruggur kostur þá munu þeir einfaldlega neita því að nota hann sem flugvöll og þá er það til lítils að eyða milljörðum í að byggja hann.

Umræðan um Hólmsheiði er einfaldlega komin allt of langt. Það er verið að eyða dýrmætum tíma og fjármunum í þessa vitleysu sem allir flugmenn vita að kemur engan vegin til greina sem álitlegur kostur.

En tökum hins vegar sem dæmi að allt í einu væri talað um Álftanes sem kost og að íbúar í námunda við það væru sáttir við þann stað fyrir flugvöll. Þá væri ég ekkert að mótmæla því. Það væri mjög fínn staður held ég. En ég er viss um að íbúum Álftaness væri ekki sama um það.

Addi (IP-tala skráð) 12.3.2008 kl. 14:02

48 Smámynd: Haukur Nikulásson

Hér eru menn með sterkar skoðanir og ég skal að reyna að svara stutt og skipulega:

Nr. 43: Benedikt. Ég sagði ekkert um hávaða varðandi flugið, ég hef ágætlega sætt við við tæknileg vandamál við að takmarka hann, bílaumferð er sömuleiðis óhjákvæmileg leiðindi. Þar sem ég iðka mikið tónlist tel ég bassann ómissandi hljóðfæri. Fyrirgefðu mér að ég næ því ekki að við séum ósammála um þessi tvö atriði.

Nr. 44: Ásgeir, þú mátt gjarnan lesa það sem áður kemur fram í umræðunni áður en þú ferð að skjóta þetta út í loftið. Einnig verður þú að sætta þig við að það eru ennþá miklar framfarir í flugi sem öðrum greinum. Það á líka við um þróun flugvéla.

Ég á enga hagsmuni persónulega að gæta, sem er öndvert við það hjá flugmönnunum hérna. Það eru fleira sérfræðingar notkun landrýmis en flugmenn og veðurfræðingar. Þeir eru venjulegt fólk, verkfræðingar, tæknifræðingar, hagfræðingar, viðskiptafræðingar, arkitektar, byggingaraðilar og ótal fleiri sem skilja hagkvæmni þess að flytja flugvöllinn.

Ásgeir, þú þarft, eins og aðrir, að kyngja því af karlmennsku þegar mannvirkjum er plantað við hlið þér með tilheyrandi ónæði. Ég hef þurft að kyngja því líka, þó mér líkið það hreint ekkert frekar en þér og það jafnvel án grenndarkynningar.

Nr. 45: Sigurður, þú hefur ekki lesið athugasemdirnar áður en þú lest þá síðustu frá mér og ég nenni bara ekki að endurtaka það allt aftur. Ég hef ágætt inngrip í flug til að tjá mig. Heldur þú að þinn málstaður batni eitthvað við að halda því fram að ég viti EKKERT um flug? Vertu úti eða hagaðu þér eins og maður í umræðunni.

Nr. 46 og 47: Addi, þú notar óheiðarlega framsetningu í rökræðum sbr. myndskeiðið um tilraunaflugið og síðan vanhugsaða alhæfingu um að flugmenn muni bara neita að nota hugsanlegan flugvöll á Hólmsheiði ef þeim líkar hann ekki. Þeir ættu fyrr að neita því að nota flugvelli þá sem eru víða úti á landi og eru bara hreint út sagt hræðilegir. 

Er ekki tímabært að sumir flugmenn skilji að flug er ekki miðpunktur tilverunnar. Margir annars konar sérfræðingar telji betri og hagkvæmari not fyrir Vatnsmýrina en að vera þar með flugvöll. Kannski er skammtímalausnin sú að minnka hann niður í eina flugbraut meðfram ströndinni?

Þetta mál leysist hvernig svo sem við þrösum hérna á þessum vettvangi. Ég vona bara að gerist í sem bestri sátt allra sem hlut eiga að máli. 

Haukur Nikulásson, 12.3.2008 kl. 15:31

49 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ásgeir, varðandi verðmæti Vatnsmýrarinnar þá er meira að segja hlutdræg skýrsla samgönguráðuneytisins og Reykjavíkurborgar neydd til að viðurkenna þjóðahagslegan ábata af því að færa völlinn. Taktu eftir: Þjóðhagslegan ekki flugmannahagslegan.

Haukur Nikulásson, 12.3.2008 kl. 15:55

50 identicon

Eftirfarandi er niðurstaða skýrslunnar: 

Kostur B1a, Hólmsheiði, kemur þjóðhagslega
best út samkvæmt kostnaðar- og
ábatagreiningu og þar er hagur hagsmunaaðila
í allgóðu jafnvægi þó að nokkur
kostnaður leggist á íbúa landsbyggðarinnar
og flugrekendur. Gera verður fyrirvara
um þennan kost að því er varðar nýtingu
flugvallarins vegna hæðar í landi (135 m)
og nálægðar við fjöll en rannsóknir á
áhrifum þessara þátta á veðurfar og flugskilyrði
skortir.

Fyrr í skýrslunni stendur:

Ekki liggja fyrir veðurmælingar
á þessum stöðum, og þarf þá fyrst að bæta úr
því. Nú þegar eru hafnar mælingar á vindi,
hita og raka á Hólmsheiði og hafa þær staðið
í rúmlega eitt ár. Þessar mælingar þarf að útvíkka
þannig að þær taki einnig til úrkomu,
skyggnis og skýjahæðar. Almennt er talið að
veðurmælingar þurfi að standa samfellt í
5 ár til að gefa traustar upplýsingar um
veðurfarsþætti
vegna flugs.

Hvernig getur það verið að það er hægt að komast að einhverri niðurstöðu ef að allar hliðar málsins hafa verið skoðaðar. Það ætti að vera búið að gera veðurathuganir fyrst - svo skrifa þessa skýrslu!!!!

Addi (IP-tala skráð) 12.3.2008 kl. 16:17

51 identicon

Ágæti Haukur

Þú varst aldrei nafngreindur í þessu samhengi hér að ofan og ég hef engu haldið fram þess efnis um að þú hafir ekkert vit á flugi, það er alfarið komið frá þér sjálfum núna.

Heldur þú að það sé málstað þínum þá til framdráttar að segja Össur Skarphéðinsson sitja að sumbli við skrif sín og að Sigmundur Ernir sé sjálfumglaður besserwisser, þó þeir séu ekki sammála þér? Ég held þú hafir því miður aðeins skotið þig í fótinn núna.

Ég fer að ráðum þínum, haga mér reyndar ávallt eins og maður, en held mig utan við þessa umræðu hér þar sem hún er komin út í vitleysu.

Góðar stundir!

Sigurður (IP-tala skráð) 12.3.2008 kl. 16:53

52 Smámynd: Haukur Nikulásson

Addi, þér er heimilt að týna út úr skýrslunni sem þú vilt að jábræður þínir sjái og feitletra hagstæðasta hlutann. Þér fer fram í rökræðunum.

Hitt er ljóst að skýrslan er þrátt fyrir allt kominn frá stofnunum þar sem yfirmenn þeirra beggja vilja alls ekki flutning flugvallarstæðisins og því tel ég hana hlutdræga. Annað álit eða skýrsla verkfræðinga, arkitekta og viðskiptafræðinga sýndi fram á að þjóðhagslegi hlutinn sé vel yfir hundrað milljarðar sé allt talið. Sé allrar sanngirni gætt þá er þjóðhagslegi hlutinn metinn einhvers staðar á milli 40 og 130 milljarða. Það má bæta mannlífið mikið fyrir þessa fjárhæð, þar með talið sjúkraflug, bráðaþjónustu, biðlista og aðgengi landsbyggðarfólks að þjónustu í höfuðborginni svo fátt eitt sé nefnt. Þess vegna kallast þetta þjóðhagslegt mál.

Veðurfræðilegi hlutinn sem tekur 5 ár að athuga hefði tafið skýrsluna um 5 ár. Hagkvæmnisathugunin út frá þjóðhagslegum ávinningi þurfti ekki að bíða. Þessi tvö atriðið eru sannanlega ekki vel samræmanleg í tíma. 

Haukur Nikulásson, 12.3.2008 kl. 17:04

53 Smámynd: Haukur Nikulásson

Sigurður, ég er nokkurn veginn eini maðurinn á þessari síðu að mæla fyrir flutningi vallarins og þar af leiðandi nokkuð örugglega sá eini sem get tekið meint VITLEYSI til mín á þessum vettvangi.

Tilvitnunin í Sigmund Erni kallar okkur "sjálfumglaða draumastjórnmálamenn og sjálfskipað gáfulið" og bara broti af því er bara beint til baka. Hvers konar fótskot er það?

Ég sagði engan sitja að sumbli, það eru þín orð. Orð mín voru hálfkæringurinn "óviss drykkjarföng" sem ég get staðið við og varið í meiðyrðaréttarhaldi. Sigmundur Ernir er með enn meira yfirlæti og uppnefni í sínum skrifum sem óþarfi er að elta. Það sannfærir mig bara um það að hann eigi að halda sig við að lesa bara fréttir eftir aðra. Það fer honum býsna vel og hann er góður í því.

Haukur Nikulásson, 12.3.2008 kl. 17:17

54 identicon

Fyrir 40-130 milljarða væri hægt að gera fína hluti fyrir sjúkrahúsið í keflavík.

Efling sjúkrahússins gæti etv komið í stað álvers?

Ormurinn (IP-tala skráð) 14.3.2008 kl. 12:24

55 identicon

Haukur Nikulásson er bitur maður.

Ásgeir Ólafsson (IP-tala skráð) 15.3.2008 kl. 15:29

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 52
  • Frá upphafi: 1790149

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband