Sumarfannir í Esjunni, -merkileg heimild

Ég rakst fyrir algera tilviljun á frétt í Morgunblaðinu um fannir í Esjunni í sumarlok 1961  (5. sept. ) Fréttin  gengur út  á  að það  sumar hafi  snjór alveg náð að  leysa  úr  Kerhólakambi  svo  og  í Gunnlaugsskarði. Sama  hafi verið  upp  á  teningnum  næstu tvö  sumur  á  undan, þ.e.  1959  og 1960.  Fyrir þann tíma var síðast ætlað að Esjan hafi orðið alveg snjólaus 1941. Jón Eyþórsson veðurfræðingur (f. 1885 og  d. 1968), einn stofnenda og hvatamanna Jöklarannsóknarfélagsins er heimildarmaðut í Morgunblaðinu innan um heldur hörkulegar kaldastríðsfréttir þessa heldur skelfilega tíma.

Mbl. 5. sept. 1961

 

Eftir því sem fram kemur í viðtölum við Pál Bergþórsson sem fylgst hefur vel með snjóskaflinum í Gunnlaugsskarði,  bráðnaði skaflinn síðla sumars 1998 og þá í fyrsta sinn þá frá 1966.  Á þessari öld, eða frá 2002 hefur Esjan nær árvisst orðið snjólaus í lok ágúst eða byrjun september.

En það sem vekur athygli mín í úrklippunni frá 5.sept. 1961 er það sem Jón Eyþórsson segir um sumrin 1936, 1939 og 1941, en að þá hafi skaflinn verið horfinn í svo snemma sem í júnílok. Þetta hef ég ekki vitað fyrr.  Ýmislegt fleira kemur fram eins og að bók sú á Veðurstofunni þar sem skráðar voru verið fannir í Esjunni hefði glatast !

Til þess að lífseiga skafla hátt í fjöllum taki upp endrum og sinnum fer yfirleitt saman snjóléttur eða mildur vetur, ásamt hlýju og löngu sumri í kjölfarið. Í Gunnlaugsskarði á Esju skefur reiðinnar býsn af snjór ofan af flötu háfjallinu, einkum í A- og NA-átt.  Mikil snjódyngja situr í skarðinu í lok vetrar og snýr hún mót vestri þar sem sólin nær aðeins að skína part úr degi.  Síðasti vetur, 2007-2008 þótti með þeim snjóþyngri a.m.k. í seinni tíð og þó sumarið hafi verið hlýtt hingað til dugar það ekki eitt og sér til þess að bræða í burtu allar fyrningar. A.m.k. ekki enn sem komið er.

En aftur af þessum ótrúlegum árum 1936, 1939 og 1941.  Öll voru þessi sumur hlý og eiga það sammerkt að það voraði vel.  Tvo þau síðarnefndu komast í bækurnar fyrir það hve afbrigðilega hlý þau voru almennt séð á landinu öllu og fræg er hitabylgjan sem gerði um og eftir sólstöður í júní 1939. Þegar veturnir eru skoðaðir sést að tíði var með áþekkum hætti.  Alla þessa vetur var N- og NA-átt ríkjandi meir og minna.  Kannski ekki endilega svo hlýtt en í það minnsta afar snjólétt og á það við alla þrjá veturna.

Því fór saman snjóléttur og vetur, góð vorkoma og hlý sumur.  Í slíku árferði leysir þann litla snjó sem þá var í fjöllum sunnanlands snemma sumars, jafnvel í lok júní eins og sagt er frá. 

Þó svo að snjóskaflinn í Gunnlaugsskarði taki upp í lok sumars nú á dögum eru það í rauninni heldur lítil tíðindi saman borið við þessi tilteknu ár um og fyrir seinna stríð.   


Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Í tímaritinu Veðrið 2, 1969, bls. 40 segir Páll Bergþórsson að snjó hafi tekið upp í Esju það sumar. En það er eins og jafnvel hann sjálfur hafi gleymt þessu því hann nefndi einmitt 1966 þegar hann sagði frá snjóleysinu 1998. Mig minnir svo að í Mogganum hafi svo komið önnur og nákvæmari lýsing á fönnum í Esju upp úr þessu sem þú vitnar í en finn það ekki í fljótu bragði, skrifaði það þó einhvers staðar hjá mér þegar ég fann það fyrir noklrum árum. Ég var einmitt að líta til skaflsins í Gunnlaugsskarði í kvöld þegar hann var mjög áberandi og sýndist ansi stór.     

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.8.2008 kl. 01:01

2 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Í lítilli úrklippu úr Mogganum sem ég á frá ágúst 1998 (hef ekki betri dagsetningu) er haft eftir Páli að til séu óljósar heimildir um að skaflinn hafi horfið árið 1966. Einnig kemur þar fram að engir heimildir séu til að um skaflinn hafi horfið fyrir 1930. Ætli hann hverfi ekki einnig þetta árið? Í apríl spáði ég því í september, en hann gæti gert það fyrr.

Emil Hannes Valgeirsson, 12.8.2008 kl. 08:57

3 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mér sýnist þetta bara sanna að minni manna er brigðult.

Marinó G. Njálsson, 12.8.2008 kl. 11:58

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég held nefnilega að skaflinn hafi ekki horfið 1966 heldur hafi það verið 1969.

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.8.2008 kl. 14:57

5 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Trausti Jónsson segir mér að bókin sem sögð er í fréttinni vera týnd hefur síðar komist í leitirnar og hún er vel varðveitt á Veðurstofunni.  Hins vegar inniheldur hún ekki nema örfá ár og það sem verra er, að þar eru fjölmargir skaflar númeraðir og tíundað hvenær hver þeirra hverfur, en engin mynd eða lykill að númerunum fylgir bókinni.

ESv 

Einar Sveinbjörnsson, 12.8.2008 kl. 19:31

6 identicon

Sæll Einar, afsakið að ég skuli fara út fyrir efnið en ertu eitthvað farinn að rýna í haustið? Má búast við að september verði jafn leiðinlegur og í fyrra?

Magnús Arason (IP-tala skráð) 13.8.2008 kl. 13:47

7 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Ég fæ loks tíma á Íslandi í sept. n.k. Svo ég ætla rétt að vona að við fáum ljúft haust. En annað; pápi hefur alltaf talað um hið einstaka öndvegissumar átið sem stríðið mikla hófst. Þ.e. 1939. Besta sumar sem hann hafi nokkru sinni upplifað á Íslandi. Hann var þá staðsettur á Vestfjörðum. Kannski var þetta sumar ekki jafn gott um allt land?

Ketill Sigurjónsson, 13.8.2008 kl. 23:13

8 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Ég man að þegar ég var sem barn og unglingur að róa með pabba á grásleppu hér norður af Akranesi þá notaði karlinn oft snjóskaflinn í Kerhólakambi sem viðmið, hann sást vel og entist alltaf út grásleppuvertíð sem var fram undir lok júní í þá daga. Svo gera menn oft grín af því að nota snóskafl við að miða eitthvað út!  

Haraldur Bjarnason, 14.8.2008 kl. 21:17

9 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Nei, það var ekki nein önnur grein í Mogganum um fannir í Esju heldur var hún í tímaritinu Veðrinu 2. 1960. Og 1966 var Esjan orðin snjólaus 31. ágúst, svo aftur 1969 en svo ekki fyrr en 1998.   

Sigurður Þór Guðjónsson, 17.8.2008 kl. 16:37

10 identicon

kkk

he (IP-tala skráð) 25.8.2008 kl. 11:07

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 52
  • Frá upphafi: 1790149

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband