12.12.2009
Mikið rignt suðaustanlands
Síðasta sólarhringinn hefur mikið rignt suðaustanlands, þó ekkert meira en gengur og gerist við þessi skilyrði þegar milt og rakt loft er þvingað með S- og SA-átt yfir Vatnajökul.
Mesta sólarhringsúrkoman var á eftirtöldum stöðum:
- 143,4 mm Kvísker
- 127,4 mm Snæbýli í Skaftártungu
- 94,3 mm Dalshöfði í Fljótshverfi
Stöðin Lónakvísl inn undir Langasjó kemur þarna einnig við sögu með 106 mm.
Í Reykjavík þótti mörgum vera ausandi rigning í allan gærdag. Engu að síður mældist ekki nema tæplega 19 mm í höfuðborginni.
Í dag mun áfram rigna, en nú frekar fyrir miðju Suðurlandi og vestur á Reykjanes, en minna eða lítt þarna austurfrá.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.12.2009
Af vetrarblotum
Vetrarhlýindi sem við erum nú að horfa upp á eru nær árviss einhverntímann vetrarins, þ.e. á tímabilinu frá desember til mars.
Lægðir beina þá til okkar lofti með uppruna langt suður í Atlantshafi. Oft er jafnframt háþrýstingur fyrir austan eða suðaustan land sem er afar hjálplegur fyrir tilflutning þessa hlýja loftmassa langt norður eftir. Stundum geta skarpir vetrarblotar varað í tvo til þrjá daga eða jafnvel enn lengur þegar hver lægðabylgjan af annarri berst úr suðri yfir vestan land, án þess að svalara loft komi við sögu á milli. Algengara er þó að hiti rjúki upp í skamma stund, jafnvel dagpart, á meðan mestu hlýindin fara hjá.
Fyrir nokkru reyndi ég á ráðstefnu hjá Vegagerðinni að skilgreina skarpan vetrarblota á landsvísu. Í mínum huga þarf milda loftið að komast alla leið norður yfir miðhálendið. Ekki er nóg að það hlýni sunnan- og vestantil. Ryðja þarf í burtu öllu köldu lofti sem getur verið þaulsetið oft á tíðum austantil á Norðurlandi. Það kemur fyrir í vægari blotum að milda loftið fljóti ofan á hinu kaldara í lægstu lögum og lítið hlýni því á þeim slóðum.
Ég skilgreindi skarpan eða alvöru vetrarblota einfaldlega þannig: Ef hámarkshitinn á Akureyri nær 10°C telst sá dagur hafa verið hlákudagur af þessari tegund. Svo var einfaldlega talið og meðfylgjandi mynd sýnir þær niðurstöður síðustu áratuga, nema að síðasta vetur vantar þarna inn. Sjá má að breytileikinn er talsverður, en algengast er að skarpir vetrarblotar eru tveir til fjórir á vetri. Árin fyrir 1949 var farið í sjálfar athugunarbækurnar frá Akureyri og vera má að tilvikin séu vantalin. Frá 1949 var stuðst við gagntöflu Veðurstofunnar og þar er allt vandlega yfirfarið, þó vissulega leynist alltaf villur innan um.
Veturnir fyrst eftir aldamótin skera sig nokkuð úr, sérstaklega veturinn 2004-2005 með 24 daga þar sem hámarkshitinn á Akureyri nær 10°C. Þessi vetur var um margt óvenjulegur. Nánast samfelldan og óvenjulegan hlýindakafla gerði í lok janúar og byrjun febrúar og síðan var mars sérlega hlýr í ofanálag. Þessi vetur er einn sá snjóléttasti sem vitað er um á Akureyri. Blotar af þessari tegund, þegar þeir var í einhvern tíma, leysa hratt upp snjóalög í fjöllum og þarf þá ekki rigningu til. Hinn mildi vetur 1963-1964 skorar þarna líka hátt. Sá er annar snjóleysisvetur sem ýmsir eldri skíðamenn norðanlands minnast enn og þá með miklum hryllingi.
Nú eru sem sagt líkur á að næstu dagar, þ.e. fram á mánudag, geti komist í þennan flokk og teljast þá sem vetrarblotadagar. Síður að það verði nægjanlega stíf S-átt á sunnudag, en hina þrjá er líkur verulegar á að hitinn nái 10°C á Akureyri.
Í janúar 2008 fjallaði ég aðeins um merkinu hugtaksins asahláka.
Veðurfar á Íslandi | Breytt s.d. kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2009
Hálkan myndast þó það sé hiti á mælum
Glærahálkan sem myndaðist á Höfuðborgarsvæðinu í nótt og reyndar víðar er enn eitt dæmið þetta haustið af ísingu á yfirborði þrátt fyrir það að hiti í lofti sé vel ofan frostmarks. Í nótt var mældur hiti í Reykjavík þannig +4 til 5°C þegar tók að frysta við yfirborð.
Atburðarrásin var nokkurn veginn þessi:
Á miðnætti er skráð skúr í veðurathugun í Reykjavík. Strax næstu klukkustund eða svo léttir til. Þá er sæmilegur blástur eða um 5 m/s á Veðurstofunni og hiti um 5 til 6 stig. Til kl. 03 lægir heldur og þá mælist vindurinn um 2-3 m/s (í 10 metra hæð vel að merkja). Eftir mínum upplýsingum fór þá strax að bera á hálkumyndun og fljótlega í kjölfarið var komin fljúgandi hálka um allt Höfuðborgarsvæðið.
Þó svo að það hafi virst að blásturinn væri nokkuð viðvarandi, þarf ekki nema augnablik þar sem hann hægir lítið eitt á sér og fer niður fyrir 3-4 m/s. Þá er ekki lengur til staðar sú loftblöndum í neðstu sentímetrum við jörð sem er forsenda fyrir því að halda við yfirborðshitanum. Þegar þetta lítið er um ský og loftið tiltölulega þurrt verður kæling yfirborðsins mjög ör.
Göturnar voru rennandi blautar, skúr síðast á miðnætti. Það sem vekur mesta athygli mína er að ísingin virðist myndast þó svo að dálítil gola sé í lofti. Það þarf með öðrum orðum ekki gera allt að því logn til þess að fá hálkumyndun. Það meira að segja þó svo að hitinn í 2 metra hæð sé langt ofan frostmarks ! Geislunarþátturinn er allsráðandi eða sú staðreynd að ský hverfa fljótt af himni í kjölfar úrkomunnar.
Meðfylgjandi línurit frá VÍ sýnir samfelldar mælingar á vindi, hita og fleiri þáttum síðasta sólarhringinn á Reykjavíkurflugvelli. Á Veðurstofunni við Bústaðaveg var ekki að sjá sömu minnkun í mældum vindi á milli kl. 00 og kl. 03. Svipað var á sjá á Korpu, en í þéttbýlinu eru vindaðstæður vissulega afar breytilegar og ekki að efa að í mörgum húsagötum hefur lognið verið meira, ef taka mætti svo til orða.
Samgöngur | Breytt s.d. kl. 09:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Egill Helgason bendir á einfalda og ágæta upplýsingasíðu. Þar er helstu rökum efasemdamanna þess efnis að loftslagshlýnun sé að takamörkuðu leyti af mannavöldum, stillt upp með samsvarandi mótrökum.
http://www.informationisbeautiful.net/visualizations/climate-change-deniers-vs-the-consensus/
Skemmtilega upp sett og óhætt að mæla með innliti. Ég hef áður fjallað hér í ítarlegra máli um nokkur þessara atriða og eins er ágæt samantekt í svipaða veru hjá þeim félögum á Loftslag.is. Á þessari gátt, sem hefur þau einkunnarorð að upplýsingar séu yndislegar, er textinn hnitmiðaður og myndefnið skýrt.
7.12.2009
Og göturnar glitra...
Það er lítið jólalegt við það þegar blautar göturnar taka að glitra eins og oft hefur borið á síðustu dagana, a.m.k. hér suðvestan lands. Mikil hálka hefur myndast á götunum, jafnvel þó svo að hiti í lofti sé 3 til 5°C. Sem sagt ekki frost.
Þegar léttir til og vind lægir kólnar yfirborðið snögglega, jafnvel þó enn sé bjart af degi, en sólin gefur heldur lítinn varma á þessum árstíma. Hálka af þessari tegund, þ.e. þegar blautur vegurinn frýs er sérlega varasöm, ekki síst fyrir þær sagir að hún myndast oft á blettum eða stöðum sem kólna hraðar og fyrr en annars er. Ég hef kallað hana glerhálku eða glærahálku, en á ensku nefnist hún black ice.
Á laugardag var hitinn kl. 15 í Reykjavík +5°C. Engu að síður tóku göturnar að glitra þegar létti til. Vindur er oftast mældur í 10 metra hæð. Þegar hann er orðinn minni en 3-4 m/s í þeirri hæð má fara að gera ráð fyrir lítilli loftblöndun niðri við jörð. Staðalhæð hitamælinga er í 2m hæð, en miklu getur munað á hitastigi niðri við jörð eins þegar skilyrði er hagstæð fyrir myndun hitahvarfa samfara örri kælingu yfirborðsins.
Í morgun voru göturnar enn og aftur blautar eftir smá rigningu í nótt, síðan létti til og lægði. Þá var ekki að sökum að spyrja og betra að fara varlega. Hálkuvarnir m.a. af hálfu Vegagerðarinnar og líka sveitarfélaganna miðast mikið að því að eyða hálku sem myndast á þennan hátt og jafnvel að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða, þ.e. að salta í þann mund sem nær að frysta.
5.12.2009
Um hvað snýst Kaupmannahafnarfundurinn ?
15. fundur rammasamnings Sþ um loftslagsbreytingar (UNFCCC) hefst eftir helgina í Kaupmannahöfn. Það var á þriðja fundi aðildarríkjanna (COP-3) í Kyoto 1997 þar sem aðildarríkin skuldbundu sig til minnkandi losunar gróðurhúsalofttegunda, án þátttöku Bandaríkjanna og fleiri þjóða eins og frægt er orðið. Þær skuldbindingar byggðu á Ríó-yfirlýsingunni um vilja yfir 150 ríkja til að takast á við hnattræna hlýnun jarðar.
Allar götur síðan þá hafa þjóðir heims verið að reyna að ná saman um áframhaldið, þ.e. hvað taki við að loknu skuldbindingartímabili Kyoto 2008-2012. Markmiðið er að í Kaupmannahöfn líti dagsins ljós sáttmáli, sem á að taka við af Kyoto-sáttmálanum. Gerð krafa um að sett verði skýrari markmið nú, sem auðveldara verði að fylgjast með og sannreyna að verði haldin.
Í aðdraganda Kaupmannahafnarfundarins hafa átt sér stað tvær samningalotur ef svo má segja.
- Í fyrsta lagi hafa átt sér stað viðræður um um það hvað taki við að lokinni Kyoto-bókuninni 2012. Bandaríkjamenn taka ekki þátt í þessum viðræðum þar sem þeir skrifuðu ekki undir Kyoto á sínum tíma.
- Í öðru lagi hafa farið fram samningaviðræður sem ganga út á almennt séð aukna samvinnu ríkja til að takast á við loftslagsvandann innan Ríó-yfirlýsingarinnar frá 1992. Evrópusambandsríkin og fleiri vilja taka sem mest mið af Kyoto, en Bandaríkjamenn vilja byrja með hreint borð ef svo má segja.
Miðlægt í öllu samningaferlinu er krafan um að aðgerðir miðist við það að hnattræn hlýnun haldist innan við 2°C miðað við 18. öld. Nú þegar er álitið að hitinn hafi stigið um 0,7°C frá því fyrir upphaf iðnbyltingar. Þessi rammi er nokkuð skýr og allmörg ríki hafa lagt til metnaðarfullar áætlanir um samdrátt í losun allt að 50-85% til ársins 2050. Á það er bent að slíkar langtímaáætlanir sem taka frekar mið að aðgerðum komandi kynslóðar en þeirrar sem nú byggir jörðina séu í meira lagi óraunhæfar. Lögð er á það áhersla að í Kaupmannahöfn náist samkomulag um markmið um samdrátt losunar til ársins 2020. Málið vandast aftur á móti þegar kemur að útfærslunni og spurt er hverjir eigi að axla byrðarnar og færa fórnirnar.
IPCC hefur bent á það að iðnríkin þurfi að stefna að 25-40% samdrátt í losun til ársins 2020 eigi markmiðið um 2 gráðu hlýnunina að teljast raunhæft.
Ef nýtt bindandi samkomulag næst um samdrátt í losun mun það leggja ólíkar kröfur til einstakra ríkja og ríkjahópa. Þar stendur hnífurinn í kúnni því hagsmunir eru svo ólíkir þar sem geta þjóða til samdráttar er eðli málsins samkvæmt ekki sú sama.
Sem dæmi um ólíka stöðu má nefna að Rússland og önnur fyrrum austantjaldsríki telja sig eiga afgangslosunarkvóta eftir viðmiðunartímabilið 2008-2012. Tiltektaraðgerðir síðustu ára í þessum ríkjum hafa skilað miklum árangri. Þessi ríki vilja halda fast í það að nýr samningur sé beint framhald af þeim fyrri sem geri þeim kleyft að taka því bara rólega og selja afgangskvóta sína á uppboðsmarkaði og hagnast á öllu saman.
Á sama tíma er ljóst að tveggja gráðu markið næst alls ekki nema að takist að grípa til róttækra aðgerða í tveimur þeirra ríkja sem losa mest og vöxturinn í losun verið hvað hraðastur. Þetta eru vitanlega Bandaríkin og Kína, sem saman bera ábyrgð á um 40% hlut í allum útblæstri koltvísýrings. Kínverjar hafa látið að því liggja að þeir séu tilbúnir til að setja útblæstri skorður án þess að skilgreina það nánar. Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur talað fjálglega um umhverfismál, en hann hefur þó ekki tekið þá forustu í loftslagsmálum, sem margir vonuðust eftir.
Ótti manna við það að raunverulegur árangur náist ekki á Kaupmannahafnarfundinum byggist á því að enn og aftur komi Kínverjar og Bandaríkin ekki að samningaborðinu nema til málamynda. Þó Evrópusambandið og fleiri iðnríki saman með hópi þróunarríkja, svokölluðum G77 leiði samningaviðræðurnar og setji fram háleit markmið, er deginum ljósara að lítið gerist í raun nema að stóru ríkin í loftslagssamhenginu taki virkan þátt og sýni ríkan samstarfsvilja.
2.12.2009
1,4 metra sjávarborðshækkun ?
Í morgun fór í viðtal á Rás 2 þar sem fjallað var um nýjar fréttir þess efnis að vísindamenn spá hraðari bráðnun Suðurskautsjökulsins sem aftur leiðir til þess að hækkun sjávarborðs verði meiri, en áður hefur verið spáð.
Fréttin frá Fréttastofu RÚV sem um ræðir má lesa hér. Þó hún virki heldur glannaleg er hún samt ekkert annað en nánast bein þýðing samhljóða fréttar frá BBC.
Nokkur áhersla er lögð á það í þessu tiltekna máli að IPCC hafi aðeins í sinni nýjustu spá gert ráð fyrir 50 sm sjávarborðshækkun að hámarki, en nú hafi tölurnar heldur betur hækkað. Í viðtalinu í morgun benti ég á það að spár um mat á afleiðingar loftslagshlýnunar væru háðar mikilli óvissu. Ekki síst viðbrögð stóru íshvelanna og hraða bráðnunar þeirra. IPCC gerði einmitt í spá sinni árið 2007 meiri fyrirvara við sjávarborðshækkun en um marga aðra þætti afleiðinga loftslagsbreytinga.
Það eru einkum tveir þættir sem ekki var tekið tillit til hjá IPCC árið 2007 og þar sem nú liggur fyrir heldur meiri vísindaleg vitneskja en var fyrir tveimur til þremur árum. Í fyrsta lagi áhrif aukins bræðsluvatns á núning jökulíssins við botn, sem leiða kann til aukins framskriðs. Hins vegar þann þátt þar sem jöklar kelfa eða flæða út í sjóinn sem er heldur hlýrri en áður var. Báðir þessir þættir eru álitnir leiða til hraðari bráðnunar en áður var álitið. Tómas Jóhannesson jöklafræðingur gerir einmitt ágæta grein fyrir þessum þáttum í pistli á Loftslag.is ásamt framþróun jöklavísindanna upp á síðkastið.
Ég reyndi í morgun að skýra forsendur vísindahópsins sem á í hlut fyrir niðurstöðum sínum. Annars vegar þætti aukinnar kelfingar í hlýrri sjó og hraðara ísstreymi til sjávar af hennar völdum. Hins vegar er telft fram nýju sjónarhorni sem ekki hefur verið áberandi í þessu samhengi. Nefnilega það að "ósongatið" yfir Suðurskautinu sem borið hefur mikið á undanfarna áratugi, sé smám saman að jafna sig vegna þeirra mótvægisaðgerða sem alþjóðasamfélagið hefur gripið til. Við það er álitið að það hlýni heldur á þessum slóðum. Jafnframt er á það bent að ástæða þess að ekki hafi hlýnað að sama skapi og annars staðar á jörðinni á liðinni öld megi einmitt skýra með "ósongatinu".
Í sjálfu sér eru þetta góðar og gildar forsendur. Síðan taka menn sig til og reikna í lofthjúpslíkani og fá út hraðari bráðnun en áður var álitið. Í raun er ekkert meira um það að segja annað en niðurstaðan verður aldrei betri en þær forsendur sem menn leggja grundvallar. Kannski eru þær réttar, kannski ekki alveg fullkomlega og mögulega rangar.
Sjálfur hef ég séð allmargar líkankeyrslur áþekka þessari á síðustu 10 til 15 árum og þær koma mér sjaldnast orðið úr jafnvægi. Enda langt síðan ég lærði það að þær spár reynast ætíð betur sem taka bæði mið af mælingum, þ.e. þeim breytingum sem orðnar eru og síðan framreikningnum þeirra í líkani með þeirri óvissu sem þeim fylgir. Höfum hugfast að óvissan er tvíþætt, hana má minnka með því að hafa staðfestu á því sem lagt er til grundvallar, þ.e. forsendurnar og síðan gerð og hæfni líkansins til að herma eftir veðurfarinu.
Með þessu er ég ekki að segja að þessi nýja spá um 140 sm hækkun sjávarborðs sé beinlínis röng. Síður en svo, en maður vill kannski fyrst sjá að þróun í þessa veru sé hafin, en ekkert bendir til þess enn að hröð bráðnun Suðurskautslandsins sé farin í gang. Í fyrirlestri Helga Björnssonar í fyrradag í Salnum í Kópavogi kom fram að fjórðungur þeirra sjávarborðshækkunar sem nú þegar er fram komin er af völdum bráðnunar smájökla s.s. þeirra Íslensku. Grænland á einnig stóran þátt og varmaþensla megnið af því sem upp á vantar eða um helminginn af þeim 20 sm sem sjávarborð hækkaði á 20. öldinni.
Til að fyrirbyggja misskilning að þá er ég ekki að reyna að færa rök fyrir því að Suðurskautsísinn bregðist ekki á endanum við loftslagshlýnunni. Miklu frekar að benda á það að þekking okkar á því hve hröð hún verði, er enn sem komið er af skornum skammti hvað sem öllum tilraunum með aðlögun líkana á þennan mikla og seiga ísmassa líður.
Veðurfarsbreytingar | Breytt s.d. kl. 20:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
2.12.2009
Stórhríð norðanlands
Þegar þetta er skrifað rétt eftir hádegi, hefur ofanhríðin verið að vaxa norðanlands og á Vestfjörðum frá því í morgun.
Upp að landinu suðaustan- og austanverðu komu skil frá lægð suður og suðaustur af landinu. Þau bárust til norðvesturs og handan þeirra er mildara loft og hláka. Annar bakki, minniháttar, var síðan til staðar undan Norðurlandi í nótt og sá þriðji tilheyrði síðan smálægð norður við Scoresbysund. Hann var að lóna úti fyrir Vestfjörðum og fyrir vestan land. Í morgun rann þetta allt saman í einn úrkomuköggul og það er frá honum sem hríðar.
Ákefð ofanhríðarinnar er hins vegar ekki gott að mæla. Snjóspýjur féllu á kunnuglegum slóðum við þessi skilyrði í morgun á veginn í Ólafsfjarðarmúlanum og snjóflóð þar benda mjög til ákefðar úrkomu. Úrkomumælir í Ólafsfirði sýnir hins vegar litla uppsafnaða úrkomu. Þar haf álíka verið 15-19 m/s og mikið kóf. Erfitt er að fanga snjókomu í mæli við þau skilyrði.
Hins vegar mældist hún betur í Fáskrúðsfirði í nótt um leið og skilin gengu þar yfir. Þar náði hitinn að fara rétt upp fyrir frostmarkið á meðan slyddan eða blaut snjókoman var sem mest. Það sem meira var í skjóli fjallana var vindurinn hægur. Samtals mældust yfir 50 mm þar til kl. 09 í morgun, og nam ákefðin um 3 til 6 mm/klst. Ef maður ber saman birtingu úrkomu á tveimur sambærilegum spákortum (litur úrkomunnar) má ráða að úrkomuákefðin sé sambærileg, þ.e. 3 til 4 mm/klst og staðbundið í fjöllum allt að 6-7 mm/klst.
Veðurkortið að ofan er spákort frá HIRLAM og gildir kl. 15 í dag. Sýnd er uppsöfnuð úrkoma þriggja klst. og þó líkanið nái að herma nokkuð eftir áhrifum landsins, nást ekki hinir fínni drættir. Líkan Belgings sem keyrt er í 3km neti leysir áhrif landsins vetur upp og þar má sjá (spá gildir kl. 14) að úrkomuákefðinni er spáð á þektum blettum í fjalllendinu við utanverðan Eyjafjörðinn um og yfir 5 mm/klst.
Þetta er mikil snjókoma og setur mjög fljótt í skafla við þessi skilyrði, svo ekki sé talað um þegar blæs að ráði líkt og nú.
Veðuratburðir hér og nú | Breytt s.d. kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frost er nú um land allt. Meira að segja á Stórhöfða þar sem ekki hefur fryst fyrr en nú þetta haustið eins og Sigurður Þór bendir hér á. Má eiginlega segja að nokkurt vetrarríki sé á landinu sem eru talsverð viðbrigði eftir hagstætt haust. Fullveldisdaginn í fyrra (2008) var reyndar svipað upp á teningnum, í það minnsta var frost um land allt þá rétt eins og nú. Nú er það loftmassinn sjálfur sem er kaldur, en frostið ekki rakið til hitahvarfa við jörð eins og stundum er. Á hálendinu er víða þetta 12 til 14 stiga frost.
Einn kaldasti fullveldisdagurinn í seinni tíð var árið 1966. 1. des það ár markaði upphafið að köldum og umhleypingasömum desembermánuði, þar sem snjóþyngsli spilltu samgöngum víða um land. Eins og sést á meðfylgjandi veðurkorti frá þessum degi var hitinn -8°C á hádegi á Stórhöfða og þykir bara allnokkuð á þeim stað. 16 stig frost var á Hveravöllum.
Rétt eins og nú snjóaði talsvert í aðdraganda þessa kuldakasts sem varði frá 30. nóvember til 3. desember. Stórhríð var sögð vera norðanlands 27. og 28. nóvember og daginn eftir snjóaði talsvert sunnan- og suðvestanland. Ljósmyndin hér er úr Morgunblaðinu 1. des. 1966. Hún er nokkuð skemmtileg og sýnir stórt moksturstæki vera að hreinsa snjóinn framan við Alþingishúsið. Þarna eru líka nokkrir menn með handskóflur að baksa við mikinn vegg á Austurvelli, og hann er horfinn fyrir löngu og a.m.k. fyrir mitt minni. Í fréttinni með myndinni er Borgarverkfræðingur að skýra hve seinlegt það sé að hreinsa göturnar, en jafnframt kynnir hann til sögunnar nýja gerð af salti sem sé til reynslu og valdi minni ryðskemmdum á bílum en hið hefðbundna. Fram kemur að þetta salt sé eingöngu verið að reyna á Flókagötunni !
Annars staðar í blaðinu er sagt frá mikilli ófærð á Suðurlandi og seinlega gengi að hreinsa aðalleiðir og margir útvegir væru tepptir. Skemmtilegt orð, útvegir, lýsandi fyrir fáfarnari vegi út frá helstu leiðum.
Eins og svo oft á þessum árum þegar kuldaköst gerði, fylgdu fregnir í kjölfarið af heitavatnsskorti. Þarna í byrjun desember var engin undantekning frá þeirri reglu. Saman fór strekkingsvindur og nokkurt frost. Hús borgarbúa voru því blússkynt. Fréttir af heitavatnsskorti þessa ára einkenndust iðulega af því að leitað var sökudólga. Jóhannes Zoega hitaveitustjóri sem þá var, fékk yfir sig margan reiðilesturinn þar sem honum var allt að því kennt um N-áttina og kuldann. Þessari hættu af heitavatnsskorti samfara kuldaköstum var ekki fyllilega bægt frá fyrr en með tilkomu Nesjavallavirkjunar árið 1990.
Lengri greinar úr ýmsum áttum | Breytt s.d. kl. 09:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.11.2009
Veðurlýsingar í nýrri þýddri skáldsögu.
Um helgina yljaði ég mér við lestur nýrrar þýðingar á finnskri skáldsögu sem ber nafnið; Yfir hafið og í steininn. Tapio Koivukari heitir höfundurinn og sögusviðið er strandhéruð Finnlands og Helsingjabotn skömmu eftir seinna stríð. Segir þar frá trillukarlinum og útgerðarmanninum Yrjo Aaltonen sem smyglar fólki af finnsku þjóðarbroti sem innlyksa varð í Sovétríkjunum, sjóleiðina yfir til Svíþjóðar.
Í þessari litlu en smellnu sögu fer mikið fyrir veðurlýsingum og þær eru á köflum æði krassandi, ekki síst úti á sjó. Sigurður Karlsson, þýðandi bókarinnar, fer einkar vel með og orðfærið og er líkt og skipstjóri úr Grindavík eða af Hellissandi héldi um pennann einhvern tímann um miðja síðustu öld. Tökum dæmi: "Hann hafði verið á sunnan en nú snerist hann heldur í landsuður og rauk aftur upp með hávaðarok. Sjógangurinn varð að ólgandi hafróti, þung undiralda að útsunnan frá deginum áður og þvert á hana krappur sjór af landsuðri." (bls 60).
Og annað dæmi: "Ströndin var hlémegin og í vari fyrir veðrinu, máttlítil undiralda skolaðist upp í fjöruna í víkinni en utan við nesið sló hviðunum niður og mynduðu smáar öldur eins og þvottabretti á haffletinum sem svo breiddust út eins og blævængir og urðu því hærri og krappari sem utar dró." (bls. 155)
Þýðing Sigurðar Karlssonar er vönduð og mikið í hana lagt. Finnskar bókmenntir eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér og þessi saga Koivukari, en hann dvaldist víst þó nokkuð vestur á fjörðum í eina tíð, sver sig mjög í ætt við ekta fína finnska frásagnarhefð sem ógerningur er að lýsa af nokkru viti. Tilþrifamiklar lýsingar á vetrarveðráttu við Helsingjabotn eru síðan punkturinn yfir i-ið.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.7.): 0
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 51
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar