Selta í lofti suðvestanlands

18.sept kl.06/mbl.isIKE-lægðin, sem ósköðunum olli í fyrrinótt er nú norður við Scoresbysund á Grænlandi og loks farin að grynnast.  Frá henni er hins vegar skarpt lægðardrag suður á Grænlandshaf.  Fyrir áhrif Grænlands, geta lægðardrög eins og þetta sem nú um ræðir viðhaldist þó svo að lægðin sem ruddi brautina sé víðsfjarri.  Samspil loftstrauma og hins 3.000 metra háa Grænlands skapa þetta ástand.

Afleiðingin hjá okkur verður hvöss SV-átt þar sem loftið er þurrt og komið að ofan úr hæð, jafnvel frá Grænlandi.  Við niðurstreymið hlýnar loftið og ský gufa upp.  Hvass vindurinn rífur upp sjóinn og fyrir vikið berst selta í lægstu lög andrúmsloftsins.  Við tölum gjarnan um seltuveður eins og það sem nú gengur yfir.  Lítum aðeins nánar á málið.

ölduhæð kl.06 18.septÁ vef Siglingastofnunar má nálgast alveg hreint ágætis upplýsingar og spár um ölduhæð sem byggðar á veðurspám frá ECMWF í Reading.  Meðfylgjandi kort er spá um ölduhæð og stefnu frá því í gær um ástand mála kl. 06 í morgun.  Öldustefnan er nokkuð samsíða vindinum, a.m.k. í þessu tilviki og sjá má hvernig vestan og síðar suðvestanaldan berst hingað  frá Grænlandsströndum.  Ölduhæðin í kjarnanum vestur af Reykjanesi er á milli 8 og 9 m.  Sveiflutíminn er síðan settur fram með tölum og við fáumst ekki um hann að sinni. 

Mælingar á öldudufli Siglingastofnunar (sjá tengil), svokölluðu Garðaskagadufli sýnir að þar hefur verið frá því seint í nótt um 8 m ölduhæð, þannig að allt kemur þetta heim og saman við spárnar. Vel að merkja að 8 m alda er þó nokkur.  Veðurathuganir á Garðskagavita sýna að þar hefur SV-vindurinn legið stöðugt í 20 m/s.  Það þarf því ekki að undra að mikið brimar með tilheyrandi sjávarlöðri á Reykjanesi við Sandgerði, Hvalsnes og suður í Sandvík og við Hafnarberg. Eins og áður segir er loftið þurrt, rakastig sjávarlöðurþetta 55-65% sem er lítið fyrir loft komið af hafi. Í brimrótinu gufar því vatnið auðveldlega upp, en saltið verður eftir.  En saltið berst vissulega einnig í loftið úti á rúmssjó þegar blásturinn er nægjanlegur eða sem samsvarar 9-10 vindstigum og 8 til 12 m öldum líkt og sjá má á myndinni sem fengin er úr safni NOAA.  

Fyrir utan óþrifnaðinn af seltu í lofti eru seltuveður ákaflega hvimleið í flutnings- og dreifikerfum raforku. Mýmörg dæmi eru um það hvernig selta á einangrurum veldur útslætti. Seltan getur borist langar leiðir í lofti og einu mögnuðu slíku SV veðri, í nóvember 2001, varð seltu greinilega vart fyrir norðan t.a.m. fremst í Bárðardal.  


Yfir 200 mm í Henglinum

Sæmileg mynd er nú að koma á uppgjör úrkomu síðasta sólarhringinn.  Í sjálfvirka mælinn í Ölkelduhálsi á Hellisheiði eða Henglinum eftir því hvernig á það er litið féllu 201 mm í mælinn frá kl. 9 í gærmorgun þar til kl. 9 í morgun.  Línurtið sýnir að það rigndi látlaust og af svipuðum ákafa frá því um kl. 14 í gær og þr til um 5 í morgun þegar stytti upp að mestu.  Ákefðin samsvarar því um 13 mm á klst Uppsöfnuð úrkoma á Ölkelduháldiallan þann tíma sem rigndi.

Þessar tölur eru svo sem í hærri kanntinum, en í fyrrahaust, í einni af stórrigningunni sem þá gerði í september komu 220 mm í mælinn (27. sept 2007) eins og lesa má um hér. 

Bláfjöll og Andakílsárvirkjun eru með um 160 mm og 130 runnu í mælinn á Kvískerjum.  Þar rigndi enn af krafti kl. 9 í morgun, þegar mælt var. Í samantekt dagsins á vef Veðurstofunnar vantar enn Ólafsvík og Grundarfjörð, en mæling á mannaðri stöði, Setbergi  í Eyrarsveit, sýndi 100 mm.  

Þær tvær stöðvar sem mæla í Mýrdalnum sýna að úrkomumagnið þar varð nokkru minna en búast hefði mátt við.  

 


Gríðarlegt úrhelli í Grundarfirði

Það er varla að maður trúi þessum tölum, ef þær eru réttar er úrhellið gríðarlegt í Grundarfirði.  Allt að 18 mm á 1 klst og 13 á þeirri næstu er meira en góðu hófi gegnir.  Vissulega er það vel þekkt hve mikið getur rignt í Kolgrafarfirði og  Grundarfirði þegar  hann er mjög hvass að sunnan um leið og skil ganga yfir.

Það er ekki ná með að himnarnir steypist yfir Grundfirðinga, heldur er þar líka foráttuhvasst eins og sjá má á meðfylgjandi töflu af vef VÍ.  Ég ætla ekki að útiloka að hin mikla veðurhæð geti truflað mælingarnar í sjálfvirka úrkomumælinum á Grundarfirði.  En þrátt fyrir það veit ég að fyrri reynslu að þar rignir mikið þessa stundina eða rétt fyrir miðnætti.

Viðbætur:  Sama tafla fyrir Ólafsvík sýnir svipaða mynd eða allt að 20 mm á klst. 

Grundarfjörður 16. sept


IKE-lægðin í mótun - illviðri er spáð

16.sept 2008 kl.06 greining MetOfficeStöðu mála má sjá á korti Bresku Veðurstofunnar frá kl. 06 í morgun.  Lægðarmiðjan ílöng suðvestur af Hvarfi.  Norðan og vestan hennar þrýstir kalt loft sér suður á bóginn, en sunnan lægðarmiðjunnar er heilmikið belti með hlýju og röku lofti.  Fyrir sunnan og suðvestan töluna 989 (hPa) er að finna restarnar af fellibylnum IKE.  Spor eftir fellibylinn sjást m.a. af háum hitatölum í háloftunum.  Þarna mælast um +15 til +17°C í 850 hPa þrýstifletinum í um 1400 m. h. Slíkt loft er klárlega af hitabeltisuppruna. 

Allt er þetta á leiðinni til okkar og næstu 12 til 18 klst mun lægðin dýpka hratt.  Bæði eru skilyrði til myndunnar venjulegrar haustlægðar afar ákjósanleg og fellbyljaleifarnar virka síðan sem eins konar hvati fyrir dýpkunarferli, hraðar því og gerir það líka að verkum að lægðin verður krappari.  

Ferill þessarar skæðu lægðar er síðan ekkert sérlega heppilegur fyrir okkur.  Spákort sem gildir á miðnætti sýnir líklega stöðu mála þá. Ferill lægðarinnar er síðan ekkert sérlega hagfelldur okkur.  Miðjan fyrir vestan land um 970 hPa.  Hvöss S eða SA átt á undan skilunum og verður verðið í hámari um eða eftir miðnætti samkvæmt þessu.

17. sept kl00. Spá MetOfficeVeðurstofan spáir allt að 25 m/s á öllum sínum spásvæðum nema Suðaustanlands.  Reynsla mín segir að gera megi ráð fyrir staðbundinni vindmögnun við þessi skilyrði á t.d. á norðanverðu Snæfellsnesi, við Djúp, t.a.m. í Hnífsdal, eins víða í Húnavatnssýslum og Skagafirði.

Þessi vindátt er líka mjög opin á Höfuðborgarsvæðinu.  Þannig spáir Veðurstofan 22 m/s á Reykjavíkurflugvelli í nótt og allt að 30 m/s í vindhviðum. 

Ég er eiginlega steinhissa á því hvað slæmt veðurútlitið hefur vakið litla eftirtekt að minnsta kosti enn sem komið er. Ekki síst ef haft er í huga að fellibylur sá sem hér kemur við sögu glumdi látlaust í öllum fréttatímum um síðustu helgi, þegar hann var að herja á Bandaríkjamenn suður í Texasríki.  

Hér er tengill á textaspár veðurfræðinga Veðurstofunnar, en sjálfvirku táknmyndaspákortin eru ónothæf þegar spár er mikilli veðurhæð. 


IKE til Íslands ?

ikeflood914Fellibylurinn IKE sem svo mikinn óskunda hefur gert suður í Mexíkóflóa og Karabíahafi fer nú hraðbyri inn yfir Bandaríkin til norðausturs og nálgast nú landamæri Kanada og á morgun Nýfundnaland.

Þetta er ægilegur sprettur og vissulega er IKE að óðum að missa sín einkenni sem hitabeltisstormur.  Enn er því mikil bleyta í lofti og í dag rigndi víða kröftuglega t.d. í Chicago.

Í síðustu tilkynningu NOAA um IKE má lesa eftirfarandi:

IKE IS EXPECTED TO ACCELERATE
TOWARD THE NORTHEAST DURING THE NEXT 24 HOURS...AND THEN CONTINUE
RAPIDLY NORTHEASTWARD UNTIL THE SYSTEM MERGES WITH THE LARGER LOW
AT VERY HIGH LATITUDE.

Það sem er að gerast er það að fellibylurinn eða öllu heldur leifar hans hefur verið fangaður af vestanvindabeltinu í háloftunum.  Kortið hér til hliðar sýnir styrk háloftavinda í 300 hPa fletinum í N-Ameríku (15. sept kl. 00).  Við Vötnin Miklu eru skörp kuldaskil og þar SV-stæður skotvindur sem nú hefur fangað IKE.  Þessi lægð sem vísað er til í textanum frá NOAA er ætlað að dýpki við Hvarf seint á morgun og berist síðan hingað til okkar.  

ruc03hr_300_windFellibyljaleifar og vaxandi lægð getur verið kröftug blanda.  Leifarnar leggja til aukaskammt af hlýju og röku lofti sem ættað er úr hitabeltinu og hringhreyfingin sem enn vottar af hjá IKE spólar upp lægðina, sem sjálf kemur með kalt loft úr norðri og magnar hitamun sem talsverður er fyrir.  IKE er vitanlega búinn að vera yfir landi í nokkurn tíma og því búið að klippa á lífæð orkunnar úr sjónum.  En það er með ólíkindum hvað hann bers hratt yfir og í raun stutt síðan fellibylurinn var yfir Mexíkóflóa. Hringsnúningurinn varðveitist í nokkurn tíma auk þess sem kjarni af mjög hlýju lofti helst um tíma án verulegrar blöndunar við kaldara og þurrara loft. 

Á spákortum fyrir morgundaginn má vel greina mjög hlýjan uppruna lofts við Nýfundnaland á hraðri leið til móts við lægðina á okkar slóðum. Ekki er gott að segja hvað úr þessu verður, en líklegast er þó að vel blási hér á þriðjudagskvöld og ef af líkum lætur mun rigna af krafti sunnan til á landinu

Við fylgjumst að sjálfsögðu vel með !

 


September er sumarmánuður

gardur2Það hefur verið sumarhiti það sem af er septembermánuði.  Í fyrrakvöld var ákaflega notalegt og hitinn bara hækkaði eftir því sem haustmyrkrið sótti á.  Um kl 21 sýndi mælirinn +14°C.  Á sama tíma sá ég á veðurkortinu að mikið rigndi fyrir austan.  Við hér á vestanlands fengum að njóta hnjúkaþeys reyndar í hálfgerðu logni á höfuðborgarsvæðinu.  En dulvarminn var vissulega ósvikinn og afleiðing rakaþéttingarinnar  fyrir austan. 

Ég tjáði blaðamanni Morgunblaðsins sem hafði samband fyrr í dag forviða út af hlýindunum að meðalhiti fyrstu 11 daga september væri 10.8°C eða vænn sumarhiti ef út í það er farið. Örlítið lægri hiti a Akureyri  eða 10.4°C.  Þrátt fyrir að fólki finnist hlýtt þessa dagana er ekkert óvenjulegt á seyði.

Ýmist er september hlýr eða kaldur.  Í fyrra og árið þar áður voru hlýindi framan af, en 2005 kólnaði fyrr eða þegar vika var af ágúst og hélst svo meira og minna út september.  Fyrstu 11 dagana  gæðasumarið 2003 var markvert hlýrra en nú sérstaklega á Akureyri þar sem hitinn þessa daga var á við það sem best gerist í júlí eða 12,5°C.  Enn hlýrra var síðan 1996.  Í Reykjavík fór september að stað með látum hvað hita varðar 1968 og eins 1958.  

Það er eins og það skiptist í tvö horn hvað þennan árstíma varðar;  annað hvort heldur sumarið einfaldlega áfram eins og ekkert hafi í skorist og hitinn lækkar lítt frá ágúst eða þá að haustið heldur innreið sína með næturfrostum og svölum dögum.  

Í ár er greinilega tími sumaraukans og við bíðum því enn næturfrosta og hvítra kolla á fjöllum.  

Veðurstofan flokkar september með sumarmánuðum.  Síðan kemur haust í október og vetur ekki fyrr en í desember og hana nú !

Ljósm:  Rifs í sepemberlok 2006.  Guðlaug Helga Kristinsdóttir 


Havana sleppur merkilega vel við fellibyli - en þó ekki alltaf !

Havana 9.septFellibylurinn IKE olli tjóni á Havana höfuðborg Kúbu í gærkvöldi.  Borgin var rýmd og menn óttuðust sérstaklega að sögufrægar byggingar elsta bæjarhlutans færi ekki varhluta af veðurhamnum. Ekki eru öll kurl komin  til grafar  í þeim  efnum þegar þetta er skrifað.

Annars er það nokkuð merkilegt hvað Havana hefur sloppið vel í gegnum tíðina þegar Atlantshafsfellibylir eru annars vegar, svona miðað við marga aðra staði í Karabíahafinu.  Þeir hitabeltisstormar og fyllibylir sem á annað borð berast inn í Mexíkóflóa fara óhjákvæmilega um Kúbu með einhverjum hætti.  Suðurströndin verður þá mun verr fyrir barðinu og segja má að Havana norðantil á Kúbu liggi þá í vari.  Ef fellibylir fara yfir eyjuna fara þeir þar með yfir land áður en þeir ná Havana.  Þetta átti við að nokkru leyti um IKE, en miðjan fór kannski meira eftir eyjunni endilangri.

cuba.havanaÞað er helst þegar leið fellibyls liggur um Flórídasund og hann jafnframt hægir á sér að tekur snúning við Kúbu sem sem höfuðborgarbúar þurfa í raun að óttast veðurhaminn fyrir alvöru.  

Dennis 2005Síðast var DENNIS að verki árið 2005 snemma sumars (9. júlí) og þá náði 3 metra háar öldurnar að pusa sjó yfir flóðvarnargarðana og talið var að yfir 5.000 hús hafi orðið fyrir einhverjum skemmdum.  Fara þarf langt aftur til að verulegt manntjón og eingatjón hafi orðið af völdum fellibyls í Havana.  1926, 1880 og 1870 fórust frá nokkrum tugum upp í nokkur hundruð manna þegar sjórinn kom æðandi af hafi og höfum það hugfast að engar voru viðvaranirnar á þessum tíma.   

"The great storm of 1846" var hins vegar einn þessa fellibylja sem rækilega náði að skrá sig í sögubækurnar og verður honum gerð nokkur skil hér á eftir.

Fellibylur þessi olli miklu tjóni í Havana. Á þessum árum var borgin miðstöð fjölþjóðlegra verslunar og flutninga með allskyns varning, s.s. sykur og romm að ógleymdri þrælaversluninni, sem reyndar var þegar þarna var komið við sögu að líða undir lok. Fellibylurinn kom seint á tímabilinu eða 11. október. yfir 30 skip og bátar í höfninni sukku þegar veðurhamurinn gekk yfir og  nær öll hús í borginni urðu fyrir skemmdum.  Manntjón var einnig nokkurt en þó minna en búast hefði mátt við.  Talið er að um 140 manns hafi látið lífið.  Ef til vill hafa sæfarendur náð að flytja fréttir af óveðrinu úti fyrir og borgarbúar því haft einhvern fyrirboða og forðað því enn meira manntjóni.

Picture 18Í höfninni í Havana lá tvímastra skonnortan  "Hreindýrið"  við festar og var hún búinn kvikasilfursloftvog Sú sýndi 938 hPa.  Lengi vel voru á sveimi lægri þrýstitölur sem áttu að hafa mælst í höfninni, en veður"sagnfræðingar" hafa hrakið þær.  Miðað við eyðilegginguna og árifin syðst á Flórída er talið nær öruggt að fellibylurinn hafi verið stór 4. stigs eða 5. stigs fellibylur.  Tjónið varð víðtækt því eftir að hafa farið hamförum á Kúpu tók bylurinn stefnuna til norðausturs þvert yfir austurhluta Bandaríkjanna og á Nýja-Englandi blésu tré um koll og tilfinnanleg flóð urðu í ám. Myndin sýnir áætlaðan feril veður"sagnfræðinganna" um Bandaríkin. 


Margföld kartöfluuppskera þetta haustið

Hinn merki Klemens Kristjánsson ræktunarstjóri á Sámsstöðum í Fljótshlíð kom með athyglisverða kenningu fyrir um hálfri öld um tengsl veðurfars og kartöfluuppskeru.  Hún er eitthvað á þá leið að nái úrkoman í ágústmánuði 50 mm og meðalhiti júlí og ágústmánaða til samans 9,5°C, megi ævinlega búast við mjög góðri uppskeru, hvar sem á landinu , sé horft framhjá hugsanlegum snemmkomnum næturfrostum. 

KatöflurTil að fá sem besta uppskeru þarf bæði hita og hæfilega rekju og þar eru svo sem engin ný tíðindi þegar ræktun er annars vegar. Sjálft kartöflugrasið vex einkum í júlí, en hnýðið, þ.e. kartaflan í ágúst.  Svo hún vaxi þarf möldin að vera vel rök og taldi Klemens að 60 mm úrkoma í ágúst væri það sem til þurfti.  Ef grös voru ekki fallin um mánaðarmótin, væru frostlausir dagar fram í september gott búsílag fyrir vöxtinn og hrein viðbót.

Þetta haustið berast af því fregnir að uppskera gullauga og rauðra kartaflna sé tíföld til fjórtánföld (þyngd útsæðis) og þykir mjög gott.  Hið fljótvaxna og vatnskennda afbrigði premier, kannski betur þekktar sem bökunarkartöflur, skila enn betri uppskeru eða um tuttugufaldri.

Þetta sumarið eru bæði skilyrði Klemensar á Sámsstöðum uppfyllt, hitinn meira að segja yfir 11°C í júlí og ágúst í byggð um mikinn hluta landsins og meðal allra hlýjustu sumrum.  Úrkoma sunnanlands var líka með ágætum sunnanlands í ágúst og t.a.m. 82 mm í Reykjavík.  Hins vegar var þurrt fyrir norðan og ekki nema 14 mm skiluðu sér í mælinn á Akureyri.

Engar fregnir hef ég af kartöfluuppskeru í hinum annars gjöfula Eyjafirði þetta haustið, en fróðlegt væri að fá fregnir þaðan í ljósi Klemensarkenningarinnar og lítillar úrkomu þar meira og minna í allt sumar.

Myndin birtist með frétt á mbl.is og sýnir dæmi um stærð kartaflna úr uppskeru Erlu Ingimarsdóttur og Haraldar Stefánssonar, en þau eru  með garð í Biskupstungum.


IKE er öflugur fellibylur

ushaI_640x480Fellibylurinn IKE greinist nú sem 4. stig fellibylur í þann mund sem hann gengur yfir eyjar með miklum óskunda austur og norðaustur af Kúbu.  Kúbverjar, m.a. í Havana búa sig undir hið versta næsta sólarhringinn.

Loftþrýstingur í miðju IKE er nú um 949 hPa og fellibylurinn sá öflugasti þetta sumarið á Atlantshafi þar með  meiri um um sig en GUSTAV.  Á myndinni sést vel umfangið, hringlögunin og vel afmarkað augað, en það er um 40 km í þvermál.

Samkvæmt Saffir-Simpson má lýsa veðri og áhrifum þess í fellibyl af styrk 4 á eftirfarandi hátt:

Styrkur 4
Vindhraði 68 til 80 m/s. Sjávarstaða yfirleitt 4 til 6 m yfir meðallagi. Mörg minni íbúðarhús hrynja. Tré rifna upp með rótum, öll umferðarmerki falla. Hjólhýsi gjöreyðileggjast. Mikið tjón á gluggum og dyrabúnaði. Meiriháttar tjón á lægstu hæðum sterkra bygginga nærri ströndinni. Rýma þarf íbúðarsvæði allt að 10 km frá ströndinni.  (þýðing TJ, sjá mjög fína umfjöllun um fellibyli á síðu VÍ)

Hlýindi í haust !

Þær veðurlagsspár sem eru aðgengilegar nú fyrir september til nóvember eru allar í sömu áttina:

a.  Frekar hýtt á landinu. 1-2°C yfir meðalagi, einkum norðvestantil og norðanlands. 50-70% líkur að það verði í hlýjasta lagi (80% eða í efsta fimmtungi)

b.   Fremur úrkomusamt verður um vestanvert landið miðað við meðaltal, en úrkoma í meðaltali eða þaðan af minna austan- og suðaustanlands. Meira um tilkomulítil, en rakaþrungin lægðardrög.

c.  Hærri þrýstingur yfir hafsvæðunum suðaustur af landinu og Skandinavíu.  Lægðagangur hér við land minni og ómerkilegri heilt yfir en annars hér á haustin.

d.  Ríkjandi vindar verða frekar S og SV á kostnað A- og NA-átta. 

 Hitafrávik í spá ECMWF sept - okt 2008

Reikningar IRI  við Colombia háskólann í New York gefa svipaðar niðurstöðu, þ.e. að á Íslandi séu verulegar líkur á meðalhita þessa mánuði í efsta þriðjungi. Breska Veðurstofan gerir ráð fyrir nokkuð stöðugu veðri á Bretlandseyjum með minni úrkomu en í venjulegu árferði, í samræmi við  háþrýsting að jafnaði þar og norður á okkar slóðir.  

Horfur um veður í sumar gengu ótrúlega vel eftir.  Við sjáum hins vegar til með haustið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.9.): 6
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 70
  • Frá upphafi: 1791708

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband