Útibúið frá Síberíuhæðinni

Haraldur Ólafsson talaði um helgina í sjónvarpsveðrinu um útibú frá Síberíuhæðinni sem taka mundi sér bólfestu við Eystrasaltið með tilheyrandi vetrarhörkum.  Skemmtilega orðað hjá Haraldi.

Danska Veðurstofan, DMI talar um að vetur konungur sé væntanlegur langt úr austri og þar er spáð nokkru frosti næstu daga. Kuldinn á meginlandi Evrópu er stílbrot fyrir veðráttu þessa vetrar, því lengst af hefur verið milt og rakt.  Í það minnsta í V-Evrópu.  

ecm0125_nat_gh300_uv300_2012012912_000.pngSkýringuna má að talsverðu leyti finna í bylgjubroti í háloftaröstinni.  Þýðan mikla og leysingin hér um helgina er hluti þessa bylgjubrots sem líka má sjá á meðfylgjandi háloftaveðurkorti frá  því á hádegi í gær sunnudag (29. jan). Það er fengið af Brunni VÍ og sýnir vind í 300 hPa þrýstifleti í 8 til 9 km hæð. 

Skotvindurinn var á þessum tímapunkti til norðurs á okkar slóðum og í stað þess að bylgjan haldi áfram til austurs má segja að hún brotni fram yfir sig með þeirri afleiðingu að sterkur N-vindur greinir sig frá (slitnar í sundur frá meginröstinni)  suður yfir England og Frakkland.  Við það opnast rás eða farvegur fyrir kalt meginlandsloft úr austri. Hefði bylgjan ekki brotnað streymdi milt Atlantshafsloftið inn yfir meginland Evrópu.  

Því er spáð að næstu tvær jafnvel þrjár háloftabylgjur fari sömu leið í vikunni og brotni, en síðan komi ástandið til með að jafna sig.  Þá verður minna útslag bylgnanna og meiri vestanvindur þarna uppi í stað N- eða S-áttar. Þá mun hlýna aftur og Síberíukuldinn verður á hröðu undanhaldi.  Vissulega er þetta spá með öllum fyrirvörum og allt það, en gangi hún eftir má segja að Síberíuútibúinunu verði lokað strax í byrjun næstu viku og það áður en köld útlánin þaðan fara að bera vexti og vaxtavexti fram á vormánuði.   

 


NAO í Landanum

screen_shot_2012-01-30_at_10_54_05_pm.pngKom mér nokkuð á óvart í dag þau viðbrögð sem ég fékk á þann hluta sjónvarpsþáttarins Landans sem sýndur var í gærkvöldi á RÚV. Þar  gerði ég tilraun til að útskýra tíðarfarið og Norður Atlantshafssveifluna (NAO) það sem af er vetrarins. 

Hafði líka gaman af því að taka þátt í gerð efnis um veður þar sem hefðbundin tölvugrafík var hvíld og notast við óhefðbundnar og dálítið "gamaldags" leiðir til miðlunar.  Snjókúlan eða hálfhnötturinn sem Úlfur Grönvold grafíkmeistari og æskufélagi minn átti heiðurinn af er nú vísast með öllu horfinn eftir leysinguna síðustu dægur  í bakgarði Efstaleitisins.

Hér er tengill á þennan hluta Landans og önnur hér á þann hluta sem sýndi öðlinginn og sannkallaðan "snjóathugnarmann" Íslands Odd Pétusson ásamt Erni Ingólfssyni að störfum í snjógryfju ofan Skutulsfjaðar.  


Leysingin um helgina

Ekki er hægt að segja annað en að leysingin um helgina verði ákveðin ofan í allan þann snjó sem fyrir er. Það fer saman hvassviðri, 5 til 7 stiga hiti og talsverð rigning sunnanlands og vestan í meira en sólarhring á morgun og fram á sunnudag.

Snjórinn er vitanlega feykilega mikill suðvestanlands og megnið af honum er nýlegur og hann er því auðleystur.  Undir er klaki, en þó ekki þar sem vel hafði verið hreinsað í síðasta blota.  Það losnar um snjóinn, hann blotnar síðar í dag þegar skil lægðar gangi yfir.   Upp úr miðjum degi á  morgun byrjar vatnselgurinn fyrir alvöru þegar tekur að rigna samfellt aftur um sunnan- og vestanvert landið  með vindi og hlýindum.  

 

Ferlið verður að öllum líkindum í stórum dráttum þetta:

Mildara loft kemur úr suðri og suðvestri í dag.  Úrkoma fellur á láglendi  snjór til að byrja með og síðan slydda, en  rigning í restina, en skilin fara yfir landið í kvöld.  Það kólnar ekki á eftir þessum skilum.  Öðru nær því lægðabylgja langt suð-suð-vestan úr höfum nálgast í kjölfarið og er henni spáð hér fyrir vestan landið.

Frostmarkshæðin hækkar og nær 1.500-2.000 metra hæð um hádegi á morgun þegar nokkurs konar hitaskil fara yfir og til norðurs.  Eftir það SSA-átt á landinu, um það bil 15-18 m/s suðvestanlands, en sums staðar stormstyrkur, um vestanvert landið, allt fram á miðjan dag á sunnudag.

Lægðabylgjan hér suðvesturundan beinir úrkomusvæðum yfir landið og úrkomuákefðin eykst annað kvöld og sérstaklega snemma á sunnudag, áður en kuldaskil þessa kerfis fara austur yfir landið um miðjan sunnudag að telja.  Þá kólnar hratt aftur niður undir frostmark og leysingunni lýkur þar með.

Á einum sólarhring, frá hádegi á morgun og til hádegis á sunnudag má gera ráð yfir umtalsverðri rigningu.  Ég er að giska á að hún gæti orðið 20-25 mm í Reykjavík og staðbundið mun meiri sunnan og vestanlands, allt að 40-70 mm eins og við Hengil og á Bláfjallasvæðinu, eins á Snæfellsnesi og sunnanverðum Vestfjörðum þar sem úrkoma mælist oft mikil í veðuraðstæðum eins og þessum.  

Hér fylgja tvö spákort frá HIRLAM af Brunni Veðurstofunnar.  Keyrsla frá  kl. 06 í morgun og fyrra kortið sýnir þrýsting, vind og 3 klst úrkomu á morgun laugardag kl. 15.  Við sjáum lægðabylgjuna sem er vaxandi og sunnan strauminn með mildu og rigningarsömu lofti.  Seinna kortið gildir kl. 12 á sunnudag í þann mund sem kuldaskil lægðarinnar (miðjan þá kominn upp undir Grænlandsströnd) eru komast inn á vestanvert landið.

 

hirlam_urkoma_2012012706_33.gif

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

hirlam_urkoma_2012012706_54.gif

 

 


 

 


 



Lokun Hellisheiðar í söguljósi

Tíminn 9. mars 1989.pngVegurinn um Hellisheiði austur fyrir fjall hefur nú verið ófær og lokaður í um sólarhring. Hann verður  brátt opnaður samkvæmt nýjustu fréttum.

Í tilefni snjóþyngslanna hafa einhverjir verið að rifja upp samgönguerfiðleika á þessari leið hér fyrr á árum.  Við leit rakst ég á gamla frétt úr Tímanum frá 9. mars 1989.  Þann vetur var tíðin sérlega leiðinleg og snjóasöm um mest allt land.  Snemma í febrúar gáfust menn upp á að halda Hellisheiðinni opinni og umferð beint um Þrengsli.  Í meðfylgjandi frétt segir að bæði veturna 1983 og 1984 hafi vegur vegurinn verið lokaður vegna snjóa samfellt tvær til þrjár vikur í hvort skipti.    Þeir vetur báðir voru vissulega líka snjóþungir í sögulegu tilliti.

Skýringar starfsmanns Vegagerðarinnar eru samt þær að fjárskortur hafi ráðið mestu um það að menn hafi ekki lagt í að opna veginn þessar 4-5 vikur !

Á 23 árum hafa viðhorf vissulega breyst mikið til þjónustustigs samgangna, vegurinn líka verið lagfærður og tækjakostur orðið öflugri.  Það er hins vegar athyglisvert að þeir sem höfðu mest með fjármuni til þessara mála að gera voru þáverandi fjármálaráðherra Ólafur Ragnar Grímsson og samgönguráðherra sem var Steingrímur J. Sigfússon !  

Þessi nöfn hljóma eitthvað svo kunnuglega þó svo að manni finnist þetta fréttaljós eiginlega vera aftan úr fornöld.     


Orðum aukið

screen_shot_2012-01-26_at_2_26_05_pm.pngÍ þessari frétt á mbl.is hefur eitthvað misfarist, því það er alls ekki útlit fyrir rigningu í kvöld (fimmtudag).  Á að vera annað kvöld.  Skil með mildara lofti fara þá norðaustur yfir landið með vægri leysingu til að byrja með, en hún ágerist á laugardag og einkum aðfararnótt sunnudags þegar spáð er bæði vetrarhlýindum og slagveðursrigningu.

Lagfæring kl. 14:55:

Kalt og þurrt í kvöld - rigning á morgun

Það fer á hlýna á morgun og má því gera ráð fyrir hláku. stækka

Það fer á hlýna á morgun og má því gera ráð fyrir hláku. mbl.is/Golli

Búist er við köldu og þurru veðri á öllu landinu í dag. Veðurstofa Íslands vill leiðrétta misskilning sem kom fram í annarri frétt á mbl.is um að það muni fara að rigna í kvöld, en það er ekki rétt.

 

 

 


mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil mæld úrkoma á norðanverðum Vestfjörðum

ovedurjan12.jpgMjög mikinn snjó setti niður norðantil á Vestfjörðum seinni partinn í gær og einkum þó í nótt.  Í Bolungarvík mældust kl. 09 í morgun 54 mm síðasta sólarhringinn og megnið kom frá því eftir kl. 18 í gær.

Á Flateyri reyndist mælingin vera 47 mm.    Mæst var úrkoman reyndar á Hrauni á Skaga 55 mm.

Þetta er mikið úrkomumagn, ekki síst þegar haft er í huga á snjór hafnar ekki allur í mælana þegar  samtímis blæs að ráði.    Á veðurstöðinni í Bolungarvík var reyndar ekki nema 5-7 m/s lengst af í nótt.  Þó byljótt og hvassara undir lokin í morgun.  Snjódýptin var mæld þar 69 sm í morgun.

Myndin er fengin af Bæjarins Besta, bb.is

 

 


47 sm snjódýpt

Fór í smá leiðangur hér hjá mér hér í Garðabænum í kvöld áður en tók að hreyfa vind.  Ætlunin var að mæla snjódýpt og var ég vopnaður kústskafti og tommustokki.  Tók nokkrar prufur á flatlendi þar sem snjórinn var óhreyfður með öllu. 

Fönnin er ótrúlega mikið jafnfallin þessa síðustu tvo sólarhringa. Mælingarnar voru allar á bilinu 45 til 51 sm og flestar við 47 sm.  Það er sem sagt sú snjódýpt sem ég ætla að hér hafi verið í minni götu kl. 21 þann 25. janúar.  

Á Veðurstofunni voru mældir 27 sm í morgun, en eftir það kyngdi niður snjónum um og fyrir hádegi. Síðan voru líka minni él  síðdegis.  


Þung vetrarfærð og enn bætir í og skefur

Búið er að vera hríðarveður fyrir vestan í dag og á spákortinu sem hér sést má sjá þrjár lægðarmiðjur, nokkurn  veginn í línu NNA yfir landið. Hann er heldur óárennilegur N-vindstrengurinn vestan þessara lægðamiðja.

Spáin gildir kl.00, þ.e. á miðnætti, 26. janúar og fengin af Brunni Veðurstofunnar (HIRLAM)  Þá hefur vindröstin náð suður með öllu Vesturlandi og yfir suðvestanvert landið einnig. Skilin eru nokkuð skörp og ágætast vetrarveður austan línunnar.

Á Vestfjörðum og við Breiðafjörð verður vindur nærri stormstyrk (20 m/s) og 13 til 20 m/s suðvestanland, hvað hvassast á Suðurnesjum.  

Ef þetta gengur eftir verður mikil ófærð og líka í þéttbýlinu hér suðvestanlands í fyrramálið.  Lausamjöllin er eins og allir vita umtalsverð eftir snjókokomuna undanfarna daga. Um leið og vindur nær 8-10 m/s fer að skafa og talsvert fjúk og kóf verður þegar vindur nær 12-13 m/s. Hvort verður ofankoma eða ekki með þessu skiptir kannshirlam_urkoma_2012012512_12.gifki ekki megin máli, heldur skiptir veðurhæðin mestu upp á skafrenningi og skaflamyndun.

Svæðið í kringum Flugstöðina verður áreiðanlega eitt þeirra þar sem ófærðin verður tilfinnanleg.  Reyndar er það svo að lítið skjól er að hafa á Höfuðborgarsvæðinu fyrir N- og NNV-átt aðeins snýst þetta um hversu vel strengurinn nær inn á land við innanverðan Faxaflóa og austur fyrir Fjall.  Það á líka við um Borgarfjörð og við Akranes. 

Húsagötur er flestar við það að vera orðnar ófærar suðvestanlands, ef þær eru það ekki þegar.  Því þarf í raun lítið að versna eða bæta í svo þær verði kolófærar. 

 

 


Bylur í nótt suðvestanlands

Eins og hér var ýjað að fyrir helgi nálgast í kvöld skil úr suðvestri með hvassviðri eða stormi suðvestanlands. 

Ég ætla að þessu sinni að leyfa mér að einblína á Höfuðborgarsvæðið í þessu sambandi og veginn austur fyrir Fjall.

Margt bendir til þess að skilin fari yfir með úrkomu, nánast án þess að það komi í þetta bloti fyrr en alveg í restina, þ.e. í fyrramálið. Eins er athyglisvert að það er spáð hvössum vindi, jafnvel stormi með þessu.

hellisheii_jpg_620x800_q95.jpgÁ leiðinni austur fyrir Fjall, Sandskeiði/Hellisheiði/Þrengsli fer að hvessa með kvöldinu, vindur þetta 12-18 m/s. Skafrenningur verður talsverður um leið og vindur nær 12-14 m/s.  Fer að snjóa líkast til um miðnætti.  18-23 m/s í nótt og talsverður bylur og skyggni nánast ekki neitt.  Nú verður að hafa í huga að í A-átt verður sjaldnast svo hvasst í Reykjavík.  Þar kannski 10-16 m/s og veðrið því skárra þrátt fyrir snjókomuna, en það versnar síðan til mun þegar  þegar komið er rétt upp fyrir Rauðavatn. Reynslan hefur kennt mönnum að við þessar aðstæður er blindan kannski ekki mest á sjálfri heiðinni, heldur við Litlu Kaffistofuna og á Sandskeiði.  Í A-áttinni getur líka orðið ansi hvasst á Kjalarnesinu og síðan aftur suður á Völlunum í Hafnarfirði. 

Þetta er einkennandi  þegar snjóar með A-átt á undan skilum lægðar.  Efri byggðirnar í Reykjavík og nýju hverfunum í Kópavogi verða verst fyrir barðinu á veðri eins og þessu.  Þar skefur mest og úrkomumagnið er líka markvert meira en t.a.m. við Veðustofuna. Svo er það líka að ef að nær að klökkna í þessu að lokum gerir það síður ofan 80 til 100  metra hæðar heldur en við sjávarmál 

Við getum kannski talist heppin að veður þetta gengur yfir að  næturlagi, en skilunum er spáð því að verða farin hjá um kl. 06 til 07 í fyrramálið ef af líkum lætur.  En víða dregur í skafla og ófærð þá meiri í fyrramálið í þessum sömu efri byggðum og reyndar líka þar sem A-áttin nær sér vel á strik með meiri skafrenningi en annars.  

(Myndina fann ég á netinu, líklega er hún  frá því í desember 2010 við Litlu Kaffistofuna. Hef séð hana áður en er ómerkt höfundi)


Mikil sólvirkni og líkur á tilkomumiklum Norðurljósum

Í gær tók ég eftir frétt á mbl.is þar sem sagði: "Von er á miklum norðurljósaskrúða á næturhimninum yfir Íslandi í kvöld, þar sem saman fara mikil virkni og góð veðurskilyrði."  Ekkert varð úr þessu í gærkvöldi.  Kannski hlupu menn fram úr sér í tíma, því það er í kvöld sem afleiðingar þess sem kallað er kórónuskvetta sólar  (e. corona mass ejection) nær fyrst inn í gufuhvolf jarðar. 

kp_22jan.gifSvokallað Kp-gildi fyrir norðurljós umhverfis segulskaut norðurhvelsins mælist nú 4 og þess vegna gæti það náð 5 í kvöld (3 klst gildi).   Svo hátt Kp-gildi hefur ekki komið fram frá því 25. til 26. okt sl. Flesta daga er gildið 1 eða 2 og stundum 0 þegar virkni sólar er sélega lítil.  Þá sést yfirleitt ekki til norðurljósa hér á landi, jafnvel við bestu veðurskilyrði. Þessi kvarði nær upp í 9, en afar fátítt er að efstu stig hans komi til álita. 

Þá er það hvar líkur verða á heiðum himni í kvöld ? Norðurljós eru oftast tilkomumest um og skömmu fyrir miðnætti en þá er segulmiðnætti sem er aðeins annað en sólarmiðnætti (um kl. 01:40) 

Vestanlands  virðist ætla að verða sæmilega bjart og eins á Suðurlandi, sérstakelga í uppveitum og eftir því sem austur dregur.  Suðvestanlands verður mikið að létta til um þetta leyti.  Minni líkur eru norðan- og austanlands, sérstaklega úti við sjóinn, en heiðríkja frekar til landsins s.s. norðaustanlands. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband