Nokkuð látið með boðað kuldakast

Fréttablaðið 28.nóv2011.pngNokkuð hefur verið gert úr boðuðu kuldakasti hér á landinu á miðvikudag.  Það kemur í kjölfar mikils kuldabola eða heimskautalofts sem gert er ráð fyrir að steypist yfir landið með látum í nótt og á morgun.

Í raun ætti það óveður frekar að vera umfjöllunarefni en það frostið sem búast má við  í stillunni rétt í kjölfarið, en það er önnur saga. 

Mér sýnist að kuldakstið um miðja vikuna verði ekki nema rétt svo í meðallagi.  Þykktin fer niður undir 505 dekametra.  Sú stærð segir talsvert um hversu kalt loftið er í raun.   505 þykir ekki lágt í samanburði kuldakasta.  Raunverulega kalt verður ekki fyrr en þykktin fer niður undir 500.  Svona til samanburðar að þá er hún nærri 528 í dag sem er raunhæft gildi fyrir hita um frostmark.

Vissulega mun frostið verða 20 stig og jafnvel lítillega meira á köldustu stöðunum í innsveitum, en allmennt á ég ekki von á að frostið verði mikið meira en 7 til 10 stig.  Einkum vegna þess að kaldasta loftið staldrar frekar stutt við að þessu sinni og tími til að mynda hitahvarf við jörðu og þar með alvöru kuldapolla verður einfaldlega heldur skammur.  Lengri þó fyrir norðan- og austan og því verður einna mest frost þar ef af líkum lætur. 

Undir lok vikunnar eru sennilegt að loftið blandist betur og hlýni heldur þó vart nái nú að hlána.

Eftir það, þ.e. um helgina og í byrjun næstu viku gæti hins vegar verið nýr kuldaboli á ferðinni sem líklegt er að vari  lengur og frostið þar með í þeim lægðum sem hæfa mundi frekar réttnefndu kuldakasti á landinu.

En vetrartíð verður á næstunni, á því leikur enginn vafi.


Lægðin Berit - ekki fullt svo hvasst í Norgi

Um helgina hefur verið fjallað nokkuð um tjón í Noregi af völdum sömu lægðar  (Berit) og olli mikilum sköðum í Færeyjum. 

Lægðin var farin að grynnast töluvert þegar SV-vindrötstin náði til Noregsstranda. Hins vegar varð talsverður ágangur sjávar, enda hitti veðrið bæði á flóð og háa sjávarstöðum.  Tjón varð því nokkurt við sjávarsíðuna.

Mesti mældi vindur varð ekki meiri en 34,4 m/s (10 mín gildi) á Nordöyan vita í N-Þrændalögum.  Fyrir meta vins í óveðri er það alls ekki hátt gildi og mun lægra en það sem mældist í Færeyjum um sólarhring fyrr.

Meðfylgjandi tunglmynd sýnir lægðina og skýjakerfið umhverfis um það leyti sem verst var í Færeyjum kl. 00 þann 25. nóvember. Frá  F. Valk (image of the day).

msg-0000-eur-1.jpg


Loftmynd 26. nóvember

Ljósmyndir frá MODIS af landinu verða nú í mesta skammdeginu markaðar löngum skuggum og bjögun Fljótlega verður birtan of lítil og myndirnar nást alls ekki í desember og fram í janúar.

Ingibjörg Jónsdóttir á Jarðvísindastofnun Háskólans sendi mér þó þessa frá í gær, laugardaginn 26. nóvember kl. 13:39. Þetta er MODIS mynd frá NASA en Jarðvísindastofnun fær myndina frá Dundee Satellite Receiving Station, þar sem hún hefur verið löguð til og rétt upp.

Landið er meira og minna snævi þakið.  Þó ekki á Skeiðarársandi.  Einnig má greina að snjóhulan er ekki samfelld í innsveitum norðanlands. Einnig má greina snjóleysi við ströndinna sunnanlands og e.t.v. víðar. Sveipurinn úti af Vestfjörðum er skemmtilegur.  Hann myndaðist í kalda loftinu eins og oft gerist yfir opnu hafi og vindur er jafnframt hægur. 

201111261339_rgb.jpg

 


6 - 11 daga spá, 30. nóvember til 5. desember

Ég er heldur seinni með langtímahorfurnar nú en venjulega.  Eins og fleiri var ég upptekinn við að fylgjast með lægðinni Berit fara hjá Færeyjum. En ég hripaði uppkast að spánni á fimmtudagskvöld og því er hér fylgt.      free_8550907.jpg       

Veðurspá fram á komandi miðvikudag má sjá hér á vef VÍ

Miðvikudagur 30. nóvember:

Horfur á ákveðinni N-átt með frosti um land allt.  Hríðarveður norðan- og norðaustanlands, en él á Vestfjörðum. Lægðir verða fyrir austan og norðaustan landið. 

Fimmtudagur 1. desember:

N-áttin gengin niður að fullu og hæðarhryggur yfir landinu.  Bjartviðri víðast hvar og talsvert frost til landsins, einkum um landið norðan- og austanvert. Áhrifa nýrrar lægðar úr suðvestri fer að gæta um kvöldið eða nóttina.

Föstudagur 2. desember: 

Nokkuð djúpri lægð er spáð til austurs eða norðausturs yfir sunnanvert landið eða með suðurströndinni.  Nær að blota ef af líkum lætur um sunnan- og suðaustanvert landið, annars snjókoma um leið og vindur snýst til hvassrar NA-áttar. Það hve nærgöngul lægðin verður á endanum ræður miklu um blotann og eins úrkomuna á landinu og má þar eins og oft áður litlu muna. 

Laugardagur 3. desember:

NA- og síðar N-átt og kröftugt aðstreymi af heimskautalofti yfir landið. Hríðarveður norðantil sem þó gengur nokkuð hratt yfir í samræmi við ákveðna ferð lægðarinnar austur á bóginn. 

Sunnudagur 4. desember:

Enn N-átt, fremur hæg og kalt á landinu, 5 til 15 stiga frost.  Él norðan og norðaustantil.

Mánudagur 5. desember:

Ekkert sem bendir til annars en að áfram verði svipað veður ríkjandi, þ.e. kalt í veðri.  Vindur N- eða jafnvel V-stæður í grunninn.  Auknar líkur á éljum vestanlands við þessar aðstæður, en bjart í innsveitum og ekki síður sunnan- og austantil.

Mat á óvissu:

Óvissan nú er einkum fólgin í læðginni sem spáð er hér við land undir næstu helgi.  Hve kröftug verður hún.  Hver verður stefnan á endanum og hvað nær hún að bera að mildu lofti upp að landsteinunum. Hins vegar er hún áreiðnalegri N-áttin og kuldinn í kjölfar hennar. 


Óveðrið í Færeyjum

Þær eru að tínast inn tölur og mæligildi fyrir óveðrið mikla.  Ljóst er að tjón hefur orðið a.m.k. töluvert ef ekki mikið víðsvegar um eyjarnar.

Met_Office_25.nov2011.pngLægðin Berit var greind 944 hPa á miðnætti  af bresku Veðurstofunni (kort frá Met Office) eða álíka djúp og spáð hefði verið. Þá var veðurhamurinn um það bil í hámarki.  Í 850 hPa þrýstifletinum komu fram gildi vinds sem maður sér þar aðeins sárasjaldan, þ.e. vindröstin í um 900 til 1.000 metra hæð náði hágildi sem nam um 50 m/s.  Þetta sést á meðfylgjandi greiningu HIRLAM frá því á miðnætti þar sem næst "tvöföld flöggun" vindörvar á einum stað.  Eitt flagg jafngildir 25 m/s. Vegna hins lága þrýstings við jörðu er hæð 850 hPa þrýstiflatarins líka mun lægri en að jafnaði (1.250-1.400 m).  Því er þessi harða vindröst líka nær jörðu en annars væri.  Það þarf því ekki að undra að á Akrabergi syðsta odda Suðureyjar hafi verið að mælast yfir 40 m/s (10 mín meðalvindur).

HIRLAM_25nov2011.pngSkoði maður aftur í tímann líkist þessi lægði og veðrið allt óveðri sem Færeyingar gleyma seint rétt fyrir  jólin 1988 eða 21. til 22. desember.  Þá varð feykilegt tjón um allar eyjarnar og heilu mannvirkin fuku á haf út eins og nú virðist hafa verið raunin.   Sú lægða var einnig mjög kröpp og álíka djúp.  Aðdragandinn og dýpkunarferlið var þó aðeins með öðrum hætti svo og braut hennar sem þá var meira til austurs skammt norðan eyjanna.  Þá kom óveðrið mönnum meira í opna skjöldu, enda spálíkön vanþróaðri og ekki óalgengt á þeim árum að dýpkun sprengilægða reiknaðist illa eða alls ekki.

Áhugmönnum um veðursamanburð er bent á ágæta grein sem Henrik Voldborg skrifaði í Vejret, tímarit danskra veðurfræðinga eftir óveðrið 1988. Hún er vitanlega á góðri dönsku og fylgja myndir og kort.

Hér er tengill: http://dams.risoe.dk/blad/pdf/Vejret38.pdf

Viðbót kl. 12:30:  Danska Veðurstofan búin að gefa út útgildi vindsins í gærkvöldi.


Maks middelvindMaks vindstød
Akraberg (99 moh)43,2 m/s56,6 m/s
Thorshavn (54 moh)31,3 m/s45,8 m/s
Kirkja (54 moh)38,6 m/s

46,3 m/s

 10 mín meðalvindurinn til vinstir og vindhviður til hægri. Akraberg er viti syðst á Suðurey.

Í veðrinu 1988 var hæsta gildið 41,1 m/s á Akrabergi og 30,9 m/s í Þórshöfn. Á þann mælikvarða var veðrið í gær enginn eftirbátur þess fyrir jólin 1988.  Jafnvel verra ef eitthvað er. 


"Berit" skal hún heita

111124_1400.jpgNorska Veðurstofan hefur nefnt óveðurslægðina sem væntanleg er í kvöld á milli Færeyja og Íslands, Berit.  Þá höfum við það. Hún mun herja á Hálogaland og N-Noreg á morgun, ein einkum þó annað kvöld. Eins og áður hefur komið fram er lægðin sérlega skeinuhætt fyrir það hversu kröpp hún er og þá einkum sunnan og austan lægðarmiðjunnar.

SEVERI hitamynd af vef VÍ kl. 14 sýnir skýjakerfi það sem fylgir Berit.  Háskýjabreiða nær yfir Ísland, en úrkoma úr henni er lítil og víðast engin.  Mesta uppstreymissvæðið er skammt austur af Austfjörðum og nær aðeins inn á landi í kvöld ef af líkum lætur.Snarpasta vindröstin er síðan við afturbeygðu skilin eða við "krókinn" sunnan miðjunnar.

Læt hér fylgja spátexta sem ég sendi til Vegagerðarinnar og er þar sem ábending frá veðurfræðingi á heimasíðu þeirra:

class=""> Spáð er N og NV-skoti suðaustanlands og á Austfjörðum í kvöld.  Dimm hríð á fjallvegum Austfjarða, en krapi í byggð. Gera má ráð fyrir snörpum vindhviðum, allt að 30-40 m/s frá um kl. 19 til 20 sunnan undir Vatnajökli og áfram austur fyrir Hornafjörð í Berufjörð. Gengur hratt yfir og tekur að lægja  upp úr miðnætti."

 

 


Fárviðri spáð í Færeyjum

Danska Veðurstofan spáir í kvöld og framan af nóttu "orkan" í Færeyjum.  Fárviðri er það upp á Íslensku. 

Veðurstofa Íslands varar stundum við stormi (veðurhæð ~21 m/s), einstaka sinnum ofsaveðri (~28 m/s) en sárasjaldan og nærri því aldrei fárviðri sem jafngildir 32-33 m/s.

Lægðin sem um ræðir er bæði kröpp og henni er spáð því að verða 945 hPa í miðju um það bil sem hún rennir sér hjá skammt vestan Færeyja. Það má segja að eiginlega allt virðist ætla að leggjast á versta veg að þessu sinni. Það hversu kröpp lægðin er gerir það að verkum að óveðrið nær vart til Íslands, rétt strýkur austasta hluta landsins í skamma stund. En litlu má þó muna að veðrið nái frekar inn á land.

Færeyjar_25nov2001_00Ég sýni hér vindaspá sem gildir á miðnætti (25. nóv kl. 00).  Hún er fengin frá Reiknistofu í veðurfræði af belgingur.is.  Þar er hægt að velja spásvæðið Færeyjar og fylgjast með þróuninni með aðstoð fínkvarða reiknilíkans. 

10 mínútna meðalvindinum er spáð yfir 25 m/s  í nánast öllum rammanum og yfir eyjunum glittir í svæði  32,5 m/s. Hvernig má líka annað vera þegar gert er ráð fyrir SV 40-45 m/s í lofti, þ.e. um 1.000 metra hæð. 


Spá: Mjög krassandi lægð til NA skammt vestur af Færeyjum

hirlam_urkoma_2011112318_30.gifHún er allsvakaleg lægðamyndunin sem nú á sér stað suður í Atlantshafi.  Öll skilyrði eru til staðar.  Mjög rakt og hlýtt loft berst sunnan að í veg fyrir kaldara.  Áberandi er hvað kalt loft í hærra uppi nær langt til suðurs frá Grænlandshafi.  Þá er skarpt drag  eða brot vindsins hærra uppi til staðar á réttum stað og tíma fyrir það sem er að gerast neðar.  Afleiðingin er sannkölluð sprengilægð sem stefnir til norðausturs vel fyrir austan Ísland. 

Færeyingar virðast samkvæmt nýjustu spám ætla að verða sérlega illa fyrir barðinu á lægðinni.  Kortið er spá HIRLAM og gildir kl 00 á föstudag (25. nóv).  Samkvæmt spánni er gert ráð fyrir að þrýstingur í lægðarmiðju verði um 942-944 hPA.  SV- og V-áttin, rétt í kjölfar miðjunnar þ.e. við Færeyjar virðist ætla að verða sérlega skeinuhætt. Ofsaveður og fárviðri sennilegt um tíma. Síðar meir fá íbúar Hálogalands (Helgoland) norður af Þrændalögum að finna til tevatnsins. 

Norska Veðurstofan gefur lægðum sem þessum nafn, en þegar þetta er skrifað hefur það enn ekki gerst. Samkvæmt kerfi þeirra verður það B-eitthvað, þar sem sú síðasta sem herjaði  var Askur.  

Hér að neðan gefur að líta skýjamynd av vef VÍ frá kl. 14 í dag.  Heilmikill háskýjabakki er sýnilegur vestur af Írlandi. Þarna er hlýtt loft að rísa og myndar víðáttumikla breiðu og er undanfari og hluti dýpkunarferlis lægðarinnar.  En það sem ég vildi benda á er skýjareipið greinilega sem liggur til suðvesturs frá blikubreiðunni.  Það markar skilin í um 7 til 9 km hæð á milli hlýrra lofts í suðaustri og þess sem er mun kaldara í norðvestri. Reipi eins og þetta kemur sjaldnast svona greinilega fram á skýjamyndum.  En þegar það sést er það oftast óbrigðult merki þess að mikið sé í gangi og að lægðin hafi úr nægu að moða. 

Ég mun fylgjast náið með þróuninni og lítið má út af bregða svo áhrifin fari að verða veruleg hér um austanvert Ísland. 

 

Traustir fjallar einnig um það sem nú er að gerast í pistli  hér.

 

111123_1400.jpg


V-áttin getur verið viðsjárverð

111123_0517.jpgÞað mátti sjá í gær að lægðin sem nú er á leið norðuaustur yfir landið myndi draga á eftir sér afturbeygð skil sín og þá með nokkrum vestanhvelli um tíma.

Ágæt mynd af vef Veðurstofunnar frá því upp úr kl. 05 í morgun sýnir vel þennan bakka.  Fallegur sveipur svona á mynd. Hann var þá eins og sjá má undan Reykjanesi og á norðurleið.  Þegar svona háttar til brestur á fyrirvaralítið.  Hvessir snögglega af V eða SV. Um svipað leyti byrjar að hríða. 

Í morgun snjóaði rétt ofan byggðar eða frá Sandskeiði og upp úr.  Neðar var hitinn um +2°C og því krapi.  Í uppsveitum Suðurlands var ívið kaldara. enda loft ekki beint komið af hafi eins og við Faxaflóann. 

En þegar þetta er  skrifað kl. 11:45 er veður tekið að ganga niður og afturbeygðu skilin á norðurleið. Bakkinn tætist líka fljótt í sundur eftir að lægðin fer að grynnast og því stigi er einmitt náð nú.   


mbl.is Mikil umferð þrátt fyrir viðvörun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gríðarmikið eldingaveður suðuraustur af landinu

sf_na_1v.gifÞað mætast stálin stinn í átökum loftmassanna suður á Atlantshafi.  Eldingakerfið hefur numið hundruði ef ekki þúsund eldinga í þéttum klasa frá því í morgun eins og sjá má á kortinu (frá 16:30) af vef Veðurstofunnar.

Hlýtt og mjög rakt loft í neðri lögum er að ryðjast norðaustur á bóginn og á sama tíma er kalt í efri loftlögum.  Í lægðum eins þeirri sem nú er að verki er oftast nokkur fasamunur, þ.e. kalda loftið í háloftum kemur í kjölfar þess milda í lægstu 3 km eða svo.  Nú staflast þetta saman og lóðréttur óstöðugleiki loftsins veldur hleðslumun og aftur niðurslætti allra þessara eldinga

Miðja þessar lægðar sem um ræðir er nú skammt suður af Reykjanesi og er henni spáð norðaustur yfir landið í nótt.  Mesta átakasvæðið er þó fjarri sjálfri lægðarmiðjunni.  Við sjáum að jaðar þess á skammt að suðaustanverðu landinu og vel má vera að næstu klukkustundirnar muni íbúar frá Hornafirði austur á miðja Austfirði  heyra drynja á milli fjallanna.  Úrkoman frá skilunum verður mest um kvöldmatarleitið þar.  Þvingun loftsins yfir fjöllin í SA-áttini hjálpar til og eykur á óstöðugleikann ef eitthvað er á þessum slóðum. Ég er þó ekki að spá eldingum aðeins að benda á auknar líkur.

Þessi "orrusta" úti á Atlantshafi er þó aðeins forsmekkurinn að því sem koma skal.  Kjöraðstæður eru nú fyrir kraftmiklar óveðurslægðir.  Einni slíkri er spáð í lok vikunnar fyrir austan land með stefnu á V-Noreg.  Sú er til alls líkleg

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 1788789

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband