Nú þegar hafa fellibyljir náð að valda nokkrum usla á Kyrrahafinu og a.m.k. einn hefur að auki verið á sveimi út af vesturströnd N-Ameríku. Um fjórar hitabeltislægðir hafa fengið nafn á Atlantshafinu til þessa, en enginn þeirra náð skilgreindum styrk fellibyls.
Þó svo að fellibyljatíminn sé löngu hafinn, má samt segja að fyrst um þessar mundir mega segja að við séum að sigla inn í þær vikur sem líklegast sé að alvöru fellibyljir láti á sér kræla. Í fyrra og árið þar áður voru þeir fyrstu líka frekar seinir á Atlantshafinu, eða um og upp úr miðjum ágúst. Metárið 2005 (með Katarinu) voru hins vegar um þetta leyti sumars komnir 4 fellibyljir fram á sjónarsviðið.
Háskólinn í Colorado hefur gefið úr spár um fjölda og styrk fellibylja á Atlantshafi í fjölda ára. Nýjasta uppfærslan frá því nú í byrjun ágúst gerir ráð fyrir að fellibylir verði fleiri en í meðalári. Fellibyljir verði þannig 9 talsins (5,9 í meðalári). Meiriháttar, þ.e. af styrk 3,4 eða 5 á Saffir-Simpsons kvarðanum verði 5 talsins (2,3 að meðaltali). Spáin byggir einkum á tvennu: a. hlýrri yfirborðssjó á Atlantshafinu skammt norðan miðbaugs og b. lágum loftþrýstingi síðustu vikur, en þessir þættir saman eru ávísun á myndun margra hitabeltisstorma og orku sem er til staðar til að knýja þá upp í kraftmikla fellibylji. Kortið hér til hliðar gefur til kynna þá fjóru spáþætti sem liggja til grundvallar spánni hjá þeim félögum í Colorado. Það eru einkum þeir nr. 1 og 2. sem áhrif hafa á spá um virkar tímabil en venjulega.
En þrátt fyrir þessa spá er ekkert ennþá sem bendir til mikillar virkni á Atlantshafinu. Við sjáum samt hvað setur.
7.8.2011
Hitinn bara hækkaði og hækkaði
Athyglisvert var að fylgjast með hitamælingum í Reykjavík í gær. Hitinn reis og reis eftir því sem leið á daginn og hámarkið varð ekki fyrr en laust fyrir kl. 21 í gærkvöldi eða í 19,8°C.
Hámarkshiti dagsins er oftast síðdegis á bilinu frá kl. 15 til 17. Eftir það tekur að kólna. Mér finnst eins og tíðni þessara kvöldhámarka í Reykjavík fari vaxandi síðustu árin og það gerist þá einkum eftir mitt sumar, þ.e. í ágúst og jafnvel fram í september. Fróðlegt væri að gera athugun á þessu.
Í gær háttaði þannig til að NA-vindur var ráðandi og hann bar með sér loft sem fór hægt og bítandi hlýnandi eftir því sem leið á daginn. Um miðjan daginn var að mestu skýjað, en síðdegis létti til og þrátt fyrir lækkandi sólarhæð gerði hún sitt gagn fyrir lofthitann að sjálfsögðu ásamt þessum gæða loftmassa sem var yfir landinu.
Línuritið sýnir feril hita á sjálfvirku stöðinni við Veðurstofuna. Bláa línan er daggarmark loftsins.
Veðuratburðir hér og nú | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Þessi ágæta tunglmynd sem fengin ef af vef Veðurstofunnar kl. 12:45 í dag sýnir glöggt að meira og minna er alskýjað að landinu. Skeytastöðvar gáfu margar og flestar í raun úrkomu í athugun á hádegi. Skýin er grámóskuleg á þessari hitamynd, en þar sem sólin nær í gegn og hitar upp yfirborðið verða tónarnir því dökkgráir eða því sem næst svartir. Slíkir blettir eru fáir, ef til vill í Ísafjarðardjúpi og eins við Steingrímsfjörð og hluta Barðastrandar (eða öllu heldur Múlasveitar).
Loftið er hlýtt yfir landinu, það rignir jafnvel í 12 til 13 stiga hita. Hlýjast hefur orðið til þessa á Patreksfirði. Eins tók ég eftir því að vænn hiti var kominn á Lambavatni á Rauðasandi strax í morgun og fróðlegt verður að sjá niðurstöðu hámarkshitamælis þar. Um norðvestanvert landið nær sólin helst í gegn og veðurstöð í þeim landsfjórðungi verður væntanlega á hitatoppnum eftir daginn.
Á myndinni má líka sjá bjúglaga þykkni sunnan við landið. Þarna er á ferðinni vel mótað úrkomusvæði sem nálgast óðfluga eða skilum lægðarinnar sem er djúpt suð-suð-vestur undan. Á undan skilunum herðir heldur A- og ANA-áttina. Byljóttur vindur á vegum síðdegis, s.s. undir Hafnarfjalli og á bletti við Hafursfell á sunnanverðu Snæfellsnesi. Þá getur Ingólfsfjall verið varhugavert við þessar aðstæður.
4.8.2011
Veðurhorfur helgina 5. til 7. ágúst

Föstudagur 5. ágúst:
Strekkingsvindur víða á landinu af A eða NA. Vindurinn leggst í rastir við þessar aðstæður, ein til að mynda við Breiðafjörð, önnur með straöndinni suðaustanlands undir Vatnajökli og þannig mætti áfram telja. Gera má ráð fyrir allt 12-15 m/s til jafnaðar í þessum röstum, en almennt þetta 5-10 m/s annars þó vissulega megi finna skjólsæla staði. Rigning yfir miðjan daginn sunnan- og suðaustanlands, einhver væta með köflum í flestum öðrum landshlutum, en þó að mestu þurrt vestantil á Norðurlandi og eins vestanlands. Hiti verður þeetta 12 til 16 stig, en 8 til 10 þar sem loft kemur af hafi.
Laugardagur 6. ágúst:
Enn eru líkur svipuðum strekkingsvindi á landinu. Mikið dregur úr úrkomulíkum, þó áfram verði skúrir eða rigning með köflum suðaustantil. Líkur eru til þess að alveg verði þurrt norðan- og norðvestantil. Að mestu verður skýjað, þó ekki sé loku fyrir það skotið að sólin nái að brjótast í gegn stund og stund, einkum vestanlands. Svipaður hiti áfram og milt í veðri líkt og verið hefur.
Sunnudagur 7. ágúst:
Miklar breytingar eru líklegar á sunnudag. Þá lægir vind um leið og lægðin hér fyrir sunnan verður úr sögunni. Eins eru ágætar líkur til þess að víða nái að létta til. Einn heldst að skýjað verði áfram norðaustanlands og á Austurlandi, enda vindurinn í grunninn NA-stæður. E.t.v. verður það frekar þoka sem þar verður á ferðinni. Um leið og léttir til, hlýnar líka og gera má ráð fyrir allt að 17-19 stiga hita sunnanlands og vestan. Svalara norðan- og norðaustantil, en það á þó einkum við strandhéruðin.
3.8.2011
Petermann ísjakinn
Petermannjökull á norðvestur-Grænlandi er einn margar þar um slóður sem kelfir út í sjó. Í fyrrasumar fyrir um ári brotnaði gríðarstór biti frá meginjöklinum og lónaði frá. Áhugasamir með Kanadamenn í broddi fylkingar hafa síðan þá fylgst með hjálp fjarkönnunar afdrifum þessa gríðarstóra borgaríss.
Mig rámar að nokkuð hafi verið um þetta fjallað í fyrra og þá vitanlega í tengslum við hlýnun jarðar, en þetta er gangur náttúrunnar þar sem jöklar ganga í sjó fram. Menn geta síðan deilt um það að hvaða leyti hækkandi sumarhiti hefur áhrif á stærð þessara jökulbrota.
En þegar stykkið brotnaði frá var það um 280 ferkílómetrar að stærð. Til samanburðar er Þingvallavatn 82 ferkílómetrar. Í fjarðarmynninu snemma um haustið brotnaði ísflekinn upp, en eftir urðu þó tvö meginbrot sem farið var að kalla PII-A og PII-B. Nú hófst skemmtilegur eltingaleikur þar sem fylgst var með afdrifum jakanna úti á opnu hafi. Um haustið voru þeir báður að lóna skammt utan við Ellismereyju og virtust um tíma samfrosta. Í október varð sá stærri, þ.e. PII-B fyrir miklu áfalli og brotnaði í þrennt auk smærri mola. Á þessum tíma árs leggur stór hafsvæði þetta norðarlega og innri spenna íssins ásamt straumum og vindum granda auðveldlega þetta stórum og heillegum íseyjum. Líkur hér með sögu PII-B sem átti eftir að verða fyrir frekari hnjaski, en smærri hlutinn, þ.e. PI-A hélt sér betur. Þegar þarna var komið við sögu í vetrarbyrjun var hann álitinn vera um 72 km2.
Næstu vikur og lónaði hann innan um annan ís, ení janúar hafnaði hann í straumi sem bar eyjuna í átt til Baffinslands. Þegar komið var fram í apríl barst PII-A hratt til suðurs með straumakerfi Labradorstraumsins. Enn um sinn hélt þessi sögulega íseyja stærð sinni nokkurn veginn.
Nú í lok júlí var Petermann ísjakinn enn sýnilegur og þá nálgaðist hann Nýfundnaland (sjá mynd frá 27. júlí). Hann er nú um 50 km2 og tapaði um 10% af flatarmáli sínu á um þremur vikum í júlí. Í hlýrra umhverfi bráðnar ísinn vissulega nokkuð hratt. Petermann ísjakinn mun áfram berast til suðurs ef af líkum lætur og fróðlegt verður að sjá hve langur tími líður úr þessu þar til hann hverfur. Ef hann berst suður og austur fyrir Nýfundaland er hætt við að sjógangur og stormar lægðanna grandi ísnum sem þá mundi brotna upp í smærri mola.
Borgarís frá norðvestur-Grænlandi ber með þessu móti gríðarlegt magn af fersku vatni til suðurs og blandast á endanum hinum fullsalta Atlantssjó. Ein þeirra sennilegra skýringa á háum sjávarhita hér við land undanfarinn áratug er að minna hafi verið um íblöndun seltuminni sjó úr norðri með kalda Labradorstraumnum. Bráðnun Petermann ísjakans úti fyrir Nýfundanlandi leggur því sinn skerf (smáan þó) til að kæla lítið eitt Norðuratlantshafsstrauminn (Golfstauminn).
Hér er slóð á Kanadíska síðu sem rekur þessa sögu nánar.
Fyrirsögnin hér að ofan á fullkomlega við rök að styðjast en engu að síður er hún í hróplegu ósamræmi við þann fína hita sem einkenndi nýliðinn júlí. Meðalhitinn var sýnist mér 12,2°C, en þegar meðalhiti einhvern sumarmánaðanna kemst í 12°C eða meira má hiklaust flokka þanna mánuð til gæðamánaðar.
Málið er að júlí 2007, 2008, 2009 og 2010 voru allir hlýrri en nú og aldrei verið hlýrra en í fyrra 13,0°C (saman með 1991).Ef Norðaustan- og austanvert landið er undanskilið erum við þessi árin að upplifa þessa líka fínu sumartíð. Kannski líka þess vegna var kuldinn (sem flestir eru þegar búnir að gleyma!) í júni þetta fréttnæmur. En veðrið tók síðan þekkta stefnu strax í upphafi júlí í þá átt sem við höfum kynnst síðustu árin.
Á Akureyri er meðalhitinn alveg um 12,0°C. Fremur óalgengt er að meðalhitinn nái 12°C bæði á Akureyri og í Reykjavík. Það gerðist þó góðu sumurin 2008 og 1991, þ.e. í júlí og eins í ágúst 2004.
Úrkoma endaði að vera nærri meðallagi í Reykjavík eða 45,7 mm, en þurrt var á Akureyri með 8,8 mm. Fyrirvari er gerður við þessar tölur þar til Veðurstofan hefur yfirfarið mælingarnar og gefið út sitt yfirlit, væntanlega síðar í dag.
En fyrirsögnin hefði kannski frekar átt að vera: Enn einn hlýr júlímánuður eða Hiti var vel yfir meðallagi líkt og í júlí síðustu ár.
(Ljósm: Kvöld við Dýrafjörð, 18.júlí. Ólöf S. Sigurðardóttir)
27.7.2011
Bylgjuský yfir landinu
Á ljósmyndum veðurtunglanna mátti í dag sjá víðáttumikil bylgjuský yfir landinu vestanverðu. Bylgjugarðarnir liggja þvert á vindáttina í lofti eða í um 1000-2000 metra hæð. Skýin leysast upp í öldudölum bylgjunnar og myndast síðan aftur í uppstreyminu og þannig koll af kolli. Bylgjurnar sjálfar verða til fyrir tilstuðlan fjalla og kallast því gjarnan fjallabylgjur. Meira þarf til, einkum lagskiptingu loftsins hvað hita áhrærir í ákveðinni hæð að teknu tilliti til þeirra fjalla sem "trufla" loftstrauminn yfir landið.
Þessar bylgjur væru þannig óhugsandi ef Ísland væri flatt eins og Danmörk. Þar sjást þó stöku sinnum bylgjur af þessari gerð, en þær þá orðnar til yfir fjallendi S-Noregs í N eða NV-átt.
Myndin er frá MODIS, en starfsfólk Veðurstofunnar hefur rétta hana af og útbúið að öðru leyti.
Annars mátti í þessari hlýju SA-átt litlu muna að hitinn næti að komast yfir 25 stiga múrinn. Á sjálfvirka mælinum Húsavík mældust 24,8°C mest í dag.
Fallegar myndir | Breytt 28.7.2011 kl. 10:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
27.7.2011
Samanburður á spám

Bregðum nú á leik og berum saman vinsælar spár af netinu hvor úr sinni áttinni. Annars vegar spá af vedur.is og hins vegar yr.no sem margir landsmenn heimsækja reglulega. Á báðum þessum vefgáttina kemur mannshugurinn hvergi nærri við túlkun og eru spárnar alsjálfvirkar úr reiknilíkönunum.
Aðferðin er sú að á kl. 09 í morgun miðvikudag var farið inn á báða þessi vefi og skoðuð spáin kl. 12 á hádegi komandi laugardag. Því er um að ræða þriggja daga spá eða rétt rúmlega það (+76 tímar). Það kemur fram á vedur.is að spáin sé byggð á reikningum frá því kl. 00 í nótt, en engar slíkar upplýsingar er að hafa frekar en venjulega hjá yr.no.
Samanburðinn má sjá fyrir fimm staði í meðfylgjandi töflu. Tiltölulega lítill munur er á milli spánna tveggja, einkum þó sem lýtur að því hvort það muni rigna á hádegi eða ekki. Vissulega benda veðurspár til þess að komandi laugardagur ætli að verða fremur vætusömur um mikinn hluta landsins enda gert ráð fyrir lægðarsvæði á leið norðaustur yfir landið.
Eins og áður sagði eru þessar spár alsjálfvirkar. Ég hefði tilhneigingu til að draga úr úrkomulíkum á Egilsstöðum og jafnvel Akureyri einnig við þessar aðstæður. Loft er komið af fjöllum og það er vel þekkt að hléáhrif fjallana eru almennt séð heldur vanmetin í tölvulíkönunum sem liggja til grundvallar þessum spám þegar úrkoma er annars vegar. Ekki síst á sumrin. Á hitt ber þó að líta að skil verða líkast til á leið yfir landið um þetta leyti og vafalaust rignir lítilsháttar með þeim um skamma stund um leið og þau fara hjá. Þess vegna gætu þau verið að verki alveg um hádegisbil og þess vegna spáð úrkomu kl. 12. En íbúar á Héraði þekkja best sjálfir að sjaldnast fer saman rigning með hægum SV vindi og 16 stiga hita !
Samanburður á veðurspám fyrir laugardaginn 30. júlí. | |||
|
|
|
|
| Hiti | Vindur | Veður |
vedur.is |
|
|
|
Reykjavík | 12°C | SV 3 m/s | Lítil rigning |
Bolungarvík | 11°C | SV 2 m/s | Skýjað með köflum |
Akureyri | 14°C | SV 2 m/s | Rigning |
Egilsstaðir | 16°C | S 3 m/s | Rigning |
Kirkjubkl. | 11°C | S 1 m/s | Lítil rigning |
|
|
|
|
yr.no |
|
|
|
Reykjavík | 11°C | V 4 m/s | Skýjað með köflum |
Bolungarvík | 10°C | NV 4 m/s | Skýjað með köflum |
Akureyri | 15°C | S 1 m/s | Lítil rigning |
Egilsstaðir | 15°C | SV 1 m/s | Rigning |
Kirkjubkl. | 11°C | SA 2 m/s | Rigning |
Í júlí er tíðni hvassviðri og storma einna lægst yfir árið. Þarf ekki að koma á óvart því um mitt sumar láta lægðir sem orð er á gerandi sjaldnast á sér kræla. Það á þó ekki við núna því allmyndarleg lægð er nú á sunnanverðu Grænlandshafi. Með henni skil og úrkoma norðaustur yfir landið í kvöld og nótt.
Þessi skilum fylgir líka nokkuð ákveðin SA-átt sem nær hámarki að öllum líkindum í kvöld. Margir liggja í tjöldum eða eru á ferðinni með vagna sína. Við þessar aðstæður þarf að sína aðgát og mín reynsla er sú að allur vindur yfir 10-12 m/s er til óþæginda fyrir viðlegubúnað.
Þá má gera ráð fyrir vindhviðum undir Hafnarfjalli síðar dag. Hviður allt að 25-30 m/s um miðjan daginn, en 30-35 m/s síðdegis og í kvöld. Sama á við um utanvert Kjalarnesið, eins Fróðárheiði og veginn fyrir Snæfellsnes utan við Ólafsvík, eins og ég orðaði það í tilkynningu til Vegagerðarinnar kl. 09.
Reiknað er með að vindur gangi mikið niður nálægt miðnætti um suðvestanvert landið, en strekkingur verður víða norðan- og austanlands fram undir morgunn.
25.7.2011
Heiðarleg tilraun
Í gær sunnudag komst varð hitinn hæstur 23,9°C í Ásbyrgi og þar á eftir 22,9°C á Húsavík. Þetta varð þar með hlýjast dagur sumarsins á mælikvarða hæsta hámarkshita dagsins og ágætis atlaga að 25 stiga múrnum.
Úr suðvestri barst nokkuð ákveðin tunga af suðlægu og hlýju lofti á undan skilunum sem rigndi frá og blés, einkum sunnanlands og -vestan. Hin svokallaða þykkt náði um 558 dekametrum um tíma norðaustanlands upp úr miðjum degi í gær. Þessi hæsti mældi hiti dagsins er í ágætu samræmi við þykktina, miðað við að það var mikið til skýjað um sama leyti.
Á morgun er síðan von á annarri gusu af hlýju lofti með nýrri lægð. Þá er þykktinni jafnvel spáð yfir 560 dekametrum eins og meðfylgjandi HIRLAM spákort Veðurstofunnar sýnir. Það hefur gildistíma á miðnætti annað kvöld. Ef svo fer að hlýjasti kjarninn verður hér á ferðinni seint að kvöldi eða yfir nóttina eins og allt útlit er fyrir gerir hitinn svo sem engar rósir. En vissulega munu flestir finna á eigin skinni þegar þetta milda loft fer hjá og kvöldið verði það sem maður kallar stundum "útlenskt" Þ.a. kvöldhiti 15-18°C og þess vegna fram á nóttina. Svo fremi að hressilegur vindur nái ekki að spilla því norðan- og austanlands.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 4
- Sl. sólarhring: 17
- Sl. viku: 53
- Frá upphafi: 1790284
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar