22.7.2011
Hlýjast á Gufuskálum
Ég tók eftir því í veðurlestri í útvarpinu kl.10:03 að hlýjast á landinu var á Gufuskálum utarlega á Snæfellsnesi eða 14°C. Óvenjulegt er að sumarlagi að hlýjast á landinu sé á þessum slóðum að deginum. Ástæðan er sú nú að sólin hefur náð að skína á Snæfellsnesinu í morgun á meðan meira og minna hefur verið skýjað annars á landinu.
En Adam er ekki lengi í paradís kl. 10 var komin hafgola á Gufuskálum og hitinn aftur á niðurleið. Hins vegar er veður mjög gott almennt séð við Breiðafjörð í dag.
Veðuratburðir hér og nú | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2011
Úrhelli í S-Skandinavíu
Á meðan íbúar í sunnanverðri Skandinavíu eru þrúgaðir af lakri sumarveðráttu það sem af er og mörgum rigningardögum, hefur verið afar hlýtt og sólríkt í N-Svíþjóð og N-Noregi. Svo ekki sé talað um Finnland, en þar og yfir norðvesturhluta Rússlands hefur ríkt fyrirstöðuhæð meira og minna í sumar. Fyrir vikið er heldur kaldara loft sunnar, þ.e. yfir norðanverðri Evrópu og þarna á milli verða til einkar kröftug uppstreymissvæði með tíðu eldingaveðri og úrhelli.
Nú berast af því fréttir að Norðmenn búi sig undir enn eitt rigningarveðrið, minnugir þess hvað gerðist fyrir nokkrum vikum í kring um Kaupmannahöfn við áþekkar aðstæður. Veðurstofan norska telur að allt að 80 mm geti fallið af himnum ofan í kvöld og á morgun, einkum á svæðum S-Noregs út með Óslóarfirði. Vindurinn er A-lægur, lyfting loftsins yfir fjöllin eykur því mjög á úrkomuákefðina, líkt og þekkist svo vel með vesturströndinni í SV og V-áttinni.
Á spákorti Bresku Veðurstofnnar sem gildir á miðnætti (23. júlí) má sjá hvað er í gangi. Lægð hefur myndast á mörkum hlýja loftsins í norðaustri og þess sem er svalara sunnar. Vegna þess að veðurkerfin standa á haus berst lægðin til austurs en ekki vesturs eins og venja er. Skil lægðarinnar eru á sömu leið og hlýi loftfleygurinn opnast í áttina til Finnlands.
Svíar urðu fyrir barðinu á þrumuveðrinu sem þessu fylgir, en á Gotlandi mældust 30 þús eldingar í nótt og afleiðingarnar urðu víðtækt rafmagnsleysi.
21.7.2011
Veðurhorfur helgina 22. til 24. júlí

Föstudagur 22. júlí:
Rólegheitaveður á landinu og hægur vindur. Skýjað að mestu suðvestanlands og austur með suðurströndinni, en annars nokkuð bjart, einkum þó norðan- og austanlands og eins á hálendinu. Hægt hlýnandi, en þó sums staðar hafgola eins og oft vill verða þegar vindur yfir landinu er hægur. Ekki er spáð úrkomu nokkurs staðar á landinu, en stutt verður í þoku undan suðurströndinni. Hiti þetta 13 til 18 stig yfir daginn, einna hlýjast s.s. á Vestfjörðum og inn til landsins norðanlands.
Laugardagur 23. júlí:
Skil frá lægð nálgast eftir því sem líður á daginn. Um leið verður S -áttin ákveðnari og fyrir norðan og austan glaðnar yfir með sól og hlýum þey. Þar gæti hiti hæglega farið upp undir 20 stigin og á stöku stað ívið hlýrra en það. Þau eru mörg brúðkaupin og aðrar veislurnar úti við þessa helgina. Líklegt má telja, eins og staðan er nú, að fyrstu droparnir suðvestanlands taki að falla einhverntímann á milli kl. 18 og 20. Um kvöldið og nóttina er spáð strekkingsvindi víða vestanlands og með vætu. Áttin S eða SA og allt að 10-13 m/s. Vindur af þeim styrk getur tekið vel í tjöld og vagna.
Sunnudagur 24. júlí:
Skil lægðarinnar verða viðloðandi Suður- og Vesturland og þar kemur til með að rigna mest allan daginn og víðast samfellt. Ekki svo hvasst en þó þetta 5-8 m/s. Úrkomumagn upp á 10-25 mm yfir daginn er ekki ósennlegt og mun sú væta kæta mjög allan gróður og eins vatnslitlar veiðiár. Skýjað og einhver smávæta vestantil á Norðurlandi, en austan Tröllaskaga mun gæta úrkomuskjóls, alveg austur á Hérað. Óvíst er með sólina, en nái hún að skína þar um slóðir er loftið í grunninn það hlýtt að hitinn fer hæglega yfir 20 stigin. Verði hins vegar skýjað eru líkurnar á því verulega minni. Rigningin nær austur um og skilin eru á austurleið og rigna mun því einnig á Austfjörðum þegar líður á daginn.
Veðurspár | Breytt s.d. kl. 10:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.7.2011
Enn og aftur sumarþurrkar
Enn eitt sumarið virðast þurrkar ætla að verða hamlandi fyrir gróður um vestan- og norðanvert landið. Þetta á alls ekki við um landshlutann frá Markarfljóti eða Eyjafjöllum austur um á Austfirði. Þar hefur væta verið næg, enda sá ég einhvers staðar að kartöflubændur í Hornafirði eru komnir með fyrstu uppskeru á markað.
Sérstaklega er ástandið slæmt á Vesturlandi og sums staðar á Vestfjörðum. Mikið rigndi í apríl og hretin í maí gáfu sums staðar góða úrkomu. Svörðurinn var því vel blautur þegar gróður fór loks að taka við sér. Síðan þá hefur hins vegar sáralítið rignt víða má sjá gul tún að loknum slætti. Vel spratt sem sé í upphafi, en nú virðist sárlega vanta raka í svörðinn fyrir áframhaldandi sprettu. Sjálfur sá ég greinileg vatnsskortseinkenni á hinum vatnsþurfandi alaskaöspum vestur í Dýrafirði. Þá er birkikjarr sem stendur í grunnum jarðvegi í Borgarfirði er tekið að skorpna. Undanfarna tvo daga hafa reyndar verið skúraleiðingar á þessum slóðum en meira þarf til, helst góða vætu með skilum lægðar sem kemur úr suðvestri.
Á Norðurlandi er þurrkurinn líka farinn að segja til sín og þar hefur sums staðar sárlítið rignt í yfir mánuð. Kalda N-áttin í júní var líka fremur þurr og vorið úrkomulítið í það heila tekið. Sem dæmi að þá er heildarúrkoman síðastu 30 dagana á Akureyri um 10 mm. Það er engin veginn nægjanlegt fyrir gróður sem er í fullum blóma á þessum tíma ársins. Þar að auki dreifist þessa takamarkaða úrkoma á nokkur skipti og lítið í senn. Svörðurinn nær því alls ekki að blotna. Betra væri að fá þessa 10 mm í einum skammti.
Eins og ævinlega eru það lægðirnar sem drýgstar eru í því að bera til okkar raka, líka á sumrin, þó svo að staðbundnar síðdegisskúrir geti hjálpað upp á sakirnar og líka suddi í þoku ef því er að skipta. Meginbraut lægðanna hefur legið fyrir sunnan land lengi, enda kvarta N-Evrópubúar og Skandinavar undan stórrigningum sem engan endi virðast ætla að taka. Þannig er meðaltalinu fyrir júlí nú þegar náð og sums staðar fyrir nokkru. Í V-Noregi er talað um óvenjulega marga rigningardaga talið frá 1. maí og þannig mætti áfram telja.
Suðvestan- og vestanlands stendur þetta til bóta í bili a.m.k. því útlit er fyrir nokkra úrkomu samfara skilum, sennilega á sunnudag.
Ljósmyndina tók Emil Hannes í Reykjavík fyrra í sumar af gulnuðum þökum við Hörpu sem ekki hefði veitt af vökvun.
Veðuratburðir hér og nú | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.7.2011
Síðdegisskúrir í dalbotnum
Alltaf er maður á ferðum sínum um landið að skoða veðrið út frá margvíslegum sjónarhornum. Að sumarlagi er oft gaman að líta í kringum sig og sjá hvar bólstrar vaxa í hitauppstreymi og síðan í kjölfarið að verða vitni að skúradembu. En helst vill maður að sjálfsögðu ekki hafna í henni miðri.
Á Suðurlandi eru það hraunin suður og austur af Heklu sem alræmd fyrir skúraleiðingar á sólríkum sumardögum. Þar drekkur dökkt yfirborðið í sig geislar sólarinnar og uppstreymið sogar til sín loft úr öllum áttum, en aðallega þó neðan frá lágsveitunum.
Í dag varð ég vitni að annars konar gerð síðdegsskúra, eða þeirri tegundinni sem gerir gjarnan innst í dölum á meðan útdalurinn helst þurr og sólin skín jafnvel á sama tíma. Myndin sem hér fylgir er út Arnarfirðinum og tekin í dag, 18. júlí. Horft er yfir fjörðinn af vegslóða sem stundum er kallaður Kjaransbraut utan við Hrafnseyri. Sjá má myndarlegt bólstraský yfir fjöllunum sem skilja að Arnarfjörð og Tálknafjörð. Ég held að dalurinn til hægri sé Fífudalur, en þeir eru víst nokkrir dalirnir frá Bíldudal og út í Selárdal. Sólin náði í dag að verma brattar brekkurnar strax í morgun, einkum þó Tálkafjarðarmegin mót suðri. Fljótlega hófst hlíðaruppstreymi og að sama tíma hitnaði grjótið í fjöllunum, nú þegar snjó hefur að mestu leyti tekið upp á þessum slóðum.
Yfir fjalllendinu og brúnunum sem skilja að dalina sínhvoru megin myndaðist því röð bólstraskýja og frá þeim féll úrkoma, en einkum innantil í dölunum og að sjáfsögðu hærra uppi. Svipað var að norðanverðu við Arnarfjörðinn, en kröftuga skúr gerði á veginn upp á Hrafnseyrarheiðina að meðan gestir Hrafnseyrarstofu spókuðu sig léttklættir á hlaðinu.
Á tunglmynd frá því laust fyrir kl. 13 í dag (MODIS-Terra) má í hæstu upplausn sjá ofan á bólstraskýin sem hér um ræðir á milli. Skýin renna vissulega saman sums staðar við þær snjófyrningar sem enn er að finna, en þær eru að mestu í bröttum hlíðum og sjást því ekki vel úr lofti.
En vel að merkja að þá liðu tæplega 2 klst. frá tunglmyndinni og þar til ljósmyndin var tekin og margt breytist á styttri tíma en það þegar uppstreymisský eru annars vegar.
Hægviðri var á þessum slóðum í dag, ekki vindur að ráði í lofti og hafrænan eða innlögnin allsráðandi inni á fjörðunum.
Fallegar myndir | Breytt 19.7.2011 kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.7.2011
Snjófyrningar í Skarðsheiðinni
Pétur Davíðsson á Grund í Skorradal sendi mér þessar tvær myndir sem báðar eru teknar af hlaðinu á Grund í átt að Skarðsheiðinni. Það skemmtilega við þær að báðar eru tekna 14. júlí, sú efri í ár, en neðri í fyrra, 2010.
Þessi samanburður er dæmigerður fyrir snjófyrningar í fjöllum um land allt. Í fyrra þóttu þær framan af sumri vera með allra minnsta móti, en nú eru þær hins vegar meiri en verið hafa um allangt skeið. Þeir feðgar Pétur og Davíð hafa verið iðnir um langt skeið að mynda skaflanna í norðanverðri Skarðsheiðinni og eiga þeir orðið dágótt safn. Sólin nær að takmörkuðu leyti til norðurhlíða fjallsins og því helst snjórinn langt fram eftir sumrinu. Það má því segja að skaflarnir séu öðru fremur mælikvarði á fannfergi vetrarins til fjalla.
Skarðsheiðin 14. júlí 2011
Skarðsheiðin 14. júlí 2010
16.7.2011
Laugavegshlaup
Laugavegurinn á á milli Landmannalauga og Þórsmerkur verður hlaupinn í dag. Laugavegshlaupið hefur verið skipulagt og haldið í allmörg ár og hlauparar fengið alla veganna veður þó um hásumar sé. Stundum slagveðursrigningu og vindur hefur stundum verið meiri en góðu hófi gegnir. Farið er hæst við Hrafntinnusker í um 1.100 metra hæð. Þetta er sannkallað víðavangshlaup um óbyggðir landisins og dregur að sér ár hvert fjölmarga hlaupara úr öllum heimshornum
Spá sem ég útbjó fyrir skipuleggjendur og dreift var til hlaupara gerir ráð fyrir sólríku veðri á hlaupaleiðinni í dag, en að það geti orðið strekkings NA-vindur á köflum. Hann getur verið til baga þó hann sé að mestu meðvindur því ekki þarf mikla gjó til að rífa upp fínan sand og gjósku. Sandfok gæti því verið hlaupurum til ama s.s. þar sem farið verður yfir sandorpna leið á milli Álftavatns og Fremri Emstruár.
En vonandi fer allt vel og að allir skili sér í mark !
14.7.2011
Veðurhorfur helgina 15. til 17. júlí

Föstudagur 15. júlí:
Fremur hæg NA-átt á landinu. Þyngir að eftir nokkra góða daga norðanlands og austan. Þar verður smábægileg súld á stögu stað, en annars að mestu þurrt, en vart nema 7-11 stiga hiti um leið og fer að anda af hafi. Suðvestanlands og á Vesturlandi er útlit fyrir sannkallaðan sumardag, bæði léttakýjað og fremur hlýtt í lofti. Hiti því allt að 17-19 stig og ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Landvindurinn víðast þó nægur til að halda aftur af hafgolunni. Sums staðar þó síðdegisskúrir eða hitaskúrir, sérstaklega í uppsveitum Suðurlands og á sunnanverðu hálendinu.
Laugardagur 9. júlí:
Lægð verður á leið til austurs fyrir sunnan land og þó hún hafi ekki bein áhrif hér á landi, veldur hún auknum NA-blæstri um tíma, sérstaklega síðdegis á laugardag. Þá sums staðar 8-10 m/s og allt að 15 m/s til fjalla. Smávægileg rigning eða súld norðaustan- og austanlands og hiti um og innan við 10 gráður. Annars þurrt og sunnanlands og vestan verður víðast léttskýjað. Heldur svalara í veðri, einkum á Vestfjörðum og við Breiðafjörðinn, en samt 15-17 stiga hiti yfir daginn þar sem sólin nær að skína.
Sunnudagur 10. júlí:
Lægir aftur, en enn NA eða A-vindur í grunninn. Að mestu þurrt norðanlands og austan og til landsins fyrir norðan rofar víða til. Áfram bjartviðri sunnan og vestanlands og hiti um og yfir 15 stig yfir daginn. Ágætt og hæglátt sumarveður svona heilt yfir á landinu.
Veðurspár | Breytt s.d. kl. 10:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.7.2011
Hitabylgjan sumarið 1911
Nú er rétt um öld liðin frá fágætri hitabylgju sem gerði norðanlands og austan í júlí 1911. Fullt tilefni er til að rifja hana aðeins upp. Þessi hitabylgja sem varði í tvo daga: 11. og 12. júlí 1911 er nefnilega ansi merkileg.
11. júlí 1911 mældust á Akureyri 29,9°C. Þann sama dag sýndi mælir á vegum dönsku Veðurstofunnar 28,9°C á Seyðisfirði. Þetta eru hæstu gildi sem mælst hafa í sögu þessara stöðva. Á Seyðisfirði hafa hitamælingar reyndar verið ansi stopular, en samfelldar mælingar á Akureyri frá 1881.
Um mælinguna á Akureyri 1911 segir: "Eldra hitametið frá Akureyri var sett 11. júlí 1911 í óþekktu skýli, en rétt er að taka fram að enginn hámarksmælir var á staðnum, heldur mældist þessi hiti kl.16 (15 skv. eldri tíma). Þetta var ekki venjulegur athugunartími, en af athugasemd athugunarmanns má skilja að hann hafi fylgst með mælinum öðru hvoru þennan dag. Því er ekki víst að hámarksmæling hafi verið öllu meiri." (Trausti Jónsson, greinargerðin; Hitabylgjur og hlýir dagar, 2003).
Á þessum árum voru veðurmælingar gerðar í innbænum á Akureyri og vera má að hámarksmælir hefði sýnt hærra gildi, en á móti kemur að ef um veggskýli hefur verið að ræða (sem ekki er ólíklegt) er hitinn trúlega lítið eitt ofmetinn. Hins vegar tekur mælingin á Seyðisfirði af allan vafa um það að klárlega hefur verið um alvöru hitabylgju að ræða. Bakgrunnur hennar er sá að um þetta leyti blésu afar hlýir vindar af suðvestri með þeim afleiðingum að mjög hlýtt varð norðaustan- og austanlands.
En hvernig standa þessir dagar af sér í samanburði við ýmsar kennitölur síðari tíma hitabylgna ? Nú ber svo vel í veiði að reiknuð hafa verið út frá athugunum á jörðu niðri sæmilega áreiðanleg háloftakort aftur fyrir kerfisbundnar háloftaathuganir sem hófust eftir síðari heimstyrjöldina. Með þessum kortum frá bandarísku veðurfræðistofnuninni má glöggva sig á aðstæðum.
Hér til hliðar er þrýstingur við yfirborð kl.12 þ. 11. júlí 1911. Reyndar er um hæðina á 1000 hPa fletinum að ræða, en það kemur í sama stað niður. Sjá má að mikil hæð yfir Bretlandseyjum beinir lofti sem komið er langt að úr suðri. Þykktin 1000/500 hPa reiknast mér að hafi verið yfir landinu miðju 560 eða 561 dekametrar. Ekki er víst að sú tala sé nákvæm enda engum beinum mælingum til að dreifa og rétt að minna á að háloftkortin eru tilgátukort út frá mælingum á jörðu niðri. Þykktin hefur mest farið upp í 562 til 564 hér á landi og gildi 560 er alls ekkert fágæti. Hitinn í 850 hPa fletinum (í um 1400 metra hæð) er gefin þetta +10 til 12°C sem rímar ágætlega við hlýindi af þessari gerð og uppruna.
Þess má geta að júlí 1911 var mjög heitur mánuður á Englandi, sá hlýjasti þar í yfir 40 ár. Hæðarsvæðið hélt sig yfir Bretlandseyjum og orsakaði bæði heitan loftmassa og látlaust sólskin. Afleiðing þessarar veðurstöðu eru ríkjandi SV-lægar vindáttir á Íslandi. Hér þótti mánuðurinn í heild sinni hins vegar vera fremur svalur og votviðrasamur því SV-áttin beindi heldur kaldara lofti frá S-Grænlandi frekar en því milda suður og suðausturundan. Undantekningin voru þessir óvenju hlýju tveir dagar, þegar hitinn á Akureyri fór hærra en hann hefur gert nokkru sinni síðar.
Ljósmyndin er úr Lystigarðinum á Akureyri, en til hans var stofnað einmitt sumarið 1911.
Vísindi og fræði | Breytt 13.7.2011 kl. 08:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í dag brá loks til hagstæðra vinda austanlands. Andvari var af landi í stað þrálátrar hafrænunnar lengst af undanfarnar vikur. Við það komst hitinn í 21,0°c á sjálfvirka mælinum á Egilsstaðaflugvelli. Niðri á Fjörðum var þessi langþráða gola af landi heldur veik og á Reyðarfirði til að mynda var hafgolan í aðalhlutverki og því ekkert hlýtt. Skárra þó í Neskaupsstað.
Þetta er fyrsti dagurinn í sumar þar sem hiti kemst í 20 stigin á einhverri veðurathugunarstöð austanlands. Þó er það svo að skilgreina má hvenær sumarið hófst eystra. Í apríl komu lengri veðurkaflar sem voru svo vænir að þeir líktust sumri en ekki fyrrihluta vors. Enda var það svo að hitinn 9. apríl fór í 20,2°C á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði. 11. júlí er því besti sumardagurinn austanlands frá því snemma í apríl ! Þarna á milli eru síðan margir, margir með hreinræktuðu skíðviðri.
Á morgun er allt útlit fyrir að það verði enn hlýrra á Austurlandi og SV vindurinn yfir landinu er líka hægt og bítandi að færast í aukana. Ýmsar lofthitavísitölur, s.s. sú sem kölluð er þykkt loftsins (fjarlægð á milli fastra þrýstiflata 1000 og 500 hPa) gefur til kynna hlýjasta dag sumarsins á landsvísu.
Fari svo að sólin nái að skína norðaustan- og austanlands meira og minna allan daginn og hafgolan nái sér ekki á strik eru talsverðar líkur til þess að einhver veðurstöðin í þessum landshlutum rjúfi 25 stiga múrinn.
Niðurstaða dagsins: Hámarkið varð 21,8°C og aftur á Egilsstaðaflugvelli. Ekki vantaði sólskinið, en hafgolan sýndi sig upp úr hádegi. Hún var þó ógreinilegri á Héraði, en niðri á Fjörðum þar sem hún kæfði hlýindin í loftinu hratt og örugglega.
Veðuratburðir hér og nú | Breytt 12.7.2011 kl. 22:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.4.): 5
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 54
- Frá upphafi: 1790285
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 48
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar