Á nýrri MODIS-mynd frá því kl. 12:50 í dag (24. maí) má greinilega sjá brúnan samfelldan flekk suðurundir 60 gráðu N.br. Það samsvarar því að strókurinn ná um 500 km til suðurs frá ströndinni. Takið eftir því að ský eru ofar og það bendir ótvírætt til þess að gjóskan er í lægri hæðum.
Hvöss N-áttinn blæs gosefnum sem þegar hafa fallið til jarðar og má ætla með nokkurri vissu að megnið af því sem við sjáum er fok af landi, auðvitað í bland við ösku sem komin er beint úr Grímsvötnum.
Það má kannski segja að þessi öfluga N-átt sé hálfpartinn lán í óláni. Vont á meðan á henni stendur en hún hreinsar og ber ófögnuðinn langt á haf út þar sem hann gerir lítinn sem engan skaða.
Verum klár á því að á meðan fokgeirinn er þetta neðarlega í lofthjúpnum má auðveldlega fljúga yfir, svo fremi vitanlega að snefill ofar trufli ekki flugið. Mestu skiptir samt að losna við sem mest af því með vindum sem áður hafði fallið til jarðar á Suður- og Suðausturlandi.
24.5.2011
Sjaldan er ein báran stök !

Það er eins og flestir neikvæðir þættir náttúrunnar leggist á eitt í því að gera okkur lífið leitt. Ekki þarf að orðlengja frekar eldgosið og alvarlegar afleiðingar þess suðaustanlands, frá Eyjafjöllum austur í Öræfasveit.

En á sama tíma gengur yfir eitt það leiðinglegasta og erfiðasta vorhret síðari ára norðaustanlands með fannfergi, sérstaklega fjallvegum. Í byggð ill séð krapahríð sem getur farið illa í búsmala og fugla. Ofanhríðin í gær norðaustanlands var það mikil að víða hafði ekki undan með snjómokstur og enn er beðið með mokstur. Frá Vopanfirði hafa þannig allar þrjár leiðirnar lokast. Hellisheiðin reyndar strax í upphafi þessa kuldakafla (eftir að hafa verið opnuð óvenju snemma í ár !). Sandvíkurheiðin til norðurs er ófær og tengingin við hringveginn um Vopnafjarðarheiði hefur verið úti frá því í fyrradag að ég held.
Mjög sviptivindasamt hefur síðan verið suðaustanlands á þekktu svæði viða þessa aðstæður, frá Suðursveit austur í Berufjörð. Ökutæki hafa skemmst og vegurinn er þegar þetta er skrifað k. 09:15 enn lokaður vegna vinds. Ekki furða þar sem hviður hafa slagað yfir 60 m/s á mæli og meðalvindur á Höfn er um 30 m/s !
Ástandið er vægast sagt mjög óvenjulegt, sérstaklega ef árstíminn er tekinn með í reikninginn, þó svo að gosið geti hvenær sem árs. En hringvegurinn hefur lokast samtímis um austanvert landið af þremur ólíkum orsökum:
- a. Sunnanlands frá Vík og austur í Öræfasveit vegna öskubyls.
- b. Suðaustanlands úr Suðursveit á Djúpavog vegna sviptivinda.
- c. Um Möðrudalsöræfi er þjóðvegurinn ófær þó ekki sé hann formlega lokaður.
Veðuratburðir hér og nú | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.5.2011
Dreifingaspá HYSPLIT
Sýni hér dreifingaspá HYSPLIT frá bandarísku NOAA stofnuninni. Annars vegar dreifingu gosefna sem komu upp í Grímsvötnum kl. 18 í dag og hægri myndin sýnir dreifingu eins og henni er spáð kl. 06 í fyrramáli. Þá eru líkur til þess að kjarninn verði aðeins austar en í dag, þ.e, niður yfir Fljótshverfi og Skeiðarársand.
Frá þeim upplýsingum sem við höfum úr þessu gosi virðist sem mest af gjóskunni dreifist frá um 2 til 3 km hæð. Þó gösmökkurinn sé hærri og aska fari í einhverjum mæli mun ofar, berst samt mest af gjóskunni með vindum út frá þessari hæð. Spárnar eru sk. klasaspár með reiknuðum 24 ferlum. Þær má túlka sem nokkurs konar líkindadreifingu ferlanna næstu 6 klukkustundirnar. Þessar spár gáfu ágæta raun í Eyjafjallajökulsgosinu.
Veðuratburðir hér og nú | Breytt s.d. kl. 20:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)

Ingibjörg Jónsdóttir á Jarðvísindastofnun HÍ miðlar hverri myndinni á fætur annarri til okkar. Þessi sem hér sést var tekin fyrr í dag (23. maí) og ættuð úr smiðju Dundee. Lægðasnúður er yfir norðanverðum Bretlandseyjum og svona eins og í mótsögn við fegurðina birtist ljótleikinn í gosstróknum sem nær langt á haf út suður af landinu og ógreinilegri taumur þaðan til suðvesturs.
Suðurströndin er að mestu hulin skýjum og uppi í horninu sést í sjóinn fyrir vestan landið. Gosmökkurinn er nokkuð samfelldur nokkra tugi kílómetra suður fyrir landið í þeirri NNA-átt sem er á þessum slóðum.
Fallegar myndir | Breytt s.d. kl. 18:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.5.2011
Gosmökkurinn mun lægri í nótt

Vel má sjá á ratsjármyndum á vef Veðurstofunnar að gosmökkurinn hefur ekki náð í nema 6 til 8 km hæð í nótt og í morgun. Lækkun hans þarf þó ekkert að segja um kraftinn í gosinu. Órarit Grímsfjalla frá Veðurstofunni sýnir í það minnsta ekki sýnilega minnkun óróans. Hins vegar getur lækkunin stafað af því að vatn komist ekki lengur í gosrásina og því ekki gufusprengingar eins og var raunin fyrsta sólarhringinn. Gufusprengingarnar ásamt þeirri staðreynd að fremur hægviðrasamt var fyrstu klukkustundir gossins geði það að verkum að strókurinn náði hærra en ella.

Það er vatnsgufan sem berst hæst. Hleðslumunur sem hún veldur við bæði gosefnin lægra í stróknum og við yfirborð jarðar olli þessum ótölulega fjölda eldinga. Talningar á eldingum leiða líka í ljós að niðursláttur þeirra hefur dregist mjög saman eins og meðfylgjandi rit af sérstakri eldingasíðu Veðurstofunnar sýnir. Má e.t.v. draga þá ályktun út frá því að gufumyndun hafi minkað mjög mikið um kl. 18 og eldingatíðnin þar með.
Veðuratburðir hér og nú | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
MODIS myndin sem hér birtist er löguð til af Ingibjörgu Jónsdóttur dósent á Jarðvísindastofun Háskóla Íslands. Hún er tekin kl. 13:04. Mjög vel sést í brúna öskudreifina sem nær orðið yfir víðfemt svæði um austurhluta landsins og eins talsvert langt til suðurs frá Vatnajökli. Þá eru slæður úti fyrir Suðurlandi talsvert vestar. (tvísmella á myndina fyrir fulla upplausn). Á Kambabrún fyrir hádegi sá ég greinilega öskumóskuna hátt á austurhimninum.
Við skulum þó hafa hugfast þegar við skoðum þessa mynd að við horfum yfir sviðið ef svo má segja og ofan á þá atburði sem nú eru í gangi. Það er ekki þar með sagt að öskufall sé til jarðar á öllum þessum svæðum heldur er móskan til marks um dreifingu mjög hátt í lofthjúpnum. Þétt öskufall til jarðar nær yfir mun minna svæði og þar ráða vindar í lægri lögum mestu. Vegna þess hvað hægur vindur hefur blásið þarna hátt uppi og af breytilegri átt hafa fín gosefni náð að dreifast um stórt svæði. Þetar eru frekar óvenjulegar aðstæður vindafars í 7-12 km hæð, en oftar blása þar hvassir og frekar stöðugir vindar.
Ekki er heldur útilokað, sérstaklega undan Suðurlandi að fok Eyjafjallajökulsösku eigi þarna líka hlut að máli. Í þetta þurru veðri og ákveðinni NA-átt við jörð rjúka fínefni auðveldlega s.s. á Markarfljótsaurum.
Fallegar myndir | Breytt s.d. kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)

Komið hefur fram í viðtölum við sjónarvotta og eins á óvenju skýrum ljósmyndum af jörðu niðri sem sýna gosmökkinn að hann er tvískiptur. Hið efra er hann hvítur á að líta, líkast til nánast hrein vatnsgufa, en neðantil er gjóska. Vindur er hægur í lofti um þessar mundir og það sem meira er að vindátt tekur breytingum eftir því sem ofar dregur. Þannig berst gufan til austurs eða austsuðausturs á meðan gjóskan í lægri lögum er á leið til suðvesturs og jafnvel vesturs. Þarna á milli gufunnar og gjóskunnnar neðar er gríðarlegur spennumunur í og eldingar skjótast ört á milli laga. Það hafa eldingamælingar sýnt glöggt í kvöld.
Veðurstofan hefur nú bætt við möguleikum á frekari ratsjármyndum og sú sem hér fylgir sýnir lóðsnið í jöðrum þeirra að auki. Gufumökkurinn hefur greinilega verið að mælast í um þetta 15 til 16 km hæð. Með öðrum orðum að þá hefur hann náð að brjóta sé leið upp í gegn um veðrahvörfin sem í dag hafa verið í um 29 þús fetum eða í um 9 km hæð. Slíkt gerist aðeins í eldgosum sem byrja með talsverðum látum. Þó skal hafa í huga að hvass vindur efra heldur niðri gosmekki eins og þessum, en slíkum vindi var vart að dreifa í dag. Ef mér skjöplast ekki held ég að mökkur í eldgosi hafi ekki farið svo hátt hér á landi frá því í Heklu 1947 ! Við heyrum þó betur frá samanburðarfræðingunum um þá hluti á morgun.
Slóðin á síðu Veðurstofunnar þar sem má fylgjast með hæð gosmakkarins séð með ratsjánni er þessi:
http://www.vedur.is/vedur/athuganir/vedurradar/#teg=radarisl
Ratsjármyndin hér er frá kl. 00:30 (22. maí)
Veðuratburðir hér og nú | Breytt s.d. kl. 00:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)

Hér er slóð inn á myndir eins og þessa sem sýna ágætlega útbreiðslu gosmakkarins. Veðurstofan er þegar búin að stilla ratsjánna á aukna sjónvídd, alla leið austur á Vatnajökul.
Slóðin er http://www.vedur.is/vedur/athuganir/vedurradar/#teg=radarisl.
Vindar í lofti eru frekar hægir, NA-átt næst jöklinum, en hærra uppi, þe. ofan 5 km hæðar er vindur V- eða NV-stæður. Við sjáum að "flekkurinn" berst til austurs. Ég hef ekki upplýsingar enn um það hversu hátt gosmökkurinn hefur risið, en sennilega er hann hærri en 6 km, en þó ekki hærri en 10 km. Þetta skýrist brátt.
Veðuratburðir hér og nú | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)

Ætli megi ekki segja sem svo að með þessu veðurkorti Veðurstofunnar frá kl. 06 í morgun hafi kuldinn náð hámarki á landsvísu. Um það leyti var hvða mestu kuldinn í loftinu yfir landinu. Það útilokar það hins vegar ekki að einhvers staðar getur mesta frostið komið á öðrum tíma.
En upp úr þessu fer að draga úr loftkuldanum, þó hægt fari til að byrja með. Góðar líkur eru á umskipum um miðja vikuna með lægð úr suðvestri og lofti af suðlægum slóðum.
Veðuratburðir hér og nú | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég sendi Vegagerðinni nú síðdegis eftirfarandi texta sem sjá má á upplýsingasíðunni þar. Frekar febrúarlegur texti fyrir veðurspá þykir mér !
Veður fer versnandi almennt á Austur- og Norðausturlandi vegna snjókomubakka sem kemur inn á landið úr austri. Hann hreyfist síðan vestur með Norðurlandi í nótt. Gert er ráð fyrir að á flestum vegum frá norðanverðum Austfjörðum og norður á Húsavík verði talsverð ofanhríð fram á nóttina. Jafnframt hvasst og skyggni því mjög takmarkað. Austast á landinu hlánar þó í byggð seint í kvöld og þá með krapaslyddu. Við Eyjafjörð og þar um slóðir er vaxandi éljagangur í kvöld og víða nær samfelld hríð í nótt og fram á morgundaginn. Frá því seint í kvöld er líka gert ráð fyrir éljum eða snjómuggu í Skagafirði og Húnaþingi, þ.m.t. á Holtavörðuheiðinni sem og á Ströndum. Á Vestfjörðum verður minniháttar éljagangur og þar vægt frost alveg niður undir sjávarmáli. Aukin hríðarmugga með morgninum.
Gert kl. 20. maí kl. 15:30
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.5.): 0
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 54
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 41
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar