Síðustu tvo sólarhringa hefur verið sérlega úrkomasamt á Austfjörðum. Þannig vakti það athygli í gærmorgun að á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði mældust 118,0 mm í gærmorgun (19. maí). Sigðurður Þór Guðjónsson benti þá á að aldrei hefði fallið eins mikil sólarhrinhgsúrkoma í maí á þessu landssvæði og með meira móti á þessum árstíma á landsvísu, en maí er að jafnaði þurrasti mánuður ársins. Aftakaúrkoma er líka mun fátíðari að vorlagi og snemmsumars en á öðrum árstímum.
Í morgun var síðan komið að Neskaupstað, en kl. 09 í morgun hafði sólarhringsúrkoman mælst annars vegar 125 mm og hins vegar 99 mm. Skýringin á þessu er sú að Neskaupstaður státar af tveimur úrkomumælum. Annar er af hefðbundinni gerð staðsettur "niður á bökkunum" og er hann tæmdur hvern morgunn. Þar mældustu 99 mm. Hinn er sjálfvirkur uppi í hlíðinni í 50 metra hæð. Þar var var úrkoma sem sagt meiri eða 125 mm. Þessi munur sem vissulega er töluverður er alveg hægt að skýra með ólíkri staðsetningu þó ekki sé langt á milli þeirra. Það er vel þekkt hvað úrkomuákefð getur breyst mikið á tiltölulega stuttri vegalengd. Ekki skal heldur útiloka að ólík mælitækin og mælingatæknin eigi einhvern hlut, en nær öll úrkoman féll sem rigning og slydda í hiti um 1 til 3°C.
Þess má geta að 79 mm bættust við á Skjaldþingsstöðum í morgun. Talsvert minni úrkoma mældist annars staðar á fjörðunum, þó mest á annesjunum s.s. á Dalatanga og Desjarmýri á Borgarfirði. Á Héraði virðist úrkomumagnið aðeins hafa verið lítið brot af því sem kom í mælana niðri á fjörðum.
Kortið hér að neðan er fengið hjá Samsýn af ja.is og sýnir staðsetningu úrkomumælanna í Neskaupstað.

Veðuratburðir hér og nú | Breytt s.d. kl. 11:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.5.2011
Samanburður vorhreta
Hefur þetta gerst áður er spurning sem ég heyri í kring um mig þessa dagana og er þá vísað í kuldann vetrarríkið fyrir norðan og austan. Svarið er vitanlega já, viðlíka hret hefur oft gert áður !

Hins vegar er ekki alltaf auðvelt að bera þau saman. Á að horfa til þess hversu kalt verður eða hvort og hve víða það snjóar ? Verður kannski fannfergi á skömmum tíma, eftirminnileg ófærð o.s.frv ? Einnig skiptir máli hvenær vorsins eða jafnvel sumarsins kalda loftið úr norðri steypist yfir okkur. Svo verður að hafa í huga að fólk setur hugtakið hret oft í samhengi við tíðina næstu vikurnar á undan. Hafi verið kominn gróður og ilmur af sumri, þykir hretið kannski sérlega slæmt, þó svo að það hafi í raun verið heldur ómerkilegt. Að sama skapi þegar vorkoman er óvenju sein, þykja frostakaflar um miðjan maí varla til frásagnar. Slík tíð að vori er sem betur fer fátíð hin síðari árin. Svona mætti halda áfram.
En þá að samanburðinum. Í fyrsta lagi skulum við hafa það í huga að maí síðustu þrjú árin hafa að mestu verið lausir við vorhret. Vorkoman þótti þessi árin góð og tíð hagfelld, ólíkt því sem það var næstu árin á undan. 2007 var hreinlega kalt fyrir þennan árstíma og 2006 gerði eftirminnilegt hret a.m.k. í huga Norðlendinga þegar snjóaði sums staðar reiðinnar býsn í kring um 22. maí. Hretið 2006 var klárlega meira en nú ef við horfum til loftmassans úr norðri, kulda hans og umfang. Þá gekk kaldasta loftið hratt suður yfir og í kjölfarið hlýnaði (annað og minna kuldakast reyndar nokkrum dögum síðar). Margvíslegan sögulegan fróðleik og samanburð af kuldum í maí má sjá á nimbusi Sigurðar Þórs.
http://nimbus.blog.is/blog/nimbus/entry/1160653/ (tengin við hlekk virkaði ekki sem skyldi)
Nú aftur á móti er að sjá að þessi kalda tíð teygi sig yfir lengri tíma, eða í það minnsta 4 til 5 sólarhringa. Hámarkið verður ef af líkum lætur á laugardag. Oft koma viðburðir eins og þessi í lotum, þ.e. þeir endurtaka sig í tvö og jafnvel þrjú eða fjögur skipti með áþekkum einkennum. Ég er ekki að segja að svo þurfi á verða nú, einfaldlega að lýsa því hvernig veðráttan á það til að haga sér í takt við orðtakið gamalkunnuga að sjaldan sé ein báran stök !
Kortið er spákort af Brunni Veðurstofunnar og gildir á laugardag kl. 00 um það bil sem kaldasti kjarninn verður að renna hjá. Litaskalinn sýnir hita í hæð ( í 850 hPa) og línurnar eru svokölluð þykkt en hún er vísitala hita loftmassans.
Veðurfar á Íslandi | Breytt 20.5.2011 kl. 10:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.5.2011
Hversu kalsasamt er nú ?
Meðalhiti í maí er 6,3°C í Reykjavík og 5,5°C á Akureyri. Það hefur kólnað síðustu tvo dagana eftir ágætan veðurkafla lengst þessa mánaðar.
Þar til í dag er meðalhitinn í Reykjavík um 1,3°C yfir meðallaginu og um 0,7°C á Akureyri. Síðustu 3 ár hefur verið frekar milt í þessum vormánuði og síðast þegar hann lendi undir meðaltalinu á báðum þessum stöðum var í maí 2007. Þrátt fyrir hlýindakafla gerði talsverð hret um og eftir miðjan mánuðinn það árið. N-átt og kuldi nú eru svo sem engin frávik í veðráttunni þó alltaf sé heldur fúlt að fá ekki bara sumarkomuna beina og breiða. En þannig er það nú sjaldnast hér á landi.

Svo fremi að margboðað vorhret standi ekki í allt of marga daga á mánuðurinn engu að síðir ágæta möguleika á því að hafna réttu megin við meðaltalið þegar upp verður staðið. Sumarkoman hjá okkur er einfaldlega skrykkjótt og kalda tíðin sem í vænum er síður en svo einsdæmi á þessum árstíma. Ekki einu sinni hægt að segja að hún komi á nokkurn hátt á óvart, né að hún skeri sig úr veðráttu undangenginna áratuga.
Meðfylgjandi mynd er úr Ólafsfirði 24. maí 2006 og tekin af Svavari B. Magnússyni.
Veðuratburðir hér og nú | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2011
Ekki vor á Steingrímsfjarðarheiði
Tók út mynd af vefmyndavél Vegagerðarinnar frá því kl. 07:40 í morgun. Það er ekki beint vorlegt á heiðinni enda búið á ganga á með éljum frá því gærkvöldi. Yfirferð um myndavélar Vegagerðarinnar sýna að föl er einnig yfir nú þennan morguninn á Þröskuldum og á Bröttubrekku. Hins vegar vegurinn yfir Holtavörðuheiði auður. Einnig hafa verið él og jörð er hvít vestar, á Klettshálsi, Mikladal og á Hálfdán.
Sólin nær að bræða frá í dag, en í kvöld kólnar síðan aftur. Þá verður komin N-átt og með snjókomu eða éljagangi alveg niður undir byggð á norðanverðum Vestfjörðum.
Veðuratburðir hér og nú | Breytt s.d. kl. 08:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2011
Kólnar í vikunni
Veðurspáin gerir nú ráð fyrir tveimur aðskyldum kuldahretum. Hinu fyrra, sem er minniháttar, er spáð í nótt og í fyrramálið.
Köld lægð er á sveimi á Grænlandshafi fyrir vestan okkur. Hún er á leið til austurs yfir landið í nótt og fyrramálið. Umhverfis hana er skúra- og éljaloft. Kortið sem hér fylgir er spákort kl. 06 í fyrramálið af Brunni Veðurstofunnar. Það sýnir í raun kalda kjarnann (þykkt 500/1000 hPa) og hita í 850 hPa (um 1300 metra hæð). Kjarninn berst súðan yfir landið á morgun, en yfir daginn og þá kemur sólinn til hjálpar og hita yfirborðið. Því verður ekki svo kalt. Þó má gera ráð fyrir éljum í nótt á fjallvegunum á Vestfjörðum og einnig á Holtavörðuheiði og eins á Snæfellsnesi. Annað kvöld verður komin N-átt og þá kólnar aftur um landið norðvestan- og vestanvert. Víða mun frysta eða kólna alveg niður undir frostmark á þeim slóðum um nóttina.
Undir helgina, sennilega á föstudag er síðan spáð nokkuð eindregnu N og NA-hreti. Of snemmt er að geta sér til um vindstyrk eða úrkomuákefð með þessu, en nokkuð víst er að það mun kólna talsvert um norðan- og norðaustanvert landið. Aðdragandi þess verður í þá veru að tvær frekar en ein lægð með A- og NA-átt verða á ferðinni fyrir sunnan og austan landið. Á endanum verður dýpkun sem leiðir til þess að það opnast fyrir heimskautaloft úr norðri suður yfir landið.
Læt fylgja hér með spárit VÍ fyrir Öxnadalsheiði og af því að dæma er útlit fyrir að þar kólni með slyddu og síðar snjókomu strax á fimmtudag.
Fróðlegt verður að fylgjast með þessu, en maður var að vona í lengst lög að við mundum sleppa að mestu við vorhretin að þessu sinni. En auðvitað er það ekkert annað en óskhyggja !
12.5.2011
Hofsjökull rýrnar
Í Morgunblaðinu í dag er talsverð umfjöllun um rýrnun jökla og talað við Þorstein Þorsteinsson á Veðurstofunni. Mælingar á Hofsjökli nýverið gefa til kynna talsverða rýrnun hans. Að vísu er vetrarákoma þennan veturinn talsvert meiri en að jafnaði frá upphafi sambærilegra mælinga 1988. Þá verður að hafa í huga að ákomutímabilinu er ekki lokið og hæglega getur bætt á jöklanna ef gerir kalda tíð með úrkomu, þess vegna langt fram í júní.
Síðasta sumar var leysing með allra mesta móti og ársafkoma jökulsins nam -2,4 metrum í vatnsgildi. Það er mesta rýrnun Hofsjökuls frá því 1988. Í Sjálfu sér var ekkert tiltakanlega hlýrra en lengra leysingatímabil í fyrrasumar en t.a.m. 1991, 2003, 2004 eða 2008 sem öll voru væn sumar hvað meðalhita áhrærir. En hjá Þorsteini og félögum kemur fram að þunn öskudreif frá Eyjafjallajökil skipti sköpum. Askan drekki í sig sólarljósið og bræði frá sér í gríð og erg. Hætt er við að margir jöklar hafi tapað miklu síðasta sumar vegna þessa. Á hájöklum er askan hins vegar komin á kaf í nýrri snjó og aðeins neðantil á þeim, neðan snælínunnar kemur hún aftur í ljós eftir því sem vetrarsnjóinn leysir. Miklu skiptir fyrir afkomuna, hvað sem tíðinni að öðru leyti áhrærir í sumar að það geri vorhret með talsverðum nýjum snjó í sumarbyrjun. Mörg dæmi eru um að slík stök hret seinki upphafi leysingartímans á jöklum mikið því nýsnævi endurkastar megninu af geislum sólar. Höfum það líka hugfast að geislun sólar er mest snemma sumars (á sumarsólstöðum) og það dregur hratt úr bráðnun af hennar völdum þegar frá líður þó enn sé sumarhiti.
Á meðfylgjandi ágætri skýringarmynd sem fylgdi umfjöllun Morgunblaðsins sést að afkoma Sátujökuls er búin að vera neikvæð öll árin frá 1995. Á þeim tíma hefur Hofsjökull í heild sinni tapað um 5% af rúmmáli sínu að því að menn áætla. Við sjáum að vetrarákoman sveiflast ekki sérlega mikið og þó, hún er frá því að vera 1 til 2 metrar í vatnsgildi. Hins vegar er sumarleysingin afar sveiflukennd. Sumurin 1992 og 1993 var leysingin lítil sem engin og það réði mestu um það að búskpurinn var þá jákvæður. Fyrra sumarið gerðu eftirminnilegt norðankast um Jónsmessuna (23.-24. júní) og talsvert snjóaði þá til fjalla. Það síðara, 1993, var allt fremur svalt og að auki gerði kaldan kafla um og eftir miðjan júní með ákomu á flestum jöklum. Reyndar snjóði nokkrum sinnum í hæstu fjöll allt þetta sumar, sem er það síðasta sem kalla má að hafi verið kalt hér á landi.
Afkoma jöklanna ræðst af nokkrum þáttum en mestu skiptir vissulega ákoman, auk hita að sumri og máttur sólgeislunar til bræðslu jökulíssins.
11.5.2011
Noregur: Versti snjóflóðavetur í 25 ár.
Samantekt um fjölda látinna í snjóflóðum í Noregi leiðir í ljós að alls biðu 13 manns bana í snjóflóðum víðsvegar um landið í vetur.
Flóð féll á hús í Balestrand í Sogni í mars og fórust tveir í því óhappi. Þá lenti snjómoksturstæki í flóði syðst í Noregi fyrr í vetur og með þeim afleiðingum að ökumaðurinn lést. Í öllum hinum tilvikunum var um fólk að ræða á skíðum eða vélsleðum í 9 óskyldum óhöppum. Haft er eftir þeim Karsten Lied og Steinar Bakkehöj á frétt á yr.no að þeir hafi ekki séð jafn ljótar tölur frá því veturinn 1985-1986 þegar 14 hermenn lentu í flóði við æfingar í N-Noregi. Þeir Lied og Bakkehöj eru Íslendingum af góðu kunnir og voru hér ráðgjafar stjórnvalda við varnir gegn snjóflóðum í kjölfar stórflóðanna 1995. Þeir störfuðu báðir á NGI (Norsk geoteknisk Institut), en eru nú komnir á eftirlaun. Á NGI starfar nú Árni Jónsson snjóflóðasérfræðingur og miðað við þessar óhugnalegu tölur eru verkefnin væntanlega næg hjá Árna og félögum.
Fólk er enn að lenda í flóðum og um síðustu helgi var þremur bjargað úr snjóflóði norður í Tromsfylki. Menn hafa miklar áhyggjur af ferðalögum fólks yfir vetrartímann og sækja skíðamenn hærra upp í fjöllin. Eins er það með fólk á vélsleðum sem fer lengra inn í óbyggðirnar og tekur meiri áhættu hvað varðar ótrygg snjóalög oft þvert á viðvaranir.
Ljósm: yr.no / Vebjørn Karlsen
8.5.2011
16,4°C í Reykjavík í dag 8. maí
Þau eru eiginlega alveg ótrúleg umskiptin í veðrinu suðvestanlands á aðeins einni viku. Síðasta sunnudag, 1. maí var meðalhiti þess dags í Reykjavík +1,5°C og álíka hiti hafði verið dagana á undan. Alls ekkert þá sem minnti á vorkomu, nema dagur í almanakinu. Svo ekki sé nú talað um snævi þakta jörðina þann morgunn. Um nóttina fóru yfir hitaskil og strax 2. maí tók að hlýna.
Dagana 2. til 8. maí hefur meðalhitinn verið um 8,5°C. Það er svona álíka og gera má ráð fyrir seint í maí eða byrjun júní. Um miðja vikuna sá maður eiginlega grasið grænka í görðum og í hitanum í dag gerðist það sama með knúpa ýmissa trjátegunda, sem tútnuðu út forsælu. Gróðurfarið er einfaldlega á fullu við að hrista af sér vetrardrómann frá síðustu viku og koma sér í sumarskrúða. Ég man ekki eftir örðum eins umskiptum og jafn "meginlandslegri" vorkomu hér suðvestanlands og nú. En það getur svo sem átt eftir að slá í bakseglin ef gerir norðankast ef einhverri sortinni eins og oft sést í þessum mánuði.
En í Reykjavík komst hitinn í 16,4°C í dag og hæsta gildi á landsvísu var 18,4°C á Þingvöllum. Nær þó ekki því þegar fór í rúmlega 20 gráður á Skjaldþingsstöðum svo snemma sem 9. apríl eða fyrir réttum mánuði !
Ljósm: Nauthólsvík í dag. visir.is/Vilhelm
Veðuratburðir hér og nú | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2011
Af sjaldséðum kuldametum
Á sama tíma og vestur Evrópubúar stæra sig af hitametum í apríl berast fregnir af sjaldséðum kuldametum frá Grænlandi. Það á til dæmis við um stöðina Qaanaaq í norðveturhlutanum þar sem aprílhitinn endaði í -18,5°C og hefur aldrei verið lægri. Mælingasagan þar er hins vegar ekki ýkja löng. Sunnar eða í Kangerlussuaq sem við þekkjum betur með danska heitinu Syðristraumsfjörður er búið að mæla mun lengur. Þar var einnig um kuldamet að ræða, aprílhitinn -15,9°C þegar meðalhtinn er -7,8°C. Læt lesendum um að reikna frávikið !
Það er vel þekkt andspæni hitafarsins á Grænlandi, einkum V-Grænlandi og Evrópu. Það verður í tengslum við Norðuratlantshafssveifluna (NAO) sem var í sérlega ákveðnum jákvæðum fasa í apríl.
Í Danmörku var hitinn þannig 4,2°C yfir meðalhitanum. Sænska veðurstofan (SMHI) hefur gefið út meðfylgjandi frávikakort fyrir jörðina alla. Þar kemur umrædd tvípólun vel fram, kalt frávik við Grænland og hlýtt yfir allra V-Evrópu. Takið eftir Íslandi í þessu sambandi. Austurhluti landsins tilheyrði Evrópu í þessu tilliti með sínum möru mjög mildum dögum. Vesturhlutinn var hins vegar meira undir áhrifum kuldans í vestri, jafnvel þó svo að meðalhitinn hafi alls ekki verið svo lágur. Meira að kuldinn í háloftunum hér í vestri hafi mótað veður á marga lundu og því meir eftir því sem vestar dró á landinu.
Hitinn var þetta 3 til 5°C yfir meðaltalinu víðast íVestur- og Mið-Evrópu og SMHI bendir m.a. á að 23. apríl hafi mælst tæplega 30°C svo norðarlega sem í Belgíu. Slíkt þykir næsta fáheyrt þetta snemma vor/sumars.
Lítið þýðir að bera saman tölur um meðalvind í Reykjavík vegna aukningar byggðar sem hefur veruleg áhrif á vindafar.
Hins vegar tók ég mig til og skoðaði Keflavíkurflugvöll þar sem breytingar í þessa veru eru fremur litlar undanfarna áratugi. Einhverjar breytingar hafa orðið í byggingamagni, flugskýlum og þess háttar, en lítið fer fyrir skógargróðrinum sem brýtur upp og hægir á vindinum á þeim slóðum.
Meðalvindur miðað við mælingar á 3 klst. fresti reyndist á Keflavíkurflugvelli vera 9,14 m/s. Það gildi er það mesta frá upphafi vindmælinga þar árið 1953. Næst kemst einmitt það ár, eða apríl 1953 með 8,7 m/s. Trausti gerir þennan mánuð að sérstöku umtalsefni fyrir vind og önnur veðurleiðindi.
6,6 m/s er meðalvindur apríl á þessum stað. Þessi mikli meðalvindur síðasta apríl þætti alveg ágætur um hávetur. Ég hef reyndar ekki viðurkenndan samanburð við síðustu tvo mánuði (feb og mars 2011), en af þeim slepptum þarf að fara aftur til nóvember 2006 til að finna sambærilega meðalveðurhæð.
Meira að segja í þeim stormamánuði sem var í desember 2007, var ekki svo hvasst sem í nýliðnum apríl að jafnaði !
En sem betur fer hefur lægt og vindur orðinn hægur þessa fyrstu maídaga og jafnframt blíður sem á besta vori.
Ljósm. Mats Wibe Lund
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (29.5.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 39
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 35
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar