Lítur út fyrir ágætisveður um hvítasunnuhelgina svona heilt yfir. Í það minnsta eru mestu ótíðinni að ljúka og það hlýnar nokkuð, en varla meira en svo að verði nærri meðallagi árstímans og kannski tæplega það meira að segja.
Föstudagur 10. júní:
Lægðardrag yfir landinu og hér fyrir austan, en því fylgir samt sem áður hvorki mikið að skýjum né úrkoma. Þó þungbúið á Vestfjörðum þó þar lagist mikið þegar líður á daginn og eins skúrir á Suðurlandi, einkum síðdegis. Veður vera klárlega hlýnandi, ekki síst til fjalla norðanlands og austan. Hitinn í sólinni allt að 10 til 12 yfir daginn. Utan Vestfjarða þar sem reikna má með NA 8-12 m/s verður vindurvíðast mjög hægur á landinu.
Laugardagur 11. júní:
Spáð er heldur ákveðnari A- og ANA-átt og allt að 10-15 m/s um landið vestan- og suðvestanvert. Mun hægara austantil. Enn hlýnandi og 11 til 14 stiga hita vestantil á landinu og eins í uppsveitum Suðurlands. Hins vegar svalara við sjóinn norðan- og austantil. Þrátt fyrir óhagstæða vindátt þar verður engu að síður að mestu þurrt og meira að segja sólríkt.
Sunnudagur 12. júní:
Ágætis veður framan af degi, en síðan er spáð rigningu norðaustanlands og síðar norðanlands um leið og úrkomusvæði kemur af hafi. Hinsvegar þurrt og sæmilega bjart sunnan- og suðvestanlands og þar 11 til 14 stiga hiti. Vindáttin verður NA-læg, en ekki er útlit fyrir veðurhæð af neinu ráði.
Mánudagur 13. júní:
Svipað veður, NA-lægur vindur, og fremur vætusamt og svalt norðan- og norðaustantil á meðan líkur eru á sól syðra. Heldur svalara aftur á landinu.
Tíðin lætur ekki að sér hæða, þó kominn sé 9. júní. Lægðardrag er fyrir austan land og með því úrkomusvæði sem kemur inn á norðaustanvert landið og áfram til vesturs með Norðurlandi og yfir Vestfirði í kvöld og nótt.
Það mun gera væna ofanhríð með þessu á fjallvegum norðaustanlands og síðar norðanlands. Eftirfarandi spá sendi ég á Vegagerðina fyrr í morgun:
"Um leið og hvessir smám saman af norðri má gera ráð fyrir talsverðu hríðarveðri í dag á fjallvegum norðaustanlands, s.s. á Möðrudalsöræfum, Vopnafjarðarheiði, Fjarðarheiði og á Oddsskarði. Eins éljagangur verður á Víkurskarði og á Öxnadalsheiði. Á þessum slóðum má reikna með slyddu og þá með krapa á vegum allt niður undir byggð. Ætla má að veðri gangi niður austast á landinu seint í kvöld og þá hlýnar jafnframt nokkuð."
Það er lán í óláni að mesta úrkoman skul vera að deginum, en ekki að næturlagi. Þá hefði vafalaust snjóað alveg niður undir sjávarmál með þessu.
Góðu tíðindin eru hins vegar þau að handan þessa úrkomusvæðis er talsvert mildara loft sem tekur hér við á morgun.
Spákortið er fengið af Brunni Veðurstofunnar, HIRLAM og gildir kl. 18 í dag.
Veðuratburðir hér og nú | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.6.2011
Næturfrost aðra nóttina í röð !
Liðna nótt var ekki fullt eins mikið frost og þá síðustu (aðfarnítt 7. júní) og heldur ekki eins víðtækt á landinu. Mest í byggð mældust -5,0°C á Haugi í Miðfirði, en almennt séð virðist sem hitinn hafi farið niður fyrir frostmark um nánast allt Húnaþing og eins mjög víða í Skagafirði. Ástandið var betra austantil á Norðurlandi samanborðið við fyrrinótt þegar næturfrost voru víðast hvar. Þó náði að frysta á stöðum eins og Ásbyrgi, Raufarhöfn og síðan ofan eins og við Mývatn.
Á Egilsstöðum og eins á Seyðisfirði féll mælirinn rétt niður fyrir núllið um lágnættið og einnig í Skaftafelli. Suðurland slapp hins vegar betur þessa nóttina og hjálpaði smávægileg vindgjóla þar til.
Enn verður kalt í lofti fram á föstudag, og hætt við næturfrostum. Vindur er þó ákveðnari (N-átt), meiri blöndun loftsins við jörð og minni líkur fyrir vikið á næturfrosti svona heilt yfir.
Ekki kæmi mér á óvart að ýmsar ræktaðar nytjaplöntur þoli illa þessa tíð og sérstaklega þar sem verið hefur að gera þetta 3 til 5 stiga frost. Höfum líka í huga að kuldinn verður enn meiri í grashæð en þessari 2ja m hæð þar sem mælarnir eru staðsettir. Fróðlegt væri að heyra hér frá ræktendum byggs eða repju. Reyndar eru mörg þeirra afbrigða frostþolin (vetrarafbrigðin). Flest sumarblóm þola almennt séð frost afar illa, en fjölærar plöntur betur. Kartöflugras er sennilega óvíða farið að sjást enn í þessari tíð þó löngu sé búið að sá. En í það minnsta getur þessi snemmsumarkulda alls ekki talist hagfelldur fyrir gróður. Meira að segja lúpínan virkar hálf ræfilsleg og eins og hún hafi beðið með blómgun þar til fer að hlýna, þrátt fyrir allt sólskinið sem sú planta er svo elsk að.
Veðuratburðir hér og nú | Breytt s.d. kl. 11:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.6.2011
Snjóflóð í Svarfaðardal

Nei, nei, þrátt fyrir kalsasama tíð er hér ekki verið að greina frá því að snjóflóð hafi falið í Svarfaðardal, heldur kynnti Sveinn Brynjólfsson meistaraverkefni sitt við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands. Það fjallar um áhrif veðurs og landslags á snjóflóð í Svarfaðardal og nágreinni, eðli þeirra og umfang.
Sveinn er einn þeirra manna hér á landi sem hefur ótakmarkaðan áhuga á snjó og öllu sem honum viðkemur. Kynning Sveins í dag var óvenjulega vel sótt og verkefni hans er má segja þríþætt. Í fyrsta lagi að kortleggja snjóflóðahættu í Svarfaðardal og Skíðadal frá bæ til bæjar. Í annan stað setti hann út fjölda úrkomumæla í heilt sumar til að kanna breytileika úrkomunnar eftir landslagi. Niðurstaða þeirrar rannsóknar sýni svo ekki verður um villst að úrkoma við veginn út í Ólafsfjaðarmúla er oft margföld á við það sem hún er meiðsveitis í Svarfaðardalnum Í NA-átt. Eins er ótrúlega skúrasælt (að sumarlagi) í SV-átt í framdölum. Í þriðja lagi skoðaði Sveinn og bar saman úrkomumælingar í Ólafsfirði við þekkt snjóflóð á veginn í Ólafsfjarðarmúla. Rannsóknin leiðir í ljós að þegar sólarhringsúrkoma nær a.m.k. 20 mm í Ólafsfirði eru yfir helmingslíkur (~ 60%) á snjóflóði í einhverjum flóðafarvegi Múlans. Yfirgripsmikill snjóflóðaannáll fylgdi verkefninu frá 2006 og var Sveinn með fjölda manna á sínum snærum við vöktun og mælingar á snjóflóðunum.
Í umsögn minni sem prófdómari þessa umfangsmikla meistaraverkefnis lét ég þess getið að höfundur hefði bæði djúpa þekkingu og gott innsæi á ofanflóðahættu í Svarfaðardal og nágrenni.
Nota þetta tækifæri til að óska honum til hamingju með áhugavert verkefni sem getur af sér nýja þekkingu.
Á myndinni eru auk hans, Haraldur Ólafsson leiðbeinandi. Hinn leiðbeinandinn var Tómas Jóhannesson.
Vísindi og fræði | Breytt 8.6.2011 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.6.2011
Alls enginn sumarhiti !
Yfir okkur er þrálátur og leiðinda kuldi. Illa gengur að losna við þennan kalda kjarna háloftanna sem hringsólað hefur við landið undanfarna daga og vikur.
Í dag var frostmarkshæðin samkvæmt mælingu yfir Keflavík um 650 metrar eða svipuð og að undanförnu. Sterk júnísólin nær vart að hita loftið við yfrborð meira en sem nemur 10°C þegar best lætur og í Heiðmörk síðdegis gerði meira að segja smáél. Nú í kvöld sýnir mælir á Fjarðarheiðinni fyrir austan -4°C og það í vel blönduðu lofti (ekki hitahvarf við jörðu) !.
En hvænær linnir þessu ? Lofthitinn kemur ekki til með að hækka fyrr en frostmarkshæðin kemst upp fyrir 1.000 metra hæð og helst upp í um 1.300 til 1.400 metra hæð. Reiknaðar veðurspár gera ekki ráð fyrir slíku næstu dagana. Að vísu sækir að okkur mildara loft úr flestum áttum undir helgi, meira að segja úr norðaustri. Á meðan Evrópska spáin (ECMWF) gerir ráð fyrir því að það nái að hlýna nokkuð á sunnudag (12. júní) með A-átt, reiknar sú Bandaríska (GFS) með því að það milda loft fari hjá fyrir norðan land og við sitjum áfram í svalanum a.m.k. vel fram í næstu viku.
Reikningar daglegu veðurspánna eru talsvert óstöðugir um þessar mundir. Nokkuð var látið með spá um góðviðri og miklar breytingar nú fyrir helgi og gengu þær ekki eftir. Það er eins og sæki sífellt í sama farið. Slíkt er líka háttalag veðráttunnar að viðhalda ákveðnu veðurlagi þar til truflun í bylgjurófi háloftarastarinnar kollvarpar ástandinu og færir okkur breytt veðurlag. Í dag er fátt sem bendir til þess að þess háttar bylgjubrot eða bylgjuvíxl sé yfirvofandi næstu dagana.
Spákortið gildir á fimmtudag (9. júní) kl. 12 og er spá EcMWF. Fengið af vef wetterzentrale.de
6.6.2011
Komið í Nesbyen
Ég hef verið á ferðalagi um Noreg síðustu vikuna eða svo. Á ferð um Hallingdal norðvestur af Osló gat ég ekki látið hjá líðast að koma við í Nesbyen. Sá staður er fyrir Norðmenn eins og Teigarhorn okkar Íslendinga, því Nesbyen á hitametið í Noregi sem er 35,6°C. Sá hiti mældist 20. júní 1970 í sannkallaðri hitabylgju sem um það leyti ríkti um sunnanverða Skandinavíu, einnig í Danmörku og suður um Þýskaland. Takið eftir að líkt og hjá okkur er metið norska sett um það leyti sem sól er hæst á lofti og dagurinn lengstur. Sama átti við á Teigarhorni 1939 þegar hitinn þar mældist 30,5°C. Þetta með sólarhæðina skiptir máli, því allt þarf helst að leggjast saman fyrir landsmet af þessum toga. Þannig dugar sjaldnast það eitt til að hafa mjög hlýjan loftmassa og hagstæða vindátt. Meira þarf til.
Eins og sést á myndinni hefur byggðasafnið í Nesbyen stillt upp hitamælaskýlinu þar sem hitinn var mældur þennan júnúdag fyrir meira en 40 árum framan við safnið. Þrátt fyrir talsverða leit tókst mér ekki að finna veðurstöðina í þessum fallega bæ, sem einkennist svo af meginlandsloftslagi. Hæsti hiti dagsins mælist ekki svo ósjaldan i Nesbyen að sumrinu, en þar er líka stillt og kalt á veturna. Lægsti mældi hitinn er -38,0°C. Sú tala er okkur kunnugleg í samhengi kuldmeta hér á landi !
Þess má geta að Íslendingafélagið í Osló á snoturt hús um 30 km neðar í Hallingdal, við Norefjell (í austurjaðrinum á kortinu að ofan). Þar er einnig ágætis skíðasvæði á vetrum.
31.5.2011
Sveiflukenndur maí, en yfir meðallagi
Merkilegt nokk þá virðist þessi maímánuður ekki ætla að marka nein sérstök spor í veðurfarssögunni. Þrátt fyrir alvöru kuldakast í yfir vikutíma eftir miðjan mánuðinn verður hitinn yfir meðallagi víðast hvar á landinu (kannski síst um norðvestanvert landið). Þökk sé hagstæðari tíð framan af eða frá um 2. maí fram yfir þ. 15. Ef sá góði kafli hefði ekki komið væri mánuðirinn að öllum líkindum í slöku meðallagi.
Í Reykjavík stefnir í um 0,5°C yfir meðallag mánaðrins og á Akureyri um 1,0°C yfir maímeðaltalinu 1961-1990. Ágætt það. Það sem vekur kannski meiri athygli er úrkoman, en þegar dagur er eftir í mælingum hefur hún reynst vera meiri á Akureyri en í Reykjavík. 55 mm (tvöföld) á móti 53 mm í Rvk. En það sem meira er að um helmingur mánaðarúrkomunnar í Reykjavík féll fyrsta daginn (25 mm að morgni 1. maí) og þótti það ansi mikið. Sumir eru e.t.b. nú þegar búnir að gleyma lausamjöllinni í Höfuðborginni að morgni þess dags. Hann féll reyndar að miklu leyti fyrir miðnætti, þ.e. í apríl, en telst samt til maí skv. reglunum um skiptingar á milli mánaða í úrkomu.
Á Akureyri kom megnið af úrkomunni hins vegar í þremur slumpum um miðbik maí mánaðar.
Júgurský er fremur fátíð skýjamyndun og hana má einna helst sjá í hitabeltinu eða undir öflugum skúraskýjum mun hlýrri svæða en á norðurhjara okkar slóða. Júgurský er íslensk þýðing á mammatuscumulus eða cumulus mammatus. Ský sem þessi geta stundum verið fyrirboði skýstróka í Bandaríkjunum.
Segja má einmitt með réttu að gosmökkur sprengigoss hafi ýmislegt sammerkt með öflugustu skúraklökkum þar sem uppstreymið er er knúið áfram af hitagjafa við yfirborð.
Myndina tók Óðinn Eymundsson frá Hornafiði kl. 20:50 kvöldið sem gosið hófst laugardaginn 21. maí. Sér til vesturs, yfir Heinabergsjökul og dökkleit eða brúnleit skýin í á að giska 2000 metra hæð bera það með sér að þau innihalda annað og meira en eingöngu vatn.
Það er eitt einkenni júguskýja að þau myndast gjarnan þegar uppstreymið nær ekki að rjúfa sér leið sig upp í gegn um hitahvarf eða stöðugt loftlag. Nær ekki að lyfta lokinu ef svo má að orði komast. Þess í stað berst rakt loftið lárétt undir hitahvarfinu. Nú er það svo að kraftur eldgossins var þvílíkur í fyrstu, að gufa og gosefni þeyttust upp í allt að 20 km hæð á fyrstu klukkustundum gossins. Veðrahvörfin í um 9 km hæð voru því engin raunveruleg fyrirstaða né heldur veigaminni hvörf sem finna mátti í nokkuð óvenjulega lagskiptu loftinu yfir landinu þetta kvöld. Í jöðrum gosmakkarins var uppstreymið hins vegar ekki nægjanlega öflugt til að brjóta sér leið upp og því tók vatnsgufa ásamt gosefnum að streyma til hliðanna í einhverjum mæli og eru skýjamyndanirnar yfir Heinabergsjökli til marks um það.
Trausti Jónsson fjallaði um ský og skýjamyndanir í og við gosmekki á dögunum og þar sýndi hann mynd sem ég leyfi mér að birta til frekari skýringar á þessu merkilega fyrirbæri. Í þeim aragrúa ljósmynda sem birtust í fjölmiðlum og á vefsvæðum sá ég a.m.k. eina sem tekin var úr vestri þar sem júgurský voru greinileg hærra uppi, sennilega undir veðrahvörfunum í 8-9 km hæð.
Það einkennir júgurský að myndun þeirra verður vart nema að saman fari mjög mikill lóðétt breyting hita, einnig raka og vindsins (einkum vindáttar með hæð). Allir þessir þættir eru til staðar á sama tíma við gosmökk hér á landi.
Fallegar myndir | Breytt 30.5.2011 kl. 16:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
27.5.2011
Bannvænir skýstrókar í Bandaríkjunum
Talið er að um 1.200 skýstrókar hafi látið til sín taka í Bandaríkjunum í ár (2011) og 4 þeirra hafa flokkast í efsta flokki Fujita-kvarðans eða í EF-5. Öflugustu skýstrókarnir valda yfirleitt manntjóni þegar þeir fara yfir byggð svæði, nú síðast í Joplin í Missouri fylki þar sem a.m.k. 125 manns fórust sl. sunnudag. Seint í apríl gekk fjöldi skýstróka yfir í Alabama með miklu manntjóni og fyrr í mánuðinum í Kansas. Ætla má að þegar hafi um 500 manns látið lífið í þessum náttúruhamförum og eyðileggingin er vitanlega gríðarleg. Skýstrókar herjuðu á Sléttunum í miklum mæli árið 1953. Þá var manntjón enn meira en nú. Tornados eða skýstrókar eru án efa mannskæðustu veðurkerfin eða veðurfyrirbærin sem um getur.
Skýstrókar eru engin venjulega veðurfyrirbæri og síður en svo auðskilin. Þeir fylgja oftast ofur-skúraskýjum (e.supercells) sem myndast við samspil á mjög hlýju og röku lofti af hafi úr suðri og háloftakulda úr norðri í lok vetrar. Þess vegna er tíðni öflugra skýstróka mest í apríl og maí. Vegna þess hvað skýstrókar eru litlir um sig samanborið við önnur veðurkerfi gengur fremur illa að spá þeim, en betur með líkindaspám út frá staðsetningu þessar ofur-skúraskýja. En oft eru þá stór landsvæði undir í einu.
Hér er mynd sem ég tók að láni héðan. Á þessari síðu er að hafa ýmsan fróðleik um skýstróka í Bandaríkjunum á myndrænan og auðskilin hátt fyrir þá sem tök hafa á enskunni.
Það sem á sér stað þegar skýstrókur nær til jarðar er eftirfarandi:
1. Hlýtt og rakt loft rís frá jörðu og dregst inn í stórt skúraskýið.
2. Snúningur vindáttar og breyting á vindhraða leiðir til þess að uppstreymið verður kröftugt í spírallaga brautum sem myndar sveip inni í skýjakerfinu miðju.
3. Trekt myndast undir sveipnum þ.e. skýstrókurinn sjálfur og nær til jarðar.
4. Loftið í trektinni snýst á ógnarhraða til að keyra upp loft sem sveipurinn ofar sogar til sín.
Takið eftir því hvernig hlýtt loft neðantil og kaldara ofar koma við sögu og samspilið þarna á milli knýr uppstreymið.
Það hefur verið talsverð umræða um það vestur í Bandaríkjunum að La-Nina sveiflan í Kyrrahafinu sé sökudólgurinn að þessar miklu skýstrókavirkni í vor. Sýnist sitt hverjum og bent hefur verið á að þó La-Nina sveiflan hafi verið öflug fyrr í vetur lauk útslagi hennar nokkuð skyndilega um og upp úr áramótunum. Engu að síður er talið að stóra lofthringrásin á norðuhveli mótist enn af öflugum La-Nina frá því snemma í vetur. Sjálfur tel ég t.a.m. að þrálátur kuldinn úr vestri hér á landi tengist að einhverju leyti þessaria umtöluðu sveiflu í Kyrrahafinu. Hvða þá í N-Ameríku sem er nær beinu áhrifasvæði La-Nina / El-Nino sveiflunnar.
En álitið er að mikil skýstrókavirkni megi einkum rekja til þriggja þátta sem eru þó samhangandi að sumu leyti:
- La-Nina fyrr í vetur, veldur því að vestanverður skotvindurinn (e.jet stream) í háloftunum liggur heldur sunnar en að jafnaði. Eykur hitamun N/S á Sléttunum miklu og þar í grennd.
- Mikill snjór í vetur langt til suðurs í Mið-vesturfylkjunum hefur gert það að verkum að loftið í neðri lögum er fyrir vikið kaldara fram á vorið en það væri annars. (Snjóþyngslin tengjast La-Nina).
- Yfirborðshiti í Mexíkóflóa er um 1.0 - 1.5°C hærri en venjulega. Hlýindin með tilheyrandi raka úr suðri virka sem olía á eld óstöðugleikans í loftinu norðar þar sem það kemst í návígi við kalda loftið í norðri.
Eldra innslag frá mér um svipuð mál hér.
Einnig svar Haraldar Ólafssonar sem komið er til ára sinna á Vísindavefnum.
Lengri greinar úr ýmsum áttum | Breytt s.d. kl. 10:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.5.2011
Helgarhorfur 27. til 29. maí

Allar líkur eru á að helgin verði fremur vætusöm, sérstaklega um landið austanvert. Það hlýnar heldur á morgun föstudag, annars leyfir ekkert af hitanum á landinu. Vætan er kærkomin suðaustanlands, en austan- og norðaustantil hefur úrkoma upp á síðkastið verið gríðarlega mikil og í sjálfu sér vantar þar ekki vatn. Hins vegar tekur upp snjó í fjöllum og líklega verða ár og lækir með fjörugra móti.
Annars verður þetta svona í stórum dráttum:
Föstudagur 27. maí:
Lægð verður upp í landsteinunum og skil með úrkomu á leið austur yfir landið. Talsverð rigning suðaustanlands um miðjan daginn og dálítil rigning í flestum landshlutum. Víða rofar þó til vestan- og suðvestantil þegar kemur fram á daginn og sólin skín. Þó verða menn þar ekki alveg lausir við einhverjar skúraleiðingar þar með lægarmiðjuna þetta nærri. SA-átt, strekkingsvindur norðaustanlands, en annars fremur hægur vindur. Hiti þetta 7 til 12 stig þar sem best lætur.
Laugardagur 28. maí:
Þungbúið austan- og norðaustanlands og þar dálítil rigning eða suddi meira og minna allan daginn. Annars verður veður mun skaplegra og sólon ætti að ná að skína, a.m.k. annað veifið vestanlands og eins vestantil á Norðurlandi. Hiti þar alltað 11 til 13 stig þegar best lætur. Rigningarskúrir sunnanlands og undir kvöld einnig suðvestanlands. Á Vestfjörðum er útlit fyrir strekkings vind af NA, en þó gæti hann haldist að mestu þurr á þeim slóðum.
Sunnudagur 29. maí:
Lægð er spáð til austurs fyrir sunnan land og þá hallar vindur sér smám saman til norðausturs og verður strekkingsvindur víða um land þegar líður á daginn. Ekki þó á Höfuðborgarsvæðinu og eins í Vestmannaeyjum sem njóta skjóls í þessari vindátt. Suðvestantil er útlit fyrir að nokkuð bjart verði, dálítil væta suðaustantil og talsverð rigning á Austurlandi og norðaustanlands. Þar fer kólnandi um kvöldið og líkur eru á snókomu til fjalla um landið norðaustanvert.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.5.): 3
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 56
- Frá upphafi: 1790428
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 44
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar