1. mars 2010 - fegurð úr lofti

Það er Veðurstofan sem réttir af og sker þessa sérlega fallegu MODIS-mynd kl. 13:40.

Snjór er yfir stórum hluta landsins. Athyglisverð er "skellan" yfir Fljótshlíðinni eða þar um slóðir og snjóleysið er áfram til norðvesturs lengst upp á Biskupstungnaafrétt.

 

100301_1340.jpg


Illviðrið í Frakklandi í gær - manntjón af gáleysi

_47398206_008870902-1.jpgStormurinn illskeytti sem gekk yfir Frakkland, Niðurlönd og N-Þýskaland í gær hefur ekki fengið mikla umfjöllun hér á landi þrátt fyrir meira manntjón af völdum óveðurs en mig rekur minni til síðustu árin a.m.k.  Sjónir manna beinast eðlilega kannski að skjálftanum risastóra við Chile.

Látum vera að milljón manns hafi orðið fyri rafmagnsleysi, líka þó hús og eignir hafi skemmst í veðurofsanum, en að um 50 manns skuli láta lífið beinlínis vegna veðursins er mikið og krefst þess að málin séu skoðuð ofan í kjölinn.  Lægðin sem óveðrinu olli reyndist sérlega illskeytt.  Sjá má á meðfylgjandi korti af BBC hver ferill lægðarinnar var.  Miðjan var yfir norðvestanverðum Iberíuskaganum síðdegis á laugardag (27. feb) og tók síðan strikið yfir norðaustanverðan Biscayaflóa um leið og hún dýpkaði.  Veðurkortið sem fengið er af Brunni Veðurstofunnar sýnir ástand mála kl. 03 aðfaranótt sunnudags.  Lægðin var um 970 hPa, ekki svo djúp, en hún var mjög kröpp.  Sérstaklega er SV-vindröstin sunnan lægðarmiðjunnar skeinuhætt.  Kjarni vindsins þar fór yfir hið fagra hérað Vendee og með fylgdi allt að 8 m ölduhæð. 

_47391564_xynthia_storm_path_466.gifFlestir þeir sem létust bjuggu í strandbænum L'Aiguillon-sur-Mer í Vendee.  Eftir því sem ég kemst næst æddi flóðbylgja yfir sjóvarnargarð sem þarna er og yfir hjólhýsabyggð handan hans.  En garðurinn sem vernda á íbúanna fyrir ágangi sjávar er víst frá tímum Napóleons og yfirvöld hafa lengi gert sér grein fyrir því að hann þyrfti að styrkja og hækka. Helst að færa hann jafnframt lengra upp á land, en sú ráðstöfun mundi fórna eftirsóttri ströndinni.  Þetta er klassískt álitamál í skipulagi strandhéraða sem vinsæl eru hjá ferðafólki, einkum að sumarlagi.  Íbúar Vendee  eru ómyrkir í máli í fjölmiðlum í dag og saka stjórnvöld um fyrirhyggjuleysi.

picture_31_966128.pngEn hvað með veðurspár ?  Af hverju voru strendurnar ekki rýmdar ef hætta var á öldugangi og hárra sjávarstöðu ? Alla þessi þætti á að vera hægt að sjá fyrir í dag.  Spákortið hér er dönsk útgáfa úr HIRLAM spákerfinu.  Reiknuð sólarhringsspá gerði ráð fyrir þessari þróun, nánast í smáatriðum. Ef eitthvað að þá var lægðin spáð dýpri en reyndin varð síðan.

Ekki er að efa að veðrinu var spáð, en hvað þá með viðvaranir til fólks svo ekki sé talað um viðbragðsáætlanir.  Við fyrstu sýn virðist þessi mál hafa verið í algjöru skötulíki hjá Frökkum og hægt hefði verið að koma í veg fyrir flest þessara dauðsfalla.    


Næsta skot hér suðvestanlands á morgun

Flest bendir nú til þess að í fyrramálið geri ofanhríð og kóf um suðvestanvert landið.  Þökk því að það skuli vera laugardagur !

Fyrir suðvestan land eru nú að ganga í samkrull heimskautalægð (sem kemur úr norðvestri) og önnur smálægð að venjubundnari gerð.  Þær sameinaðar stefna beint hingað til lands þegar kemur fram á morgundaginn.  Vindáttin verður ASA eða svo og víða 10-15 m/s.  Á Reykjanesi, Höfuðborgarsvæðinu fer að hríða á milli kl. 06 og 09 í fyrramálið og það gæti orðið talsvert kóf.  Eins á Suðurlandi frá því fyrr um morguninn.  Þessu fylgir hlýrra loft og hægt verður að tala um hitaskil.  Í kring um Vík mun hlána um kl. 09 í fyrramálið á þeim slóðum sem og með suðurströndinni verður hitinn um +4°C síðdegis og komin rigning á láglendi.  Hins vegar er allt útlit fyrir að það nái ekki að hlána vestar, a.m.k. ekki fyrsta kastið.  Jafnvel gæti það farið svo að þessi skil lægju meira og minna yfir vestanverðu landinu meira og minna á morgun. 

Dundeemynd 26.feb 2010 kl. 14:48Myndin er fengin af vef Dundee og er frá kl. 14:38. Heimskautalægðin suðvestur af Reykjanesi er greinileg sem og hitaskilin austar.  Allt stefnir þetta nú til okkar.

 


Snjódýptin 100 sm í Vík

100226_0900.gifSnjódýpt var metin og mæld á veðurathugunarstöðvunum Veðurstofunnar í morgun.  Í Vík í Mýrdal var hún álitin vera 100 sm eða eins meters jafnfallinn snjór.  Í gær þegar ofankoma var sem áköfust var vindur um og yfir 10-12 m/s.  Ekki svo hvasst en nægur vindur engu að síður til að feykja í skafla.  Athygli vekur að úrkoma síðasta sólarhring mældist ekki nema 10 mm.  Það er hvorki í samræmi við snjódýptina né heldur það fannfergi sem nú er í Mýrdalnum.  Það er líka alþekkt vandamálið sem fylgir úrkomumælingum í snjókomu og skafrenningi.

Mælingamanni í Vík hefur verið vandi á höndum við að meta jafnfallinn snjó, en engin ástæða er til þess að rengja mælinguna á nokkurn hátt.  Snjóþyngsli eru mikil í Vík og þar í kring. Á Stórhöfða er snjódýptin aftur á móti ekki nema 15 sm.  Pálmi Freyr Óskarsson veðurathugunarmaður sagði hér í nótt að skafið hefði af Höfðanum í rokinu í gær og lítill sest þar til að snjónum.

picture_28_964622.pngVið sjáum líka á þessu landsyfirliti að við Skeiðsfoss í Fljótum er mæld snjódýpt 85 sm.  Þar hefur verið að bæta á snjóinn jafnt og þétt síðustu 10-12 dagana.  

Meira um snjódýptarmælingar, vandkvæði þeirra og skráð met frá Skeiðsfossi 1995 má lesa í pistli Trausta Jónassonar.


...djúpt í í kalda loftinu.

hirlam_jetstream_2010022512_00.gifÁstæða þess hversu vetrarlegt er nú á landinu er ekki bara árstíminn eða almakið eins og einhverjir myndu segja, heldur það hvað Ísland liggur nú djúpt inni í heimskautaloftinu.

Eins og gert var að umtalsefni í gær að jafnvel suðaustanáttin ber með sér frost að syðsta hluta landsins. Þessu ástandi verður ágætlega lýst með því einfaldlega að líta til þess hvað er að gerast hátt uppi í veðrahvolfinu í 8 til 9 km hæð.  Skotvindurinn þarna uppi sem markar skil á milli heittempraða loftsins í suðri og heimskautaloftsins í norðri liggur mjög sunnarlega um þessar mundir.  Hann er svo sunnarlega að litlu má muna að hann "detti út af " kortinu. Um er að ræða greiningu frá því í gær 25. febrúar kl. 12.  Lægðagangurinn er allur inn yfir Suður-Evrópu  og við þessar aðstæður verður veður mjög óstöðugt og frekar rigningarsamt á hinum annars mjög svo veðursælu Kanaríeyjum þar sem svo margir dveljast um þessar mundir.

Hvað sem öllum lægðardrögum hér við land og smærri dráttum veðurlagsins líður mun þetta megineinkenni lofthringrásarinnar, þ.e. sérlega suðlæg lega skotvindsins, halda a.m.k. eitthvað fram í næstu viku.


Mýrdalurinn á kaf í dag ?

Fréttir hafa borist af miklum snjó og ófærð í Vestmannaeyjum.  Rétt eins og þar rignir stundum af ákafa getur hlaðið niður snjó í Eyjum séu skilyrðin rétt.

HIRLAM 250220100 +09t/VÍVið greiningu á veðrinu nú í morgun, má sjá að úrkomusvæðið sem verið hefur yfir suðvestanverðu landinu er enn frekar en það hefur verið í nótt að sýna einkenni aðgreindra kjarnasvæða mikillar úrkomu.  Það helsta, þar sem uppstreymið er kröftugast er einmitt við Suðurströndina og er því spáð hægri austurhreyfingu um leið og úrkoman ágerist.  Fyrra spákortið (HIRLAM 2502 +15t / Brunnur VÍ)  gildir kl. 15 í dag og sýnir 3 klst uppsafnaða úrkomu.  Í kjarna svæðisins er gert ráð yfir um og yfir 50 mm á 3 klst og er það eins og gefur að skilja mjög mikið úrkomumagn.  Þó svo að ætla megi að slík gildi verði einkum að finna uppi á jökli má engu að síður ætla að áköf ofankoma verði í Landeyjum, undir Eyjafjöllum og ekki síst í Mýrdal.  Vestmannaeyjar eru þarna síðan skammt undan eins og við vitum. 

Vindur með þessu er A- og NA-stæður, allt að 12-15 m/s. Nægur til að koma öllu af stað svo af hlýst mikið kóf ofan í dimma hríðina.  Ætla má að hríðinni sloti ekki á þessum slóðum fyrr en í fyrsta lagi seint í kvöld.

Nú kann einhver að spyrja hversvegna það leysi ekki og hiti komist upp fyrir frostmark svona syðst á landinu ?  Einsfalda svarið er það að loftið suður af landinu er ekkert sérlega milt og reyndar af norðlægum uppruna ef út í það er farið.  Engu að síður berst varmi úr tiltölulega hlýjum sjónum og hann ætti að duga til þess að koma hitanum upp fyrir frostmark á láglendi.  Það gerist hins vegar ekki því stöðugt berst kalt loft ofan af landi í veg fyrir það sem mildar er.  HRAS spá Reiknimiðstöðvarinnar í veðurfræði sýnir þetta glöggt, en kortið hér að neðan gildir líka kl. 15 í dag.  Sjá má brot í vindinum sunnan við Vestmannaeyjar.  Þar úti fyrir er vindur af suðlægum uppruna, en nær landi er vindáttin greinilega NA-læg í grunninn.  Þarna eru skil og lega þeirra ræður því hvort nái að blota fyrir höfuð í Mýrdalnum.  Í raun er alls ekki loku fyrir það skotið að það geti gerst síðar eða í kvöld.  

 

HRAS3-vindur 250200 +15t


Snjókomutíð

100224_1110.jpgNú erum við að sjá talsverð umskipti í umhverfi veðurkerfanna næst landinu.  Þó erum við ekki að tala um þau stóru, þ.e. meginlægðabrautina eða Grænlandshæðina sjálfa, heldur þau sem eru á minni kvarða.

Undanfarna daga og reyndar vikur hefur ástand andrúmsloftsins nærri Íslandi einkennst af því að hér hefur lengst af ríkt niðurstreymi í miðlægum og efri hlutum lofthjúpsins.  Það leiðir almennt til úrkomulítillar veðráttu.  Eitt og eitt lægðardrag með svæðisbundnu uppstreymi hefur borist að Norðan- og austanverðu landinu og þá með snjókomu. Það á vil t.d. um það sem hefur verið að valda hríðinni á Vestfjörðum og Norðurlandi frá því í gærkvöldi og nótt.  Síðan skulum við ekki gleyma því að á meðan loftið er mun kaldara en yfirborð sjávar á sér stað uppstreymi í lægstu lögum og slíkt veldum "grunnum" éljum.  Þegar þau ber síðan inn yfir fjalllendið fyrir norðan nær að snjóa nokkuð t.d. í grennd við Akureyri.

Í dag  eru hins vegar breytingar í aðsigi, í stað niðurstreymis verður nú ríkjandi uppstreymi lofts nærri landinu í nokkra daga, ský myndast og úrkoma fellur, í þessu tilviki snjókoma.

Meðfylgjandi tunglmynd frá því kl 11 í morgun og fengin er af vef Veðurstofunnar sýnir okkur þrjú aðskilin úrkomukerfi.  Í fyrsta lagi má greina bakkann norðvestanlands, sem reyndar eyðist.  Í annan stað er heilmikill skýjaflóki yfir suðaustanverðu landinu og frá honum snjóar.  Að síðustu er greinilegur bakki í tengslum við smálægð hér suðvesturundan. 

Það sem gerist næstu klukkustundirnar er nokkurnveginn þetta: Kerfið yfir suðaustanverðu landinu berst til vesturs og dregur inn í sig leifarnar af því sem er fyrir norðan .  Um leið sogast norður angi af því sem er fyrir suðvestan eða öllu heldur veldur uppstreymi yfir sunnan- og suðvestanverðu landinu því að það þykknar nægjanlega í lofti á svæðinu þannig að úrkoma tekur að falla.  Rakinn er kominn úr sjónum suður og suðaustur af landinu.  Öll þessi þróun á sér stað án þess að raunverulegt hlýtt loft sé til staðar.  Vitanlega er loftið fyrir sunnan land heldur mildara, en varmi þess er kominn úr hafinu þar og umhverfið er allt kalt, enda hafði kalt loft áður borist langt til suðurs yfir Ísland. 

Spá ECMWF +60t Z500 hPa 26.feb kl.12Kalt loft yfir heitari sjó eykur á uppstreymið og það er einmitt að gerast undan Suðurlandi, en straumarnir í háloftunum eru að verða þannig að þeir beinlínis valda uppstreymi á sama hátt og stundum koma þeir af stað niðurstreymi.  Lægðardrag eða lokuð lægðarmiðja í 500 hPa fletinum í um 5 km hæð kemur nú fram á veðurkortum hér skammt fyrir norðan land.  Hún er á suðurleið og saman með smákerfunum hér fyrir sunnan og suðaustan keyrist uppstreymi loftsins enn frekar. (Þ.e. svörtu línurnar á spákortinu hér til hliðar sýna hæð 500 hPa flatarins. Af Brunni VÍ og gildir kl. 12 á föstud., 26. feb.)

Því er óhætt að spá snjókomu eða éljum meira og minna á landinu á morgun og föstudag.  Ekki aðeins fyrir norðan og vestan.  Alls ekki er auðvelt að átta sig vel á því hvar ofankoman verður mest og samfelldust, en ágætis líkindi er til þess að það nái  kyngja niður snjónum staðbundið á Suðurlandi og jafnvel á Höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega í nótt og framan af morgundeginum.  Þegar lítil kerfi vaxa saman i eitt stærra getur hæglega leikið vafi á því hvar kjarni þess ber niður. En vindáttin með þessu verður í það minnsta A-læg eða NA-stæð.

Spáð er köldu, þ.e. hiti áfram um eða undir frostmarki, það er helst að það bloti með ströndinni frá Þjórsárósum vestur fyrir Grindavík.


Sólin farin að verma

Jafnvel á ísköldum degi eins og í dag finnur maður að sólin er farin að verma yfirborðið.  Þetta sést glöggt á veghitamælingum Vegagerðarinnar þar sem snjór og klaki er ekki til staðar, eins og til að mynda á Sandskeiði.

Veghiti Sandskeið 22. og 23. feb. 2010Dægursveiflan er mikil, frá -12°C í -4°C um kl. 15 þegar vegyfirborðið varð hvað "heitast".  Þess má geta að snemma í morgun var nánast logn og því hitahvarf við jörðu á meðan það blés ákveðið um miðjan daginn.  Dægursveiflan er samt staðreynd.  Þegar sól er í hádegisstað um kl. 13:30 er sólarhæðin 15 til 16° á suðurhimninum þessa dagana. Sú sólarhæð er næg til að upphitun yfirborðs verði merkjanleg þar sem endurkast er lítið eins og raunin er með þurra vegklæðninguna.

Sólarhæðin er undir 10° frá um 10. nóvember fram yfir mánaðarmótin janúar/febrúar.  Þá er óhætt að segja að geislun sólarinnar hafi enga þýðingu fyrir varmahag yfirborðsins.   


Skarpir drættir Norðanlands

Hef haldið mig við Eyjafjörð síðustu daga.  Um helgina gekk á með dimmum éljum og mikið bætti á snjóinn þessa daga.  Í gærmorgun var þannig þungfært á götum Akureyrar.

picture_24_963369.pngMerkilegt með þessi él norðanlands, þau er ekki auðvelt að greina t.d. á tunglmyndum.  Enda tók maður eftir því þegar birti upp á milli þeirra að þau eru grunn og meira eins og lág- og miðskýjabakki umvefji fjöllin og úr þessu getur snjóað einhver lifandi bísn.  Með öðrum orðum hagar þessi éljagangur sér samfara NA-átt með nokkuð öðrum hætti norðanlands, en útsynningsélin syðra sem vissulega er  líka af hafi.  Þvingað uppstreymi við fjöll á klárlega mikinn þátt í framköllun úrkomunnar fyrir norðan

Það var því hálfgerð opinberun að koma úr fannferginu við Akureyri og í Öxnadalnum vestur yfir heiðina og niður í Skagafjörð þar sem nánast er snjólaust og allir vegir nánast auðir.  Svipað má segja um Húnaþing, þó mér hafi nú fundist heldur meiri snjór við Hrútafjörðinn, en austar.  Í NA-átt veita hin háu fjöll Tröllaskagans ágætt úrkomuvar, en þó miklu síður utar, þ.e. út í Fljótum.

Myndin sem hér fylgir er tekin úr vefmyndavél frá því um kl. 11 í morgun og er henni beint yfir hús Menntaskólans á Akureyri.  Hún er fengin af síðu Sjómannafélags Eyjafjarðar


Bráðnun jökla veldur aukinni rykmyndun í lofthjúpi

Fréttastofa RÚV sagði frétt í kvöld af rannsóknum Joe´s Prospero og samstarfsmanna hans við Háskólann í Miami á áhrifum sands og ryks á veðurfar jarðar.  Sérstaklega var þess getið að jökullaur vegna hörfandi jökla á Íslandi gæti gegnt talsverðu hlutverki í mótun loftslags á norðurhveli jarðar. 

MODIS 22.nóv 2009 13:15.pngVísaði fréttastofan til þess  að hópur Prosperos hafi tekið eftir ryki eða sandstormum á tunglmyndum sem rekja má til jökulaura. Prospero hefur mest á löngum rannsóknarferli kannað sandstorma frá N-Afríku og áhrif þeirra á veðurfar og m.a. úrkomu á Sahelsvæðum Afríku.  Hér má sjá alveg nýtt viðtal eða yfirlitsgrein um Prospero þar sem hann minnist á aurinn hér á landi.  Færri vita að kappinn kom hingað til lands fyrir tveimur árum á vegum Landbúnaðarháskólans og flutti hér fyrirlestur um rykstorma og loftmengun.

Fíngert dust eða ryk sem svífur um í lofthjúpnum dregur úr inngeislun sólar eins og kunnugt er.  Hugmyndin er sem sé sú að auknar uppsprettur sandstorma tengis hörfum jökla og aurasvæða sem þá komi í ljós.  Þessi hugmynd er um margt áhugaverð og stundum hefur maður séð gríðarlegan ryk- eða sandmökk berast frá tiltölulega afmörkuðum stað undan skriðjökli. En með hvaða hætti og í hvað miklum mæli þetta hefur áhrif á hitastig á miklu stærra svæði er mjög áhugaverð pæling.

Myndin hér er frá 22. nóvember í fyrra þegar miklir sandmekkir bárust til hafs undan hvassri og þurri N-átt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 40
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband