Þær fregnir berast nú frá Ástralíu að í kjölfar "appelsínugula" sandstormsins í síðasta mánuði hafi lífríkið undir ströndum Sydney tekið mikinn kipp. Talið er að um 140 þús tonn af jarðhefni hafi fokið á haf út. Allt þetta fínefni ofan af landi ber með sér næringarefni, einkum köfnunarefni og fosfór. Mælingar vísindamanna að þessi viðbót í annars frekar næringarsnauðan sjóinn á þessum slóðum hafi verið sannkölluð vítamínsprauta fyrir lífríkið. Vart hafi orðið blóma svifþörunga sem nýtast munu efri þrepum lífríkisins.
Áströlsku vísindamennirnir hafa reiknað út að þessi viðbótar ljóstillífun hafi náð að binda um 8 milljónir tonna koltvísýrings. Ætli menn taki þá óvæntu bindingu með sér í samningaviðræðurnar í Kaupannahöfn síðar í haust.
10.10.2009
Fjarðarheiði - kolvitlaust veður
Þegar þetta er skrifað um kl. 10:30 á laugardegi er veður á Fjarðarheiði á milli Héraðs og Seyðisfjarðar alveg hreint sjóðandi vitlaust. A 28 m/s, vægt frost og hríðarkóf. Þó ótrúlegt megi virðast grillir í veginn á vefmyndavél Vegagerðarinnar og enn ótrúlegra þykir mér að örfáir bílar verðast hafa farið þarna yfir morgun ef umferðarteljarinn er réttur.
Þegar hált er eins og þarna og veðurhæð komin yfir 20 m/s eykst til muna hættan á því að bíllinn hreinlega fjúki út af veginum. Erfitt getur reynst að hemja ökutæki í svo mikill veðurhæð þegar vegyfirborðið er ekki eins gott og best verður á kosið.
Annars telst það til mikils happs, a.m.k. hingað til að óhöpp hafa ekki verið sem heitið getur á vegum úti í þessum kröftuga hauststormi. Að vísu valt bíll á Vopnafjarðarvegi, en sú velta var ekki rakin til veðurs, en vegurinn var háll. Eftir kröftugar og góðar viðvaranir sem fólk flest virðist hafa tekið mark á, var greinilegt að margir frestuðu ferðum sínum eða hættu við. Undir Eyjafjöllum og í Mýrdal var alls engin umferð langt fram eftir gærdeginum, skólahaldi aflýsti og bílar á vesturleið biðu veðursins í Vík. Þarna þekkja menn hættuna. Á Kjalarnesi var hins vegar talsverð umferð og í þeim veðurham sem var í gær eru vegfarendur að taka talsverða áhættu, því snörpustu vindhviðurnar eru mjög skeinuhættar. Ökutækin í gær sluppu sem betur fór á milli snörpustu vindhviðanna. Og björgunarsveitamenn sem þarna voru að störfum eru vissulega að leggja sig í talsverða hættu.
9.10.2009
Með verri illviðrum
Þetta A-veður sem herjað hefur á landsmenn í dag er með þeim verri sem komið hafa síðari ár. Ég held að varla verði um það deilt. Það var ákaflega hvasst framan af degi syðst á landinu, og mæligildi veðurhæðar á Stórhöfða tala sínu máli þar. Vestmannaeyingar eru ýmsu vanir og voru vel undirbúnir. Engu að síður stóðu þeir í stórræðum við björgun verðmæta.
Undir Eyjafjöllum blés einnig af krafti. Mestu hviður á Steinum fóru í 48 m/s laust fyrir hádegi og eftir rúmlega hviðu upp á rúmlega 50 m/s við Hvamm fauk mælirinn hreinlega af. Fékk af því spurnir að Vegagerðamönnum sem sóttu tækið en það lá í rokinu laskað við hliðina á mastrinu.
Til þessa virðist sem tjón hafi orðið hvað mest á Kjalarnesi. Þar háttar þannig til að sé A og SA-átt nær vindurinn sér sérlega á strik utantil á Kjalarnesi, við Grundarhverfi og Skrauthóla og áfram, nánast að gagnamunna Hvalfjarðarganganna. Þarna magnast vindur af skörpum fjallsbrúnum sunnantil við Blikdalinn sem gengur upp í Esjuna. Bílar hafa fokið þarna út af og fylgir oftast vindhviðuástandi undir Hafnarfjalli.
Heyrði í fréttum að mælir nærri Grundarhverfi hefði sýnt 58 m/s á vindhviðu, væntanlega er það mælir Veðurstofunnar við Skrauthóla. Veðurstofan og Vegagerðin mæla ekki hviðuna alveg á sama hátt, hjá Vegagerðinni er hviðan heldur meiri augnabliksvindur ef svo má segja.
Nú er farið að lægja heldur sunnantil, en við bíðum morgundagsins með veðurtölur fyrir landið norðanvert. En hvað sem því líður er æðilangt frá þetta slæmu veðri þetta snemma hausts. Um miðjan september 2004 varð nokkuð sögulegt A-veður sem nær e.t.v. einhverjum samjöfnuði við þetta.
9.10.2009
Með því allra versta á Stórhöfða
Það er ljóst á veðurhamurinn sem nú geisar á Stórhöfða er með þeim allra verstu sem þar hafa komið hin síðari ár. Í mælingu kl. 08 hafði mesti 10 mínútna meðalvindhraði farið í 45 m/s. Ég geri eingöngu veðurhæðina eða 10 mín vind að umtalsefni og læt styrk vindhviðunnar liggja á milli hluta.
Fletti upp í gagnatöflu sem geymir eldri veðurathuganir skeytastöðva og skoðaði þar tíðni aftakavinda á Stórhöfða, þ.e. mestan mældan vind á milli veðurathugana, svokallað Fx-gildi.
14. mars í fyrra þótti afar hvasst á Stórhöfða (sjá umfjöllun hér og ekki síst athugasemdir Pálma Freys Óskarssonar veðurathugunarmanns). Þá varð vindur mestur 41-42 m/s (Fx). Í nokkuð sögulegu A-roki fór vindur í 43,8 m/s á Stórhöfða 16. sept 2004 en fara þarf allt aftur til 1992 til að finna sambærilegan vind og nú. Þann 24. febrúar það ár mældust 45,8 m/s í höfðanum. Metið er síðan úr stórviðrinu 3. feb. árið áður (1991) eða 56,6 m/s.
Nú geri ég allan fyrirvara á þessum samanburði, en gögnin í skránni sem ég skoðaði eiga að vera nokkuð áreiðanleg, þó ekki sé hægt að útiloka að villur séu þar á stangli. Fleira kann að spila þarna inn eins og það að skipt var algerlega um gerð mælis árið 2004. Hugsanlega hefur það einhver áhrif þegar gerður er samanburður á hæstu gildum. Það skal hins vegar fúslega viðurkennt að ég er hins vegar ekkert sérlega vel að mér í sjálfri mælingatækninni.
Til hádegis og jafnvel lengur getur hvesst enn frekar á Stórhöfða og reyndar í Eyjum og eins undir Eyjafjöllum og í Mýrdal, þar sem veðurhæðin er nú með allra mest móti.
Viðbót:
Pálmi Freyr sendi mér hlekk á mynd sem hann tók laust fyrir kl. 08 af hæsta mæligildinu !
Veðuratburðir hér og nú | Breytt s.d. kl. 09:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
8.10.2009
Föstudagsóveðrið
Vel finnst mér hafa verið gerð skil í fjölmiðlum hvelli þeim sem í vændum er á morgun. Margir eru háðir veðri á ýmsan máta og mikið um það að fólk aki um talsverðan veg til vinnu sinnar.
Lítum nánar á tvö staði frá höfuðborginni.
Þeir sem þurfa t.d. að fara yfir Hellisheiðina í fyrramálið skal á það bent að nokkrar líkur eru til þess að aftur kólni lítið eitt síðla nætur og í stað slyddu megi gera ráð fyrir hríðarveðri, slæmu skyggni og tilheyrandi hálku. Vindur verður austanstæður, 18-20 m/s. Það hlýnar síðan þegar líður á morguninn og skyggni batnar. Hins vegar eykst heldur veðurhæðin og úrkomuákefðin.
Undir Hafnarfjalli verður orðið bálhvasst strax í fyrramálið og skeinuhættar vindhviður. Frá því um kl. 10 og fram undir 15 til 16. Má gera ráð fyrir allt að 28-30 m/s í meðalvindi og hviðum yfir 45 m/s. Upp úr kl. 16 slotar aðeins um leið og vindur verður A-stæðari. Enn verður að líkindum talsverð veðurhæð en vindáttin í lofti er þó heldur hagstæðari en fyrr um daginn. Á utanverðu Kjalarnesi, ofan Grundarhverfis og við vigtarplanið við Hvalfjarðargöngin, er vindur oft afar byljóttur einnig við þessi skilyrði. Fylgir Hafnarfjalli þó sjaldnast sé þar alveg eins slæmt.
Kortið er spákort Belgings (HRAS), 3km reiknað kl. 12 í dag og gildir kl. 12 á morgun, föstudag.
8.10.2009
Bakki suðvesturundan
Í gær mátti sjá á myndum fagurlagaðan skýjabakka suðvestur af landinu. Undir myrkur var hann kominn svo nærri að maður gat nánast "horft undir pilsið" ef svo má segja. Tunglmyndin frá því rétt fyrir kl. 14 sýnir þetta ávala og straumlínulaga skýjakerfi. Þegar kalt loft af heimskautauppruna berst yfir Grænlandshaf eiga til að myndast svona smá lægðabólur með tilheyrandi skýjakerfi eða snjókomubakka. Þær verða oft ansi krappar, sérstaklega að úthallandi vetri og þá getur blásið hressilega, ekki síst í V-áttinni í kjölfar þeirra.
Bakkinn hefur verið að nálgast landið afar hægt og bítandi og lítið hreytt úr sér enn sem komið er. Nú kl. 8 í morgun snjóaði þó í um tveggja stiga hita á Keflavíkurflugvelli. Hin myndin sem einnig er fengin úr tunglmyndamiðlun Veðurstofunnar sýnir ástand mála kl. 05:23 í morgun. Mest eru þetta háský og miðsský með lítilli úrkomu, en vesturjaðarinn er þykkari og úrkomuvænni.
Með þessu er allhvöss SA-átt og heldur hlýnandi. Um suðvestanvert landið er gert ráð fyrir slyddu með köflum í dag, en snjókomu ofan Þrengslavegamóta að telja, ef við horfum sérstaklega til þjóðvegarins austur fyrir fjall.
Veðuratburðir hér og nú | Breytt s.d. kl. 08:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Fyrri myndin er MODIS mynd af landinu frá því kl. 13:00 í dag. Snælínan er mjög skörp í landinu suðvestanlands. Láglendið virðist snjólaust við fyrstu sýn, en alhvítt til fjalla, m.a. í Henglinum og á Ingólfsfjalli. En línan er ansi skörp við Ölfusá ??
En er alveg snjólaust í Ölfusinu. Þorsteinn Jóhannsson sendi mér mynd sem hann tók út um glugga í flugvél á leið til Keflavíkur um kl. 15 í dag. Þá má sjá sömu skörpu snjólínuna sem liggur einmitt um mitt Ölfusið og reyndar Flóann einnig austan Þjórsár. Snjór er vestanmegin, en snjólaust í Hvergerði og upp í mitt Ingólfsfjall. Þegar snjóaði hvað mest í fyrrakvöld og fyrrinótt er annað tveggja sem mögulega skýrir þennan mun:
1. Hitafall frá austri til vesturs hefur verið skarpt og austan línunnar rignt á meðan snjóað hefur vestan hennar.
2. Úrkoma féll aðeins að vestanverðu og þá sem snjór. Ingólfsfjallið varð hins vegar hvítt dagana.
Við samanburð á veðurathugunum á mánudagskvöld og aðfararnótt þriðjudags sést að mikið snjóaði á Eyrarbakka og þar var 20 sm snjódýpt um morguninn. Frostið var um 2°C. Lítið er um sambærilegar athuganir fyrr en vestur undir Þjórsá og í Þykkvabænum. Þar var álíka kalt en hins vegar engin úrkoma sem heitið gat. Sem sagt allt bendir til þess að skýring 2 sé rétt. Skarpa línan á MODIS myndinni styrkir einnig þá tilgátu og ekkert í landslaginu bendir heldur til lárétts hitafalls til vesturs.
Veðuratburðir hér og nú | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Í þessari frétt á mbl.is er talað um að Bandaríkjamenn hafi hótað að koma í veg fyrir samkomulag um lostslagsbreytingar. Það er þá ekki í fyrsta skiptið sem það er. Sagt er að Bandaríkjamenn hafi deilt hart við Kínverja á þessum fundi sem er til undirbúnings stærri fundar í Kaupmannahöfn nú í desember þar sem leita á leiða til að stemma stigu við útblástur gróðurhúsalofttegunda.
En hvernig tengist Trabant á þýskum númerum þessari deilu ? Svar: Á engan hátt !
Algengt er myndskreyta fréttir af loftslagsmálum með spúandi verksmiðjum eða þá bílum þar sem mengun er sýnileg. Meinið með gróðurhúsalofttegundir er að þær eru með öllu ósýnilegar. Strókurinn aftan úr Trabantinum er sót og lífrænar gufur sem plaga fyrst og fremst nærumhverfi bílsins, þ.e. bæ eða landshluta væntanlega í gamla Austur-Þýskalandi. Mengun sú er staðbundin en en ekki hnattrænt.
Amerískur pallbíll sem skreyting með fréttinni hefði gefist vel, nú eða bílafjöld á götum Kínverskrar borgar. Þar liggur meinið í samgönguhluta koltvísýringslosunar, of margir bílar og of eyðslufrekir.
Ég er engin sérlegur aðdáandi Trabants, hvorki nú né þá, en sú bílategund verður seint álitin völd af auknum gróðurhúsaáhrifum, miklu frekar óheilnæmu lofti í Leipzig og heilsufarsvandamálum undir lok síðustu aldar síðustu aldar og ef til vill lengur.
![]() |
Skiptar skoðanir um loftslagsmál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utan úr heimi | Breytt s.d. kl. 13:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.10.2009
Gösmökkur á Kamtsjaka
Eitt virkasta eldfjall Kamtsjakaskagans, Shiveluch hefur verið virkt frá því í sumar. Gosið þykir þó lítið og hefur verið með hléum. 28. september álitu veðurfræðingar við flugþjónustu í Japan að gosmökkur hafi náð um 7 km hæð. Á meðfylgjandi tunglmynd sem er frá NASA má sjá greinilega og vel afmarkaða slóð gosefna í lofti til suðsuðausturs frá fjallinu. Shiveluch er 3.283 metrar á hæð og á um 56°N br. Þarna er því tekið að hausta og snjór í hæstu fjöllum. Gosaska barst í ýmsar áttir á fyrstu dögum gossins. Síðan hefur snjóað og þegar myndin er tekið 3. október má sjá að suðurhlíðar fjallsins er móleitar. Þar hefur gjóskan fallið á snævi þaktar hlíðarnar og reyndar greinilega lengra niður eftir þeim.
Athyglisvert er og til marks um það hvað þetta gos er í raun ómerkilegt að hitinn er svo lítill í fjallinu að hann nær ekki einu sinni að bræða af sér nýsnævið.
Hér er tengin á frekari upplýsingar um eldfjallið Shiveluch sem gaus a.m.k. tveimur sæmilega stórum gosum á 20. öld.
Fallegar myndir | Breytt s.d. kl. 10:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2009
Hundslappadrífa í Höfuðborginni
Hún var þétt og alvöru snjókoman suðvestanlands nú snemma í kvöld. Veðurstofan hafði gefið í skyn í morgun að ganga myndi á með éljum eða slydduéljum. En það er svo með fyrsta snjóinn hann kemur oftast nokkuð á óvart. Snjórinn er snemma á ferðinni þetta haustið og mjög víða á landinu hefur 5. október nú þegar náð að snjóa í byggð.
Þetta var úrkomubakki eða lægðadrag sem nálgaðist rólega úr suðvestri, fyrst muggaði og síðan ágerðist ofankoman í hægri SA-áttinni. Tæki voru fljótlega komin út til gatnahreinsunar, enda full þörf á. Áfram verður einhver úrkoma í kvöld og nótt, en það er bót í máli að heldur er hlýnandi og því verður þetta að karapgraut á götunum. Verra hefði verið ef létt hefði til í kjölfarið og þessi blauti snjór frosið í samfellda hellu. Og allir vitanlega á sumarhjólbörðum ! Maður hefði ekki boðið í slíkt ástand í fyrramálið.
Á göngu náði ég mynd af kátum systkinum sem komin voru út í ævintýraheiminn í Garðabænum snemma kvölds. Ratsjármyndin er frá því kl. 19:45 og fengin af vef VÍ. Hún sýnir vel snjókomubakkann, sem alls ekki er mikill um sig, en hægfara er hann.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.7.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 43
- Frá upphafi: 1790832
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 38
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar