13°C á Skjaldþingssötðum

Nú kl. 9 í morgun var 13 stiga hiti á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði.  Athyglisvert var að sjá hvað umskiptin voru snögg.  Í alla nótt var hitinn 2 til 3 stig, en á milli kl. 07 og 08 í morgun snerist til SV-blásturst.  Þá var ekki að sökum að spyrja hitinn rauk í einum vetfangi upp í  +13°C.

Á Vatnsskarði eystra, við veginn þar sem hann liggur  hæstur í 430 metra hæð á leiðinni yfir á Borgarfjörð sýndi hitamælirinn 10°C kl. 09.  Engum sögum fer hins vegar af hitafari niðri við sjávarmál á Borgarfirði eystri.


Vorlegar hitatölur

Ekki er hægt að segja annað en að umskiptin séu veruleg í veðrinu frá snjóum og stormum síðustu vikna.  Nú hefur hlýnað svo um munar.  Heldur haustleg þokan grúfir yfir sunnanlands á meðan hitinn skoppar yfir 10°C bæði á Akureyri og Hallormsstað

Sjálft vorið er þó ekki á ferðinni, heldur má frekar segja að heittemprað Atlantshafsloft hafi komið í óvænta en heldur stutta heimsókn hingað norðureftir, því veturinn mun aftur banka upp á um helgina.

Hitaspákort kl.14 á morgun 19. mars 2009 Enn er að hlýna til morguns og fróðlegt verður að sjá hve hitinn fer hátt þar sem hlýjast verður fyrir norðan og austan á morgun, fimmtudaginn 19. mars.  Í fyrravetur náði hiti 12,3°C á Dalatanga snemma í mars.  Ég held að það verði enn hlýrra nú.  Ekki ólíklega verður 13 til 14°C þar sem hlýjast verður á morgun. Frekar hægur vindur á sama tíma og sól verður hæst á lofti vinnur reyndar gegn þeirri spá, því forsenda óvenjulegra hlýinda að vetri er snarpur vindur sem færir milt loftið ofan úr hærri loftlögum handan hárra fjalla.

Hæsti hiti sem mælst hefur í marsmánuði er 18,3°C, þ.28. mars 1947 á Sandi í Aðaldal. Eins og fram kemur í umfjöllun Sigurðar Þórs Guðjónssonar, er þetta hitamet jafnframt elsta mánaðarmetið sem enn stendur.  Ekki mátti miklu muna fyrir tveimur árum, þ.e. 2007 síðasta dag mánaðarins.  Hitinn fór lítið eitt hærra það var um nóttina og þá líka kominn 1. apríl. 

Austanlands, og þá einkum niðri á fjörðunum verða samkvæmt spám nokkuð ákjósanlegar aðstæður til að kreista út háan hita snemma á föstudaginn, eða skömmu áður en kuldaskil koma úr vestri.  Þá verður nokkur vindur (SV-átt), úrkoma vestantil og því viðbótarvarmi í hnjúkaþey.  Hitinn í efri lögum einnig afar hagfelldur og líkist allur aðdragandi svipaðri hitabylgju 28. mars árið 2000, en þá fór hitinn á sjálfvirkri stöð á Eskifirði í 18,8°C.

Ég er samt frekar á því að hitamet verði ekki slegin að þessu sinni.  Til þess vantar aukna dýpt í hlýindin og síðan munar nokkuð um þessa viku til tíu daga á sólarhæð miðað við lok mánaðarins og getur sólin vissulega gert útslagið á endanum. Þó þarf það alls ekki að vera, sé vindur til að mynda nægjanlegur og stöðugleiki loftsins heppilegur fyrir niðurdrátt milda loftsins að ofan sem fyrir vikið hlýnar um 1°C á hverja 100m.


Vélsleðasnjóflóð á Ólafsfirði

HlíðÁ sunnudag féll snjóflóð ofan við bæinn Hlíð rétt innan við byggðina á Ólafsfirði.  Eins og stundum áður var það umferð vélsleða sem kom flóðinu af stað.  Á myndum sem Svavar B. Magnússon var svo vinsamlegur að senda mér, sést þetta um 100 metra breiða flekaflóð vel. 

Í samtali við fréttavef vísis segir Jón Konráðsson lögreglumaður: „Það er lítill snjór hérna framan af vetri síðan fer allt á kaf fyrir viku síðan og undirlagið er þá hart og auðvelt fyrir snjóinn að fara af stað."

Snjóflóð eru ekki óalgeng í Ólafsfirði, en þó ætíð fjarri byggðinni í fjöllunum beggja vegna fjarðarins og þá frekar að vestanverðu þar sem er að finna mjög dæmigerða og virka snjóflóðafarvegi.

Á sínum tíma vann ég með góðu fólki frá sveitarfélaginu og Veðurstofu Íslands að hættumati fyrir Ólafsfjörð.  Þá kom mjög til skoðunar mat á aðstæðum við fremsta (syðsta) og jafnframt fjölmennasta íbúðarhús Ólafsfjarðar eða dvalar- og hjúkrunarheimilið Hornbrekku, sem sjá má hér á einni myndinni.  Á rýmingarkorti er Hornbrekka innan hættumatslínu C og stefnt hefur verið að því að ýta upp varnargarði ofan hússins.  Eftir því sem ég best veit er hönnun hans því sem næst lokið og ekkert því til fyrirstöðu að flytja ágætt efni sem til fellur við jarðgangagerðina og móta varnargarðinn.

HornbrekkaMeðal Ólafsfirðinga þótti og þykir enn þessi ráðstöfun umdeild og á það bent að hættan sé ofmetin, enda ekki fallið flóð úr Tindaöxl ofan Hornbrekku svo menn muni eftir.  Upptök vélsleðaflóðsins eru 500 metrum sunnan áætlaðs varnargarðs.  Óljósar heimildir, sem þó er engin ástæða til að rengja, eru um stórt snjóflóð skammt utan við Hlíð (nær Hornbrekku)  einhvern tímann um aldamótin 1900 og á það hafa náð alla leið út á ísilagt Ólafsfjarðarvatn.

Víðáttumikil skál er ofan Hornbrekku.  Þar getur setið niður mikinn snjó við ákveðnar veðuraðstæður, sérstaklega samfara SA-átt. Það er ekki algeng snjókomuátt, en mælingar á úrkomu sýna að hún er líka langt í frá á vera alveg þurr.  En eins og áður segir hefur ekki hlaupið úr skálinni svo vitað séð. Hins vegar er það sjálfsögð varúðarráðstöfun að setja leiði- eða varnargarð ofan Hornbrekku og auðveldara um vik nú en oft áður þegar gnægð hentugs efnis fellur nú til við borunina yfir í Héðinsfjörð.  

Ólafsfjörður, rýmingarkortÓvæntustu snjóflóðin koma líka með löngu millibili, það segir sig sjálft. Jón Konráðsson sagði líka í fréttinni: „Maður hefur aldrei séð nein flóð fara þarna með þessum hætti," segir Jón og telur að komandi snjóflóðavarnargarður hafi sannað tilveru sína."

Rýmingarkortið hér til hliðar er útgefið 2007.  Bærinn Hlíð er efst í hægra horni og Hornbrekka stóra bygginginn í útjaðri bæjarins.


Með hækkandi sól !

Þeim ótrúlega áfanga hefur verið náð  að um 1.000 pistlar eða færslur (nákvæmlega 1.005) hafa verið skrifaðar hér á veðurblogginu frá því í apríl 2006 !  Þessi fjöldi kom sjálfum mér á óvart, að það skuli hægt að tala um veður með viti (vonandi) þetta oft of svona lengi.

Í dag tók ég  eftir því innan um öll vel meinandi stjórnmálaskrifin að tal mitt um loftslag og veðurfræðinga virkaði hálf hjákátlegt.  Því er mál að linni í bili og rétt að ég taki mér smá orlof frá veðurskrifum fram yfir kosningar og stjórnarmyndun í lok apríl og maí.

Geri þó þann fyrirvara í þessu hléi mínu að gerist eitthvað  athyglisvert í veðrinu eða tíðarfarinu kem ég hér inn með greiningu og sjónarhorn.

Annars langar mig að fjalla aðeins fekar um vélsleðaknúið snjóflóð sem varð í gær 15. mars í Ólafsfirði og ég sá mynd af á netinu, en týndi jafnharðan. Ef einhver gæti vísað mér á þá slóð gæti það orðið efniviður í síðustu  umfjöllunina í bili.  


Loftslagvísindmenn komu saman í Kaupmannahöfn

Picture 45Fjölmargir loftslagsvísindamenn (yfir 2000)  komu saman í Kaupmannahöfn á þriggja daga ráðstefnu í síðustu viku.

Fundur vísindamannanna er liður í undirbúningi fyrir loftslagsráðstefnu Sþ. í Kaupmannahöfn undir lok ársins eða þeirri fimmtándu i röðinni (COP-15).  Sú síðasta var í Poznan í Póllandi sællar minningar. Þó síðasta IPCC skýrsla sé frá árinu 2007, eru nýjustu rannsóknir þær sem liggja á bak við niðurstöður hennar orðnar þetta þriggja til fjögurra ára gamlar.  Margt hefur átt sér stað síðan þá og báru vísindamenn saman bækur sínar og hyggja á birtingu vísindalegrar samantektar í júní nk. undir flaggi Sþ. Afraksturinn verður þó ekki ný IPCC-samantekt svo það sé á hreinu.

Eitt og annað bitastætt var þó hlerað á fundinum.

1.

greece460x276Rachel Warren, hjá Háskólanum í Austur Anglíu, hefur rannsakað svörun úrkomu í Evrópu eftir ólíkum forsendum loftlagshlýnunar til loka aldarinnar. Miðað við þá þróun sem mæld  hefur verið síðustu tvo til þrjá áratugi á ekki að koma á óvart að gera má ráð fyrir breytingum á gróðurfari í S-Evrópu samfara tíðari þurrkum.  Einkum á svæðum við Miðjarðarhafið, svo og í Portúgal.  Gróðurfar mun aðlagast minni úrkomu og breytast í auknum mæli í þurrar steppur (semi-desert).  Tíðni mikilla þurrviðrissumra með tilheyrandi vantsskorti á líka eftir að hækka norðar í álfunni eftir því sem á öldina líður.

2 .

Ástralinn John Church á loftslagsmiðstöðinni í Tasmaníu hefur rýnt í fínustu drætti fjarkönnunnar og komist að því að sjávarborðshækkun er heldur meiri en áður hefur verið áætluð eða um 3 mm á ári síðustu 15 árin eða svo.  Þetta gildi er talsvert yfir meðalhækkun 20. aldarinnar.

Stefan Ramstorf í Potsdam var á svipuðum nótum og benti á að nýjar athuganir og rannsóknir benda til þess  að sjávarborðshækkunin muni nema frá 75 til 190 sm til ársins 2100.  Jafnvel þó verulega mundi miða í samdrætti í losun, er talsverð hækkun sjávarborðs óumflúin (með 100 sm sem miðgildi)  vegna hitaþenslu heimshafanna og tregðu hennar.  Í síðustu skýrslu IPCC var talað um mikla óvissu sjávarborðshækkunar, m.a. vegna mikillar óvissu um áhrif hitaþenslunnar.  Þar var á varfærin hátt fullyrt að líklegasta hækkunin myndi verða um 30-50 sm á einni öld eða til 2010 miðað við tæplega 3°C hlýnun (sviðsmynd A1B).  Ramstorf fullyrti líka að hröðun sjávarborðshækkunar væri ekki línuleg, heldur mundi hún verða hraðari eftir því sem líður á öldina. 

Þetta síðasta er svo sem engin ný sannindi.  Til samanburðar hefur Al Gore verið að tala um 6 metra hækkun sjávarborðs, en það þó ekki fyrr en að Grænlandsjökull og aðrir verulegir jöklar væru bráðnaðir að fullu.  Nokkuð ljóst er að það gerist þó ekki alfarið á næstu öld !

 


Mikil veðurhæð syðst á landinu

Vindmælingar á Hvammo undir Eyjafjöllum 12.-13 mars 2009Þegar þetta er ritað rétt um miðnætti hafði fyrr í kvöld mælst vindhviða við Hvamm undir Eyjafjöllum upp á 56 m/s*.  Meðalvindhraði eða veðurhæðin hefur verið mikil og vaxandi í kvöld syðst á landinu.  Á Vatnsskarðshólum í Dyrhólahverfi voru þannig 29 m/s (39 m/s í hviðu),  á Steinum undir Austur-Eyjafjöllum 24 m/s (41 í hviðu) og á Stórhöfða 41 m/s. Slíkur vindur er vitanlega óskaplegur, en um 32 m/s þarf til að teljast fárviðri eða 12 vindstig.  Fréttir hafa einmitt verið sagðar af slæmu veðri í Vestmannaeyjum í kvöld. 

Ég hef ekki við höndina samanburð við önnur óveður fyrr í vetur, en ég held að ekki hafi náð að verða áður þetta svakalega hvasst á Stórhöfða, en meiri vindur í fyrravetur (ef mig misminnir ekki), allavega 30.des 2007.  Pálmi Freyr veðurathugunarmaður á Stórhöfða á þessar tölu ef til vill skráðar hjá sér og síðan er lítið mál að fletta þessu upp í gagnagrunni Veðurstofunnar. 

Svo er nóttin vitanlega ekki enn úti...

* þess skal geta að vindhviður á vegagerðarstöðvum eins og Hvammi eru ekki skilgreindar  á sama hátt og hviðan á mælum Veðurstofunnar.  Fyrir vikið verður Vegagerðarhviðan oft heldur meiri.


Skjótt skipast veður....spár !

hirlam_spákort_14mars kl.09Tölvureiknaðar spár hafa verð að taka talsverðum breytingum frá því í gærkvöldi.
Lægðin sem nálgast landið úr suðri veldur vissulega A og NA stormi sunnanlands og hríðarveðri víða á fjallvegum í kvöld og nótt á meðan skil lægðarinnar ganga yfir.

Hins vegar er nú flest sem bendir til þess að miðja lægðarinnar stefni á morgun vestur fyrir land í stað þess að reka austur með eins og útlit var fyrir í gær. Þessi breyting á stefnu, hefur verulega þýðingu, í stað hvassrar NA-átt verður vindáttin SV-læg og fyrir vikið nær hlýrra og milt Atlantshafsloftið að brjótast norður yfir heiðar á morgun.

Ef þetta gengur eftir á gera ráð fyrir nokkuð hvassri SV-átt þegar kemur fram á morgundaginn með lítilli úrkomu, en kaldara loft kemur úr vestri og með því él og kólnar niður undir frostamark vestan- og suðvestanlands.

Dæmigerðu útsynningsveðri er síðan spáð á sunnudag, með éljum sunnan- og vestantil en úrkomulaust verður norðanlands og austan.  Nokkuð hvass vindur með þessu ef af líkum lætur, sérstaklega vestantil.

Spákortið sem hér fylgir gildir kl. 09 í fyrramálið, það er fengið af Brunni Veðurstofunar og úr HIRLAM líkaninu. 


Vindhögg á Stórhöfða ?

Spá fyrir Stórhöfða frá VÍ

 

 

 

Pálmi Freyr Óskarsson veðurathugnarmaður á Stórhöfða benti í athugasemd hér á að vindaspá Veðurstofunnar gerði ráð fyrir 44 m/s á miðnætti í nótt sem leið.  Meira að segja Pálma þótti þetta heldur mikið af hinu góða í spá og ýjaði að því að Kalmansían sem hér er stundum umrædd hafi slegið feilhögg og ofmeti vindinn.

Sjálfur vildi ég ekki koma með viðbrögð fyrr en eftir á, vegna þess að SA-röstin sem fór yfir landið var alveg þannig gerð að gera mátti ráð fyrir verulegum vindi á Stórhöfða.  Líka að veðrið gengi yfir á tiltölulega skömmum tíma.

Í reyndinni var vindurinn 28 m/s á miðnætti og mestu varð meðalvindurinn á Stórhöfða 33 m/s skömmu síðar.  Skekkjan í spánni upp á 44 m/s getur átt sér aðrar skýringar en beinlínis þá að meðferð Kalmansíunnar á hrágögnunum hafi orsakað þetta vindhögg, t.d. að í þessari reiknuðu spá hafi vindröstin verið reiknuð enn stríðari en raunin síðan varð.  En í ljósi þess að strax í næsta útreikningi féll spágild vinds um meira en 10 m/s á miðnætti er nærtækast að kenna kalmansíunni um.

 

    

 


Fyrirbyggjandi aðgerðir til gagns fyrir loftgæði

Í gær, þriðjudag, lét ég í það skína að allar veðurfarslegar forsendur væru fyrir slæmum loftgæðum að lokinni morgun ös umferðarinnar.  Vindur var afar hægur og um alla borg mátti sjá að flögg og fánar bærðust vart.

Á milli kl. 9 og 10, eða að loknum mesta umferðartoppnum, ók ég sem leið lá úr Garðabænum vestur í Háskóla til kennslu.   Tók ég greinilega eftir því að loftið var óvenju hreint miðað við aðstæður.  Einnig mátti sjá að helstu umferðargötur virtust blautar, en voru það þó ekki.  Í stað gráma slitlagsins á þurrum dögum sem þessum voru göturnar svartgljáandi.  Skýringuna er að finna í fyrirbyggjandi aðgerð sem felst í pækli (19% magnesíumklóríð) sem úðað er yfir götuna sbr. eftirfarandi kafla úr frétt frá Umhverfis- og heilbrigðissviði Reykjavíkurborgar:

Guðbjartur Sigfússon deildarstjóri gatna segir að sterkari saltblöndu til rykbindingar hafi verið úðað á helstu umferðagötur á sunnudagsnótt og býst hann við að hún dugi í þrjá daga. 

RYKBINDMeðfylgjandi mynd frá Reykjavíkurborg sýnir vel ummerki á götunni eftir ferð bílsins með pækilinn fyrir helgi.  

Gildi svifryks samkvæmt mælingum héldust um morguninn hófleg, eða 20-30 míkrógrömm (PM10) í stað þeirra um og yfir 100  míkrógramma, sem annars mætti gera ráð fyrir að morguntoppurinn hefði valdið.

Vera má að þarna sé komin nærtæk fyrirbyggjandi leið til að koma í veg fyrir verstu svifrykstilvikin sem alla jafna verða í þurru og stilltu veðri með hitahvörfum við jörð.  Vonandi bara að þessi leið sé ekki tiltakanlega dýr og því vænleg til að bæta loftgæði.   


Svifrykstoppur í morgunsárið

Klassískt "svifryksveður" á höfuðborgarsvæðinu hugsaði ég með mér þegar ég kom út snemma í morgun um leið og ég andaði að mér svölu loftinu.

svifrykHægur vindur og hitahvarf við jörð eru þeir þættir sem ráða mestu um uppsöfnun svifryks í lofti ásamt vitanlega sjálfum umferðarþunganum á höfuðborgarsvæðinu.  Við eigum væntanlega eftir að sjá mæld gildi við Grensásveginn á milli 50 til 100 míkrógrömm á bilinu um kl. 10 til 11.  Í hægum A-andvaranum er verður dálítil tregða, hæstu gildin á mælistöðinni verða yfirleitt lítið eitt síðar en  mesti umferðarþunginn.

Í raun er ótrúlega auðvelt að sjá fyrir uppsöfnun svifryks á höfuðborgarsvæðinu. Þar ráða veðuraðstæður mestu. Uppsöfnunin á sér nær eingöngu stað þegar vindur í 10 metra hæð er mjög hægur ( 2 m/s eða minni) og það kalt að hitahvarf er við jörðu, a.m.k. að morgni.  Um leið og vindur yfirstígur þröskuld 2-3 m/s fer af stað lóðrétt blöndun loftlaganna og þéttni svifryks minnkar strax í kjölfarið.

Þannig þarf ekki að hafa að sama skapi verulegar áhyggjur síðdegis, en þá verður farið að blása heldur frá úrkomuskilum og lægð sem nálgast. 

Að vísu eru undantekningar á þessari meginreglu, þ.e. þegar vindur er allnokkur (8-12 m/s),  oftast í N-átt eða þurri A-átt.  Þá fýkur til grófasta rykið, til að mynda frá framkvæmdasvæðum og ekki síður það sem situr í vegköntum.  Við þau skilyrði hjálpar mjög að sópa göturnar eða reyna rykbindingu af einhverju tagi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband