Siglufjörður og Ólafsfjörður vafalítið snjóþyngstu byggðakjarnar landsins

8.mars 2009 kl. 12Í gær, sunnudag (8. mars)  snjóaði einhver lifandis ósköp á utanverðum Tröllaskaga og í Eyjafirði.  S.s. á Siglufirði, í Ólafsfirði og í sjónvarpsfréttum í kvöld gat að líta myndir af fannfergi á Grenivík.

Þegar svo háttar til að sæmilega rakt loft berst með N eða NA-átt upp að miðju Norðurlandi, lyftist það yfir há fjöllin og þá fylgir mikil úrkoma.  Síðla sumars eða á haustin verður stórrigning, en á veturna snjóar vitanlega eða í það minnsta oftast nær. 

EyjafjörðurSvæðið þar sem úrkomumagnið verður hvað mest er nokkuð staðbundið, nær frá Fljótum (einkum Stíflu), fyrir Sauðanes, Siglufjörð, Héðinsfjörð og yfir í Ólafsjörð.  Þaðan inn eftir Eyjafirði yfir í Karlsárdal skammt utan Dalvíkur, en Svarfaðardalur sleppur oftast mun betur.  Handan fjarðarins nær snjóakistan inn eftir Látraströndinni yfir í Kaldbak og niður í Dalsmynni þar sem Grenivík kúrir og einnig þykir snjóþungt úti í Fjörðum og á Flateyjardal, einkum í Víknafjöllum austan hans.

Veturna um og upp úr 1990 voru byggðirnar út með Eyjafirðinum oft á kafi í bókstarflegri merkingu. Síðan komu snjóléttari vetur, en þó eðlilegri inn á milli, en síðustu ár, svona frá 2003 hefur lítt kveðið að raunverulegum snjóþyngslum.  Í raun hefur gert reglulegar ofanhríðar, en vetrarhlákur síðan gengið á skaflana, í stað þess að vetrarákoman safnist stöðugt upp yfir veturinn.

Í gær og þar til í morgun mældist úrkoman í Ólafsfirði um 50 mm og féll hún öll sem logndrífa í vægu frosti.  Snjódýptin laust fyrir hádegi í dag var að sögn staðkunnugra um 60-70 sm.  Snjómokstur á Ólafsfirði 28.okt 2008Snjóathugunarmaður Veðurstofunnar, Jóhannes í Kálfsárkoti, er illa fjarri suður á Kanarí er mér sagt. Því eru engar "opinberar" mælitölur að hafa. Þegar vindur er á norðan er sæmilegt skjól í Ólafsfirði, en nokkuð blæs og fýkur frekar í skafla á Siglufirði.  Í norðaustanátt er þessu öfugt farið, þá stendur strókurinn inn Ólafsfjörð á meðan skýlla er á Siglufirði og snjórinn fellur í hægum vindi.

Í pistli á Vísindavefnum um mestu snjódýpt á Íslandi kemur m.a. fram að mestu snjódýpt sem mælst hefur á íslenskri veðurstöð sé 279 sm (hátt í 3 metrar) !  Það var við Skeiðsfossvirkjun í Fljótum í mars snjóaveturinn 1995.

Ljósmynd:  Ronnson í Ólafsfirði, sjá tengil


Gagnrýni sett fram á "íshokkíkylfuna"

Michel E. Mann loftslagsfræðingurHún olli talsverðu uppnámi og vakti mikla athygli myndin eða hitaritið sem kennd er við Michael E. Mann loftslagsfræðing og gengur oftast undir heitinu "íshokkíkylfan".  Þetta var árið 1998 og Mann og félagar sýndu með athugunum sínum og samantekt á hitaröðum sem birst höfðu og sýndu þróun hitastigs síðustu 600 árin.  

Mann-hitaritið, upprunaleg útgáfaHitaritið sem fyrst birtist í Nature (sjá mynd í sv/hv) og hefur margsinnis verið endurgerð og  jafnframt reiknuð aftar, sýnir nokkuð stöðugan hita í 500 ár, en eftir 1900 mjög ákafa hitaaukningu.  Það má segja að loftslagsumræðan hafi kristallast að nokkru leyti um þessa mynd frá því hún birtist fyrst.  Á meðan sumir halda fram að þarna sé fram kominn augljós staðfesting þess að hlýnun lofthjúps sé síðustu öldina af þeirri stærðargráðu að önnur eins veðurfarssveifla hafi ekki orðið síðustu aldirnar, segja gagnrýnendur að þarna sé um ýkta framsetningu að ræða og beinar hitamælingar síðustu áratuga gefi raunsærri mynd, en svokölluð veðurvitni síðustu alda (proxy data).  Meðal þeirra er talning árhringja, en Michael Mann kann greinilega  vel við það að láta mynda sig með sneiðum úr gömlum trjáviði. Þessi ágæti bandaríski vísindamaður er annars einn þeirra afkastamestu þegar kemur að rannsóknum á svið loftslags og hlýnunar jarðar.

Danskir veðurfræðingar á DMI hafa skoðað bakgrunn Mann-hitaritsins, sérstaklaga útjöfnun ferlana til að byrja með og þeir halda því fram að útjöfnunin sé of mikil, náttúrulegar sveiflur sem í raun hafi orðið fletjist út og fyrir vikið virðist hækkun hita upp úr 1900 vera magnaðri en hún var í raun.

Bo Christiansen á Dönsku loftslagmiðstöðinni fer fyrir teymi vísindamanna sem kannað hafa betur bakgrunn gagnanna í íshokkíkylfunni og halda því fram að hitaritið einfaldi veðurfarssögu síðustu alda um of. 

Í framhaldspistli mun ég gera nánar grein fyrir gagnrýni og sýn  Christiansen og hans samstarfsmanna. 

 


Snjódýpt og úrkoma eftir hretið fyrir vestan

Bolungavík_vikari.isVið utanvert Ísafjarðardjúp hefur meira og minna snjóað nú frá því seint á mánudagskvöld (2. mars) eða á þriðja sólarhring. Þegar þetta er skrifað er einn lítilsháttar snjókoma í Bolungarvík, en mikið hefur lægt frá því í gærdag.

Í Bolungarvík er uppsöfnuð úrkoma samkvæmt úrkomumælingum um 45 mm frá því að ofanhríðin hófst.  Í Súðavík er hún álíka en hún dreifist með öðrum hætti á tímabilið.   Það er alþekkt að snjókoma mælist illa þegar blæs að ráði og aðeins hluti hennar hafnar í mælinum. Lengst af mánudagsins var vindur hægur og nánast logndrífa.   Svo virðist að á meðan hvað hvassast var upp úr miðjum degi í gær, í NA-áttinni, hafi minna mælst sem sést ágætlega á minni bratta línu uppsafnaðrar úrkomu í Bolungarvík.  Í Súðavík var hins vegar meiri úrkomuákefð á sama tíma (ekki sýnt) og þó svo að hvasst hafi verið þar var veðurhæð ekki jafn mikil og í Bolungarvík.  Við skulum líka hafa það hugfast að snjó getur líka skafið í mælana.  En það var klárlega líka úrkoma í öllu snjókófinu sem gerði á meðan NA-áttin var hvað hvössust í gær.  Við þau skilyrði sér jafnvel ekki á milli húsa og skyggni gefið upp sem minna en 100 metrar í veðurathugun. 

Mælingar á snjódýpt getur þá verið óbeinn mælikvarði á úrkomumagn, þ.e. hve mikið bætir á.  Í greinargerð Kristjáns Jónassonar og Trausta Jónssonar (Veðurstofa Íslands, 1997)  um 50 ára snjódýpt segir m.a.  "Mælingar á snjódýpt eru ýmsum vandkvæðum bundnar á Íslandi.  Hér er vindasamt og snjór er mikið á hreyfingu eftir að hann fellur....Alvanalegt er að snjódýpt minnki eftir óveður og skafrenning."

Bolungarvík, uppsöfnuð úrkomaÞað var einmitt það sem gerðist í Bolungarvík.  Í gærmorgun var snjódýpt áætluð í mælingu 40 sm, en eftir skafrenninginn í gær minnkar hún og er 35 sm í morgun.  Engu skiptir þó snjóað hafi meira og minna allan tímann !   Snjódýptarmælingar sem eiga að gefa raunsanna mynd af snjóalögum eru því vandkvæðum háðar þegar fönnin fýkur svona stöðugt í skafla.

En það breytir ekki því að mikið hefur snjóað fyrir vestan og snjóflóð verið að falla úr þekktum farvegum, t.d. við vegin um Súðarvíkurhlíð og á Hvilftarströnd út á Flateyri.  

Ljósmyndin er úr Bolungarvík og fengin af vefnum vikari.is.  Tekið er fram að hún sé úr safni. 


Norðaustanröst Vestfjarðamiða

NA-röst 3. mars spá frá Belgingi.isÁ þessu spákorti Reiknistofu í Veðurfræði af Belgingsvefnum sést afskaflega vel hvað norðaustanvindröstin getur verið skörp úti fyrir Vestfjörðum.  Gildistími kortsins er kl. 06 í fyrramálið (3. mars).  Röstin er reyndar spáð inn á land í fyrramálið.

Þegar maður sér vindakort eins og þetta skilur maður vel hvað átt er við þegar sagt er að "veðrið hafi brostið á  eins og hendi væri veifað".  Enda er að sjá sem veðurhæð verði 3 m/s utantil í Djúpinu á meðan yfir 25 m/s eru einhverjum 10 mílum utar eða tæplega það.

Spáin er grundvölluð á GFS og upplausnin 9km. 


Hríðarveðrið í New York

NYT3Bandaríkjamenn kalla það Nor'easter snjóhríðina sem gerði í nótt og í morgun á norðausturströnd Bandaríkjanna.  Lægð úti fyrir yfir hafinu dregur  kalt meginlandsloft norðan frá  Kanada, en lægðin leggur til rakann svo úr verður  allhvöss N og NA með snjókomu í strandríkjunum frá Maine suður til Virginíu.

Ég fjallaði ítarlega um tilurð þessara veðra fyrir tveimur árum hér.

Í New York borg var snjódýptin þetta 20-30 sm.  Í fyrsta sinn í fjögur ár var skólahaldi grunnskólabarna aflýst í borginni.  Af því einu hlaust gríðarleg röskun. Skólabörnin eru 1,1 milljónir talsins í borginni og foreldrarnir hlaupa ekki svo glatt í burtu frá þeim til vinnu sinnar auk þess sem samgöngurnar hökta svo vægt sé til orða tekið.  

Hér eru nokkrar fallega myndir úr borginni sem ég fékk af vef New York Times.

NYT1

 

 

 

 

 

 

 

NYT2


Hvaða einkunn fær þessi febrúarmánuður ?

Febrúar 2009;- var hann kaldur eða hlýr ?  Telst hann snjóléttur, bjartur, drungalegur, stormasamur eða hægviðrasamur ?

Maður veit eiginlega ekki hvað skal segja.  Sennilega telst hann hagstæður og ekki hefur verið snjóþungt.  Samgöngur á landi hafa gengið vel og mánuðurinn held ég alveg laust við stórviðri.

Hiti Reykjavík feb 2009.pngHins vegar var hann sérlega kaflaskiptur.  Framan af var kalt og talsverðar frosthörkur til landsins.  Þá voru stillur dag eftir dag og veður bjart. Fyrir miðjan mánuð hlýnaði hins vegar með suðlægum vindáttum og sérlega milt var um nokkurra daga skeið, sérstaklega dagana 16. og 17. Áfram taldist milt þar til alveg undir lokin þegar kólnaði á ný og aðeins síðustu 3 til 4 dagarnir teljast til "venjulegra" vetrardaga, ef hægt er að tala um "venjulegt" veður, eins breytilegt og það nú er hér að vetrarlagi.

Línuritið sýnir sveiflurnar í sólarhringshita í Reykjavík, með fyrirvara um þann 28, sem ekki er liðinn þegar þetta er skrifað.  Og eins og stundum áður þegar sviptingar eru í hitafarinu að þá stefnir febrúar í það að vera nærri eða rétt ofan meðalhitans.  Sú lýsing er engu að síður í litlu samræmi við raunverulegt hitafar mánaðarins í Reykjavík  !  

Fróðlegt verður að sjá uppgjörið hjá Veðurstofunni nú eftir helgi.


Snjóar aftur á höfuðborgarsvæðinu

NOAA 26. feb 2009Það er svo merkilegt hvað lægðir geta verið svipsterkar við nánari skoðun, þó svo þær séu allar frekar "kindarlegar" svona við fyrstu sýn.  Á meðan sumar bera hingað skarpa vetrarhláku með SA-áttinni eru aðrar þannig að þær eru sprottnar upp úr kaldari efnivið og milt Atlantshafsloftið streymir til austurs fyrir sunnan land. 

Sú sem nú nálgast landið er af síðari gerðinni. Þó svo að blási af SA og far lægðarinnar er ósköp venjulegt, nær ekki að hlýna að neinu ráði.  Þessi munur hefur það í för með sér að úrkoman fellur víðast sem snjókoma.  Þannig verður það í nótt ef að líkum lætur, þó svo að það nái að blota allra syðst og eins á utanverðu Reykjanesi.

Spá af VÍ. (26. feb 00 +36t) Því er spáð að á Höfuðborgarsvæðinu varði aftur kominn snjór í fyrramálið, en varla meira en föl.  Mjög víða mun snjóa á landinu í nótt og framan af morgundeginum og þeir sem leið eiga um þjóðvegina hafi það í huga.  Samfara ofankomu dregur mjög hratt úr skyggni eftir að 7-8 m/s er náð og sé lausamjöll fyrir þarf ekki að spyrja að kófinu þegar vindhraði er kominn í þetta 13-15 m/s.  

Spákortið er tekið af vef Veðurstofunnar og tunglmyndin er frá því skömmu fyrir kl. 15 í dag. 


10 gráða hitamunur á Vesturlandi

23. feb 2009 kl. 15

Þegar þetta er skrifað um kl. 16 er óvenju skarpt lægðardrag yfir landinu.  Sunnan þess, þ.e. suðvestanlands er hálfgerð vorveðrátta, þ.e. sunnanþeyr og  5 til 6 stiga hiti.  Norðan þess er  NA-átt og  hríðarveður  og frost. 

Svo skörp voru þessi skil kl. 15 að á milli Húsafells og Holtvörðuheiðar voru 10°C í hitamun eins og sjá má á úrklippunni af veg Veðurstofunnar. Vitanlega er hæðarmunur þarna á milli, en hann skýrir ekki nema lítinn hluta þessa skarpa hitafalls til norðurs.


Skógareldar, agnamengun og loftslag

Eldar brenna á SúmatruSjónir manna beinast nú eðlilega að áhrifum skógareldanna í Ástralíu á loftslag almennt, en einkum þó á suðurhveli jarðar.  Ótengd eldunum var haldin mikil ráðstefna veðurfræðinga í Melbourne í Ástralíu fyrr í þessum mánuði þar sem fjallað var um áhrif aukinnar agnamengunar í andrúmslofti á loftslag Eyjaálfu.  Í marshefti Nature Geoscience er að auki fjallað um aukna tíðni skógarelda í Indonesíu og hvernig mistur af þeirra völdum og agnamengun geti haft áhrif á loftslag. 

Í Melbourne var því haldið á lofti að aukin agnamegnun vegna iðnaðar, skógarelda eða annars sem beinlínis má rekja til mannlegra athafna mætti ekki setja undir sama hatt og loftslagsbreytingar vegna aukinna gróðurhúsáhrifa.  Agnamegnunin er annað og meira og hún getur haft skjótari og meiri afleiðingar í för með sér, allt vegna þess að varmi frá sólu nýtist ekki yfirborði jarðar eins og hann gerði væri loftið hreint og tært.   Sólarljós dreifist þegar það hafnar á smágerðum ögnum í lofthjúpnum og berst því síður til jarðar.  Mistur af mannavöldum  getur hæglega haft áhrif á upphitun yfirborðslaga sjávar, þar með á þrýstikerfin og vinda og aftur á hafstrauma.  Í þessu sambandi má nefna að sandmistur frá Afríku sem berst út á Atlantshafið að sumri er talið hafa verulega þýðingu fyrir myndun fellibylja síðar sama sumar. 

Mestar eru áhyggjur manna af því að ef agnamengunin raskar viðkvæmu kerfi hafstrauma Suðurhafa  hafi það fljótt áhrif á dreifingu úrkomunnar. 

Borneo og SúmatraÍ grein Robert Field er sjónum manna beint að annars vegar Borneo þar sem gróðureldar voru tiltölulega fátíðir alveg fram undir 1980 og hins vegar Súmötru þar sem eldar á öllu tagi hafa verið nokkuð algengir frá upphafi þess tíma sem var skoðaður þ.e. 1960.  Báðar eyjarnar eru við miðbaug og í regnskógabeltinu. Á Borneo var landbúnaður frumstæðari lengur en á Súmötru, en á endanum fór fólki að fjöga hratt, landnýting breyttist og meiri áhersla lögð á skógarnýtingu og háþróaðan landbúnað.  Samanburður á milli stóru eyjanna tveggja Borneo og Súmötru leiðir það í ljós að  með breyttri landnotkun og auknu þéttbýli er eins og skógareldarnir verði tíðari.  Í rannsókninni er m.a. stuðst við athuganir á skyggni á flugvöllum, en þær gefa mikivæga vísbendingu um mistur í lofti af völdum reykjarkófs.  

Robert Field dregur einnig fram áhrif aukinnar agnamengunnar af völdum gróður og skógarelda í þessum heimshluta á hafsstraumanna og viðkvæmt samspil þeirra og úrkomu þarna við miðbaug á milli Ástralíu og Malasískagans.  Inn í þessa mynd spilar einnig ENSO (El Nino) og Indian Ocean Dipol (sjá umfjöllun hér)   og að sjálfsögðu ártíðabundnir monsúnvindar. Hafstraumarnir eru nefnilega lykillinn að loftslagi á stórum hluta jarðarkringlunnar.

Viðfangsefni þessi eru mjög áhugaverð.  Agnamengun dregur klárlega úr eða hægir á loftslagshlýnun af völdum auknum gróðurhúsaáhrifum, en hún er hins vegar líkleg til að geta raskað veðurfari a.m.k. um tíma á svæðum jarðar sem eru þéttbýl og mjög háð úrkomu fyrir ræktun og matvælaframleiðslu. 

 


Öxnadalur - Öxnadalsheiði

Bakkaselsbrekka.pngÉg hef áður gert að umtalsefni hvað kalt loft virðist þaulsætið í Öxnadal. Í gær var ég þarna á ferðinni í snjómuggu frá lægðardragi sem var á leið norður.  Reyndar snjóaði út allan Eyjafjörðinn.  Hins vegar vakti það óskipta athygli mína að um leið og ekið var upp Bakkaselsbrekkuna hlánaði og það rigndi upp á Öxnadalsheiðinni !  Vel má vera að umtalað lægðardrag hafi þarna átt hlut að máli því hitastigull norður-suður var mjög skarpur og milda lofið borar sig gjarnan niður.

Í morgun hins vegar sé ég að á meðan hitinn var rétt undir frostmarki á Möðruvöllum í Hörgárdal og á Akureyri. Á sama tíma +5°C á Öxnadalsheiði.  S-átt og þíða á landinu, meira og minna skýjað.  Svo virðist þó vera að niðri á láglendinu í Eyjafirði hafi útgeislunin náð yfirhöndinni í hægum vindinum og þar kólnað.

Hitamælingar í Öxnadalnum væru áhugaverðar, t.d. við Hraun eða Engimýri til að fá fyllri mynd af þeim skörpu dráttum og umskiptum sem þarna eru oft við þjóðveginn.

Fróðlegt væri að heyra af reynslu ökumanna sem fara þarna oft um.

Ljóðræna myndin úr Bakkaselsbrekkunni er frá 2008 og tekin af Guðnýju.  Sjá hér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.7.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 40
  • Frá upphafi: 1790862

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband