Eplaræktun á Íslandi ?

picture_129_996793.pngFyrir nokkrum árum lauk kennari í garðyrkju og ræktun garðávaxta störfum sínum við skóla í Þrændalögum í Noregi. Þessi hálfsjötugi eftirlaunaþegi og nafni minn Einar Skjetnemark var þar með ekki sestur í helgan stein.  Hann tók sig til og setti á laggirnar nyrsta býli Noregs þar sem ræktuð skyldu epli  Þetta var í Levanger í Norður-Þrændalögum á breiddargráðu sem samsvarar sunnanverðu Íslandi.

picture_130_996794.pngRæktun epla stendur á gömlum merg sunnar í Noregi, t.a.m. við Harðangursfjörð og í Buskerud vestan Oslóar þaðan sem koma kunn og eftirsótt eplavín sem löguð hafa verið kynslóð fram af kynslóð.

Fáir höfðu trú á þessu uppátæki garðyrkjukennarans, enda hin kenjótta veðrátta Þrændalaganna ekki heppileg fyrir eplatré, nema svona eitt og eitt til heimabrúks í skjóli sunnan undir húsvegg.  Sumarið 2002 plantaði Einar Skjetnemark 1.500 eplatrjám og að auki 250 plómutrjám í héraði þar sem stunduð er kartöflu- og kornrækt.  Þessi ávaxtatré eru fyrir löngu farin að gefa ríkulegan ávöxt eins og sést á meðfylgjandi mynd af Einari við eitt eplatréð haustið 2007.

picture_128_996795.pngEplaræktun gerir kröfu um ákveðin hitaskilyrði yfir sumarið og ekki síst að sumarið sé nógu langt ef svo má segja þannig að ávöxturinn ná i þroska.  Lækkun hita í september er þannig vera álitinn helsti hemill á eplaræktun. Þetta fékk Einar hinn norski að heyra að þetta norðarlega næðu eplin einfaldlega ekki þroska.Annað sem hafa verður í huga að eftir að trén blómstra að vori að þá sé flugan komin á stjá, geitungar, hunangsflugur og álíka, en þær sjá um frævun.  Í eplasveitum Harðangursfjarðar gerðist einmitt þetta vorið að það kalt var að flugan var vart komin til þegar trén blómguðust og óvíst því með uppskeru í haust, jafnvel þó sumarið verði hagfellt og langt.

picture_136.pngHér á landi má ætla að svipuð veðurskilyrði náist á Suðurlandi í skjólsælum sveitum, t.d. í Fljótshlíðinni.  Sólarhæð þar er mjög áþekk því sem er nærri Levanger. Fróðlegt er því að bera saman hitafar t.d. á Sámstöðum í Fljótshlíð við Værnesflugvöll sem staðsettur er um 35 km norðan Þrándheims. Í meðfylgjandi töflu sést að þrátt fyrir allt er umtalsvert hlýrra í Værnes og þeim slóðum heldur á Sámsstöðum  Munar um 2-3°C á hitafarinu eftir mánuðum.  Við sjáum að septemberhitinn í Værnes er áþekkur hitanum í júní á Sámsstöðum og sjá má að í september lýkur sumri að jafnaði nokkuð ákveðið.  Hafa ber þó í huga að viðmiðunartímabilið 1961-1990 er frekar kalt og gera má ráð fyrir að frá því um aldamót hafi verið um 1°C hlýrra en þá og jafnvel rúmlega það.  Sá munur er vart nægur eða hvað ?  

Veðurathuganir lögðust af um tíma á Sámsstöðum í Fljótshlíð, en sumarið 2000 var sett þar upp sjálfvirk stöð.  Ég hef reiknað meðaltöl frá þeim tíma 2000-2009 og þá koma í ljós talsverðar breytingar á meðalhitanum (hækkun frá 1961-1990 í sviga).  Maí: 7,0°C (+0,2). Júní: 10,2°C (+0,8). Júlí: 11,7°C (0,7). Ágúst: 11,5°C (+1,0°C). Sept: 8,8°C (+1,4). Tek fram að tvo fyrstu mánuðina í hitaröðinni þurfti að skálda út frá frávikum nálægra stöðva.

Af þessu má sjá að batnandi hitafar frá köldu árunum kemur einkum fram síðsumars, en síður um vorið.  Þetta er í takt við aðrar mælingar síðustu ára.  Það er að teygjast úr sumrinu og einnig er það heldur betra í þessu tilliti, en sumarhitinn er ekkert endilega mikið fyrr á ferðinni.

En eru þessar breytingar nægjanlegar svo hefjast mætti handa við eplaræktun svipaða þeirri sem stunduð er í Levanger á sömu breiddargráðu ?  Svarið held ég að sé nei.  Hlýna verður heilt yfir um um svona eina gráðu til viðbótar hið minnsta.  Svo skulum við hafa líka í huga að sennilega hefur líka verið að hlýna í Noregi líkt og hér á síðustu árum frá tölum gamla meðaltalsins. 

epli_jon-g_090_20908.jpgÞrátt fyrir þetta hafa eplatré engu að síður borið ávöxt hér á landi og 90 ár síðan epli urðu hér fyrst fullþroska að því að talið er. Frost að haustinu eru helsti óvinur eplaræktunar og sumarið oftast of stutt fyrir fullþroska ávöxt.  Engin vandkvæði eru hins vegar á því að rækta hin ýmsu harðgerðustu afbrigði ávaxtatrjáa í íslenskri veðráttu. Þess má geta að Skógræktarfélag Íslands stóð einmitt fyrir fræðslukvöldi í vetur þar sem fjallað var um ræktun garðávaxtatrjáa hér á landi.  Jón Guðmundsson garðyrkjufræðingur sagði þar frá eplaræktun sinni heima við hús á Akranesi og gaf góð ráð (eplið hér til hliðar er þaðan). Sigurður Árni Þórðarson sóknarprestur í Neskirkju skrifaði niður greinargóða frásögn frá þessu fræðslukvöldi og má nálgast hana hér.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er plómutré af kvæminu 'Opal' í skjólsæla garðinum mínum í Garðabæ og hafa komið plómur á það síðan 2007, en það var gróðursett sama ár. Plómurnar sem eru dísætar, eru smáar en ákaflega ljúffengar með dökkfjólubláum lit fullþroskaðar. Þær þroskast um miðjan september hjá mér.

Jóhann Grétar Kröyer Gizurarson (IP-tala skráð) 4.6.2010 kl. 10:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 95
  • Frá upphafi: 1786701

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 88
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband