Illviðratími

screen_shot_2011-12-26_at_10_18_59_am.pngVið heyrum nú fréttir af tjóni í Skandinavíu af völdum tveggja lægða.  Sú fyrri sem Norðmenn kalla Cato er sú sama og fór hér yfir land á aðfangadag og olli jólapakkahvellnum austanlands. Sá hvellur var með þeim hætti að full þörf er á því að skoða veðrið nánar fyrir austan.  Vindhviðurnar mældust mjög víða ansi miklar í skamma stund. 

Á meðfylgjandi tunglmynd frá móttökustöðinni í Dundee frá því um kl. 04:30 á jóladagsmorgun er sú lægðarmiðja merkt með bókstafnum c.

Sú sem meiri óskunda gerði og kom strax á eftir hinni, reyndar hér suður af landi fékk hjá norsku veðurstofunni heitið Dagmar.  Hún var um þetta leyti í gær í miklum dýpkunarfasa suður af Reykjanesi og illúðleg að sjá á tunglmyndum.  Við sluppum alveg við veður af hennar völdum, nema að hún gaf sunnlendingum dálítnn jólasnjó.

Norskir fjölmiðlar greina frá því að veður af völdum Dagmarar verði þegar allt kemur til alls líklega eitt af  5 þeim verstu á síðari árum þar í landi.  Einkum varð óveðrið mikið þar sem SV- og V-áttin skall á ströndinni skammt sunnan lægðarmiðjunnar seint í gærkvöldi frá Þrándheim suður um í Sognsfylki.  Þannig þoldi raforkuflutningskerfið vindinn illa og þúsundir heimila urðu rafmagnsleysinu að bráð.  Handan landamæranna í Svíþjóð er talað um að 170.000 manns hefi verið án rafmagns nú í morgun. Slembilukka að allir hefi komist sæmilega heilir, en ekki öll kurl komin til grafar enn. 

Þessi illviðratími þar sem hverja djúpu lægðina rekur aðra er vissulega nokkuð óvenjulegur, en ekki einsdæmi. Kaflinn hófst nokkrum dögum fyrir vetrarsólhvörf eða um 19 til 20. des þegar mikil háloftavindröst náði að byggjast upp á Atlantshafi. Til þess að svo verði þarf að vera einkar hlýtt loft yfir V-Evrópu miðað við árstíma og líka verður kuldahvirfillinn sem gjarnar er við Grænland og Baffinsland um þetta leiti að vera mikill um sig og teygja anga sína suður á Atlantshaf. Þegar þetta gerist samtímis fá vetrarlægðirnar óvenjugott fóður eins og Trausti Jónsson kallar það gjarnan.  Skotvindurinn í háloftunun tryggir það síðan að þær fara hratt yfir. 

Frá því seint á aðfangadag höfum við á Íslandi verið alfarið á áhrifasvæði kuldahvirfilsins í vestri með tilheyrandi éljalofti og vetrarlegri tíð.  Ekkert bendir til þess að þessi meginstaða veðurkerfanna sé að láta undan og krappar og djúpar lægðir verða því enn um sinn á ferðinini a.m.k. eitthvað fram á nýárið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú þarf samstillt átak til að tapa ekki hinu ágæta og lýsandi orði "vetrarsólhvörf" úr málinu. Vísindamenn, svo sem veðurfræðingar, mættu hafa þetta í huga, jafnvel beita sér!

Kv. Guðm. Birkir

Guðm. Birkir Þorkelsson (IP-tala skráð) 26.12.2011 kl. 11:46

2 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Rosalega er erfitt að finna veðurathugarnir á erlendum veðurstofum á erlendum síðum. Einkennileg árátta að hafa aðeins veðurspár, og það til 15 daga.

Enn fann þó vinhraðayfirlit á norska veðurstofuvefnum:  http://met.no/Forel%C3%B8pige+m%C3%A5linger+under+Dagmar.b7C_w7DY1R.ips

Þarna sést að þetta er svipað veður og geisaði hér á Íslandi fyrir nokkrum dögum 21. og 22. des. Þegar vindhviða fór upp í 60,1 m/s. á Gagnheiði.

Pálmi Freyr Óskarsson, 26.12.2011 kl. 13:02

3 Smámynd: Pálmi Freyr Óskarsson

Rosalega er erfiitt að finna veðurathugarnir frá erlendum veðurathugunarstöðvum á erlendum veðurstofuvefjum, átti þetta hljóma hjá mér.

Pálmi Freyr Óskarsson, 26.12.2011 kl. 13:33

4 identicon

Smá nördakomment: Eg held að það hafi verið 170.000 heimili sem urður rafmagnslaus í Svíþjóð. Líklega uppundir hálf milljó manns.

Áskell Örn Kárason (IP-tala skráð) 26.12.2011 kl. 20:49

5 identicon

Hér á íslandi gefa veðurathuganir upp annarsvegar vindhviður og hinsvegar 10mín vind. Ekki rétt?

Nú fór vindurinn sem dæmi í 23/47 m/s í Neskaupstað, sem var sem mest í fréttum á aðfangadag. Hver var sambærilegur vindstyrkur í Noregi?. Gefa þeir upp hviður/10m vind?

Gunnar S (IP-tala skráð) 27.12.2011 kl. 02:53

6 identicon

Nú er ég orðinn bæði gamall og gleyminn, fyrir nú utan aðra vankanta, en mig rámar í að hafa lesið um spálíkön, sem reynt var að nota til að sjá fyrir hvaða afleiðingar hnattræn hlýnun hefði á hinum ýmsu svæðum á jörðunni. (Nú fæ ég líklega harðorð mótmæli frá sérfræðingnum á Reyðarfirði). Þessi spálíkön virtust gera ráð fyrir að afleiðingarnar yrðu m.a. illvígari og meiri veður hér á Norður-Atlantshafi en fyrirfarandi áratugi og ekki neitt endilega meiri hlýindi. Ég þykist vita að Sveinn Atli, félagi Höskuldur Búi og fleiri hafi á takteinum vísanir í þessi mál, sem leiði þá í ljós hvort þetta sé misminni mitt eða misskilningur.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 27.12.2011 kl. 21:00

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Rámar nú eitthvað í svona spár. En ekki hefur nú vantað hlýindin á okkar slóðum síðasta áratug og illviðri hafa held ég fremur verið með færrra móti. Hins vegar ætla ég að efast stórlega um að hlýindi vor hin ljúfu síðustu tiu ár séu af völdum hnattrænnar hlýnunar heldur fremur af völdum staðbundinnar hitasveiflu. En meira þori ég nú ekki fyrir mitt litla líf að segja því síst af öllu vil ég efna til óláta og óspekta rétt fyrir áramótin!

Sigurður Þór Guðjónsson, 27.12.2011 kl. 23:29

8 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Sæll Þorkell. Mér skilst að þetta sé þannig að meiri hiti, þýðir meiri raki í lofthjúpnum og þar með meiri orka og öflugri stormar. Heimildum ber þó ekki alltaf saman um það hvort stormar muni fjölga og hvar, en þó virðast margar rannsóknir benda til þess að styrkur storma muni aukast. Sjá t.d.

Hitt er annað að ég er viss um að Einar hefur skoðun á þessu og bloggar vonandi um þetta við tækifæri :)

Höskuldur Búi Jónsson, 28.12.2011 kl. 00:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.4.): 8
  • Sl. sólarhring: 12
  • Sl. viku: 64
  • Frá upphafi: 1786614

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband