Íshvelið á Grænlandi bráðnar nú á stærra svæði og hærra uppi en nokkru sinni áður frá því farið var að fylgjast með jöklinum með hjálp gervihnatta. Frá þessu var greint víða í dag.
Menn hafa einkum staldrað við meðfylgjandi mynd frá NASA sem sýnir þann hluta yfirborðs jökulsins þar sem ís er að bráðna annars vegar 8. júlí og hins vegar 12. júlí. Réttilega er afar óvenjulegt að leysingasvæðið nái upp á topp í rúmlega 3.000 metra hæð þar sem hiti er undir frostmarki, líka á sumrin.
Séu skoðuð greiningarkort lofthita í 850 hPa þrýstifletinum frá Bandarísku veðurstofunni þessa daga sést vel hvað veldur. Það til vinstri er frá 8. júlí. Þá er liggur frosmarkslínan um miðjar hlíðar ef svo má segja eða nærri 1.500 metra hæð. Fjórum dögum síðar er staðan allt önnur. Þá er hitinn greindur á milli +5 til +10°C í þessari hæð og svo hlýtt er að frostmarkshæði steig upp í 3.000 til 3.500 metra hæð. Það er fremur óvenjulegt, líka hér á landi og stendur eins og gefur að skilja yfir í skamma stund.
Danska Veðurstofan gerði það að sérstöku umfjöllunarefni að á stöðinni Summit inn á miðjum ísnum í 3.200 metra hæð hefði hiti náð +2°C þann 11. Oftast nær þegar milt loft kemst þetta norðarlega fylgja því raki og ský sem hindrar að veruleg sólgeislun nær til jarðar. En það átti ekki við þessa dagana. Fyrirstöðuhæðin af hlýrri rót var lengi yfir Grænlandi og þar ríkti niðurstreymi lofts hið efra og himininn var heiður. Eins og við munum náði áhrifasvæði hæðarinnar til Íslands, í það minnsta Vesturlands og þessa daga í kringum 10. var mjög sólríkt.
Það fór því saman að hlýtt loft streymdi um jökulísinn ásamt því á sumarsólin skein látlaust á jökulinn. Hvort má sín meira hitinn eða geislunin vita menn ekki með vissu, en komið hefur fram að mögulega hafi aska frá síðustu gosum hér á landi minnkað endurkastið. Það á þó varla við um þessi efstu svæði jökulíssins þar sem svo leysingin er væntanlega aðeins brot af ákomunni og öskugorið sekkur því fljótt ofan í ísinn.
En hvað um það vatnavextir urðu afar miklir þegar leysingarvatnið steyptist niður af jöklinum. Greint var frá því að í Syðri Straumsfirði ekki langan veg frá voldugum sporði skriðjökuls hafi brú tekið af. Fyrir áhugasama er hér myndband af síðu DMI af þeim atgangi.
Ég veit til þess að einn okkar betri ljósmyndurum náði loftmyndum ofan af Grænlandsjökli þessa daga þar sem sjást mikil lón vegna bráðnunar. Ekki er að ef að þær myndir þegar þær koma fram geta haft talsverða vísindalega þýðingu.
Þetta ástand þar sem leysti af nær öllu yfirborðinu varði til 15. til 16. júli, en þó tók að kólna um norðurhluta Grænlands. En hélst þó hlýtt í nokkra daga sunnantil. Við skulum hafa það hugfast að enn er of snemmt að segja nokkuð til um það að sjálf leysingin sé meiri en menn hafa séð áður fyrr en í sumarlok, þó svo að aldri fyrr hafi menn orðið vitni að því að bráðnunin næði þetta hátt upp. Leysing jökla ræðst af ákefð bráðnun margfaldað með leysingartímanum eða lengd sumars. Hér á landi hófst t.a.m. jöklabráðnun seint í ár og enn seinna í fyrra en þá náði hún á móti lengra fram á haustið en "venja" er til.
Mér finnst hins vegar rétt að benda á að veðurspár nú gera ráð fyrir því að fyrirstöðuhæðin byggist upp aftur nú um helgina yfir Grænlandi og með frostmarkshæðinni aftur uppi í himinhæðum. Því má aftur reikna með miklu leysingarskoti og ekki síst þegar haft er í huga að snælínan hefur færst ofar eða þar sem er að finna hvítan og endurkastandi snjó frá liðnum vetri. Líklega varir þó ástand albráðnunar jökulhvelsins ekki í nema 1 til 2 sólarhringa að þessu sinni frá komandi laugardegi og fram á sunnudag.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.10.): 11
- Sl. sólarhring: 13
- Sl. viku: 91
- Frá upphafi: 1788406
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 79
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 7
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þessi frétt um óvenjumikla hita yfir Grænlandi í þó nokkuð langan tíma hafa fjölmiðlar étið úr lófa loftslagsalarmista meðal vísindamanna af mikilli lyst. Gefið er í skyn að þessi hlýindi hafi mikil áhrif á jökulinn í heild og vá sé fyrir dyrum, en það er auðvitað af og frá. Til þess þurfa svona hitar að vera árlegt fyrirbæri í ansi mörg ár og dugar jafnvel ekki til ef ákoman er "eðlileg" á milli.
Svona hlýindi koma reglulega en langt er á milli þeirra og hafa ekki átt sér stað eftir að byrjað var að fylgjast með jöklinum utan úr geimnum.
Gunnar Th. Gunnarsson, 26.7.2012 kl. 01:09
Hárrétt Emil !
ESv
Einar Sveinbjörnsson, 26.7.2012 kl. 07:18
Þetta er fréttnæmt, enda gerist þetta ekki á hverjum degi, ég held að það sé kolrangt hjá Gunnari að orða það sem svo um þessa frétt að segja; "hafa fjölmiðlar étið úr lófa loftslagsalarmista meðal vísindamanna af mikilli lyst" (hvað sem það nú þýðir) - Enda er þetta fréttnæmt og vil ég því þakka Einari góðar skýringar á þessum hitum (sem eru óneitanlega á svæðinu).
Sveinn Atli Gunnarsson, 26.7.2012 kl. 08:11
(Ég sagði ekki neitt hér að ofan ef átt er við mig)
Hinsvegar er þetta hin merkilegasta frétt út af fyrir sig vegna þess hve atburðurinn er sjaldgæfur, en hefur aðallega táknrænt gildi fyrir loftslagshlýnun.
Emil Hannes Valgeirsson, 26.7.2012 kl. 08:29
Nei Gunnar átti það að vera. Var með þig í kollinum Emil eftir að hafa lesið í gær það sem þú hafðir fram að færa. Þessi atburður er bæði fréttnæmur og athyglisverður, en fleira ræður afkomunni þegar upp er staðið eins og við vitum. Áhugavert verður hins vegar að sjá mat vísindamanna í haust á leysingunni í magni tilaðið þ.e. áætlaðan fjölda rúmkílómetra vatns og hve stór hluti þess telst vera rýrnun umfram eðlilega hringrás. Það er sú tala sem skiptir máli í stóra samhenginu.
ESv
Einar Sveinbjörnsson, 26.7.2012 kl. 09:19
Þess má einnig geta að afkoma Grænlandsjökuls hefur nú ekki verið jákvæð eða nærri því í nokkuð mörg ár. Afkoma Grænlandsjökuls hefur verið neikvæð, þ.e. bráðnun hefur átt sér stað, jafnvel í árum þar sem ekkert óvenjulegt á sér stað.
Figure 1: Greenland ice mass anomaly - deviation from the average ice mass over the 2002 to 2010 period. Black line shows monthly values. Orange line shows long-term trend (John Wahr). - http://www.skepticalscience.com/greenland-cooling-gaining-ice-intermediate.htm
Að auki má segja frá því að breytingar í massatapi Grænlandsjökuls var á árunum 2002 og 2003 um 137 Gigatonn, en var komið í 286 Gigatonn árin 2008 - 2009...sjá samanburðarmyndir hér undir (meira - Samhengi hlutanna – Ístap Grænlandsjökuls). En það er þó töluvert í að hann bráðni, en það er þó fróðlegt að fylgjast með þróuninni sem nú á sér stað á sama tíma og heimurinn fer hlýnandi, vegna aukina gróðurhúsaáhrifa af mannavöldum.
Spurningin er svo, hvort og hversu mikil aukning er í bráðnuninni þegar svona hita gerir á jöklinum eins og í ár...það mun tíminn væntanlega leiða í ljós - og verður forvitnilegt að sjá...
Sveinn Atli Gunnarsson, 26.7.2012 kl. 11:25
Vissulega eru þessir hitar fréttnæmir, Emil. En finnst þér eftirfarandi fyrirsögn á Sky og víðar ekki bera vott um ýkjur?:
"Grennland ice sheet is melting away"
Gunnar Th. Gunnarsson, 26.7.2012 kl. 15:22
Þessir dagar í júlí árið 2012 skipta engu máli í heildarmyndinni. Heill áratugur skiptir einnig sára litlu máli. Við skulum tala saman eftir 100 ár
Gunnar Th. Gunnarsson, 26.7.2012 kl. 15:27
Það fylgir því mikil ábyrgð að ræða ekki núverandi bráðnun Grænlandsjökuls (sem er staðreynd) og "tala saman eftir 100 ár" eins og sumir vilja gera...
Ég reyndi að gúggla (og leita á Sky með leit þar) þessa fyrirsögn sem Gunnar staðhæfir að sé af Sky sjónvarpsstöðinni, fann ekki neitt (og já ég lagaði líka innsláttarvilluna)...væri fróðlegt að fá tengil á þessa frétt...bara svona til að sjá hvernig þessar meintu ýkjur fara fram...
Það eru þó ekki minnstu ýkjur að Grænlandsjökull sé í bráðnunarskeiði um þessar mundir, hvað sem líður fyrirsögnum og persónulegum skoðunum á þeim. En svona til að átta sig á hlutunum, þá væri fróðlegt að fá krækju á hinar meintu ýkjur...ekki að það breyti staðreyndunum nokkurn skapaðan hlut, en bara svona upp á skjalfestinguna...Gunnar..?
Sveinn Atli Gunnarsson, 26.7.2012 kl. 16:11
Þessu var slegið upp á skjánum í umfjöllun Sky News í gær, gæti hafa verið úr öðrum prentmiðli. Stuttar umræður voru um málið með tveimur aðilum, held þeir hafi verið blaðamenn. Annar var miður sín yfir þessu, (hugsanlega haldin viskvíða, sem er viðurkenndur sjúkdómur). Hinum fannst þetta hysteríukennt.
Gunnar Th. Gunnarsson, 26.7.2012 kl. 19:38
Það væri fróðlegt að sjá þetta við tækifæri, ef það skyldi dúkka upp á vefnum...ekki að ég nenni að elta ólar við svona umfjöllun, þar sem reynt er að etja saman tveimur persónum með ólíka sýn á þetta (öðrum greinilegum vistkvíðasjúklingi, samkvæmt skilgreiningu Gunnars og hinn væntanlega hinn besti gaur, samkvæmt sömu skilgreiningu). Sú nálgun fréttamanna að hafa oft á tíðum tv0 andstæð sjónarmið til að auka á andstæðurnar er ekki til að auka upplýsingar um þessi mál.
Sveinn Atli Gunnarsson, 27.7.2012 kl. 12:03
Þetta er til dæmis hérna á The INDEPENDENT:
The big thaw: Greenland ice cover is melting away
Emil Hannes Valgeirsson, 27.7.2012 kl. 12:55
Emil, mér sýnist þetta vera í samræmi við helstu umfjallanir um þetta mál - lítið sem ekkert athugavert við þessa umfjöllun að mínu mati...þetta virðist ekki vera það sem Gunnar var að vísa til... Hér er önnur svipuð umfjöllun (að einhverju leiti vísað í ummæli sömu aðila), Greenland ice sheet melted at unprecedented rate during July
Sveinn Atli Gunnarsson, 27.7.2012 kl. 21:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.