Í kuldanum sem verið hefur í febrúar hefur látið á sér kræla veðurfyrirbæri austur á landi sem kallast þar Dalgola.
Í fyrra skrifaði égsmá pistil um fyrirbæri í hið ágæta austfirska tímarit Gletting. Með leyfi ritstjórans fer hún hér á eftir ásamt myndefni.
DALGOLA ER HÚN NEFND, kuldagjólan sem leggur út Jökuldal á vetrum þegar loft er stillt og bjart yfir. Veðurfyrirbæri þetta er alþekkt á Jökul¬dal og í Hróarstungu og kveður svo rammt að henni að bæði menn og skepnur forðast kaldan gjóstinn sem verður mestur næst farvegi Jöklu. Að loknu norðanskoti með éljum eða hríðarveðri eða þá eftir SV-átt í kjölfar kuldaskila léttir oftast til austan lands. Um leið kólnar enda loftið sem norðanáttin hefur skilið eftir sig gjarnan af Íshafsuppruna og það því bæði þurrt og gegnkalt. Þegar landið er snævi þakið, sem oftast er nú raunin þegar norðanátt gengur niður, skapast þær aðstæður að við yfirborð heldur hið kalda og hánorræna loft áfram að kólna. Það gerir útgeislun jarðarinnar, sem við sjáum ekki með berum augum, ólíkt inngeislun sólarinnar.
Þegar saman fer snjóþekja á jörðu og þurrt loft eykst varmatap jarðarinnar enn frekar og kólnun í neðstu loftlögum getur því orðið mikil á tiltölulega skömmum tíma. Kalda loftið er þungt og liggur eins og mara á jörðinni. Loftblöndun við efri loftlög, sem eru lítið eitt hlýrri, verður því takmörkuð og nánast engin þegar stillt er. Við þess konar veðuraðstæður myndast kuldahæð yfir landinu miðju. Hið kalda yfirborðslag dugar eitt og sér til þess að hækka loftþrýsting allrar loftsúlunnar um nokkur hektópasköl eða millibör.
Landið verður því eins og köld eyja út í miðju Atlantshafi þar sem minniháttar útgáfa af stórri meginlandshæð er staðsett yfir landinu með heldur ógreinilegri miðju yfir hásléttunni norðan Vatnajökuls, Ódáðahrauni eða þar um slóðir. Frostið á Brú á Jökuldal, Grímsstöðum á Fjöllum og öðrum áþekkum stöðum mælist 10 til 18 stig við þessar aðstæður og stundum vitanlega enn meira. Að því kemur að hið kalda loft leitar undan landhallanum vegna eigin þunga og þá verður dalgolan til.
Kemur af Jökuldalsheiðinni
Halldór Stefánsson, sem hélt til haga ýmsum fróðleik um Austurland, skrifaði stuttan pistil um dalgoluna í Náttúrufræðinginn árið 1957. Þar segir m.a.:
Dalgolan fylgir farvegi Jökulsár til ósa og streymir á haf út. Þegar kemur út um miðja Hróarstungu verður aðhald hennar ekki nema á aðra hliðina. Breiðir hún þá úr sér um sléttlendið til sjávar.
Við fyrstu sýn mætti ætla að dalgolan ofan af Jökuldal ætti upptök sín inni á Brúaröræfum þegar kalda loftið leitaði þaðan niður eftir farvegi Jöklu, eins og Halldór skrifar 1957. En svo er ekki. Framarlega á Jökuldal, til dæmis á Brú þar sem veðurmælingar og veðurathuganir hafa verið gerðar um áratugaskeið, verður dalgolunnar ekki vart. Við ármót Gilsár og Jöklu þar sem þjóðvegurinn sveigir upp slakkann í Arnórsstaðamúla og áfram upp á Jökuldalsheiði finna menn hins vegar kuldagjóstinn koma niður Gilsárdalinn. ¬Upprunasvæði dalgolunnar er því sjálf Jökuldalsheiðin og hennar miklu víðáttur vestur að Möðrudalsfjallgarði, frá vatnaskilum Vopnafjarðar, t.a.m. við Skjaldklofa sem blasir við norðan þjóðvegar, og suður allan Víðidal að Eiríksstaðahneflum. Kalda loftið af tiltölulega lágri Jökuldalsheiðinni leitar því til byggða um Gilsárdal og á leið sinni niður í Jökuldal dregur lítið eitt úr kulda þess við að síga (um 1°C á hverja 100 m).
Ískaldur katabatískur vindur
Lýsingar manna sem búið hafa við dalgoluna allt sitt líf og þekkja hana á eigin skinni benda til þess að vindurinn sé um 5-10 m/s, ískaldur og til lítilla þæginda. Hann ber auðveldlega með sér lausamjöll svo úr verður stundum nokkurt snjókóf en yfirleitt aðeins lágur skafrenningur. Vindurinn herðir á sér ef eitthvað er út Jökuldal enda er landlækkun frá Gilsárdal niður undir brúna á þjóðveginum við Brúarás allnokkur eða um 110-120 m og aðhaldið mikið af bröttum hlíðum. Þegar út á flatneskjuna kemur halda ásarnir í Jökulsárhlíðinni dalgolunni nærri Jöklu en að austan breiðir hún úr sér og er hvað sterkust á svonefndum Bökkum. Kraftur hennar dvín samt þegar fjær dregur ánni og þó að blási kröftuglega á Bakkabæjunum gætir gjóstsins lítt austan við Hallfreðarstaði, um 2 km austar.
Sömuleiðis minnkar vindstyrkurinn eftir því sem nær dregur Héraðsflóa. Sumir segja að þegar dalgolan sé hvað kröftugust þá nái hún austur yfir Fellaheiði, allt að Ærlæk. Líkur eru þó á að þar sé á ferðinni sérstakur fallvindur af Fellaheiðinni sem skapast við sömu veðurfarsaðstæður.
Dalgolan er þekkt veðurfyrirbæri sem hefur verið lítið rannsakað hérlendis. Slíkur fallvindur er í veðurfræðinni kallaður katabatískur vindur sem er samheiti yfir loft sem skríður eða fellur undan eigin þunga. Fjallræna gæti verið ágætt íslenskt samheiti þessa merkilega veðurfyrirbæris. Fróðlegt væri að mæla dalgoluna með hita- og vindmæli og bera saman t.d. við veðurathuganir á Brú og Egilsstöðum. Mér vitanlega hafa veðurmælingar ekki verið gerðar á megináhrifasvæði dalgolunnar á bökkum Jökulsár á Dal.
Helstu heimildir
Halldór Sterfánsson. Dalgolan, grein. Náttúrufræðingurinn, 1957.
Samtöl við: Aðalstein Jónsson í Klausturseli, Arnór Benediktsson á Hvanná II, Björn Sigurðsson frá Breiðumörk og fleiri góða menn á áhrifasvæði dalgolunnar.
Flokkur: Lengri greinar úr ýmsum áttum | Breytt 26.8.2009 kl. 13:35 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 51
- Frá upphafi: 1788789
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það vantar einmitt veðursstöðvar í fremri hluta Jökuldals og alveg niður á láglendi, mætti hafa eina í dalnum og aðra t.d. á Fossvöllum eða Sleðbrjót.
Sigurður Þór Guðjónsson, 13.2.2009 kl. 10:50
Þetta var fróðlegt og skemmtilegt. Hér á og við Sauðárkrók þekkjum við fyrirbrigði, sem kallað er Skarðagola. Hana leggur ofan úr Gönguskörðum og gætir hennar mest í kringum Gönguskarðsána sjálfa og dálítið út á Reykjaströnd og hér inn fyrir Sauðárkrók, þó ekki langt. Ég hef í fáfræði minni gert mér í hugarlund, að Skarðagola að vetri sé annarskonar fyrirbrigði en Skarðagola að sumri, sem getur náttúrulega verið bölvað rugl í ómenntuðum almúgamanni. En Skarðagolan, sem oft kemur að kvöldi í kjölfar sólríkra daga, sem reyndar fylgir oftast snörp hafgola hér um slóðir, en þegar kvöldar, kemur iðulega þónokkuð snörp gjóla og fylgja henni gjarnan þokubólstrar uppi í Skörðunum. Vor- og sumargolan er sumsé til muna snarpari en sú sem kemur að vetri til. Ekki þori ég að fullyrða neitt í þessu efni, en mér er til efs að Skarðagolan mælist á Bergsstöðum og líklega mjög lítið á sjálfvirku stöðinni á Alexandersflugvelli hér niður á láglendinu við Héraðsvötn.
Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 13.2.2009 kl. 10:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.