Veðurlýsingar á degi íslenskrar tungu

Í íslenskum skáldverkum, ferðalýsingum og ævisögum má víða finna ansi hreint magnaðar veðurlýsingar, þar sem fjölbreytileg blæbrigði málsins eru nýtt til að lýsa stemmingu eða að bregða upp mynd sem stendur lesandanum lifandi fyrir hugskotsjónum.

arts-graphics-2008_1130610aÉg  ætla bregða hér upp þremur slíkum myndum og byrja á Laxnes. Í smásögu hans Tryggur staður í Sjöstafakverinu sem út kom 1964 kemur fyrir lýsing á eldingaveðri að sumri þar sem fólk er úti í slægju við heyskap. Sjónarhornið er frá litlum dreng sem segir frá í 1. pers.  Kannski það sé Halldór sjálfur !

"Þá komu skruggurnar.  Ætli ég hafi ekki verið sosum sjö ára.  Það var fyrsta þrumuveður sem ég lenti í á ævinni og það kom flatt uppá mig. Ég hafði aldrei gert ráð fyrir að þessháttar væri til.  Rétt áðan skein sólin á heiðum himni.  Ég var búinn að breiða gras oná hundinn og farinn að steypa mér kolskít í slægjunni.  Altíeinu dró fyrir sólu. Það hafði orðið snöggur uppsláttur á hitann.  Hann hlóð upp blásvörtum skýjabólstrum og andaði köldu.  Það birtist eldleg mynd í skýinu.  Rosaljósin geingu fjöllum hærra.  Svo kom skruggan.  Það dunaði í einu fjalli og tók undir í öðru."

Lýsingin er lengri og snýst að verulegu leyti um hundinn sem tekur á rás ýlfrandi heim til bæjar.

Guðmundur G. Hagalín/Bæjarins BestaGuðmundur G. Hagalín var einn meistari veðurlýsinganna. Í einni sögu sinni sem kallast Veður öll válynd (1925) segir frá Neshólabræðrum og sögusviðið er frá miðri 19. öldinni.  Tvíburabræðurnir Þorsteinn og Þórólfur halda á báti sínum til skerja vopnaðir kylfum til að slá sel í náttmyrkrinu.  Í skerinu bíða þeir dagsbirtu með feng sinn, fjóra seli og á meðan fór veður versnandi.   

"Þórólfur stóð um stund þegjandi og horfði til lofts. Gráleitir, kaldlegir skýjaflókar komu og hurfu á norðurlofti.  Þungt og stynjandi öldusog heyrðist við skerin og hamrana, og með ógnandi dyn mól vindurinn skarann í fjallinu.  Fram af brúnunum kembdi mjöllina í hvirflandi mekki, sem dreifðist út í loftið og varð þynnri og þynnri, unz hann hvarf að fullu."

Sögusvið Hagalín var oftast Vestfirðir eða Strandir og lýsingar Neshóla í þessari sögu koma heim og saman við umhverfi Norður-Stranda.  Sagan af Neshólabræðrum hefur líka undirtitilinn; þættir að vestan.

Thorv.ThoroddsenSíðasti kaflinn er sóttur í IV. ferðabók Þorvaldar Thoroddsen. Hann er staddur um hásumar 1898 inni á Arnarvatnsheiði, nánar tiltekið við Úlfsvatn.

"Þar blasa við mjallhvítar jökulbreiður á Langjökli, Eiríksjökli og Oki.  Sérstaklega er einkennilegt að sjá skriðjökulsfossana mjallahvíta í dimmbláum hlíðum Eiríksjökuls.  Fegurst var útsjónin til jöklanna um sólaruppkomu í heiðskíru veðri; þá voru oftast mjallhvítir skýhnoðrar, en skýin efra á himninum mórauð með bryddingum af gulli og purpura."

Þeir eru margir kaflarnir og lýsingarnar á veðri í sínum margvíslegu myndum sem birtar hafa verið á prenti. Ofangreindar þrjár lýsingar eru teknar af handahófi.  Höfundarnir þrír sem koma hér við sögu voru allir snillingar á þessu sviði, þó hver með sínum brag ef svo má segja.     


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Einhver lengstu  og glæsilegastu veður-og vatnalýsing sem til er má lesa í Vatnadeginum mikla eftir Þórberg Þórðarson.

Sigurður Þór Guðjónsson, 16.11.2009 kl. 11:41

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Málfarið á síðustu athugasemd er víst ekki til neinnar fyrirmyndar!

Sigurður Þór Guðjónsson, 16.11.2009 kl. 11:43

3 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

Ég er enn þeirrar skoðunar, þó nokkuð sé um liðið, að óþarfi hafi verið að fella niður íslensku heitin á vindstyrk, þegar metrakerfið var tekið upp. Nú er veðurspáin fátæklegri, þegar engin lýsandi orð eru lengur nema metrar á sekúndu. Það er ólíkt fallegra og meira upplýsandi að segja suðaustan kaldi, 10 metrar sekúndu en með þeirri aðferð, sem nú er beitt. 

Mig minnir að ég hafi nýlega heyrt ítarlega veðurspá á BBC og þar hafi gömlu ensku orðin verið notuð með tölulegum upplýsingum um vindstyrk.

Sigurbjörn Sveinsson, 16.11.2009 kl. 12:04

4 identicon

Í þriðja bindi stórvirkis afa þíns, Einar, Lúðvíks heitins Kristjánssonar, Íslenskra Sjávarhátta,  er margt um veður, veðurheiti og fleira þessu skylt. Þar er margur safaríkur bitinn.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 16.11.2009 kl. 15:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 2
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 63
  • Frá upphafi: 1786842

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 50
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband