IPCC skýrslan - helstu niðurstöður

Fyrst núna sunnudag komst ég í það að kynna mér skýrslu IPCC sem svo umtöluð hefur verið síðustu þrjá dagana.  Þessi spá er sú besta sem völ er á, sem og yfirlit yfir þær veðurfarsbreytingar sem nú þegar eru komnar fram.  Það sem skiptir mestu er að frá 3. skýrslu IPCC árið 2001 er óvissa í spám um veðurfarsbreytingar minni en áður. Lítum á helstu niðurstöður.

 

Þegar fram komnar breytingar:

  • Aukningin á CO2 í lofthjúpnum er um 30% frá upphafi iðnbyltingar, eða úr 280 í 370 ppm.
  • Meðalhiti jarðar hefur hækkað um 0,74°C frá 1906 til 2005, þar af um 0,65°C á síðustu 50 árum.
  • Frá því árið1850 (upphaf árlegs samanburðar)  hafa 11 af 12 síðustu árum verið verið þau hlýjustu.
  • Á heimsskautasvæðum hefur hitaaukniningin reynst helmingi meiri en meðalhlýnun jarðar á síðustu 100 árum.
  • Fjarkönnunargögn, sem ná aftur til 1978, sýna að útbreiðsla hafíss í N-Íshafinu hefur minnkað að jafnaði um 3,3% á ári.
  • Tíðni viðburða með aftakaúrkomu hefur aukist.
  • Sjávarborð hækkaði um 17 sm á 20. öld.
  • Tíðni mjög kaldra daga að vetrarlagi hefur minnkað á síðustu 50 árum á sama tíma sem mjög hlýjum dögum og hitabylgjum að sumarlagi hefur fjölgað.

Breytingar í umræðunni sem ekki hafa eða eru ekki enn fram komnar

  • Engin skýr teikn eru um það að árleg tíðni fellibylja hafi aukist.
  • Munur á milli dag- og næturhita er lítt breyttur  frá árinu 1979
  • Sveiflur á ísnum á Suðurskautslandinu eru með þeim hætti að ekki er hægt að merkja neina sérstaka tilhneigingu.

Mjög líklega...

  • hefur losun gróðurhúsaloftegunda af mannaöldum átt stærstan þátt í þeirri hitaaukningu sem fram hefur komið frá miðri 20. öld.
  • hefðu gróðurhúsalofttegundirnar valdið enn meiri hlýnun ef ekki hefði komið til “rökkvun” af völdum fínna mengunaragna í lofti sem gleypa í sig geislun og vinna þannig gegn hlýnun jarðar.
  • verða veðurfarsbreytingar enn hraðari á 21. öldinni en þeirri 20. haldi losun gróðurhúsalofttegunda áfram í sama mæli og í dag.
   

Það sem mestu máli skiptir hjá IPCC:

 

Ef gróðurhúsalofttegundir aukast í 650 ppm (koltvísýringsígildi) mun það líklega leiða til hækkun hita jarðar um 3,6°C og aukning í 750 ppm væri líkleg til að hækka meðalhita jarðar um 4,3°C.  Ekki er endilega einfalt að spá fyrir um magn gróðurhúsalofttegundanna.  Losun þeirra er háð bruna jarðefnaeldsneytis sem aftur er háður efnahagslegum vexti.  Einnig nýrri tækni í orkumálum og síðast en ekki síst pólitískum ákvörðunum á heimsvísu.   


Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir

Kærar þakkir fyrir þessa góðu samantekt. Við skulum vona að hlustað verði á IPCC.

Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 4.2.2007 kl. 22:12

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 17
  • Sl. viku: 65
  • Frá upphafi: 1786626

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 53
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband