Stóra svindlið - heimildarmynd í sjónvarpinu 19. júní

Swindle

 

Heimildarmyndin The great global warming Swindle sem sýnd var í sjónvarpinu fyrr í kvöld er afar umdeild.  Háværar umræður spunnust um efni hennar í mars eftir að hún var fyrst sýnd á Channel 4 .  M.a. sá hinn virti vísindamaður Carl Wunsch sem talað var við í myndinni ástæðu til þess að senda frá sér yfirlýsingu, þar sem hann sagði ummæli sín í myndinni um kolefnisforða heimshafanna verið vísvitandi klippt úr samhengi.


Það eru einkum þrjú atriði sem fjallað er um í myndinni þar sem reynt er að sýna fram á brothætt rök þeirra sem telja að loftslagsbreytingar síðustu áratuga séu af mannavöldum.

  • Ef CO2 veldur hnattrænni hlýnun skýtur það skökku við að breytingar á hitastigi hafi ekki fylgt losun á CO2 á 20. öldinni.
  • Veðrahvolfið ætti að hlýna hraðar en yfirborð jarðar eins og reiknilíkönin gera ráð fyrir, en mælingar sýna annað.
  • Í borkjörnum kemur í ljós að hitistig virðist taka breytingum áður en sveiflur koma fram í CO2 en ekki öfugt eins og ætla mætti.

Ég ætla hér að gera þessi atriði að umtalsefni og ef til vill einnig þá fullyrðingu sem fram kom í myndinni að það magn sem eldfjöll spúa út af koltvísýringi sé mun meira en það sem er af manna völdum.

"Ef CO2 veldur hnattrænni hlýnun skýtur það skökku við að breytingar á hitastigi hafi ekki fylgt losun á CO2 á 20. öldinni."

Segja má að þessi fullyrðing hafi verið kjarni þeirrar gagnrýni sem fram kom í myndinni þess efnis að vísindmenn vaði villu og reyk og hnattrænar loftslagsbreytingar séu ekki af manna völdum.

dn11639-2_808Það er rétt eins og greint var frá að það kólnaði á hnattræna vísu frá því um 1940 til 1970.  Þessa þrjá áratugi (þeir eru sagðir vera fjórir í myndinni) hélt engu að síður koltvísýringur að aukast í andrúmsloftinu.   Eins og línuritið  til hliðar sýnir vel, hlýnaði markvert á 20. öldinni fram undir 1940, síðan kólnaði um 0,2°C til ca. 1970. Eftir 1980 hefur hitastigið hins vegar farið jafnt og þétt hækkandi.  Þessi kólnun um miðja öldina er fyrst og fremst skýrð með aukinni agnamengun í lofthjúpi sem varð um og eftir seinna stríð vegna iðnaðarstarfsemi og brennslu kola.  Því til viðbótar er þess getið að stórt eldgos í Mount Agung í Indónesíu árið 1963 hafi eitt og sér valdið 0,5°C lækkun hita um tíma í kjölfar gossins. Þessi agnamengu sem samanstendur mest af brennisteinssamböndum, hefur áhrif til kólnunar þar sem hún eykur endurkast sólarljóss .

Lög og reglugerðir í Evrópu og N-Ameríku um mengunarvarnir (Clean Air Act) gerbreyttu loftgæðum á áratugnum 1970 til 1980  ásamt því sem jarðgas leysti kol af hólmi sem helsta eldsneyti heimila á þéttbýlum svæðum beggja vegna Atlantshafs.  Það er almennt álitið að aukin agnamengun á N-hveli samfara iðnvæðingu eftirstríðsáranna eigi drýgstan þátt í því að það sló á hlýnun andrúmslofts um tíma þó svo að aukning var á losun CO2 á sama tíma. 

Það er þó enn margt á huldu hvað varðar þátt agnamengunar á veðurfar þar sem uppruni og samsetning mengunar skiptir máli. Þannig drekkur sót (black carbon) í sig varma sólar á meðan ýmis efnasambönd endurkasta ljósi.  Þá er mörgum spurningum ósvarað hver áhrif agna eru á skýjafar og myndun skýja, ekki síst á þunn blikuský hátt á lofti.  Þó svo að agnamengun hafi minnkað mjög mikið síðustu áratugi í Evrópu og N-Ameríku og síðar ennig í gamla Sovét, eykst hún nú hraðbyri í Kína og Indlandi.

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Einar.  Ég sá ekki Carl Wunsch í útgáfunni sem sýnd var í sjónvarpinu í kvöld og ekkert heldur um CO2 frá eldfjöllum. Var þetta ekki nýja útgáfan af myndinni sem sýnd var, þ.e. önnur útgáfa en er á netinu? Til stóð að lagfæra hnökra sem voru í frumútgáfunni, og hugsanlega hefur þetta verið endurbætt útgáfa.

Mér fannst reyndar þessi mynd vera mjög sannfærandi, en það er nú einu sinni þannig að hver og einn verður að mynda sér sína eigin skoðun.

Haft er eftir Thomas Henry Huxley: "The improver of natural knowledge absolutely refuses to acknowledge authority, as such. For him, scepticism is the highest of duties; blind faith the one unpardonable sin". 

Bestu kveðjur, Ágúst

Ágúst H Bjarnason, 19.6.2007 kl. 22:38

2 Smámynd: Gammurinn

Það voru sýnd tvö línurit, annað sem sýndi hitabreytingar jarðar yfir langt tímabil samanborið við breytingu á magni koltvíoxíðs í andrúmsloftinu og hitt sem sýndi sömu hitabreytingar samanborið við breytingar á fjölda sólbletta á sólinni. Engin fylgni var á milli koltvíoxíðsmagns og hitastigs en ferillinn sem sýndi fjölda sólblettanna var svo til nákvæmlega eins og hitabreytingarnar.

 Línuritið yfir hitabreytinguna og sólblettina má sjá hér:

http://www.global-warming-myths.com/images/Sunspot_Activity.jpg

Gammurinn, 19.6.2007 kl. 22:50

3 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Heldur þykir mér nú veik agnamengunar-röksemdin fyrir kólnun frá 1940-1970. Það er hörmulegt til þess að vita að hreinna loft á áttunda áratugnum eigi meginsök á hækkandi hitastigi í dag. Það er spurning hvort hinar opinberu stofnanir sem stuðluðu að hreinna lofti eigi ekki að biðjast afsökunar og falla frá hreinloftsstefnunni, fyrst þetta er niðurstaðan (verr af stað farið en heima setið). Annars tel ég að Kínverjar og Indverjar sem eru drjúgur hluti mannkyns hafi bætt upp þær agnir (og gott betur) sem hættu að þyrlast frá vesturlöndum í kjölfar hreinloftsstefnunnar. Agnakenningin fær því vart staðist að mínum dómi. En einhverja skýringu verða þeir að finna sem telja hlýnun jarðar vera af völdum koldíoxíðs. Kólnunin þessa áratugi er eins og fleinn í holdi alheimshlýnunar af mannavöldum. Áður en ég tek trúna verður að berja í þennan brest á sannfærandi hátt.
Miklu líklegri þykir mér kenningin sem Gammurinn bendir á, að sólin, þessi eldspúandi eldhnöttur, stjórni því hvort hiti hækkar eða lækkar á jörðinni. Menn hafa tilhneigingu til að ofmeta sig og áhrif sín. Getur verið að hlýnun af mannavöldum sé ofmat?
(Ég gerði athugasemd við fyrri þátt Sir David Attenborough á bloggi mínu.)

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 19.6.2007 kl. 23:31

4 Smámynd: Finnur Hrafn Jónsson

Þetta er ca. 15 mínútum styttri útgáfa af myndinni en sú sem hefur verið á netinu. Carl Wunsch var alveg kippt út. Einnig sá ég ekki betur en búið væri að laga þessar 2-3 staðreyndavillur sem voru í upphaflegu útgáfunni, sbr. CO2 frá eldfjöllum.

Eftir stendur að myndin er mjög harkaleg gagnrýni á þessa hefðbundnu gróðurhúsakenningu sem ætti að vera umhugsunarefni fyrir flesta. Vinnubrögð IPCC eins og þeim er lýst í myndinni geta ekki talist annað en forkastanleg.

Vonandi dugar þessi mynd til þess að ýmsir áhrifamenn hérlendis hætti að halda því fram að það sé óumdeilt meðal vísindamanna að hnattræn hlýnun stafi af mannavöldum.

Finnur Hrafn Jónsson, 19.6.2007 kl. 23:54

5 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Ein aðferð til að skoða hvort agngamengun hafi valdið kólnuninni 1945-1975 er að bera saman hitaferla fyrir norðurhvel og suðurhvel jarðar, eins og gert er hér að neðan með gögnum frá CRU.

Loftagnamengun ætti að vera miklu minni á suðurhveli jarðar en á norðurhveli, enda miklu minni mengun á suðurhvelinu eins og flestum ætti að vera ljóst. Mest allur mengandi iðnaður er á norðurhvelinu, og þar er einnig þéttbýlið miklu meira en á suðurhvelinu, og þar með mengandi umferð.   Þess vegna ætti að bera minna á kólnun á suðurhvelinu 1945-1975, ef loftagnakenningin er rétt.

Takið eftir því hvernig ferlarnir haldast í hendur til 1920, en skiljast þá að. Meiri hlýnun verður á norðurhvelinu eftir það, þrátt fyrir að þar ættu að vera meiri loftagnir (areosols).

Auk þess verður hitafallið mjög snöggt eftir 1945, bæði á norður og suðurhvelinu. Hvernig ætti loftagnamengun að geta valdið því?

Ágúst H Bjarnason, 20.6.2007 kl. 07:55

6 identicon

Sæll Einar, alltaf gaman af blogginu þínu.

Ég er þeirrar trúar að áhrif mannsins á veðurfar sé ofmetin.  Ég tel að sterkari kraftar ráði hér, t.d. virkni sólar, hnattstaða Jarðar o.s.frv.  Hvernig ætla loftlagsöfgafólk að skýra hlýtt veðurfar fyrr á öldum þegar mannfólkið var miklu færra og ekki voru til nein farartæki sem gengu fyrir jarðefnaeldsneyti?  Ætli þeim finnist t.d. "eðlilegra" og "jákvæðara" að það kólni á Jörðinni?  Ég man að ég heyrði í fréttum fyrir ca. 30 árum að í kringum aldamótin yrði verulega kaldara á norðurhveli Jarðar kringum aldamótin og að ekkert væri hægt að gera í þessu, við yrðum bara að lifa við þetta.  Breskir vísindamenn bentu á þetta á ráðstefnu hér á landi árið 1976 og þeir sögðu að þetta yrði lítil ísöld eins og var á tímabilinu frá ca. 1300-1800.  Þetta sýnir að vísindi um framtíðina eru oft mjög ónákvæm að að erfitt er að spá um framtíðina hvað þá veðurfar í framtíðinni.

Örn Jónasson (IP-tala skráð) 20.6.2007 kl. 09:55

7 identicon

Það er merkilegt að þessi sólblettakenning skuli ítrekað skjóta upp kollinum, þrátt fyrir að hún sé sölluð niður í hvert skipti. George Monbiot rakti hluta þeirrar sögu í Guardian eftir fyrstu sýningu myndarinnar.

Finnbogi Óskarsson (IP-tala skráð) 20.6.2007 kl. 10:26

8 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Afhverju gerirðu ekki líka úttekt á mynd Attenboroughs, þessari væmnu og melódramatísku mynd?  Er hún ekki gagnrýnisverð að neinu leyti? Enginn heimildarmynd er pottþétt og hlutlaus, það er má heita alltaf innbyggt í þær ákveðið viðhorf sem túlkað er útfrá. Ég hef lesið ýmsa gagnrýni á Svindlið en jafnvel þó hún sé höfð í huga er margt í myndinni sem manni finnst áhugavert og vekur mann til umhugsunar, en það gera myndir Attenborughs og Gore ekki. Ortódoxið vekur sjaldnast til umhugsunar. Gerði ekki Wunch athugasemdir sínar fyrst og fremst til að endurheimta virðingu sína meðal vísindamanna þar sem honum var umsvifalaust útskúfað eftir myndina og átti erfitt með að fá birtar eftir sig greinar í vísindatímaritum. Það fannst mér ekki síst áhugavert við myndina að það kom vel fram að þeir sem efast um gróðurhúsaáhrifin eiga á hættu að verða útskúfað svo það er ekki að furða þó þeir séu ekki eins margir og hinir. Þetta er fyrir löngu orðið æsingakennt trúarbragðastríð, með eða á móti. Menn kjósa sér nánast afstöðu og láta öllum látum. Þessi læti auka ekki traust almennings á hvorki trúverðugleika né hlutleysi vísindamanna. Og hvað á þá venjulegt fólk eiginlega að halda? Það getur ekki heldur komist að neinni "hlutlausri" niðurstöðu og kýs sér bara fylkingu til að fylgja í trúarlegum eldmóði og fanatík, samanber þá umhverfissinna á Íslandi sem mest ber á. Árni Finnsson hefur sjálfur lýst því yfir með fyrirlitningu að ekki sé lengur tekið mark á vísindamönnum em efast um gróðurhúsaáhrifin. Það á víst að duga að segja svona. Reynt er núna að rakka niður Svindlvísindamennina með því að þeir séu tengdir Exonolíufélaginu. Þá er víst hægt að afskrifa allt sem þeir segja án þess að hlusta á það sem þeir segja og fjalla um það efnislega. Harkan og æsingurinn í þessum málum er undraverður. Ég  hef beinlínis fengið nafnlaus hótunarbréf fyrir greinar (ekki blogg) sem ég hef skrifað um gróðurhúsaáhrifin og var þó sumt í því bara gamanmál. En húmor skilja frelsunarsinnar aldrei hvort sem það er um guð eða björgun jarðarinnar. Talandi um æsing - nú er ég víst sjálfur búinn að æsa mig upp úr öllu valdi. Og ég er ekki hættur: Skora á þig að gera svona úttekt á mynd herra Attenborughs, ekki síst á því  hvernig hann notar sorgarmúsik og krúttlega ísbirni til að skírskota til hvata og tilfinninga manna, en ekki vitsmuna, um það að jörðin sé að farast og á því sé ekki minnsti vafi - menn geti haft hans eigin orð fyrir því -og hver heldur að annars eins maður og David Attenborugh fari með lygi, sjálfur heiðursdotkorinn við Háskóla Íslands.       

Sigurður Þór Guðjónsson, 20.6.2007 kl. 11:12

9 identicon

Það eru margir punktar í þessari mynd sem áhugavert er að ræða. Tvent vakti þó sérstaka athygli mína.

 1. CO2 innihald í hverjum rúmmetra andrúmslofts er 0,05% eða fimm tíuþúsundustu af rúmmetranum. Finnst mönnum það virkilega augljóst að þótt þessir 5/10.000 sveiflist um +/- 20% að þá fari allt á heljarþröm á jarðarkringlunni?

2. Svo er það sólin, þetta ferlíki sem maður má ekki einu sinn horfa beint uppí á Íslandi af hættu á að skemma í sér augun. Skiptir hún eingu máli í þessum veður líkönum? Eða er hún bara fasti "K"?

Athyglisvert sem fram kom í þættinum að við værum í raun í lofthjúpi sólar. þannig að hitasveiflur þar hljóta að hafa bein áhrif á Jörðinni.

Þorsteinn Jónsson (IP-tala skráð) 20.6.2007 kl. 16:18

10 identicon

Mín spurning hefur alltaf verið, þegar ég hef lent í rökræðum um þessi mál, hversu mikið af þessarri hlýnum er af mannavöldum og hversu mikið af náttúrulegum orsökum.  Við vitum það öll að náttúrulegar sveiflur eru í hitastigi andrúmsloftsins og svo hefur gengið um milljónir ára, samaber ísaldir og önnur óáran.  Er það sem vísindamenn segja vera að ekki hluti af þeim náttúrulegu sveiflum sem við þurfum að upplifa aftur og aftur?  Hvað með kuldaskeiðin sem urðu á öldum áður og í framhaldi af þeim hlýnandi tímabil sem stóðu áratugum og jafnvel öldum saman.  Þetta gerðist löngu fyrir iðnbyltinguna og sumt löngu fyrir uppruna mannsins. Í dag er hinsvegar í tísku að fjalla um umhverfismál og vera grænn, sem að sjálfsögðu er í mjög góðu lagi og öll eigum við að taka til í okkar umhverfi og reyna að vernda náttúruna, en við megum ekki týna okkur í öllu þessu dægurþrasi um þessi mál og fara að fjalla um þessi  umhverfismál eins og trúmál sem engum rökum taka. Látum skynsemina ráða.

Matthías Kjartansson (IP-tala skráð) 20.6.2007 kl. 16:55

11 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Mér finnst þessi umræða ákaflega áhugaverð og gaman að fá mismunandi sjónarmið um hvað veldur hitun jarðar.  Ég tek undir með Matthíasi, að við eigum ekki að vera að rífast (ef svo má segja) um það hvort hlýnun af mannavöldum er sökudólgurinn eða hvort það er hlýnun af náttúrunnarvöldum, heldur reyna að greina hvor er hættulegri.  Það virðist alveg vera ljóst að þetta tvennt er í gangi.

Hitastig jarðar hefur tekið miklum breytingum undanfarin árhundruð.  Samkvæmt örnöfnum frá 900 - 1100 bendir ýmislegt til að þá hafi verið mun hlýrra hér á landi en nú.  Varla var það af mannavöldum.  Svo förum við fram til 1670 til 1720 og þá bendir margt til að í Evrópu hafi verið mun kaldar en þegar kaldast var á síðustu öld.  Um 1680 var t.d. lagnaðarís á Thames í allt að 4 mánuði á ári.  Þetta bendir til mikilla hitasveiflna frá 1100 til 1680.  Hugsanlega má rekja kólnunina til eldfjalla, hvað vitum við?  En ef eldfjöllin voru völd að kólnun á miðöldum, af hverju veldur sambærileg ,,mengun" hlýnun núna?  Annað, vitum við hvert hitastigið var um 1100?  Getur verið að hlýnun núna sé þróun í þá átt að jörðin nái sama hitastigi og um 1100? 

Mér finnst þessi umræða vera föst í klafa tölfræðilegs samanburðar, þar sem vísindamenn velja tölfræðigögn sem ná yfir stutt tímabil.  100 ár í sögu jarðar er ekki neitt.  Það er svona eins og skoða í mesta lagi nokkra daga í lífi manns og ætla að draga þá ályktun að þar sem hann sé í smá hitakasti, þá hljóti hann að liggja banaleguna vegna þess að hann borði ekki nógu hollan mat.

Marinó G. Njálsson, 20.6.2007 kl. 21:19

12 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ég vil benda Finnboga og öðrum á, að George Monbiot er ekki trúverðugur pappír og flest sem hann hefur að segja er rangt. Þessi Monbiot er dæmigert umhverfisflón og skemmdarvargur. Honum hefur víða verið vísað úr landi og jafnvel verið dæmdur til ævilangs fangelsis í Indónesíu. Monbiot er því æsingamaður sem enginn ætti að ljá eyra.

Loftur Altice Þorsteinsson, 21.6.2007 kl. 12:21

13 identicon

Það virðist vera órjúfanlegur hluti af sálarlífi mannskepnunar að trúa því að hún geti stjórnað veðrinu. Hvort sem það eru Inkar að fórna meyjum eða bóndinn sem passar að hrífan snúi rétt.

Við erum eins og flugan í stofuglugganum sem fretar og sér síðan sólina hverfa og myrkur taka við. Hún telur sig stóra og merkilega fyrst hennar fret slökkti á sólinni.

Sigurjón Kjartansson (IP-tala skráð) 21.6.2007 kl. 23:07

14 identicon

George Monbiot var dæmdur í Indónesíu fyrir að fjalla um mannréttindabrot stjórnvalda þar í Vestur-Papúa. Á þeim árum var þar við völd einræðisherrann Suharto sem er ábyrgur tveimur af verstu fjöldamorðum síðari áratuga.

Að kalla hann "flón", "æsingamann" og „skemmdarvarg" af þeim sökum finnst mér sérlega varhugavert og dæmigert fyrir þá þöggunarstefnu sem iðulega er rekin gagnvart þeim sem benda á óþægilegar staðreyndir.

Sverrir (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 11:40

15 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Agust ! Athugasemdir minar midast vid myndina eins og hun var synd a Channel 4 i mars. Er sjalfur staddur erlendis og a eftir ađ sja thessa "snyrtu" utgafu eins og thu leggur upp međ.

Kvedja

ESv

Einar Sveinbjörnsson, 22.6.2007 kl. 15:36

16 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Sigurdur Thor !

A eftir ađ sja sćidari hlutann. Hann var tekinn upp a band fyrir mig og mun eg fjalla um Attenbourogh sidar !

ESv

Einar Sveinbjörnsson, 22.6.2007 kl. 15:39

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 63
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 50
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband